laugardagur, mars 01, 2014

Vagga mannkyns eða það sem eftir er af henni

Ferðamennska í Afríku er frábrugðin dæmigerðum utanlandsferðum að því leyti að hér er í raun ekki svo mikið af eiginlegum kennileitum eða „sights“. Fæstir koma til Afríku til að skoða arkitektúr, enda byggingar fáar og fátæklegar. Þéttbýli og borgir eru (með nokkrum undantekningum) oft bara dreifðar húsaþyrpingar þar sem er ekki endilega mikið við að vera þannig lagað, lítið um leikhús eða kvikmyndahús, bari eða næturlíf eins og við þekkjum það. Hér eru ekki gulli skreyttar trúarlegar byggingar, fornar minjar eða listasöfn á hverju strái. Náttúran er stórfengleg en á milli náttúruperla getur verið óralöng, tilbreytingarlítil keyrsla eftir erfiðum vegum.

Dæmigerð sjón meðfram veginum í Tansaníu.

Augljósir túristastaðir eru því fáir og langt á milli þeirra svo ferðalag um Afríku snýst í raun að miklu leyti um það að upplifa sjálft umhverfi og andrúmsloft þessarar einstæðu álfu. Ég er enn sannfærðari en áður um að svona „overlanding“ ferðalag sé eina leiðin til að kynnast Afríku í raun, frekar en að fljúga milli staða, því aðeins þannig nærðu að átta þig á því hvernig landið liggur, skynja náttúruna, dýralífið og mannlífið.

Margir koma til Afríku gagngert vegna dýralífsins, enda er það engu líkt og hér eru margir mögnuðustu þjóðgarðar heims. Sjálf fæ ég aldrei nóg af því að sjá fíla og gíraffa í vegkantinum, en þótt það sé alltaf gaman að fylgjast með hegðun dýranna þá fer nýjabrumið tiltölulega fljótt af því (áður en fyrsta vikan var liðin var ég búin að taka nægar myndir af sebrahestum fyrir lífstíð).

Sætur sebra...en á endanum renna þeir allir saman í eitt!

Í mínum huga er það mannlífið sem stendur upp úr, nú þegar þessari Afríkureisu fer senn að ljúka. Ég er mjög heilluð af því, í öllum sínum fjölbreytileika.

Þessar konur í Sambíu sýndu okkur twerk eins og twerk á að vera. Sú í gula og bláa kjólnum var matríarkið í þorpinu.

Í flestum löndunum sem ég hef heimsótt er mikið lagt upp úr því að heilsast með virktum, það er hluti af menningunni. Fólk brosir breitt hvort til annars, handaböndin eru löng og innileg. Samtöl hefjast á því að innt er eftir líðan og ókunnugir spyrja gjarnan hvaðan þú kemur, hvernig þú kannt við þig í Afríku og ósjaldan þarftu að rekja fjölskylduhagi þína í stuttu máli. Í mörgum tungumálanna er líka hefð fyrir því að ávarpa fólk sem vinur, systir eða bróðir og þetta gerir það að verkum að samskipti fólks virka á mann sem mjög vinaleg og glaðleg. („Jambó rafiki!“ á Swahili, „Yebo baba!“ í Ndebele-máli Simbabve).

"Baba?" - "Yebo!" Þannig hófust nánast öll samtöl milli Godfree og Thabi. Það gladdi mig í Cape Town í gær að heyra tvo ókunnuga menn, væntanlega frá Simbabve, eiga sömu samskipti úti á götu.


Lendaskýlur og nútíminn


Eitt af því sem hefur komið mér á óvart í þessari Afríkuferð er hversu mikið enn má sjá af raunverulega fornri ættbálkamenningu.  Eitt af stóru verkefnum Afríku á 21. öldinni er að finna jafnvægi milli gamalla siðvenja og nútímans. Gefa þeim rými sem vilja viðhalda sínum lífsháttum án utanaðkomandi afskipta, en tryggja um leið mannréttindi og jöfn tækifæri. Í þessu samhengi er mér efst í huga misþyrmingar á kynfærum kvenna og raunar staða kvenna almennt því í flestum samfélögum Afríku eru þær lægra settar körlum - samkvæmt hefðinni. Sumstaðar er það t.d. venjan að konur vinni mestu erfiðsvinnuna líkamlega, en borði ekki fyrr en karlarnir eru búnir, og þá afgangana.  Börnin reka svo lestina í virðingarröðinni.


Meðal þeirra þjóðarbrota sem ég hef komist í kynni við á þessu ferðalagi eru Maasai-fólkið í Austur-Afríku og Herero, Himba og San-fólkið i suðurhluta Afríku. Ég ætlaði varla að trúa því fyrstu dagana í Tansaníu að enn væri svona mikið af fólki sem lifir sem hirðingjar. Það kom mér á óvart því ég átti allt eins von á að ættbálkaþorp í Afríku í dag væru bara túristagildrur þar sem fólk klæðir sig í búninga til að græða pening. Svo er ekki, Maasai-menningin blómstrar enn og er mjög áberandi í Tansaníu.

Það er falleg sjón að sjá Maasai-mennina litríku bera við landslagið í Austur-Afríku.

Í Namibíu var sömuleiðis merkilegt að sjá Himba-konur ganga eftir götum höfuðborgarinnar. Windhoek er nefnilega mjög evrópsk og nútímaleg borg á allan hátt, en Himba-konurnar ganga um berbrjósta í lendaskýlum. Hefðinni samkvæmt þvo þær sér ekki með vatni, aldrei nokkurn tíma, heldur baða sig með reyk í hreinlætisskyni. Á hverjum degi smyrja þær sig með jurtablöndu sem gefur húð og hári okkurrauðan lit og afar fallega áferð.

Á spjalli við Himba-konur í Namibíu. Þær vildu vita um mína persónulegu hagi, hvort ég ætti mann og börn.

Í Namibíu og Botsvana má líka víða sjá Herero-konur á götum úti. Ólíkt hálfnöktu Himba-konunum eru Herero-konurnar kappklæddar og áberandi litríkar. Kjólarnir eru stórir og miklir, i viktoríönskum stíl að fyrirmynd þýskra trúboða í byrjun 20. aldar. Á höfðinu bera þær stóra, framstæða hatta sem eiga að líkja eftir hornum á kúm. Herero-fólkið er fyrst og fremst kúabændur, búpeningurinn er merki velsældar og hornin tákn um kvenleika.

Herero-konur í sínum mikilfenglegu kjólum og höttum. Ég keypti brúðu og veski af þessum ágætu konum í vegkantinum.

Svo er það San-fólkið, Búskmennirnir svo kölluðu sem ég hef áður nefnt hér. Þetta eru hinir upprunalegu frumbyggjar Afríku, fyrsta fólkið, sem gerði víðreist um álfuna eftir veðri og vindum. Í dag er það aðeins að finna í Botsvana og Namibíu, þar sem staða þeirra er mikið pólitískt bitbein, og í Angóla sem er eina landið þar sem San-fólkið lifir enn flökkulífi eins og það hefur gert í þúsundir ára. Evrópskir nýlendubúar í suðurhluta Afríku litu á Búskmenn sem hver önnur villidýr og á fyrri hluta 20. aldar voru gefin út veiðileyfi á þá. Síðar voru reist sérstök þorp fyrir San-fólkið þar sem það var skikkað til að hafast við og láta af lífsháttum sínum í friðlendum Kalahari-eyðimerkurinnar. Þvingaðir búferlaflutningar eru enn staðreynd og síðast árið 2006 gerðu Sameinuðu þjóðirnar athugasemd við meðferð stjórnvalda í Namibíu og Botsvana á San-fólkinu.

Ungur Búskmaður sýnir með dramatísku látbragði að rætur sem hann gróf úr jörðu geti læknað höfuðverk.

Þetta er samt erfið klemma, því óneitanlega er það svo að þeir lífshættir sem San-fólkið vill stunda eiga litla sem enga samleið með nútímanum. Kynni mín af San-fólkinu er liklega það sem kemst næst því í þessari ferð að vera bara túrista-stönt. Það mætti færa rök fyrir því að þetta hafi bara verið fólk í búningum að halda sýningu, en þó ekki alveg. Enn er San-fólk á lífi sem ólst upp við fornar venjur og sumir af ungu kynslóðinni reyna með veikum mætti að halda í þá arfleifð. Peningar frá ferðamönnum er ein af fáum tekjulindum sem þau hafa til að lifa af í samfélagi sem meinar þeim að eigra frjáls um og veiða sér til matar. Eftir 1-2 kynslóðir er líklegt að menning San-fólksins verði horfin eða í besta falli til á safni. Sorgleg tilhugsun.

San-fólkið reynir af veikum mætti að viðhalda menningu sem á litla samleið með nútímanum.

Siðmenning og villimennska?


Sjálfsagt bíða sömu örlög fleiri þjóðarbrota Afríku sem þrátt fyrir allt stunda enn forna lifnaðarhætti. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að ferðast um Afríku og kynnast menningu þeirra á meðan hún er enn til. Hversu fljótt ætli þessi óvenjulegu litbrigði mannlífsins muni þurrkast út með alþjóðavæðingunni? Og er það jákvætt eða neikvætt? Við brasilísku systurnar ræddum þetta talsvert okkar á milli og reyndum að horfast í augu við þá staðreynd að við, sem ríkir vesturlandabúar, erum innst inni sannfærðar um yfirburði eigin menningarstigs gagnvart ættbálkamenningunni, en viljum samt eiginlega ekki að þau verði eins og við, því það er spennandi að geta ferðast og skoðað eitthvað framandi. Samanburðurinn við dýragarð kom óneitanlega upp í hugann. Það er samt ósanngjarnt, því ég varð ekki vör við annað en að öll samskipti við frumbyggja innan ramma ferðamennskunnar væru af fullri virðingu.

Sumt sem fyrir augu ber í Afríku er eins og endurlit aftur í aldir.

Í upphafi Afríkuferðarinnar las ég bókina Out of Africa eftir Karen Blixen. Hún er frábær lesning, ljóðrænn og fallegur prósi sem lýsir djúpri ást á Afríku. Á sama tíma er orðfærið áhugavert, því hugsunarháttur nýlendutímans er svo áberandi. Þótt Karen Blixen þyki vænt um fólkið í Afríku skín samt í það viðhorf að frumbyggjarnir séu nokkurs konar önnur dýrategund en hinn siðmenntaði, hvíti maður. Hún telst tæpast pólitískt kórrétt í nútímanum, því Blixen hikar ekki við að tala um eigin lífsstíl sem siðmenningu, á meðan frumbyggjarnir eru villimenn. Hún alhæfir um heilu hópana, allir Maasai-menn séu svona og allir Sómalar hinsegin.

Þetta stakk mig í augu þegar ég las bókina í byrjun ferðar en satt að segja skil ég þetta aðeins betur eftir því sem liðið hefur á ferðina og ég hef fengið að læra aðeins um misjafna menningu þessara þjóðarbrota. Í grunninn er fólk auðvitað bara fólk, en heimssýnin getur verið svo gjörólík.

Gagnkvæm forvitni í Maasai-þorpi.

Er það af hinu góða að við samlögumst öll í einn hrærigraut alþjóðamenningar? Allavega hefur það aukið samkennd okkar með fólki í öðrum heimshlutum. Nærtækt dæmi úr þessari sömu ferð er vinskapur minn við Katie frá Ástralíu og Töru frá Kanada. Hver frá sinni heimsálfunni, en svo rækilega staðsettar á áhrifasvæði enskrar tungu og dægurmenningar að reynsluheimur okkar sem jafnaldra er nánast algjörlega sá sami, með örlitlum blæbrigðum.

Ég vissi að við yrðum vinkonur strax frá fyrsta degi, þegar ég heyrði að þær höfðu stillt upphafstóna Circle of Life úr Lion King sem vekjaraklukkuna sína. (Til að skapa réttu stemninguna fyrir Serengeti-safaríið, nema hvað.) Síðar, þegar við sötruðum bjór á ströndinni á Zanzibar, tengdum við í sameiginlegu nostalgíukast yfir 90s tónlistinni á barnum. Við höfðum allar vangað við sama væmna popplagið í gaggó.

Katie, Tara og undirrituð í Okavango-ánni í Botsvana, með strákunum sem réru með okkur á makoro-bátum. Þeir voru allir á svipuðum aldri og við og mjög hressir.
Menning ættbálkanna í Afríku nær hinsvegar skammt út fyrir veggi hvers þorps fyrir sig. Auðvitað ber okkur ber að virða og varðveita ólíka menningararfleifð, sem í tilfelli þessara þjóða er stórmerkileg og um margt falleg. Ég get samt ekki annað en velt vöngum yfir því hvort jafnöldrur mínar í afrískum frumbyggjasamfélögum myndu ekki vilja lifa öðru vísi lífi, ef þær hefðu vitneskju um það og tækifæri til þess. En það er ekki mitt að segja til um það.


föstudagur, febrúar 21, 2014

Að tjalda í Afríku

Í samanburði við mekka bakpokaferðalangsins, Suðaustur-Asíu, þá er frekar dýrt að ferðast um Afríku. Þótt það sé kannski öfugsnúið, þá er dýrt að ferðast um þar sem infrastrúktúrinn er lítill. Í Asíu má víða fá þokkaleg hótelherbergi með loftræstingu á 5-10 dollara. Sú er ekki raunin hér, því algengt verð fyrir ódýrustu hótelherbergi eða búngalóa er 30-50 dollarar nóttin.

Ódýri valkosturinn er að tjalda, og það jákvæða er að hér er nokkuð þétt net ágætra tjaldsvæða. „Ferðamennska“ um Afríku hófst í tjöldum og sá kúltúr blómstrar enn. Yfirleitt kostar 5 dollara nóttin að tjalda á svæði þar sem er aðgengi að útiklósettum eða kömrum og sturtum. Stundum eru tjaldsvæðin samhliða búngalóum eða litlum hótelum og í Tansaníu gistum við undantekningarlítið á afgirtum tjaldsvæðum þar sem stundum voru vopnaðir verðir. Ég var ekki alltaf viss um hvort rifflarnir áttu að verja okkur gegn dýralífi eða mannlífi, en frá og með Malaví hefur starfsfólk í mesta lagi verið vopnað teygjubyssum, til að fæla burt apana.

Horfst í augu við ljón í Etosha-þjóðgarðinum.

Tjöldin sem Nomad skaffar okkur eru einföld að gerð, stór kúlutjöld úr þungum striga sem hengdur er með krókum á sterka járngrind. Þetta virðast vera mjög dæmigerð Afríkuferða-tjöld því flest tjöld sem ég hef séð eru svipaðrar gerðar.

Það er djöfulsins basl að koma tjaldinu upp og taka það niður, ekki síst þegar maður er einn eins og ég. Rytminn í samfélaginu hér fylgir sólarupprás og sólsetri. Í Austur-Afríku, þar sem vegalengdirnar voru erfiðastar, vorum við oft lögð af stað fyrir sólarupprás og ég viðurkenni að það komu stundir þar sem ég var gráti nær við að drösla tjaldinu mínu ofan í poka í niðamyrkri, því ég var sú eina sem þurfti að gera það á eigin spýtur, allir aðrir ferðuðust í pörum og voru fljótari að þessu en ég. Næturnar voru yfirleitt heitar og rakar, sem þýddi að jörðin var blaut og tjaldbotninn drullugur. Fyrir B-manneskjuna mig tók það svolítið á að vera orðin aurug upp fyrir hné og olnboga, kófsveitt og lafmóð fyrir klukkan 5:30 á morgnanna og hafa svo 10 mínútur til að svolgra í sig Cornflakes með volgri mjólk og tebolla áður en trukkurinn brunaði af stað.


Buffaló-hauskúpur á tjaldsvæðinu í Serengeti.

Engu að síður er þetta frábær ferðamáti í Afríku og ég kunni fljótt mjög vel við tjaldið mitt. Það er ekki endilega betra að hafa þak yfir höfuðið. Herbergin geta verið mjög misjöfn að gæðum en í tjaldinu mínu veit ég alltaf að hverju ég geng, þótt ég setji það upp á nýjum stað, og til þessa hefur það verið algjörlega laust við moskítóflugur, ólíkt mörgu hótelherberginu. Það var líka mikill persónulegu sigur þegar mér tókst að koma járngrindinni upp alein, án hjálpar og nú eftir nokkrar vikur þykir mér þetta lítið mál, þótt ég svitni reyndar enn við að rúlla tjaldinu upp og troða í pokann, því það er níðþungt.

Afríka er svört


Almennt hafa afrísku tjaldsvæðin komið mér þægilega á óvart, stundum eru þau bara mjög hugguleg, þótt annars staðar, sérstaklega í þjóðgörðunum, sé aðstaðan mjög hrá og jafnvel engin. Uppáhalds tjaldsvæðin mín til þessa voru á brún Ngorongoro-gígsins, á kaffibaunaplantekru í Suður-Tansaníu, á ströndinni við Malavívatn og á árbakka Luangwa-árinnar í Sambíu, þar sem flóðhestarnir gengu milli tjaldanna á nóttunni.

Síðustu þrjár nætur höfum við tjaldað í óbyggðum Norður-Namibíu, tvær nætur í Etosha-þjóðgarðinum þar sem var lágmarksaðstaða og þá síðustu við hið sérkennilega fjall Spitzkoppe, einnig þekkt sem „Matterhorn Namibíu“. Þar var hvorki rennandi vatn né rafmagn en umhverfið alveg hreint stórkostlega fallegt.

Náttúrulaug í klettunum við Spitzkoppe.

„Afríka er svört“ sagði Godfree gjarnan og meinti það bókstaflega. Rafmagnlýsing er oft af skornum skammti og vasaljós algjör lífsnauðsyn á svona ferðalagi, bæði til að lýsa sér leið og til að ganga úr skugga um að engin hættuleg dýr verði á vegi manns á leiðinni í bælið!

Myrkrið þýðir hinsvegar líka að næturhimininn í Afríku er oft alveg ótrúlega stjörnubjartur og fagur. Ég fékk fyrst að njóta þess í Serengeti, þar sem næturnar einkenndust af stjörnubliki, hýenuhlátri og öskrum í ljónum. Magnaðasta stjörnuhimininn sá ég samt síðustu nótt, við Spitzkoppe. 
Spitzkoppe við sólsetur.

Þegar við brasilísku systurnar, Vanessa og Marcella, komumst að því að Martin bílstjórinn okkar sefur oft uppi á þaki á trukknum, þá ákváðum við að slást í lið með honum. Tjaldið fékk því að hvílast síðustu nótt, og þegar varðeldurinn var farinn að kulna og síðustu grilluðu sykurpúðarnir höfðu verið étnir þá hentum við svefnpokunum okkar upp á þak og klifruðum upp á trukkinn. Það er ógleymanlegt að sofna undir berum stjörnuhimni í Namib eyðimörkinni. Að vísu varð svolítið kalt, enda vorum við í 1.000 metra hæð yfir sjávarmáli, en fyrir Íslendinginn var það hressandi eftir ófáar hitabeltisnætur.

Stuð í Namib-eyðimörkinni.


Að lokum birti ég hér til gamans mynd af nokkrum hlutum sem hafa reynst mér afar vel í þessari löngu Afríku-útilegu. Allt eru þetta léttir og fyrirferðarlitlir pinklar, en afar nytsamlegir.

  1. Svefnpokinn er ómissandi. Ég var ekki viss fyrst hvort ég þyrfti alvöru svefnpoka, en næturnar í Afríku geta verið kaldar, sérstaklega í mikilli hæð eins og í Ngorongoro og Spitzkoppe.
  2. Luktin. Ein bestu kaup ferðarinnar, í vegkanti í Tanzaníu. Ljósið er nógu sterkt og langdrægt til að lýsa upp flóðhesta sem leynast í runnum.
  3. Ofurlétti dúnjakkinn minn. Eins og með svefnpokann hefur komið mér á óvart hve oft ég þarf þennan, það er oft svalt þegar sólin er sest. Svo treð ég honum ofan í poka og það fer ekkert fyrir honum.
  4. Vatnsbrúsinn. Hann er úr mjúku plasti og pakkast vel tómur, en aðalmálið er krókurinn svo ég get hengt hann á poka eða buxnastreng og haft lausar (og svitalausar) hendur.
  5. Kyndillinn og litla lesljósið á honum. Ótakmarkað magn af lesefni og fyrirferðalítill náttlampi til að lesa mig í svefn í tjaldinu.
  6. Eyrnatappar. Því stundum heyrast hrotur úr nágrannatjöldunum og stundum eru næturdýrin einfaldlega of hávær.
  7. Travel-light silkipokinn. Þegar næturnar eru of heitar og sveittar fyrir svefnpokann hefur þessi komið sér mjög vel. Oft breiði ég úr svefnpokanum undir mig en hef silkipokann ofan á mér.
  8. Uppblásni memory-foam ferðakoddinn. Ég er þvílíkt ánægð með að hafa fundið þennan á Amazon rétt fyrir ferðina, algjör snilld.

sunnudagur, febrúar 16, 2014

Allt önnur Afríka

Austur-Afríka er allt önnur Afríka en suðurhlutinn, því hef ég fengið að kynnast undanfarið. Strax í Sambíu byrjuðu hlutirnir að breytast aðeins og Botsvana var síðan allt öðruvísi upplifun en það sem á undan var komið.

„Aftur í siðmenninguna“ segja leiðsögumennirnir okkar hlæjandi, en ég veit líka að þeirra vinna er talsvert auðveldari á þessum slóðum en í Austur-Afríku. Þegar renni í huganum yfir fyrstu vikurnar í Kenýa, Tansaníu og Malaví, þá einkenndust þær af löngum dögum, gríðarlegri keyrslu eftir erfiðum vegum, hita, raka, svita, áberandi fátækt og frumstæðum aðstæðum. 300 km vegalengd þýddi allt frá 6-10 klukkustunda ferðalag. Einn daginn var áætlaður aksturstími 5 tímar, en þegar á reyndi vorum við 12 tíma á leiðinni. Vegirnir hafa farið jafnt og þétt batnandi síðan og í Botsvana fór maður meira að segja að sjá málaðar vegmerkingar á malbiki! Það er orðið langt síðan við keyrðum síðast fram hjá vörubíl á hliðinni í vegkanti, en það var nokkuð algeng sjón í Tansaniu og Malaví. Hér í suðrinu eru líka bensínstöðvar með þjónustu í ætt við það sem maður þekkir heima og skyndibitastaðir. Samfélagið er skipulagðara og spillingin minni.

Götulíf í Malaví.

Þrátt fyrir að þægindin séu óneitanlega meiri þá finnst mér eftirsjá að Austur-Afríku. Einhvern veginn var það meiri „alvöru Afríka“, meira framandi, ögrandi og spennandi. Kannski er það líka bara það að ég er orðin nokkuð Afríku-vön núna og hlutirnir eru hættir að koma á óvart. En það er fyrst og fremst mannlífið sem ég sakna. Þessir löngu og þreytandi keyrsludagar voru aldrei leiðinlegir, vegna þess að það var endalaust eitthvað að sjá út um gluggann. Alls staðar var fólk að gera eitthvað áhugavert: Bera huti á höfðinu, draga vagna með þungu hlassi, seljandi föt í hrúgum í vegkantinum, hlaupandi meðfram bílnum til að reyna að selja manni mangó, egg eða grillaðan maís. Ég hékk hálf út um gluggann mestallan tímann niður eftir endilöngu Malaví, því það var svo gaman að alls staðar var fólk sem veifaði brosandi til manns. Iðulega komu krakkar hlaupandi, æpandi og veifandi og trylltust úr gleði þegar maður veifaði til þeirra á móti.

Jassa frá Króatíu útdeildi kexkökum til krakka sem hlupu að bílnum okkar í Sambíu.

Í Austur-Afríku eru mannabyggðir alveg við veginn og litlir þéttbýliskjarnar sem minna helst á villta vestrið. Oft eru það ekki meira en 3-4 rykugar húsaraðir sitt hvoru megin við veginn, fremst litlir húsakofar með einhvers konar þjónustu og svo sá maður gegnum kræklóttar, þröngar leirgötur glitta í hrörleg heimili fólks þar fyrir aftan. Oft var spaugilegt að lesa hástemmd heitin á verslunum og börum, sem gjarnan voru ekki meira en 10 fm að stærð, úr ryðguðu bárujárni eða leir, en á vegginn var málað „New York Bar“, „Restaurant Miami“ eða „Paradise Guesthouse“. Í Tansaníu sá ég nokkra pínulitla sölubása titlaða „Barack Obama Shop“ og „Hillary Clinton Shop“.

Austur-Afríka var sem sagt iðandi af mögnuðu mannlífi og landslagið var sömuleiðis fjölbreytt og fallegt. Til samanburðar er frekar leiðinlegt að keyra í gegnum Sambíu og Botsvana. Bæði löndin eru marflöt og þar má ekki byggja meðfram þjóðvegunum svo út um gluggann er ekkert að sjá nema tré eftir tré, runna eftir runna. Og stöku sinnum fíla, asna eða kýr. Það kemur þó vonandi til með að breytast núna, því í dag fór ég yfir landamærin til Namibíu og framundan er fjölbreytt eyðimerkurlandslag og fjallendi sem sagt er afar fallegt.

Saga af afrískri velgengni: Botsvana


Botsvana er eitt „best heppnaða“ land Afríku ef svo má segja. Það fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1966 og ári síðar fundust þar þrjár auðugustu demantanámur heims. Þar er ekki sýslað með blóðdemanta, námurnar eru í eigu ríkisins og arðurinn hefur verið notaður til að fjárfesta í innviðum landsins, mennta- og heilbrigðiskerfi. Botsvana hefur líka markað sér opinbera stefnu í ferðaþjónustu, og leggur áherslu á að laða til sín efnaða ferðamenn sem skilja meira eftir sig. Fjöldatakmarkanir og hátt aðgönguverð eru á stærstu ferðamannastaði, sem eru þjóðgarðarnir. Sömuleiðis eru háir skattar á áfengi svo bjórinn er í dýrari kantinum. (Allt að 500 kall flaskan, gisp!) Botsvana er því ekki paradís budget-ferðalangsins, en heimamenn hafa það talsvert betra en víða í Afríku.
Bússkonur af San-ættbálkinum safna rótum í Botsvana.

Í Botsvana er þó auðvitað líka fátækt að finna og þar eru líka Búskmennirnir svo kölluðu, sem nú þykir pólitískt réttara að kalla San-ættbálkinn. Flestir hafa heyrt um Búskmennina, þetta er fólkið sem talar skrýtna tungumálið með öllum góm- og koksmellunum. Mjög sérkennilegt á að hlýða. San-fólkið hefur lifað af landinu í eyðimörk suðurhluta Afríku í 30.000 ár, en í dag er menning þeirra óðum að hverfa. Flest þeirra búa í þéttbýlum Botsvana þar sem alkóhólismi og atvinnuleysi plagar þau. Í botnsvanska dagblaðinu Mmegi las ég grein sem fjallaði um það að almenningur í Botsvana komi nú fram við San-fólkið eins og hvítir nýlenduherrar  gerðu áður við heimamenn almennt, eins og þeir væru af lægra greindarstigi. Sumir úr hópi San-fólksins reyna að viðhalda þeim hefðum og lífstíl sem forfeður þeirra hafa stundað í árþúsund, og við fengum aðeins að kynnast því síðustu nóttina okkar í Botsvana, í Ghanzi.

Þangað kom hópur San-fólks eftir kvöldmat og dansaði fyrir okkur og söng við varðeldinn. Hver dans sagði sögu, yfirleitt um veiðar eða uppskeru, og sáu karlarnir um dansinn með mjög leikrænum tilburðum, en konurnar sungu sérkennilegan gómsmellusöng og klöppuðu lófunum í takt.

Kveðjustund í Botsvana – taka II


Hressandi sundsprettur í Okavango ánni í Botsvana.

Síðast skrifaði ég frá Viktoríufossum um tregann yfir því að skiljast við hópinn minn. Ég tók fljótt gleði mína aftur, því það kom í ljós að leiðir nýja trukksins míns (Otis) og þess gamla ( Harrison) lágu saman lengur en við héldum. Godfree leiðsögumaðurinn minn hótaði nýja krúinu mínu að hann myndi stela mér og það gerðist eftir fyrsta daginn, því um leið og við vorum komin til Botsvana fékk ég að fljóta aftur með Harrison á milli tjaldbúða. Báðir hópar fóru inn í Okavango Delta í 2 nætur, í sitthvoru lagi þó, og ég fékk að fara með gamla hópnum mínum. Við dvöldum á frábærum gististað, í litlum trjáhýsum sem féllu fullkomlega að umhverfinu. Okavango-áin kvíslast þarna um allt og á daginn sigldum við með heimamönnum á makoro-trébátum á milli eyja, þar sem við gengum um í leit að dýralífi og sáum m.a. gíraffa og fíla. Svo syntum við í ánni, flatmöguðum í afslöppun og í ljósaskiptunum var æðislegt að skella sér í kalda útisturtu á meðan tunglið skreið upp á fjólubláan himinn. Um kvöldið var kveikt á kyndlum milli trjáhýsanna og varðeldi við árbakkann þar sem við hlustuðum á flóðhestana og virtum fyrir okkur eldflugurnar og stjörnurnar. Algjör dásemd.

Fullkomin slökun og kyrrð í makoro-bátnum í Okavanga.

Áður en yfir lauk fékk ég því tæpa 4 frábæra viðótardaga í Botsvana með gamla hópnum mínum, sem gladdi mig mjög. Í fyrradag þurfti ég samt að kveðja þau endanlega og get ekki neitað því að nokkur tár féllu hjá mér við það tækifæri. Ég er dramatísk á kveðjustundum, því ég höndla svo illa tilhugsunina um að sjá gott fólk aldrei aftur. Ég var samt ekki sú eina sem var dramatísk, því þarna þurftu líka nýir elskendur að skiljast. Önnur brasilíska systirin, Vanessa, og svissneski strákurinn, Sascha, náðu svona ljómandi vel saman og voru búin að deila tjaldi frá og með Sambíu. Þau kvöddust með djúpum kossum en óvíst er hvort nokkuð áframhald verði á því sambandi.

Óvíst er hvort ástin milli Sascha og Vanessa eigi sér framhaldslíf.

Hjá mér eru það sérstaklega hjúkkurnar tvær frá Ástralíu og Kanada sem ég sakna. Þær voru mínar helstu vinkonur síðasta mánuðinn, enda erum við jafngamlar og náðum mjög vel saman. Þær myndu smellpassa inn í vinkvennahópinn minn heima. Tara kemur samt til Íslands í vor, á leiðinni heim til Kanada, svo ég fæ þá að hitta hana aftur, og vonandi Katie líka við tækifæri.

Katie frá Ástralíu, Tara frá Kanada og nokkrir gíraffar í bakgrunninum.

Ég sakna líka Godfree og Thabi, gædanna okkar. Nýju leiðsögumennirnir eru líka frá Simbabve, þau heita Gertrude og Martin og eru mjög almennileg, en eftir mánuð á ferðalagi saman var mér bara farið að þykja svo fjári vænt um Godfree og Thabi. Gertrude er mjög skipulögð og fagmannleg, að því leyti í raun algjör andstæða við Godfree, en ég var farin að hafa gaman af því hvað hann var kaótískur og óskiljanlegur. Algjör bangsi. Og ég sakna jákvæða viðmótsins hjá Thabi, lúmska húmorsins og smitandi hlátursins sem kom manni alltaf í gott skap. Nomad fær toppeinkunn hjá mér fyrir frábært starfsfólk. Flestir leiðsögumenn Nomad koma frá Simbabve, sem er engin tilviljun. Atvinnuástandið þar er hörmulegt, svo vel menntað og hörkuduglegt fólk vantar vinnu. Því miður má segja að þessir leiðsögumenn sem ég hef kynnst séu of hæf fyrir störfin sem þau sinna. Þau sjá fjölskyldur sínar sjaldan, en leggja áherslu á að þéna pening til að geta greitt fyrir menntun barnanna sinna í heimavistarskólum.

Crew - Harrison veifar mér bless í síðasta sinn. Búhú.

Nýju ferðafélagar mínir eru annars alveg ágætir. Auk brasilísku systranna, sem ég þekki fyrir, eru það pör frá Ástraliu og Írlandi, Frakklandi, Sviss og Póllandi auk hans Frank, sem er læknir frá Berlín. Alveg brilliant náungi, afar samkynhneigður.  Ég er þó enn að kynnast hópnum og á morgun bætast 6 manns við. Þessar síðustu vikur, í gegnum Namibíu og Suður-Afríku, verða því farnar í fjölmennari hóp og þétt setnari trukk en fyrri hluti ferðarinnar. Meira un það síðar.

sunnudagur, febrúar 09, 2014

Kaflaskil í Simbabve

Simbabve er hér með komið á listann yfir Afríkulönd sem mig langar að heimsækja aftur. Ég hef því miður ekki tækifæri til að sjá mikið af landinu í þetta sinn, hef dvalið núna nokkra daga við Viktoríufossa, í samnefndum bæ rétt hjá þessum mestu fossum heims, og líkar vel en héðan er svo förinni heitið beint til Botsvana í fyrramálið.

Velkomin til Simbabve! Og mér hefur sannarlega fundist ég velkomin.

Simbabve er auðvitað einræðisríki, pólitíkin er eldfim hér og efnahagsástandið afar erfitt. Þetta þýðir líka að hingað leggja færri ferðamenn leið sína en til nágrannalandanna og að þeir sem hingað koma eru afar velkomnir og mæta mikilli velvild. Viktoríufossar eru reyndar einhver mesti ferðamannastaður Afríku, en hér eru þó ekki margir ferðamenn sem stendur, ég hef lagt leið mína á tvö fimm stjörnu hótel hér, til að borða og nota þráðlaust net, og þau eru bæði hálftóm. Fyrir vikið er tekið á móti manni eins og kóngafólki.

Hér má gera sér ýmislegt til dundurs. Í dag fór ég í river-rafting í Zambezi ánni, sem markar landamærin við Sambíu og þar sem Viktoríufossar falla. Það var í einu orði sagt geðveikt og tvímælalaust einn af hápunktum ferðarinnar til þessa, strax frá upphafi þegar við þurftum að klöngrast ofan í gljúfrin í gegnum hitabeltisskóg. Hamraveggirnir eru magnaðir að sjá neðan frá og flúðasiglingarnar mikið fjör. Ég hef áður raftað í Austari-Jökulsá í Skagafirði, sem var frábært. Báðar árnar eru með 5 stiga flúðir, sem er hæsta stig skalans, en Zambesi var enn meira fjör, bátnum okkar hvolfdi þrisvar sinnum en vatnið var hlýtt og bara gaman að láta sig fljóta niður eftir ánni meðan ég beið eftir að vera sótt af kajak.

Holdvot við hina ógnarstóru Viktoríufossa. Þetta er aðeins brotabrot af fossunum sem þarna sést.

Gljúfurbarmarnir í kringum fossana sjálfa eru þjóðgarður, þar sem maður verður holdvotur inn að beini af því að ganga tæpa 2 km meðfram fossbrúninni. Úðinn frá fossunum sést líka langar leiðir að og drunurnar heyrast sömuleiðis, sérstaklega núna þegar rigningartíminn er. (Upprunalegt nafn þeirra er Mosi-oa-Tunya, eða "Drynjandi reykur".) Sannarlega stórkostlegt náttúruundur.

Meira um Simbabve

 Við tölum um hrun á Íslandi, en eins og frægt er orðið hrundi gjaldmiðillinn hér í Simbabve svo gjörsamlega að eftir að farið var að prenta verðlausa 50 milljarða seðla gafst Mugabe á endanum upp og samþykkti að taka einhliða upp Bandaríkjadal. Við það varð stöðugleikinn meiri, en verðlag jafnframt hærra og heimamenn bera sig illa undan því að eiga ekki sjálfstæðan gjaldmiðil.

Mér hefur þótt áhugavert síðustu vikurnar að kynnast simbabvísku leiðsögumönnunum mínum betur því það er skemmtilegt að finna hvað við getum spjallað um margt, haft svipaðan húmor og átt sameiginlega snertifleti, þótt þeir komi frá þessu landi sem hefur virst manni svo framandi, af þeirri einsleitu mynd sem við fáum af því gegnum vestræna fjölmiðla.

70 simbavískir milljarðar á sundlaugarbarminum bling bling

Líf Thabi, bílstjórans okkar,fléttast með frekar sorglegum hætti saman við átakasögu Simbabve síðustu áratugi. Hann er 39 ára, fæddur einstæðri móður í byrjun 8. áratugarins um það leyti sem sjálfsstæðisstríðið stóð sem hæst og landið hét enn Ródesía. Þegar hann var smábarn var mamma hans kölluð í herinn, því sett var á herskylda fyrir alla eldri en 18 ára. Hún barðist fyrir Mugabe og Thabi ólst upp hjá ömmu sinni. Eftir stríðið kom mamma hans ekki aftur og þau héldu að hún hefði dáið, en mörgum árum síðar, þegar Thabi var orðinn 15 ára, sneri hún allt í einu heim og hann kynntist mömmu sinni í fyrsta sinn. Í millitíðinni hafði hún eignast mann og stofnað nýja fjölskyldu.

Með mínum ástkæru Godfree og Thabi. Að ógleymdum Harrison, trukknum okkar.

Amma Thabi, sem var honum sem móðir, er enn á lífi og verður níræð í sumar. Mugabe verður níræður núna í febrúar. Það er talsvert um langlífi hér, þótt almennar lífslíkur séu ekki nema 40 ár. Thabi verður sjálfur fertugur á næsta ári, en hann er ekkill og einstæður faðir. Konan hans dó bráðung úr lungnabólgu árið 2006. Það var um sama leyti og allt hrundi endanlega í Simbabve, bókstaflega, þar á meðal heilbrigðiskerfið. 3 af 4 stærstu spitölum landsins stóðu tómir, þar voru hvorki læknar né lyf og engin starfsemi. Ung kona á ekki að þurfa að deyja úr lungnabólgu og við eðlilega kringumstæður hefði verið hægt að bjarga barnsmóður Thabi. Hann var fjarverandi vegna vinnu þegar hún dó, og hefur síðan verið einn með dætur þeirra tvær sem eru 10 og 14 ára. „Þetta var slæmur tími,“ sagði Thabi einfaldlega þegar hann lýsti þessu.

Þrátt fyrir allt er Thabi ótrúlega glaðlyndur, ljúfur og brosmildur. Sem leiðsögumaður er hann alltaf á ferðinni um Afríku þvera og endilanga, en Nomad greiðir þokkaleg laun á afrískan standard svo hann hefur efni á að senda eldri dótturina í heimavistarskóla og ráða barnfóstru til að annast þá yngri þegar hann er í burtu. Hann býr hér í Viktoríufossum og við samglöddumst honum að fá smá frí við komuna til Simbabve, til að vera með dóttur sinni.

Seinni hluti Afríkureisu hefst

En hér í Simbabve verða sem sagt kaflaskil. Stærstur hluti hópsins á ekki nema viku eftir, þau halda áfram í trukknum Harrison, með Thabi og Godfree, í gegnum Botswana til Jóhannesarborgar. Hjá mér er ferðin hinsvegar u.þ.b. hálfnuð. Ég fer nú inn í nýjan trukk (Otis), með nýjum hóp og nýjum leiðsögumönnum, í gegnum Botswana og Namibíu, meðfram Vesturströnd Suður-Afríku til Höfðaborgar.

Það er skrýtið, fyrir mánuði þekkti ég ekkert af þessu fólki sem ég er nú að kveðja en eftir að hafa verið með þeim allan sólarhringinn í nokkrar vikur, borðað hverja máltíð saman og deilt nýrri lífsreynslu og einkahúmor, þá finnst mér erfitt að skiljast við þau. Breytingar eru erfiðar!

Dæmigerður hádegisverður í vegkanti hjá Harrison-krúinu

Þannig að já, ég er á smá bömmer í augnablikinu. Mig langar bara að vera áfram með „fólkinu mínu“ og nenni ekki að fara í gegnum þennan prósess aftur, að kynnast nýjum hóp og þurfa svo að kveðja þau líka eftir mánuð og sjá þau aldrei aftur. Ég kom auðvitað hingað fyrst og fremst til að kynnast Afríku, en í bónus fæ ég dálítinn tilfinningarússíbana, nýja vini og heimboð til Englands, Ástralíu, Kanada, Króatíu, Tyrklands, Brasilíu og Sviss. Lífið er ljúfsárt.

miðvikudagur, febrúar 05, 2014

Flóðhestar, fílar og fátækt

Tjaldsvæðið á bökkum Luangwa árinnar í Sambíu er sennilega uppáhalds næturstaðurinn minn í Afríku til þessa. Við gistum þar tvær nætur og vorum ein á svæðinu, í mikilli kyrrð og ró fyrir utan stöðug óhljóð úr flóðhestastóðinu í ánni, og öðru hverju skvamp í krókódílum að veiða sér til matar. Við tjaldbúarnir fengum fyrirmæli um að skoða jörðina vel áður en við völdum tjaldsstað og gæta þess að vera hæfilega fjarri flóðhestaslóðum. Þeir flatmaga í ánni allan daginn, til að kæla sig, en eftir að sólin sest fara þeir á kreik til að bíta gras. 


Tjaldbúðirnar okkar á bökkum Luangwa árinnar í Sambíu. Beint fyrir neðan voru flóðhestar og krókódílar.

Þótt flóðhestar séu klunnalegir geta þeir hlaupið á 40 km hraða á landi og skolturinn á þeim er rosalegur. Jonas, leiðsögumaðurinn okkar í Serengeti, sagðist einu sinni hafa séð flóðhest klippa fullvaxið ljón í tvennt. Það var því svolítið furðulegt að sitja við grillið eftir kvöldmat og sjá flóðhest klöngrast upp árbakkann og rölta hjá í 50 metra fjarlægð. Alla nóttina heyrði maður í þeim, og líka stöku hýenu, svo fyrirmælin voru að fara ekki á klósettið að óþörfu og aldrei án vasaljóss og lýsa vandlega í kringum sig.

Meðfram ánni er Suður-Luangwa þjóðgarðurinn, þar sem er eitt þéttasta búsvæði hlébarða í allri Afríku. Við fórum í sólsetur-safari í leit að hlébörðum, en sáum engan. Mér var þó nokk sama því svæðið er afskaplega fallegt, skógi vaxið, og krökkt af fílum, antílópum og sebrahestum. Þjóðgarðurinn er ekki girtur af og fílarnir vaða út um allt þarna, íbúum svæðisins til ama. 

Flest þorpin þarna samanstanda af litlum þyrpingum stráhúsa, og ef fílarnir finna lykt af ávöxtum eru þeir vísir til að rífa húsin niður. Þeir eru almennt nokkuð friðsamlegir, en karlfílar sem eru einir á ferð geta þó verið árásargjarnir og við fengum að reyna það þegar við keyrðum burt frá Luangwa í morgun. Við sáum stærðarinnar fíl, þann stærsta sem ég hef séð, sem lét ófriðlega upp við tré og slengdi höfðinu til og frá. Allt í einu tók hann á rás og stefndi beint að trukknum okkar. Við æptum á Thabi, bílstjórann okkar, að gefa í en hann heyrði fyrst ekki hvað við vorum að segja svo hann stoppaði. Þegar hann sá fílinn í baksýnisspeglinum og heyrði hvað við vorum að öskra beið hann þó ekki boðanna og gaf í og við hristum hann af okkur – en hann komst ansi nærri á miklum hraða og þessar löngu skögultennur hefðu hæglega getað valdið skaða.

Fíll við þjóðveginn.

Daginn áður höfðum við líka orðið vitni þess að heimamenn eru raunverulega hræddir við filana, því þegar við vorum á leið heim í tjaldbúðirnar úr einu þorpanna, á opnum Landrover jeppa, þá ókum við fram á hóp kvenna sem voru að flytja eldivið á höfðinu heim til sín. Hinum megin við veginn var fíll, og konurnar óskuðu eftir því að við keyrðum hægt samsíða þeim þar til þær kæmust í skjól frá fílnum. Þær voru augljóslega hræddar við hann.

Annars er þetta nokkuð dæmigerð sjón hér um slóðir: Konur að vinna þrælerfiða líkamlega vinnu. Manni virðist stundum sem konurnar geri nokkurn veginn allt hérna, þær þvo þvottana og elda matinn, ala upp börnin og þrífa, vinna á ökrunum og víða í þorpunum er það líka þannig að konurnar safna efnivið og reisa húsin. Alls staðar eru konur að bera þunga hluti á höfðinu, með börn bundin á bakið. Á sama tíma er talsvert algengt að sjá stráka- og karlahópa sitja í skugganum undir tré að því er virðist aðgerðarlausir. Jafnvel að drekka spíra. Líklega sjást hvergi skýrari dæmi um vanþakklátt framlag kvenna til að halda uppi hagkerfum heimsins launalaust.


Dæmigerð sjón meðfram vegkantinum í Austur-Afríku. Konur og stelpur að bera þungar byrgðar.

Áður en ég lagði af stað í þessa Afríkureisu íhugaði ég hvort ég ætti að fara í skoðunarferð um fátækrahverfi eins og boðið er upp á í sumum borgunum. Manni finnst það alltaf orka svolítið tvímælis siðferðislega, að borga fyrir að fara og virða fyrir sér fátækt fólks, en á sama tíma er hollt og óneitanlega forvitnilegt að sjá það. En hvað um það, ég get ekki ímyndað mér að fátækrahverfin í Höfðaborg og annars staðar séu fátæklegri en það sem blasir við manni meðfram vegunum í Kenýa, Tansaníu, Malaví og Sambíu. Fátæktin er svo rosaleg hérna. Við höfum heimsótt nokkur þorp, bæði skipulega eins og Maasai-fólkið, og óskipulega þegar maður röltir sjálfur um, og það er sláandi hversu allslaust fólk er hérna. Það á bókstaflega ekki neitt, annað en fötin sem það stendur í og nokkur ílát til eldamennsku og þvotta.

Í Suðaustur-Asíu sá maður vissulega fátækt, en víðast hvar átti fólk þó einhverjar eignir. Farsíma, sjónvarp, jafnvel tölvu, mótorhjól og einhver húsgögn. Húsin sem  ég hef farið inn í hérna eru algjörlega tóm, þar er ekkert nema fletið þar sem fólk sefur. Brasilísku systurnar segja það sama, í favela, fátækrahverfum Rio de Janeiro þar sem þær búa, þar eru gervihnattadiskar og raftæki þótt fólk eigi varla í sig og á. Hér er ekkert.

Ung stúlka með barn í þorpi í Sambíu

Þetta getur líka gert ferðamönnum erfiðara fyrir, því ef ég ber það t.d. saman við Asíu þá var auðvelt að ferðast sjálfstætt þar því það var alltaf hægt að borga einhverjum sem átti mótorhjól eða bíl, fyrir að ferja mann á milli staða. Á þeim svæðum sem ég hef ferðast um heyrir til algjörra undantekninga að fólk eigi farartæki, nema í mestalagi gamalt reiðhjól. Maður þarf að vera sjálfur með bíl til að komast á milli staða. 

Það gladdi mig þó að sjá hve mikið er um reiðhjól í bæði Malaví og Sambíu, þótt flest séu þau algjör skrapatól. Ég hef gert tvær tilraunir til að leigja hjól. Önnur þeirra, í Luangwa í Sambíu, var árangurslaus. Í fyrsta lagi vegna þess að tjaldsvæðið var talsvert fyrir utan aðalþorpið og ég gat ekki fengið neinn til að skutla mér þangað. Í öðru lagi vegna þess að enginn hafði heyrt um þá hugmynd áður að leigja hjól.

Í Malaví tókst mér þó að fara í smá hjólatúr. Ég sá stelpu koma hjólandi fram hjá tjaldsvæðinu okkar og hljóp á eftir henni og náði henni þar sem hún steig af hjólinu hjá fjölskyldu sinni sem var að matreiða við opinn eld. Stelpan talaði enga ensku, bara pabbi hennar, og þau vildu fyrst alls ekki láta mig fá hjólið („No good! No good!“) en þegar ég reiddi fram 1000 kwacha, sem er gjaldmiðill Malaví, fengust þau til þess. Í mínum huga er engin betri leið til að kanna nýjar slóðir en á hjóli, og ég naut þess virkilega að rúnta aðeins um. Hinsvegar var hjólið bæði bremsulaust og ljóslaust, og hnakkurinn hékk út á hlið, svo ég gætti þess að snúa aftur og skila því aftur í ljósaskiptunum.

Ég gæti skrifað endalaust en læt þetta duga í bili. Næstu tveir dagar eru ferðadagar, til að komast yfir landamærin til Simbabve. Það þýðir mikil keyrsla og langir dagar, í fyrramálið leggjum við í hann kl. 5:30, og ekki í fyrsta sinn. Ég er orðin algjör A-manneskja í þessari ferð því oftast erum við lögð af stað við sólarupprás!

sunnudagur, febrúar 02, 2014

Malaví

Eftir 12 daga í Tanzaníu var förinni heitið yfir landamærin til Malaví þar sem ég hef verið síðustu daga. Á þessum rúmu tveimur vikum er hópurinn búinn að hristast ansi vel saman enda eru ferðafélagar mínir áhugavert fólk. Við erum ekki nema 12, þar af sjö á aldrinum 24-29 ára en fimm á milli 60 og 70 ára. Já, sú elsta er 70 ára kerling frá Tyrklandi og ansi skrautleg.

Krökkunum í Malaví finnst óhemjugaman að sitja fyrir á mynd og fá svo að sjá hana á skjánum.

Leiðsögumennirnir okkar tveir eru svo rétt um fertugt, báðir frá Simbabve. Við grínumst með það okkar á milli í hópnum að kalla þá Tímon og Púmba, því annar er hár og grannur en hinn lágvaxinn og kringlulaga. Þeir hafa með sér verkaskiptingu, annar keyrir og hinn sér um eldamennsku og almenna leiðsögn. Bílstjórinn, Thabi, er frábær náungi og í miklu uppáhaldi hjá okkur öllum. Hann hefur verið sérstaklega almennilegur við mig, þar sem ég er ein, og hafði mig lengi í gjörgæslu eftir að ég veiktist fyrsta daginn. Hann kemur oft til að tékka hvernig mér gengur að tjalda, alltaf með bros á vör og réttir mér hjálparhönd ef þess þarf. Við höfðum áhyggjur af því að það væri þreytandi fyrir hann að sitja við stýrið og keyra í allt að 12 á lengstu ferðadögunum. Thabi kippir sér þó ekkert upp við það og þegar komið er á áfangastað skellir hann sér gjarnan í hlaupaskó og hleypur 8-10 km til að hressa sig við, og búa sig undir næsta maraþon í Simbabve.

Hinn leiðsögumaðurinn er líka frá Simbabve en pabbi hans stundaði nám í Þýskalandi og valdi syni sínum gamalt og gott þýskt nafn, Gottfried. Hann Gottfried er ágætur, en hann er mjög kaótískur og það er ekki nokkur leið að hann svari spurningu hreint út. Hann fer ótrúlegar krókaleiðir til að koma sér að efninu og heldur langar einræður þar sem maður skilur ekki helminginn sem hann segir. Svo á hann móment þar sem hann kemur á óvart líka, eins og þegar hann kvað sér hljóðs við kvöldverðarborðið um daginn til að flytja okkur blaðlaust mónolog úr Julius Caesar eftir Shakespeare. Gottfried má líka eiga það að hann er góður kokkur, enda vann hann áður sem slíkur á hóteli. Ég átti ekki von á sérstaklega góðu í mat á tjaldsvæðunum, svo það kom mér á óvart hvað honum tekst að galdra fram góða rétti. Þetta er þó einföld eldamennska, oftast hrísgrjón og grænmeti með einhvers konar kjöti, en ríkulega kryddað með ferskum hvítlauk og engifer og bragðast lystavel.  Við hjálpumst svo öll að við það að setja upp borð og stóla, ganga frá og þvo upp eftir matinn.
Thabi og Gottfired kokka ljúffengan kvöldmat handa okkur í tjaldbúðunum við Malavívatn.

Hópurinn er skemmtilega blandaður úr 8 þjóðernum. Frá Sviss er ungt par, Sascha og Sina. Frá Brasilíu koma systurnar Vanessa og Marcella, sem eru þær einu í hópnum sem munu fylgja mér alla leið til Höfðaborgar. Vinkonurnar Tara og Kate vinna báðar sem hjúkrunarfræðingar í London, en Tara er frá Kanada og Kate frá Ástralíu. Þar með er unga liðið upp talið, eldra settið er tvær króatískar vinkonur um sextugt, Tanja og Jadranka, sem eru eiturhressar. Fyrstu vikuna var í hópnum ungt og sprækt par frá Þýskalandi. Bæði störfuðu sem flugmenn hjá Lufthansa, en þau kvöddu okkur á Zanzibar. Í staðinn fengum við í hópinn ensk hjón um sextugt, Francis og Judy. Þau eru efri miðjustéttar bretar, þaulvanir ferðalangar og þrælskemmtileg. Þau eiga skútu og sigla mikið og Francis fór með mig út á Malavívatn í gær á tveggja manna bát og kenndi mér helstu handtök við að haga seglum eftir vindi.

Kvenleggurinn í hópnum útbjó sér blómakransa í tilefni afmæli einnar úr hópnum í gærkvöldi.

Það er svolítið sorgleg tilhugsun að við Viktoríufossa skilur leiðir, því bróðurhluti hópsins fer þaðan skemmri leið til Jóhannesarborgar, en ég og brasilísku systurnar förum í annan trukk, með nýju fólki til að fara gegnum Namibíu og vesturströnd Suður-Afríku til Höfðaborgar. Þá munum við kynnast heilum nýjum hóp af fólki, sem verður vonandi skemmtilegt líka, en ég veit að ég mun sakna þessara góðu ferðafélaga.

Fallega Malaví


Malaví er afskaplega fallegt land. Um þriðjungur landsins er vatnið stóra, það þriðja stærsta í Afríku, en frá ströndum þess rís landið hratt upp í háar hlíðar. Ólíkt nágrannalöndunum eru hér engir verðmætir málmar eða eðalsteinar, efnahagurinn byggir fyrst og fremst á landbúnaði. Fram til þessa var Laos fátækasta land sem ég hef heimsótt, en ég held að Malaví sé enn neðar á Human Development lista sameinuðu þjóðanna. Um eða yfir 80% þjóðarinnar býr í dreifbýli við mikla fáækt. Malavíbúar eru hinsvegar frægir fyrir að vera einhvera vinalegasta þjóð Afríku og það er engu um það logið. Það er líka áhugavert að Malaví er talsvert snyrtilegra  en Tanzanía þótt fátæktin sé meiri hér. Ég velti fyrir mér hvort það sé vegna þess að einkaneyslan sé enn minni hér, og þar með minna af rusli, því í Tanzaníu var víða mikið rusl í vegköntum. Önnur skýring er sú að í Malaví er þykkur og mikill jarðvegur sem hentar vel til múrsteinagerðar. Hér býr fólk því í múrsteinshúsum, sem eru óneitanlega huggulegri en ryðguðu bárujárnskofarnir sem maður sá svo gjarna í Tanzaníu.

Konurnar vinna erfiðisstörfin. Þar á meðal þvottana á ströndu Malavívatns.

Við höfum nú keyrt suður eftir Malavívatni og gist á tveimur stöðum á ströndinni. Ég hafði séð fyrir mér að hinir týpísku fylgifiskar strandhótela yrðu til staðar, þ.e. litlir sölubásar með flipflop-sandölum, sundfötum etc. Á ströndinni í kringum hótelið/tjaldsvæðið okkar var hinsvegar ekkert slíkt. Mér tókst að brjóta sólgleraugun mín, með því að stíga á þau í myrku tjaldinu, en það var hvergi hægt að kaupa sólgleraugu svo ég varð að fá lánuð frá Töru til að nota á ströndinni.

Ég gekk meðfram ströndinni í báðar áttir og fylgdist með fiskimönnum hnýta net, konum þvo þvott og börnum að synda nakin í vatninu. Ekkert sem gaf til kynna að þetta væri ferðamannastaður. Vatnið teygir sig svo langt sem augað eygir og við sjóndeildarhringinn sjást himinháir, svartir strókar af flugnageri. Svo háir eru þeir að ég hélt fyrst að þetta væru einhvers konar borpallar úti á vatninu. Flugurnar lifa ekki nema í sólarhring og ef þær ná landi áður en þær drepast safna heimamenn þeim saman og borða þær í e-s konar flugustöppu.

Það er svo fátíður lúxus að komast í netsamband hérna að þegar það gerist þá veit ég ekki hvar ég á að byrja til að segja frá öllu því sem ég sé og upplifi í þessari Afríkuferð. Í kvöld gat ég keypt fyrirframgreitt kort með 200 MB af neti, sem er fljótt að klárast svo ég þarf að forgangsraða hvað ég geri því að kortin eru uppseld og þar með er þessi auðlind, internetið, uppurin að sinni. Ég er núna stödd í útjaðri Lilongwe, höfuðborgar Malaví. Á morgun förum við yfir landamærin til Zambíu þar sem við verðum tvær nætur í þjóðgarðinum Luangwa, þar sem á víst að vera magnað dýralíf.

sunnudagur, janúar 26, 2014

Paradísin Zanzibar

Síðustu tveir dagar hafa farið í afslöppun og yndislegheit á eyjunni Zanzibar í Indlandshafi. Það var kærkomið eftir alla keyrsluna fyrstu vikuna. Á meðan við dveljum hér sef ég líka á hóteli, sem er líka kærkomið, eftir tæpa viku í tjaldi.


Zanzibar er sjálfstjórnarríki sem heyrir undir Tanzaníu. Zanzibar á sér langa verslunarsögu við Arabaheiminn og er undir sterkum áhrifum frá því. Hér er íslam ráðandi trú og samkynhneigð var bönnuð með lagasetningu fyrir 10 árum. Því er kaldhæðnislegt að frægasti sonur Zanzibar skuli vera Freddy Mercury, söngvari Queen, sem fæddist hér írönskum foreldrum og fékk nafnið Farrokh Bulsara. Árið 2006 kom hópur róttækra íslamista á Zanzibar í veg fyrir það að haldið yrði upp á að 60 ár væru liðin frá fæðingu Freddy Mercury, en hér eru þó ýmsir minnisvarðar um hann og Zanzibar mun þrátt fyrir allt vera vinsæll sumardvalarstaður meðal samkynhneigðra Suður-Afríkumanna.

Fyrsta sólarhringinn vorum við höfuðborginni, Zanzibar. Miðborg hennar heitir Stone Town og er á heimsminjaskrá UNESCO. Hún var lengi vel ein helsta verslunarmiðstöð Afríku. Hér er mikið ræktað af kryddjurtum og ávöxtum sem Arabar keyptu, en sorgarsagan er sú að Zanzibar var líka miðstöð þrælaflutninga, bæði til Arabalanda og Vesturheims. Þrælamarkaðurinn í Stone Town var sá síðasti til að loka í Afríku. Þar er nú safn þar sem má meðal annars sjá niðurgrafnar dýflyssur þar sem fólk var látið dúsa við ömurlegar aðstæður áður en það var selt í þrældóm, þeir sem lifðu af. 

Á staðnum þar sem þrælauppboðið sjálft fór fram reistu trúboðar kirkju, sem er um leið minnisvarði um það sem þar fór fram. Við altarið er m.a. rauð marmarahella, miðjan er hvítur hringur sem táknar tréð sem þarna stóð, þar sem þrælarnir voru bundnir og hýddir til að sannreyna hversu harðir af sér þeir væru. Rauði steinninn táknar blóðið. Breski landkönnuðurinn Dr. Livingstone var sá sem beitti sér hvað harðast fyrir lokun þrælamarkaðarins og minningu hans er mjög haldið á lofti. Hann lést síðar úr malaríu í Sambíu, en í kirkjunni á Zanzibar er kross sem smíðaður er úr greinum trésins sem hann lá undir þegar hann dó. Hjarta hans er grafið í Sambíu, en það tók rúmt ár að flytja sjálft líkið til greftrunar í Bretlandi.

Frá Stone Town keyrðum við á norðurenda eyjunnar, þar sem við gistum tvær nætur við ströndina. Og þvílík strönd. Hún er einmitt eins og paradís á að vera, skjannahvít og hafið túrkisblátt. Í dag sigldum við nokkur út í litla eyju undan ströndu Zanzibar, Nemba heitir hún. Þar snorkluðum við í kóralrifi og borðuðum grillaðan túnfisk með fersku mangói og engifer. Eftir marga klukkutíma svaml í sjónum hefur húðin fengið nógan skammt af sól og því sit ég hér í skugga á veröndinni með einn bjór, blogga og bíð eftir sólsetrinu.

Ég tók annars eftir því á siglingunni í dag að ekki nema 2-3 km meðfram ströndinni eru lagðir undir hótel. Eftir það taka við margir km af óbyggðri strandlengju. Zanzibar er túristastaður, en það kom mér á óvart hversu fáir ferðamenn eru þó hér. Ég myndi halda að hér sé talsvert rými fyrir frekari uppbyggingu. Ef einhver skyldi eiga sér draum um að hefja hótelrekstur!

Því miður siglum við héðan frá Zanzibar á hádegi á morgun. Eins og ég sá fyrir, þá myndi ég gjarnan vilja vera hér aðeins lengur. Næstu nótt verðum við í Dar Es Salaam, svo er talsverð keyrsla framundan næstu daga á meðan við vinnum okkur í átt að landamærunum við Malaví. Vegirnir eru á köflum alveg djöfullegir hérna og ferðin sækist hægt. Ég vissi að það yrði þannig en þar sem Tanzanía er eitt helsta ferðamannaland Afríku var ég satt að segja vongóð um að ástandið hér væri betra. Það kom mér á óvart hversu takmarkaður infrastrúktúrinn er og fyrir utan Zanzibar heyrir til undantekninga að maður sjái ferðamenn. Almenna ástandið hér er á pari við það allra frumstæðasta sem ég sá í Suðaustur-Asíu. Víða standa þó malbikunarframkvæmdir yfir. Mér skilst að það séu að stórum hluta Kínverjar sem standa fyrir vegalagningum og öðrum fjárfestingum hér.