Það er hált á svellinu
![](https://blogger.googleusercontent.com/img/b/R29vZ2xl/AVvXsEj-G52PcxUNO61OD6sw38hDgl5V2V3OHyEobFtK9s6tsTvEN0whyl0pYSrUHoSsL9bWUvjpDtDUHC-XTe4KW2J0u11uifo8Ts0zWLPk4NQK8lIF9YEpguE0UL2I9Yij2bunbgDY/s400/Pistill-+svelli%25C3%25B0.png)
Fyrst er það auðvitað snjóþunginn, sá mesti frá 1984, sá mesti eins og áður segir. Í því ljósi má skoða þá staðreynd að á síðustu 25 árum hefur bílum fjölgað allverulega á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé greinileg merki þess í þeim tveimur götum sem ég þekki best, við æskuheimili mitt og heimili ömmu minnar, því við báðar þessar götur standa að jafnaði um tvöfalt fleiri bílar en gerðu um miðjan 10. áratuginn svo lagt er í botnlöngum og meðfram gangstéttaköntum, þar sem áður var eingöngu lagt á bílastæðum. Þetta gerir það að verkum að það hlýtur að vera erfiðara í dag en fyrir 25 árum að ryðja svo almennilegt sé, ekki síst þegar á okkur fellur mesti snjór í 25 ár.
Borgin virðist alla jafna ágætlega í stakk búin til að hreinsa göturnar þegar snjóar og ég er ekki viss um að það þætti vel farið með peninga að eiga lager af aukasnjómoksturstækjum til taks í þau fáu skipti sem færðin verður óvenjuslæm eins og nú. Og sama í hvaða átt er rutt, þá hverfur snjórinn víst ekki, hann safnast í skafla þar til hann bráðnar. Því náttúrulögmáli verður ekki breytt.
Talsvert hefur verið um hálkuslys síðustu daga en þau verða reyndar á hverju ári. Veturinn 1994-1995 gerði Landlæknisembættið t.d. rannsókn á hálkuslysum. Þá var óvenjumildur vetur en samt urðu 520 slys, að jafnaði fimm á hvern hálkudag. Flest slysin urðu þá við heimahús eða fyrirtæki og á bílastæðum, ekki á umferðargötum. Áhugavert væri að kanna hvar flestir runnu nú um helgina. Kannski þurfum við að líta okkur aðeins nær og fá okkur mannbrodda.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 11. janúar 2012.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli