Sýnir færslur með efnisorðinu Bandaríkin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bandaríkin. Sýna allar færslur

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Obama

Mikið er ég glöð. Lengst af þorði maður varla að trúa því að hann gæti unnið. Þetta er frábær niðurstaða. Mikið mun hinsvegar mæða á þessum forseta og væntingar miklar. Eftir er að sjá hvort hann mun valda manni vonbrigðum. Það gæti allt eins gerst þótt ég hafi mikla trú á honum. En hvernig sem fer þá eru þetta söguleg úrslit og gaman að lifa svona tímamót.

sunnudagur, desember 03, 2006

Vinir

Þessa vikuna hef ég lagst í saknaðarkast og hugsað mikið til vina minna sem ég kynntist úti síðasta vetur. Þótt það sé skemmtilegt að eiga inni heimboð víða um lönd þá er líka svolítið dapurlegt að eiga nána vini sem munu aldrei verða hluti af nánasta umhverfi manns. Mig langar til að vinir mínir hér heima kynnist þeim og öfugt. Stundum langar mig líka óstjórnlega til að hlæja með þeim að einhverjum ómerkilegum einkabröndurum sem aðrir tengja lítið við. Sem betur fer á ég sitthvað af vídjóupptökum til orna mér við, eins og þetta frá South Dakota:


Ekki veit ég hvaðan Elise fékk þá flugu í kollinn að þetta vatn héti “Storage Lake” eins og hún segir þarna, en mér finnst alveg ógeðslega fyndið að rifja það upp. Hið rétta nafn var eitthvað allt, allt annað, enda Geymsluvatn frekar út úr kú.
Reyndar kemur það mér almennt í gott skap að hlusta á upptökur af Elise, því franski hreimurinn hennar er óborganlegur.

Good Times

sunnudagur, júlí 30, 2006

Fundið

Ég var að skoða þessa síðu og sá þá eftir að hafa ekki vitað af henni fyrr, því þá hefði ég sent þangað miða sem ég "fann" úti í BNA. Einn daginn á heimavistinni minni hékk nefnilega skemmtileg ábending á hurðinni inn á kvennaklósettið. Hún var skrifuð með feitum, svörtum tússi og þar stóð:

"DON'T LEAVE YOUR (USED) CONDOMS IN THE SHOWER BITCHES!!"

Ég klikkaði hisnvegar á því að hirða þetta. Á hinn bóginn hirti ég eina af mörgum varúðartilkynningum sem héngu víða á campus, þar sem birt var mynd og lýsing af alræmdum perverti sem fróaði sér fyrir utan glugga á einni heimavistinni. Það blað hangir hinsvegar á ísskápnum heima á Freyjugötu og ég er ekki viss um að ég tími að senda það frá mér, enda er myndin af gaurnum óborganleg.
Svo er gaman að því að fundur dagsins í dag virðist vera eignaður Íslendingi, allavega heitir hún Lara Bjork.

Annars setti ég um daginn síðustu myndirnar frá Minnesota inn á myndasíðuna. Á næstunni stendur svo til að setja inn myndirnar frá Las Vegas, L.A. og San Fran.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Láta vita af sér

Já ég er sem sagt komin heim, og byrjuð í báðum vinnum með helgarvaktir í rigningunni og júnígrámyglunni. Hversdagslífið er sem sagt tekið við og ég óttaðist að það yrði eins og löðrungur í andlitið, eftir hálfs árs frí frá raunveruleikanum, en það hefur bara verið notalegt og gott.

Önni kom til mín þann 17.maí, þá var ég búin að stokka upp herberginu mínu eftir brotthvarf herbergisfélagans, og mér tókst bara að gera það mjög heimilislegt. Og ekki þótt mér leiðinlegt að skipta herbergisfélaganum út fyrir Önna. Það var mér líka mikils virði að hann fengi að kynnast vinum mínum. Þá getur hann allavega verið aðeins með á nótunum þegar ég byrja á öllu “sko þegar ég var í Amríkunni....” röflinu. Hann fékk svo að feta í fótspor mín um tvíburaborgirnar (en þau lágu einna helst á staðinn Chino Latino í Uptown Minneapolis þar sem fæst syndsamlegt súkkulaðieldfjall.)

Loks var svo komið að því að kveðja Hamline með trega, en mér fannst það nú samt alveg tímabært, enda lítið við að vera þar lengur. Auk þess áttum við spennandi ferð fyrir höndum. Ég ætla nú ekki að rekja ferðasöguna í smáatriðum, en leiðin lá sem sagt frá Minneapolis til Las Vegas, þaðan til L.A. með flugi og svo með Greyhound yfir nótt til San Francisco. Þar vorum við í 6 nætur, auk tveggja daga í Napa Valley, þangað sem við ókum með bílaleigubíl og gistum eina nótt. Við náðum því að taka ágætis Californiu-rúnt með smá viðkomu í Nevada og tókst mér þannig að fara til sex fylkja í þessari sex mánaða heimsókn minni til Bandaríkjanna.

Við vorum 5 daga í Los Angeles og áttum þar stefnumót við Pablo, Jantien og Elise, vini mína úr Hamline. Saman skemmtum við okkur vel á ströndinni, í Hollywood og á veitingastöðum L.A. og ekki síður á spjalli með hausklóru inni á hótelherbergi. Gleðin endaði svo öll snögglega með afar dramatískri kveðjustund á brautarpalli, og var það mín fyrsta kveðjustund við slíka kringumstæður.
Ef ég á að bera saman þessar tvær borgir, þá trónir San Fran hátt yfir L.A. Sú síðarnefnda er svo sem ágæt, og verð heimsóknar, en ekki myndi ég vilja búa þar. Þeim sem hyggja á ferðalag þangað myndi ég ráðleggja að gista í Santa Monica frekar en í Hollywood, þar sem við vorum, allavega ef vilji er fyrir að kíkja á ströndina. Það er ekki svo margt að sjá í Hollywood, og West-Hollywood er heldur ekki nema í meðallagi áhugavert hverfi. Strandhverfin eru fallegri.

SF er mun notalegri og skemmtilegri, enda kannski ekki nema von þar sem töluverður stærðarmunur er á borgunum. Í SF gistum við á frábæru hóteli á North Beach, sem er ítalska hverfið í SF. Þar hangir hvítlaukslykt í loftinu, enda langar raðir af ítölskum veitingastöðum, þar sem einungis ítalskir þjónar vinna. Einn af hápunktum SF dvalarinnar var svo að sjálfsögðu kvöldstundin í Alcatraz, sem er magnaður staður.
San Francisco er eiginlega í uppáhaldi af viðkomustöðum mínum í Bandaríkjunum. Reyndar er erfitt að gera upp á milli NY og SF, en ef ég þyrfti að velja myndi ég heldur vilja búa í SF. Borgin sjálf er fjölbreytt en samt notaleg, en svo er líka stutt í ótrúlega fjölbreytni í land-og loftslagi.

Og svo er maður bara kominn heim; góðum vinum, ljúfum minningum, þúsundum mynda og 10 skópörum ríkari.

Stuttu eftir heimkomuna fór mig að klæja í fingurna af löngun til að hitta (íslensku) vini mína. Þau reyndust vera mjög spennt að hitta mig líka og kom fljótt í ljós að þau höfðu staðið í þeirri trú að við Önni værum með einhverja tilkynningu. Þá hafði einhver (líklegast Sturla bróðir minn) spunnið það upp, og síðan vatt þetta upp á sig þar til fólk var byrjað að halda neyðarfundi á msn til að kryfja þetta áhyggjumál. Ekki voru þau tilbúin að trúa því að við hefðum snúist á rönguna og trúlofað okkur, og ólétta gat varla gengið upp tímalega séð. Þessi skröksaga olli því miklum heilabrotum að því er virðist, en við Önni komum alveg af fjöllum þegar við vorum spurð og þurftum að valda þeim létti/vonbrigðum, því við höfum enga tilkynningu. Nema kannski þá að við höfum líklega aldrei verið glaðari með hvort annað, en það er nú varla fréttnæmt.

mánudagur, maí 15, 2006

Kaninn

Í veru minni hér hef ég ekki komist í kynni við marga afspyrnu heimska, þröngsýna, þjóðerniskennda og fordómafulla Ameríkana. Neikvæðu stereótýpuna sem sagt. Þrátt fyrir það hafa margir bandarísku krakkana hérna beðið mig að afsaka landa þeirra og hvað þeir séu lélegir. Þau virðast mörg sjá Evrópu í þvílíkum dýrðarljóma og langar að flytja þangað til að komast burt frá sínu eigin, óvirðingarverða landi. Ef þeim er sagt að þau líti ekki út fyrir að vera "typically American" eru þau mjög þakklát og stolt. Það er nú svolítið leiðinlegt fyrir þau greyin að vera í svona miklum mínus yfir þjóðerni sínu.

Reyndar getur verið að ég sé að kynnast ákveðnum hópi bandarískra krakka, sem eru kannski ekki málsvari þeirra allra. Það virðist t.d. vera að þeir sem ég kynnist hafi öll ferðast út fyrir Bandaríkin í lengri eða skemmri tíma, oftar en ekki í námsferðum. Þau virðast sækja meira í að kynnast okkur skiptinemunum, á meðan öðrum virðist standa nett á sama.

En mér finnst ég allavega þurfa að gefa þeim smá kredit. Það er fullt af frábæru fólki hérna og þau ættu alls ekki þurfa að vera sífellt að afsaka sig fyrir Bandaríkin. Ég kom nú einu sinni hingað af fúsum og frjálsum vilja og löngun.

Að sama skapi fannst mér hinar Evrópsku stelpurnar líka vera óþarflega neikvæðar gagnvart Bandarísku samfélagi, sérstaklega til að byrja með. Jú,jú það er gaman að snúa bökum saman og gera svolítið grín að þeim, en almennt þykir samt sjálfsagt að sýna lágmarksvirðingu þegar maður er í ókunnugu landi. Þó virðist annað sé uppi á teningnum þegar kemur að Bandaríkjunum. Vegna þess að þau eru stórveldi býst ég við, þá er í lagi að vera endalaust neikvæður og gagnrýninn á minnstu smáatriði í þeirra menningu. Ég varð stundum þreytt á því hvað stelpurnar (þær hollensku fyrst og fremst) gátu velt sér upp úr klæðaburðinum, matarvenjunum og hvað þau væru nú öll ljót og feit.

Snemma í febrúar eyddum við heilum tíma í fjölmiðlakúrsinum í að tala um Múhameðsmyndirnar og meðhöndlun fjölmiðla á þeim. Eftir tímann fór Jantien mikinn í yfirlýsingum um hve heimskir bekkjarfélagar okkar væru og hvað þau vissu ekkert um heiminn í kringum sig osfrv. Ég skildi ekki hvernig hún gat fengið það út, eða leyft sér að segja þetta, því hún var sú eina í bekknum sem hafði aldrei heyrt minnst á þetta mál og vissi ekkert um hvað það snérist. Nokkrum vikum seinna kom líka í ljós að hún vissi ekki hver Condoleezza Rice er. Þetta er náttúrulega þvílík hræsni; ef þú lætur svona grundvallarhluti fara fram hjá þér, þá hefurðu ekki efni á því að fordæma fávísi annarra. Jafnvel þótt þeir séu Kanar og allir hafi, að því er virðist, veiðileyfi á Kanana.

Ég fordæmi því þessa hegðun og bið Guð almáttugan að blessa Bandaríkin; land hinna frjálsu og heimili hinna hugrökku.

mánudagur, maí 08, 2006

Útlendingurinn

Stundum finn ég fyrir því að það háir mér í skólanum að vera útlendingur. Í fjölmiðlakúrsinum til dæmis, í síðustu viku, var kennarinn að segja sögu af því þegar hann var að snapa viðtöl í einhverri ákveðinni götu, í ákveðnu hverfi, og sá þar vissan mann sem bekkurinn greinilega kannaðist við. Þetta voru víst ógurlega sniðugar kringumstæður af viðbrögðum bekkjarins að dæma, en við Jantien og Elise vorum algjörlega út úr og vissum ekkert um hvað var verið að tala. Í þessum kúrsi eigum við líka að láta okkur detta í hug “Story Ideas” sem við vinnu síðan með og skrifum greinar um. Þema kúrsins er “Race and Ethnicity in the Media” og eiga verkefnin því að vera greinar um kynþáttatengd efni, staðbundin við Minnesota og helst tvíburaborgirnar. Það reyndist erfiðara en ég hélt að fá hugmyndir sem eru bæði áhugaverðar (að mati kennarans) og framkvæmanlegar (að mínu mati). Ég vil helst forðast að þurfa að taka strætó í hinn enda borgarinnar til að taka viðtal við eitthvað fólk, en hver grein þarf að hafa a.m.k. 3-5 heimildamenn. Til að fá hugmyndir fletti ég í gegnum hin og þessi “minnihlutablöð”; African Tribune, Hmong Times osfrv. Þegar ég heyrði svo hugmyndir hinna í bekknum var það alltaf eitthvað alveg nýtt fyrir mér, sem ég vissi ekkert um; allt frá hindúa og múslima sem ráku sameiginlega kaffihús og rakarastofu, til sérstakra skóla sem verið var að stofna fyrir S-Ameríska innflytjendur, eða gagnfræðiskóla í einhverju úthverfi sem hafði bannað að rapptónlist væri spiluð á skólaskemmtunum. Ég átti nóg með að taka litla háskólasamfélagið inn, hvað þá allt kynþátta-makrókosmóið í Minnesota.

Síðasta grein sem ég skilaði inn var innblásinn af herbergisfélaga mínum. Hún vann sem sjálfboðaliði í athvarfi fyrir heimilislausar fjölskyldur, og sagði mér að þangað leituðu nánast eingöngu svertingjar. Á tímabili sá ég mjög eftir því að hafa lagt þess hugmynd fram, því kennaranum mínum leist mjög vel á hana og vildi að sjálfsögðu að ég færi í athvarfið og tæki viðtöl. Það gekk nú samt ágætlega eftir allt saman, þótt ég hafi verið stressuð fyrirfram. Athvarfið var í kjallaranum á kirkju í St.Paul og óneitanlega skar ég mig úr hópnum þar, en ég fékk að taka viðtal við heimilislausa fjölskyldu sem kom hingað frá St.Louis, og uppskar A fyrir verkefnið.

Nú er síðasta verkefnið framundan og á það að vera aðeins umfangsmeira en hin. Ég ákvað að vera sniðug og reyna að sameina það lokaverkefninu mínu í Sex & Sexuality til að spara tíma, en það er í tengslum við MOAPPP, þar sem ég var sjálfboðaliði, og fjallar um háa fæðingartíðni meðal Latino-unglinga í Bandaríkjunum. Nema kennarinn vill náttúrulega að ég taki viðtöl við latino táningsmæður svo greinin verði almennileg. Svo ég hef verið að reyna að koma því í kring, en það hefur ekki gengið vel. Hingað til hef ég bara náð viðtali við lækna og starfsfólk á klíníkstofum fyrir latino stelpur, en það gengur hægt að redda viðtali við stelpurnar sjálfar. Síðasta föstudagsmorgun vaknaði ég meira að segja klukkan sex til að fara á ráðstefnu í Minneapolis um táningsmæður, en hafði lítið upp úr því námslega þótt ráðstefnan væri áhugaverð (og góðar möffins í boði líka). Svo ég hef verið að reyna að hringja í fólk til að koma á fundi með einhverjum unglingsstelpum, og símafóbían mín hefur ekkert skánað, sem þýðir að ég þarf þvílíkt að peppa mig upp fyrir hvert símtal.

Ég get líka ekki að því gert að mér finnst hálfóþægilegt að taka svona viðtöl, því mér finnst ég vera að þröngva mér upp á fólkið og velta mér upp úr vandamálum þeirra. Þannig leið mér t.d. varðandi athvarfið fyrir heimilislausa. Fólkið þar hafði ekkert upp úr því að veita mér viðtal, það er ekki eins og saga þeirra verði birt eða þau græði nokkuð á því að eyða tíma sínum í skólaverkefnið mitt.

Allavega. Kjarninn er sá að það háir mér ekkert stórkostlega að vera útlendingur hérna, en ég finn samt stundum fyrir því varðandi svona lítil atriði sem ég hugsaði ekki um fyrirfram. Og það eru einmitt þau atriði sem fólkið hérna gerir sér ekki grein fyrir að eru mér erfið eða óskiljanleg, vegna þess að þau eru svo vön því úr sínu daglega umhverfi. Það er eins með sumt heima á Íslandi, hlutir sem maður er svo vanur að maður fattar ekki að þeir eru öðrum framandi. Jantien hefur til dæmis aldrei á ævi sinni farið í heitan pott. Votts öpp viþ ðat? Er til sá Íslendingur sem aldrei hefur stigið fæti í heitan pott?

Jæja ég er byrjuð að þvaðra, best að fara í bælið.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Star-struck

Í kvöld var frumsýning í St.Paul á kvikmyndinni A Prairy Home Companion, en hún var að stórum hluta tekin hér. Sýningin sjálf var náttúrulega lokuð almenningi, en aðstandendur myndarinnar, þar á meðal nokkrar aðalstjörnurnar, riðu á hestvögnum í gegnum miðbæinn að rauða dreglinum áður en sýningin byrjaði og við Elise, Jennifer og Pablo ákváðum að kíkja niður í bæ til að sjá.
Þetta var heilmikill hasar og gaman að verða vitni að alvöru Hollywood-dæmi svona einu sinni.
Við náðum líka nokkrum ágætismyndum af fræga fólkinu; Lindsay Lohan var þarna, Kevin Kline, Lily Tomlin (hana hef ég aðallega séð í sjónvarpsþáttum; Fraiser, Will&Grace og The West Wing) og John C. Reilly (Chicago, The Aviator, Gangs of New York ofl). Skemmtilegast fannst mér þó að sjá Meryl Streep, hún var mjög glæsileg og flott að vanda, og deildi út rósum til fólks í vegkantinum. Kevin Kline er orðinn mjög gráhærður, en hann var meiri sjarmör en mig minnti að hann væri, myndarlegur maður.

Þegar djúsí stöffinu var lokið á rauða dreglinum fórum við á Mickey's Diner , klassíska hamborgarabúllu, þar sem myndin var m.a. tekin upp. Þetta er svona svipaður staður eins og litli veitingavagninn þar sem E.R. fólkið borðar alltaf í sjónvarpsþáttunum. Þar fékk ég mér tvöfaldan ostborgara og hvorki meira né minna en kláraði hann, sem er persónulegt afrek. Enda var Önni ekki á staðnum til að aðstoða mig, svo ég neyddist til bretta upp ermar.
En þetta kvöld var sem sagt skemmtilega all-American.

Restin af myndunum kemur seinna, en á myndasíðunni eru samt nýjar myndir frá aprílmánuði.

sunnudagur, apríl 30, 2006

Global Jam

Í gærkvöldi var svokallað Global Jam hérna á campus, þar sem boðið var upp á veitingar, "tísku"sýningu með þjóðbúningum víða að úr heiminum og ýmis skemmtiatiði, þjóðdansar ofl. Sem sagt óskaplega fordómalaust og fallegt, allir vinir. Jæja ég var reyndar óþarflega neikvæð fyrir þessu fyrirfram, mér fannst þetta hljóma svo hallærislegt eitthvað, en svo reyndist þetta bara vera skemmtilegt.
Meðal skemmtiatriða var hálfnakinn maður frá Ghana, sem spilaði æsifengið á stórar afrískar trommur og dansaði með prik um sviðið. Þegar hann hafði lokið sér af útdeildi kynnirinn, sem var Pravesh kunningi minn frá Máritíus, verðlaunum eins og gert var nokkrum sinnum milli atriða. Í þetta skipti sagði hann að verðlaunin hlyti hver sá sem talaði fleiri en 4 tungumál. Þetta fór reyndar alveg fram hjá mér þar sem ég var ekki að hlusta, en áður en ég vissi hvað var að gerast var Pablo búinn að toga mig upp á svið segjandi að ég kynni 6 tungumál. Ég tek það alltaf fram að þótt ég hafi lært 6 tungumál þá tali ég þau ekki reiprennandi, en hvað um það. Til að sýna fram á þetta var ég beðin að segja eitthvað á öllum tungumálum áður en ég fengi verðlaunin (sem voru nauðaómerkilegur órói.)

Stuttu eftir að ég var sest niður aftur var pikkað í öxlina á mér. Ég sneri mér við og þar stóð trommuleikarinn frá Ghana, ennþá hálfnakinn og kófsveittur eftir dansinn, og segir

"Snakker du dansk?"

Kom þá í ljós að hann hafði búið flutt frá Ghana til Vesterbro í Köben og búið þar lengi áður en hann kom til Bandaríkjanna fyrir 5 árum með kærustunni sinni. Þarna fékk ég því óvænt tækifæri til að æfa dönskuna mína aðeins, og við spjölluðum í góða stund. Svo bað hann mig reyndar um símanúmerið mitt og ég lét hann fá herbergisnúmerið, en ég veit nú ekki hvort ég stefni á frekari samskipti við hann.

föstudagur, apríl 28, 2006

South Dakota II

Ég setti myndir inn frá ferðinni inn á myndasíðuna mína fyrir töluverðu síðan en uppfærði aldrei linkinn; áhugasamir geta fundið þær hér.

Þegar við ákváðum að fara til South Dakota brást fólk oftast mjög undrandi við og spurði okkur hvað í ósköpunum við ætluðum eiginlega að gera þar. Ætli sé ekki eins alls staðar, ég á stundum bágt með að skilja að túristum skuli finnast spennandi að gista á Skagaströnd, eða Höfn í Hornafirði osfrv. South Dakota er ekki spennandi áfangastaður í augum bandarískra skólafélaga minna hér, en fyrir útlendinga á framandi slóðum horfir það öðru vísi við. Og South Dakota var framandi um margt, en þó svo kunnuglegt um leið, eins og Bandaríkin eru almennt. Þessi helgi reyndist vera algjör snilld í alla staði og við skemmtum okkur rosalega vel.

Mér fannst áhugavert að sjá breytinguna á milli fylkjanna. Reyndar hef ég ekki mikla reynslu af menningu Minnesota utan borgarlífsins, sem er kannski ekki sambærilegt við dreifbýli SD, en mér fannst ég nú samt sjá breytingu á fólkinu og umhverfinu, og svo náttúrulega landslaginu. Framan af var landslagið ekki merkilegt; endalausar sléttur og sveitabýli. Þá var þeim mun skemmtilegra að fylgjast með skiltunum sem stóðu með fram veginum og auglýstu ótrúlegustu hluti. Þegar komið var yfir fylkjamærin fórum við líka að verða varar við meiri trúrækni og íhaldssemi, eins og sjá má á nokkrum myndum hjá mér.

Ég hef heyrt að það sé lífsreynsla að keyra frá Nevada yfir til Utah, því að þar verði maður mjög var við menningarmuninn milli fylkjanna. Nevada er eina fylki Bandaríkjanna þar sem vændi er löglegt, og er það víst auglýst alls staðar þar sem hægt er að auglýsa. Utah er hinsvegar heimafylki mormónanna og er öllu íhaldssamara, og er munurinn víst merkjanlegur á skiltunum um leið og keyrt er yfir fylkjamærin.

Mér leiddist alls ekki í bílnum á leiðinni. Í fyrsta lagi hafði ég 4 skemmtilegar stelpur frá jafnmörgum löndum til að spjalla við og hlæja með. Í öðru lagi fannst mér gaman að horfa út um gluggann og ímynda mér að ég væri Laura Ingalls á leið yfir sléttuna í vagninum. Ég tætti Lauru Ingalls bækurnar í mig þegar ég var lítil, las þær allar a.m.k. þrisvar, og þótt svo hún hafi held ég búið lengur í Minnesota en í South Dakota, þá fannst mér ég virkilega vera komin inn í söguheiminn þarna.

Fyrir utan Lauru Ingalls bækurnar þá hafði ég alla mína vitneskju um þetta svæði úr Andrésblöðum og Lukku Lákabókum. South Dakota er að mörgu leyti stereótýpískt fyrir villta vestrið, þótt vagga þess hafi kannski legið aðeins vestar í Wyoming, Montana og Idaho held ég. South Dakota var samt heimili Villta tryllta Villa og Svölu Sjönu, sem eru villta vesturs selebrití samkvæmt mínum bókum. Ég fræddist um þau aftast í Lukku Láka, þar sem var alltaf lítill kafli með smá sögulegum upplýsingum um uppruna teiknimyndapersónanna.

Okkur tókst að sjá margt og skemmta okkur vel, eins og ætti að komast til skila á myndunum. Ég held það sé enginn tilviljun að Bandaríkin séu svona tengd við road trip í huga manns, það er ótrúlega skemmtilegt að keyra hérna um enda margt að sjá, bæði merkilegt og smávægilegt. Eiginlega er maður hálffatlaður hérna án bíls, ég sé það betur núna eftir að við fengum smá nasaþef af frelsinu sem fylgir bílnum. Ég hefði ekkert á móti því að ferðast víðar um Bandaríkin með þessum hætti.

mánudagur, apríl 24, 2006

Námið

Í síðustu viku hélt ég fyrirlestur í Sex and Sexuality kúrsinum sem ég er að taka. Yfirskriftin var "Pornography: Not for Men Only" og nú er einkunnin komin í hús; A með 14,5 stig af 15 mögulegum og umsögnin:

"Excellent work Una. You were well organized and prepared. Your presentation of the Valverdo article was very good. You provided a clear overview and then got the class engaged in thinking through the differences between pornography and erotica. I was especially glad to see you critique the article and bring in your own opinion, as well as a bit of sociolinguistics (e.g. in analyzing the corruption of language). Your use of PowerPoint was very effective as were your discussion questions, which were particularly insightful and engaging. Your search engine research was terrific, as was your inclusion of feminist pornographers, such as Candida Royale. Beautiful work overall!"

Jesssss ég rúla þennan skít. Mér hefur almennt fundist fólkið í þessum kúrs vera frekar lélegt í að flytja fyrirlestra. Þau velja leiðinlega nálgun á viðfangsefnið og fara of ítarlega í bókina án þess að færa fram neinar nýjar upplýsingar, umræðuspurningarnar eru óáhugaverðar og auk þess flutningurinn sjálfur ekki til þess fallinn að halda athygli manns. Sem dæmi má nefna að rúmlega hálfur bekkurinn hafði flutt sinn fyrirlestur þegar kom að mér, en ég var samt sú fyrsta til að notast við PowerPoint. Ég hugsaði mér því auðvitað frá upphafi að gera miklu betur en hinir, en svo þegar nær dró þá tímdi ég nú ekki að eyða of miklum tíma í þetta frá félagslífinu. Samt sem áður var ég ánægð með afraksturinn.

Nú er lokaspretturinn hérna að nálgast. Næstu 2 vikur eru action-packed námslega séð, sérstaklega þar sem ég hef takmarkað lærdóminn algjörlega við það nauðsynlegasta; að skila verkefnum á tilskyldum tíma og ekkert umfram það. Eflaust verður þetta því eitthvað basl hjá mér en mér er svona nett sama, hingað til hef ég verið með fínar einkunnir svo eitthvað mikið þarf til að ég falli held ég. Og tæknilega séð þarf ég ekki meira en það, því einkunnirnar sjálfar koma ekki inn í meðaltalið mitt við HÍ, heldur kemur aðeins fram staðið/fallið. Auðvitað er samt alltaf skemmtilegra að standa sig vel...en það er samt skemmtilegast að nýta þennan stutta tíma sem ég hef hérna í allt annað en lærdóm.

Beygingarmynd dagsins: Fuðruðuð

föstudagur, apríl 14, 2006

South Dakota

Á morgun er föstudagurinn langi, eða Good Friday eins og hann heitir á enskunni, einhverra hluta vegna.
Af því tilefni er frí í skólanum, og er það eina páskafríið sem við fáum hérna. Enda á víst að heita að hér séu ríki og kirkja aðskilin, þótt það vilji gjarnan gleymast.
Okkur stelpunum langaði að nýta þessa þriggja daga helgi sem best, enda mikill ferðahugur í okkur. Eftir stutta umhugsun ákváðum við að stefnuna skyldi haldið til South Dakota, þar sem okkur langar að sjá hið sérkennilega mannvirki Mt.Rushmore. Við fyrstu sýn mætti halda að ekkert annað væri að sjá í þessu djúprauða repúblikanafylki, en það fer allt eftir því að hverju maður er að leita. Minnisvarðinn sjálfur stendur í Black Hill þjóðgarðinum, þar sem gæti verið gaman að ganga aðeins um og þarna má líka finna vísundahjarðir og "The Badlands", sem aðdáendur Jóakims Aðalandar ættu að muna eftir. Svo er þarna í vinnslu minnisvarði um Sioux Indíánan Crazy Horse, og fleira villta-vesturs tengt. Okkur ætti því ekki að leiðast á þessu þriggja daga ferðalagi, en til öryggis tökum við samt með nokkrar vínflöskur.
Við leigjum okkur bíl og keyrslan verður ca. 8-10 tímar hvora leið fyrir sig, þannig að þetta gæti mögulega kallast dverg-roadtrip. Þetta verður eitthvað.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Hejsan, hopsan, fallerallera!

Yfir kvöldmatnum í gær komu tveir strákar að borðinu okkar, annar þeirra kunningi Hil-May að nafni Simba. Sá spurði Hil-May hvar stelpan frá Íslandi væri og hún benti á mig. Þá var sem sagt félagi hans þarna með honum sænskur, grad-student hérna við Hamline og langaði til að hitta mig af því ég er íslensk. Mér fannst gaman að hitta hann líka, hann er fyrsti Skandinavinn sem ég hitti hérna og hann vildi líka vita hvort fleiri skiptinemar væru komnir frá Norðurlöndunum. Við spjölluðum góða stund.
Þegar út var komið snéru Hil-May og Elise sér að mér hneykslaðar og lýstu þeirri skoðun sinni að þeim þætti furðulegt að þessi Svíi skyldi láta svona; "Hey ertu frá Íslandi? Ég er frá Svíþjóð, verum vinir!" og gera ráð fyrir að það væri einhver sérstök tenging okkar á milli. Þær spurðu mig hvort mér hefði ekki fundist þetta fáránlegt og skrýtið.
En mér fannst það alls ekki, heldur þvert á móti mjög sjálfsagt og eðlilegt. Ég hef hugsað um það áður að mér hefði þótt gaman ef hér væru nemar frá Norðurlöndunum, sérstaklega hefði ég viljað kynnast Dana, svo ég gæti nú æft mig aðeins í dönskunni. Ég útskýrði fyrir stelpunum að tengingin á milli Norðurlandaþjóðanna væri mjög sterk og að við fyndum til samkenndar, sem útskýrði þessi vinahót okkar. Ahh hver elskar ekki pan-skandinavisma?

Svo er rétt að geta þess að hér hefur verið 25° hiti undanfarna 3 daga. Það er ljúfa lífið.

mánudagur, apríl 10, 2006

Sambúðin

Nú er ég orðin leið á því að hafa herbergisfélaga. Það er svo sem ekkert sem breyst hefur í hennar fari, hún er alltaf jafn ágæt, en þetta er farið að reyna á þolinmæðina hjá mér. Framan af lét ég samvistina ekki fara í taugarnar á mér og leit þetta allt saman jákvæðum augum, en undanfarið þarf lítið til að ég verði pirruð. Hún er til dæmis alltaf talandi í símann, með háum, hvellum rómi, oftar en ekki að rífast. Kannski er ég óþarflega smámunasöm, en mér finnst málrómurinn pirrandi og líka hvernig hún segir hlutina. Þá set ég upp headfóninn og skrúfa tónlistina upp, en heyri nú samt hæstu tónana í gegn.
Sjálf hlustar hún mjög mikið á tónlist líka, en ólíkt mér þá notar hún sjaldnast headfón heldur spilar hana í litlum hátölurum sem eru tengdir við tölvuna. Hljómgæði hátalaranna eru mjög slök og þess vegna verður tónlistin að stanslausu, mónótónísku suði í mínum hluta herbergisins. Ég er því þakklát fyrir þögnina þegar hún er í burtu. Sérstaklega átti það við fyrir vorhléð, þegar enn var frost úti, því þá vildi hún alltaf hafa rakatæki í gangi. Ég var að verða geðveik á þessu djöfulsins rakatæki, því það voru þvílík læti í því, einhver vifta sem suðaði endalaust, auk þess sem ég get svarið að það gerði ekkert gagn. Ég prófaði að standa yfir því með höndina á ristinni og fann ekki að loftið sem kom út væri nokkuð rakara en andrúmsloftið var fyrir.
Stundum stend ég mig meira að segja að því að pirra mig á því hvernig hún sefur. Í fyrsta lagi býr hún aldrei um rúmið sitt, en ég bý alltaf um mitt. Í öðru lagi þá er rúmið hennar eins og eitthvað rottubæli. Hún sefur með a.m.k. 4 teppi í hrúgu ofan á sér og liggur oftar en ekki á maganum með teppinu yfir höfðinu og lappirnar standandi út úr. Svo sefur hún í hvítum sportsokkum, sem eru skítugir, og í þykkum íþróttabuxum og bol. Ókei, ég get kannski ekki beint ætlast til þess að hún kaupi sér smekkleg náttföt, en þetta er svo ólystugt eitthvað. Það hefur komið fyrir að ég kem heim seint á kvöldin og er ekki viss hvort að hún er heima eða ekki, því það er erfitt að ráða í hvort hrúgaldið í rúminu sé á lífi eða ekki. Þá pota ég stundum í það þar til ég finn fyrir einhverju sem gæti verið fótur, og veit að þá þarf ég að ganga hljóðlega um.
Um daginn sat hún við tölvuna og borðaði pretzel-salthringi, sem hún dýfði ofan í jarðaberjajógúrt. Og hváði þegar ég sagðist aldrei hafa bragðað þessa samsetningu.
Svo fæ ég samviskubit þegar ég hryn inn um dyrnar, hlaðin pokum eftir enn einn verslunarleiðangurinn, því ég veit að hún er "anti-consumerist". Fyrir utan náttúrulega að vera grænmetisæta, án þess að það komi málinu beint við.

En svo ég sé sanngjörn þá er hún alltaf mjög vinaleg (þótt það fari í taugarnar á mér að vera alltaf spurð "how's your day been so far?" í hvert einasta skipti sem hún kemur inn). Stundum höfum við spjallað lengi fram eftir, þegar við erum á leiðinni í rúmið og það er ágætt að tala við hana. Almennt kemur okkur mjög vel saman, en það er ekki líklegt að hún hefði nokkurn tíma orðið neinn sérstakur vinur minn, ef okkur hefði ekki verið raðað tilviljunarkennt saman í herbergi. Sem betur fer er hún sjaldnast hérna um helgar, því þá fer hún til kærustunnar, en nýverið hefur reyndar dregið úr því, þar sem hún er nýbyrjuð í frjálsíþróttaliðinu. Það kom nefnilega í ljós að hún er íþróttamanneskja eftir allt saman, því hún æfði kúluvarp í highschool, og hefur nú tekið upp þá iðju á ný. Ég gat nú ekki annað en flissað þegar ég komst að því að hún væri kúluvarpari; gamla stereótýpan.

En ég ætla nú að reyna að sýna þroska og allt það og vera þolinmóð það sem eftir lifir sambúðarinnar. Samt sem áður vona ég að hún hypji sig sem fyrst þegar skóla lýkur, svo við Önni getum haft herbergið útaf fyrir okkur.

Beygingarmynd dagsins: Hlegnar

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Hic Habitat Felicitas

Einu sinni þegar ég var lítil fór ég í tíma í Heimspekiskólanum á afmælisdaginn minn og allir sungu afmælissönginn fyrir mig. Ég hef líklega verið 6 ára og ég man að ég fór svo hjá mér að ég fór að reima skóna mína á meðan sungið var.

Í þetta skiptið var afmælið mitt ekkert vandræðalegt heldur bara ánægjulegt. Þetta var þriðja afmælið í röð í litla hópnum okkar hérna, áður hafa Elise og Pablo átt afmæli, og venjan er að byrja fögnuðinn á miðnætti kvöldið áður. Sami hátturinn var hafður á núna, ég bauð til Ben& Jerry ísveislu og opnaði tvær afmælisgjafir. Ég fékk nefnilega pakka að heiman þann þriðja, frá Hönnu Rut og Ásdísi Eir og það var afskaplega gaman. Upp úr pakkanum kom íslenskt nammi; kúlusúkk og rjómakúlur, ásamt doppóttum bol og silkiklút. Þegar ég opnaði pakkann hváði Elise

“My gosh, your friends know you really well!”

Enda hafði ég nýlega sagt henni hvað ég væri hrifin af “polkadots.” Íslenska nammið fékk misjafnar undirtektir. Fólki fannst rjómakúlurnar ágætar en kúlusúkkið var ekki vinsælt. Hérna borðar fólk almennt ekki lakkrís, hvað þá súkkulaðihúðaðan lakkrís, og þetta bragð var því voðalega framandi fyrir þau. Ég hef því setið ein að kúlusúkkinu og borðaði einmitt allt of mikið af því í kvöld, svo nú er mér illt í maganum. Takk samt stelpur!
Ég fékk svo útskrifað afmælikort frá vinum mínum hérna, og gjafakort í Victoria’s Secret fyrir 50$. Þau þekkja mig ágætlega hérna líka held ég.

Daginn eftir, á sjálfan afmælisdaginn, þurfti ég reyndar að sitja í tíma um kvöldið. Að honum loknum fórum við samt stelpurnar á Grand Avenue og fengum okkur kökur og nokkra cosmopolitan og töluðum um stelpulega hluti á stelpulegan hátt, sem er alltaf skemmtilegt. Nú, svo fékk ég líka kort frá Snæbirni og Elínu Lóu, sent frá Brasilíu og þótti mér það góð tímasetning að það skyldi skila sér akkúrat á afmælisdaginn minn. Síðast en ekki síst var veðrið líka frábært, í gær og dag hefur verið á bilinu 17-19 ° hiti og má því með sanni segja að vorið sé komið.

Þetta var því mjög skemmtilegt í alla staði og ég lagðist hamingjusöm til svefns.
Takk öllsömul fyrir afmæliskveðjurnar, mér þykir vænt um ykkur öll.

Myndir frá síðustu viku eru komnar inn á myndasíðuna.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Vandræðaleeeegt!

Rétt áðan tók ég eftir því að fyrir neðan linkalistann minn (og nýja æsispennandi veðurfídusinn sem ég bætti við um daginn) þar sem er listi yfir nýjustu færslurnar hjá mér, var innsláttavilla. Þar stóð "Undanfarnar færlsur" í stað færslur. Nú eru örugglega liðin tvö ár síðan ég breytti útlitinu á síðunni síðast og hefur þetta því væntanlega staðið þarna jafnlengi. Hefur enginn tekið eftir þessu? Ekki ég allavega.

Annars held ég að vorið sé komið fyrir víst hérna í Minnesota. Þessa vikuna hefur verið um 15° hiti og hlý gola. Reyndar var veðrið svona um daginn líka og daginn eftir var snjóstormur, svo maður veit aldrei. Misserið er hálfnað, sem er skuggalegt. Tíminn líður óskaplega hratt og ég harma það en fagna því um leið. Annars vegar hlakka ég mikið til að hitta Önna og fara til Californiu, en á hinn bóginn finnst mér leiðinlegt hvað þetta litla ævintýri mitt stendur stutt yfir. Ég hef enga sérstaka löngun til að snúa aftur til hversdagslífsins heima. Maður hefði kannski haldið að þetta tímabil myndi svala þorstanum til ferðalaga um stund, en þvert á móti hefur það kveikt löngun til frekari tilraunastarfsemi í útlöndum. Verst að allt skuli þurfa að kosta pening.
Ég vona að mér takist að halda sambandi við einhverja af þessum krökkum sem ég hef kynnst hérna. Ég veit að meirihluta þeirra á ég aldrei eftir að sjá eða heyra aftur þegar ég fer, en ég ætla að reyna að vinna í því að viðhalda vináttu við þessi helstu.
Annars ætla ég að hætta að hugsa um að þessu ljúki öllu á endanum og einbeita mér frekar að því að njóta þess á meðan það varir.
New York


New York er stór og mikil borg. Og skemmtileg. Og lífleg. Þar eyddi ég sex dögum og ég veit fyrir víst að þangað mun ég fara aftur fyrr eða síðar. Mikið er ég nú fegin að ég tók þá ákvörðun að fara þangað, ferðin var afskaplega vel heppnuð og ég hefði ekki viljað snúa aftur til Íslands án þess að hafa heimsótt New York.

Pablo reyndist vera frábær ferðafélagi og kom okkur mjög vel saman. Fyrirfram bjóst ég við því að við myndum líklega skiljast að allavega hluta ferðarinnar, ef okkur langaði til að gera ólíka hluti. En við skemmtum okkur vel saman og fylgdumst því að allan tímann. Sá misskilningur virðist reyndar hafa komið upp, í kommentakerfinu hér að neðan, að Pablo sé samkynhneigður, en sú er ekki raunin.
Eins og ég hef áður sagt þá fengum við gistingu hjá frænku Pablo, sem býr í Bronx. Hún reyndist vera afar litríkur karakter; talaði takmarkaða ensku en bætti upp fyrir það með því að tala nokkurn veginn stanslaust á spænsku með skerandi rödd og hlátursrokum, ekki ósvipað Fran Drescher í The Nanny.

Íbúðina höfðum við útaf fyrir okkur þar sem frænkan var sjálf að passa annað hús þessa vikuna, og fengum við því að mestu leyti að vera í friði. Þaðan þurftum við að taka strætó í ca.5 mínútur á næstu lestarstöð, þar sem við tókum eina lest beinustu leið niður á Manhattan. Þetta var um 45mín – klst. Ferðalag dags daglega, en mér fannst það ekki koma að sök. Við nýttum ferðatímann til að skipuleggja daginn og ræða um alla heima og geima, auk þess sem það var vel þess virði að fá ókeypis gistingu enda eru hótel í New York dýr.

Við lentum á JFK snemma á mánudagsmorgni og fórum þaðan beint niður í bæ. Ég var yfir mig spennt þegar ég sá skýjakljúfana nálgast og fannst hálfótrúlegt að ég væri raunverulega komin til New York. Við byrjuðum á því að fá okkur kaffi en héldum svo beint út að Frelsisstyttunni, sem mér fannst vera tilvalin sem fyrsti áfangastaður í ferðinni. Þann daginn heimsóttum við líka innflytjendasafnið á Ellis Island, og gengum svo upp að Ground Zero og litum á Wall Street. Um kvöldið borðuðum við á írskum pöbb í Bronx, þar sem Pablo heillaðist af þjónustustelpunni, en íbúðin okkar var í hverfi þar sem bjuggu fyrst og fremst Írar.

Næstu daga heimsóttum við öll helstu kennileitin, versluðum, fórum á Broadway-sýningu og borðuðum á ýmsum veitingastöðum. Ég keypti mér eitt og annað til að vera viss um að geta seinna sagt “Já ég keypti þetta í New York”. Annars verslaði ég ekki mikið því ég sá fljótt að New York er dýrari en Minneapolis, auk þess sem allur fatnaður í Minnesota er tax-free, ólíkt New York.
Eins og svo oft þegar maður heimsækir skemmtilegar borgir, þá naut ég þess mest af öllu bara að ganga um göturnar og vera hluti af mannlífinu. Ég gæti vel hugsað mér að prófa að búa í þessari borg einhvern daginn, New York er einn skemmtilegasti og svalasti staður sem ég hef heimsótt.

Myndasíðan hefur nú verið uppfærð, bæði með nokkrum myndum frá vikunni fyrir vorhlé, auk albúms frá New York ferðinni sjálfri.

mánudagur, mars 20, 2006

A Series of Unfortunate Events

Þetta verður í síðasta skipti sem ég minnist á Grand Canyon hérna enda er ég komin með ógeð á tilhugsuninni um það. Í stuttu máli var ferðinni sem sagt aflýst vegna bílavandræða og vesens. Mikil vonbrigði en lítið við því að gera.
Þá tók við langtímaseta yfir pælingum um hvað væri hægt að gera í staðinn. Það er erfitt að koma sér saman um eitthvað með svona stuttum fyrirvara, í hópi af fólki sem hefur ólíkar langanir og getu. Sumir hafa ekki nógu mikinn pening, aðrir hafa þegar farið alla staðina sem hinir vilja sjá osfrv. Í nokkra stund leit út fyrir að við færum fimm saman til New York en svo var þrefað fram og til baka og niðurstaðan er sú að við Pablo förum bara tvö til New York. Elise og Jantien fara til Las Vegas. Ég íhugaði að fara með þeim, en hinsvegar ætlum við Önni að fara þangað í maí, auk þess sem það er lítið gaman fyrir mig að fara þangað núna þar sem ég er "undir lögaldri", svo Las Vegas býður ekki upp á marga góða kosti fyrir mig. Jennifer er líklega að fara til Jersey að heimsækja skyldmenni og mun kannski hitta okkur Pablo í New York hluta úr ferðinni.

Mér líður mjög skringilega yfir þessu öllu saman. Þetta var algjör skyndiákvörðun, miðaverðið var sífellt að breytast og hækka, frá 260$ í gær upp í 339$ í dag. Við drifum því í að kaupa miða og ekki kom í ljós fyrr en eftir að ég hafði staðfest kaupin, að Jennifer og Jonathan yrðu ekki með í för.
Auðvitað er spennandi að fara til New York, en ég hafði reyndar ætlað að fara þangað hvort eð er í apríl, í algjöra Sex&the City stelpuferð. Það verður víst ekkert úr því núna held ég, og þessi ferð verður allt annars eðlis þar sem við Pablo erum bara tvö. Hann er afskaplega góður og rólegur strákur og okkur kemur vel saman, en mér finnst samt skrýtið að fara ein með honum til New York. Ég hefði frekar viljað fara með stelpunum í apríl, þá væri ég öruggari um að ferðafélagar mínir vildu gera og sjá sömu hluti og ég. Auk þess vildi ég frekar fara núna heldur en að gera ekkert í vorhléinu.

Ég er því pínulítið stressuð yfir því hvernig þetta verður allt saman, en að sjálfsögðu spennt líka. Það verður frábært að skoða New York, og það besta er að ég slepp við allan hótelkostnað þar sem við fáum ókeypis gistingu hjá frænku Pablo.
Ég vildi samt óska að ég væri að fara þessa ferð með Önna. Af gefinni reynslu veit ég hvað við erum góðir ferðafélagar og harmónerum vel saman, sem er góður kostur á ferðalögum.
Nú, en ég flýg sem sagt til New York eftir 9klst og ætti því að drífa mig í að pakka og reyna svo að fá smá svefn.

föstudagur, mars 17, 2006

Daglegt líf

Undanfarna daga hef ég einhvern veginn ekki verið í miklu bloggstuði, enda ekki mikið um að vera í höfðinu á mér annað en námið. Nú hefur hinsvegar öllu verið reddað svona eins og völ var á og vorhléð má því formlega hefjast eftir kennslustundina á morgun. En fyrst ég er nú í útlöndum þá ætla ég að hafa þann stílinn á að rekja stuttlega mína daglegu starfa.

Snow Day

Alnáttungurinn sem ég bloggaði um síðast lukkaðist óvenju vel og reyndist vera mikið söksess. Mig syfjaði aldrei neitt sérstaklega og tókst að skrifa samtals ca.15 blaðsíður og ljúka þar með báðum verkefnunum. Þetta reyndist þó til lítils, því þegar ég mætti ósofin í morgunmat frétti ég að skólanum væri aflýst þann daginn vegna ofankomu. Um nóttina hafði ég fylgst með snjónum kyngja niður og það kom mér á óvart því vikuna á undan hafði verið rjómablíða; um 15 stiga hiti og stuttermaveður. Mig grunaði þó ekki að snjórinn hefði neinar afleiðingar í för með sér, enda var þetta svona týpísk þung snjókoma sem maður upplifir allavega einu sinni hvern vetur heima. Hinsvegar var þetta víst mesti "snow storm" í Minneapolis í 15 ár, og önnur hver stofnun því lokuð í framhaldinu.

Pervertar

Síðan ég kom hingað hefur nemendum borist a.m.k. 3 tilkynningar frá Safety & Security um vafasama menn og perverta sem eru á ferð um campus. Einn þeirra áreitti stelpur og gekk í veg fyrir þær snemma á fimmtudagsmorgni og annar var að fróa sér á almannafæri. Jantien og Hil-May voru svo heppnar að lenda í þeim þriðja. Þær voru á leið inn á campus þegar ókunnur maður kallar til þeirra. Þegar þær snúa sér við þá tekur hann niður um sig buxurnar og eltir þær svo nokkurn spöl með buxurnar niður um sig þar til þær komast inn fyrir. Alveg er þetta furðulegt lið sem hefur þessar hvatir, og mér þykir tíðni þessara pervertaheimsókna skuggaleg há á campus. Ekki öfunda ég stelpurnar í St.Kates, en það er kaþólskur kvennaskóli hérna í nágrenninu, sem verður víst sérstaklega oft fyrir barðinu á þessum viðrinum.

Matartími

Sú venja hefur komist á meðal okkar alþjóðlegu nemanna að borða yfirleitt kvöldmat saman í Sorin mötuneytinu. Þetta voru svo sem engin samantekin ráð, heldur gerðist af sjálfu sér, vegna þess að flestir amerísku krakkarnir borða kvöldmat um fimmleytið (matartíminn er frá 16:30-19:15) og þegar við mætum loks í kvöldmat, um hálfsjö, þá er matsalurinn yfirleitt hálftómur. Mér þykir sérkennilegt að borða alltaf svona snemma, enda hefur mér líka sýnst að margir fái sér svo snarl aftur um tíuleytið á kvöldin. Við alþjóðlegu kverúlantarnir kjósum hinsvegar að borða kvöldmat "seint", það er um sjöleytið, og vegna þess hvað við erum óskaplega skemmtileg þá eigum við það til að hanga fram eftir öllu yfir matnum á spjallinu. Þetta endar yfirleitt á því að starfsfólk mötuneytisins biður okkur vinsamlegast um að pilla okkur, þar sem þau ætli að loka salnum. Við erum því kannski ekki efst á vinsældalistanum hjá þeim, en mér finnst kvöldmatartímarnir alltaf sérstaklega ánægjulegir.

Hroki og hleypidómar

Við Elise höfum dundað okkur við það undanfarið að horfa á BBC útgáfuna af Pride and Prejudice á kvöldin. Við komums nefnilega snemma að því að við deilum áhuga á P&P og erum báðar miklir og einlægir aðdáendur Colin Firth. Reyndar eigum við fleira sameiginlegt, því Elise er líka forfallinn Harry Potter aðdáandi. Hún er skemmtileg stelpa.

Jæja eftir 12 klst. legg ég af stað í 24klst keyrslu til Arizóna. Ég hlakka til þessa ferðalags, því ég er viss um að þótt ég verði örugglega þreytt og pirruð á köflum, þá mun þetta verða eftirminnileg ferð. Ég ætti því að blogga aftur eftir rúma viku og birti þá vonandi einhverjar myndir úr Grand Canyon.

mánudagur, mars 13, 2006

Súpandi seyðið

Jæja nú á að taka alnáttung á þetta helvíti. Þarf að skila tveimur verkefnum á morgun, er rúmlega hálfnuð með annað og ekki byrjuð á hinu. Er samt búin að afla mér allra heimilda sem ég þarf og á bara eftir að vinna úr þeim. Þetta ætti að hafast. Ég er líka með poka af Cheetos mér til halds og trausts. Cheetos er ógeðslega grísí, krönsjí, amerískt ostasnakk sem ég elska. Ég er samt að passa mig að borða ekki of mikið af því til að bæta ekki á mig "the first-year fifteen" sem allir tala um hérna. Það er víst óumflýjanlegt að fitna af mataræðinu á campus, segja kunnugir. Vonandi slepp ég við það, enda er ég frekar melló í mínum neysluvenjum hérna. Hingað til hef ég staðið í stað held ég.

Ég þarf að passa mig á fráblæstrinum í enskunni. Þegar ég sagðist þurfa að festa kaup á baðsloppi þá héldu innfæddir að mig sárvantaði að kaupa reipi. Vandasamt.

Svo setti ég nýjar myndir á myndasíðuna fyrir nokkrum dögum.

Jæja ætli sé ekki best að halda áfram með þetta helvíti. Ef bara ég hefði minnsta vott af sjálfsaga, þá væri ég líklega löngu búin með þessi verkefni núna. Í stað þess þarf ég að taka afleiðingum kæruleysisins. En hvað er ein nótt á milli vina. Eftir 5 daga er vorhlé og þá verður skólinn víðsfjarri.

sunnudagur, mars 05, 2006

Blikur á lofti

Útlit er fyrir að ég komist hugsanlega í Arizona-ferðina eftir allt saman. Stelpan sem er yfir ferðafélaginu sendi mér ímeil á föstudaginn þar sem sagði að það væri mögulega laust pláss fyrir mig. Svo bætti hún við, "en fyrst vil ég spyrja þig, ertu með ökuskírteini og ertu tilbúin að taka próf til að keyra 15 manna rútu, því okkur vantar annan bílstjóra?" Ég veit ekki hvort hún á við að ég megi bara koma með ef ég get keyrt, annars ekki. Það þykir mér ósanngjarnt skilyrði og líka svolítið dónalegt að slengja þessu svona fram. Svo nú bíð ég spennt eftir svari frá henni, en hún virðist yfirleitt taka sér 2 daga til að svara ímeilum. Ég læt hana fara voðalega í taugarnar á mér en eflaust er hún vænsta skinn.
Ég vona innilega að ég komist með í þessa ferð, því ég verð sífellt hrifnari af þessari hugmynd, að fara í útilegu í Grand Canyon. Ekki þekki ég neinn sem hefur gert það.

Annars er klukkan 3:30 um nótt hérna og ég ætti að drulla mér í bælið, sérstaklega þar sem ég er enn vansvefta eftir síðustu nótt. Nóg að gera.
Nýjar myndir, frá síðustu viku, eru komnar á myndasíðuna. Meira síðar.