Innfluttar sterabumbur
Þeir sem helst fyllast aðdáun á úttútnuðum vöðvamassa manna eins og Markus Rühl eru ungir menn og þá ekki síst unglingsstrákar. Ungir strákar vilja gjarnan verða stórir, sterkir og massaðir enda er það ímynd karlmennskunnar í huga margra. En menn eins og Markus Rühl eru hættulegar fyrirmyndir og full ástæða til að hafna því að þeim sé hampað eins og afreksíþróttamönnum. Unglingar eru áhrifagjarnir.
![](https://blogger.googleusercontent.com/img/b/R29vZ2xl/AVvXsEgYGAiDpHqkALjisitkxC9RIl_fV7hdsN9OWfHksaHpQf2Wi0pqChwx73Ujz84riLrzl9g90bjDgJxuLwl_6atevwUZTLyk8jZrnDl7LbefdV_fxexzrvo9xMX8mzY26x5z8ewT/s280/pistill+sterabumbur.jpg)
Ef bornar eru saman myndir af vaxtarræktarmönnum í dag við forvera þeirra fyrir 40 árum sést hversu öfgafull þróunin hefur verið. Svo útbelgdur er kviður þessara manna, af ofvöxnum líffærum vegna hormónatöku, að engu er líkara en að magavöðvarnir sitji utan á feitri vömb. Sterabumbu. Hefur eitthvað breyst í líffræði mannslíkamans á síðustu 40 árum? Nei, ekki neitt. Það sem hefur hinsvegar breyst er lyfjanotkunin. Um daginn kom hingað til lands annað vaxtarræktartröll, Jay Cutler. Eftir komu hans fékk þátturinn Sportið á RÚV til sín tvo fróða menn og spurði þá hvort hægt væri að verða eins og Cutler án þess að taka stera. Ekki stóð á svörunum: Nei, aldrei. Þetta liggur í augum uppi og má því draga þá ályktun að þeir sem leggi nafn sitt við komu þessara manna hingað til lands og kynna sem hetjur og fyrirmyndir hljóti að leggja blessun sína yfir líferni þeirra. Til að nefna nokkra af þeim sjúkdómum og kvillum sem stera- og hormónanotkun vaxtarræktarmanna hefur í för með sér má telja upp stækkað hjarta og aukna hættu á hjartaáföllum, háan blóðþrýsting, bjúg, ákveðnar gerðir krabbameins, sinaskeiðabólgu, liðverki og síðast en ekki síst karlabrjóst. Verði ykkur að góðu!
Strákar, ekki láta blekkjast af sýndarmennskunni, það er ekki alvöru karlmennska.
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. febrúar 2011.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli