Aldrei hélt ég að ég yrði þessi týpa sem myndi hjóla 22 kílómetra daglega í og úr vinnu, jafnt í snjó og hálku sem í sól og blíðu, eða roki og rigningu. En reyndar er svo margt sem ég hélt aldrei að ég myndi gera eða gæti, áður en annað kom í ljós.

Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.
Peningar hafa verið mér hugleiknir undanfarið og er ég eflaust ekki ein um það. Ég hef sem betur fer ekki þurft að hafa mjög miklar áhyggjur af mínum fjármálum að öðru leyti en því að mér finnst eins og afstaða mín til þeirra sé að breytast og ekki endilega til hins betra. Mér líður eins og peningarnir mínir séu ekki eins mikils virði og mér fannst þeir áður. Sem er reyndar því miður hárrétt því þeir eru allir á krónuformi.
Þetta virðist gera það að verkum að rótgróin varfærni mín í fjármálum, sem sumir vilja kalla nísku, er á hröðu undanhaldi. Þessi lúmska hugarfarsbreyting kemur alveg aftan að mér því einhvern veginn hefði ég haldið að einmitt í kreppu myndi ráðdeildarsemin festa sig endanlega í sessi. Núna stend ég mig hinsvegar að því að kaupa nánast umhugsunarlaust hluti sem ég hefði aldrei leyft mér að kaupa í sjálfu góðærinu, a.m.k. ekki fyrr en eftir langan innri „díalóg" og skothelda réttlætingu, því þá hélt ég mjög vel utan um krónurnar mínar sem í dag eru svona uppburðarlitlar.
Ég hef sett fram kenningar um orsakir þessa nýtilkomna kæruleysis í fjármálum. Frá því ég fékk fyrsta launaseðilinn minn hef ég alltaf verið að safna fyrir einhverju og yfirleitt reynt að fylgja sparnaðaráætlun, lagt hluta af laununum mínum mánaðarlega til hliðar inn á sparireikning sem ég hreyfi ekki við nema af góðri ástæðu. Síðustu ár hefur þessi sparireikningur verið eyrnamerktur framhaldsnámi og lengst af gekk vel að safna, en ekki lengur. Í kjölfarið hef ég smám saman misst metnaðinn fyrir þessu enda fæ ég ekkert út úr því að skoða töluna á sparireikningnum mínum um mánaðamótin. Þeir sem hafa sett sér einhver langtímamarkmið, hver svo sem þau eru, þekkja eflaust þessa tilfinningu.
Þegar árangurinn lætur algjörlega á sér standa missir maður smám saman móðinn og fer að standa á sama. Á einhvern öfugsnúinn hátt virðist þetta hafa þau áhrif að mér finnst sá peningur sem ég þó á ekki vera mikils virði lengur. Ég veit að þegar ég fer í framhaldsnám verður þessi litli sparnaður hvort eð er eins og dropi í hafið á móti skuldunum sem ég steypi mér í, svo til hvers að halda áfram að reyna? Allar vonir um að geta fjármagnað námið að mestu án lána eru löngu orðnar hlægilegar.
Þetta er ein meginástæðan fyrir kæruleysinu. Hin er sú að verðskynið hefur breyst því það sem fyrir stuttu þótti fáránlega dýrt er núna orðið lágmarksverð og lítið samhengi á milli verðs og raunverulegs verðmætis. Í dag er rökstuðningurinn sem ég gef samviskunni áður en ég saxa á sparnaðinn því eitthvað á þessa leið: Annars vegar eru þessir ótrúlega fallegu skór sem eru tæknilega séð allt of dýrir. Hinsvegar þarf að fylla á bílinn fyrir jafnmikinn pening. Bensíntankurinn gufar upp á tveimur vikum, en skórnir munu veita mér ánægju næstu árin. Ég held bara að ég leyfi mér það á meðan ég get. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 28. apríl 2010.
Nú er talað um að byggja upp nýtt og betra samfélag á Íslandi og uppræta meinin sem urðu því gamla að falli. Það er hollt að taka sjálfan sig stundum rækilega í gegn en það þarf líka að fara gætilega í sakirnar. Hér hefur mörgu verið snúið á höfuðið á stuttum tíma og þótt sumt sé til góðs blómstra öfgarnar ennþá, en með öfugum formerkjum þó. Fyrir stuttu var það mörgum mikið keppikefli að eiga pening, en þó umfram allt sýna öllum öðrum að þeir ættu pening. Nú er það akkúrat öfugt, sá sem ekki er stórskuldugur hefur sig hægan til að vekja ekki tortryggni og þeim sem með einhverjum undarlegum hætti tekst að eiga sparifé á bankareikningi er vænlegast að læðast með veggjum. Það er mikil áhætta fólgin í því þessa dagana að kaupa sér flugmiða án þess að geta útskýrt mál sitt. „Ég fékk ókeypis gistingu hjá ættingjum" eða „ég lifði bara á vatni og brauði og fór aldrei út að borða" eru afsakanir sem nauðsynlegt er að hafa á reiðum höndum spyrjist það út að maður hafi farið til útlanda í frí. Guð forði þeim sem á meira en aðrir og leyfir sér að njóta þess.
Síðasta haust gekk ég fram hjá glæpavettvangi í Stokkhólmi, þar sem peningaflutningabíll var rændur. Sænskur kunningi minn fræddi mig um að mikið væri um svona rán í Svíþjóð og kannski ekki skrýtið því „fólk samþykkir frekar að þú verðir ríkur með því að ræna peningaflutningabíl en með því að vinna þér peninginn inn sjálfur". Kannski eru þetta ýkjur, en síðar í sömu Svíþjóðarheimsókn heyrði ég samt sænskan embættismann tala á svipuðum nótum. „Þú uppskerð meiri virðingu ef þú færð fyrsta vinning í lottó en ef þú vinnur þig áfram til ríkidæmis," sagði hann.
Hvort sem þetta eru ýkjur eða ekki hef ég haft það óþægilega á tilfinningunni að Íslendingar séu farnir að feta æ meira í fótspor sænsku stereótýpunnar að þessu leyti, að halda að allir þeir sem eiga pening hafi eitthvað óhreint á samviskunni. Enn er til fólk á Íslandi sem er ríkt en á þessu furða sumir sig eins og það sé eitthvað slæmt að við séum þó ekki öll föst í fátæktargildrunni. Nágrannagæslan fer vaxandi því við gætum þess vandlega að enginn komist upp með að stækka við sig, fara til útlanda eða kaupa sér nýjan bíl án þess að almannarómur veki athygli á því að þessir peningar geti varla verið fengnir með heiðarlegum hætti. Rætnar raddir fljúga af stað um leið og peningalyktin finnst og dómurinn fellur: Auðmaður!
Á einhverjum tímapunkti hættum við að eiga milljónamæringa og fórum að eiga auðmenn. Það var um svipað leyti og menn fóru að hafa milljarða á milli handanna í stað milljóna. Í dag eru fáir eftir sem eiga milljarða en nú virðist þurfa miklu minna til að vera stimplaður auðmaður, bara svo lengi sem þú átt meira en hinn skuldugi meðalmaður. Og eitt er víst, þú átt það alveg örugglega ekki skilið. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27.janúar.
Þetta er svona fullorðins
Sumir dagar eru bara leiðinlegri en aðrir. Og um fáa daga hef ég meiri þörf fyrir að blogga en einmitt þá. Ég byrjaði daginn snemma á því að fara í klippingu upp í Mosó, á stofuna Pílus þar sem hárgreiðslukonurnar virðast skilja betur hvað ég vil heldur en á svona “ó-mæ-gad við erum svo kúl” stöðum eins og Tony&Guy og Rauðhettu & úlfinum. Alla jafna fer ég í klippingu tvisvar á ári, þ.e.a.s. um það leyti sem nógu langt er liðið frá því síðast til að ég sé búin að gleyma því að það er yfirleitt svo dýrt að mér verður flökurt. Í þetta skiptið ákvað ég að gera mjög lítið við mig til að losna við blæðandi útgjöld. Ég var komin með nokkurra sentímetra rót og bað því um að það yrði settur smá litur yst í hárið, til að hylja rótina og svona, en ekki allsherjar litun þó. Lét svo særa það og snyrta toppinn. Þannig bjóst ég við að lágmarka kostnaðinn, en neinei, 14 þúsund krónur þakka þér kærlega fyrir. Get ég hvergi farið til að halda hárinu mínu sæmilega snyrtilegu án þess að greiða á annan tug þúsunda fyrir það? Hvaða rugl er þetta?
Djöfull er stundum glatað að lifa í heimi hinna fullorðnu. Ef það er eitthvað sem fer illa með mig er það að fá svona óvænt útgjöld sem ég gerði ekki ráð fyrir. Ég geri yfirleitt fjárhagsáætlanir í byrjun hvers sumars og vetrar og það fer massíft í taugarnar á mér þegar svona lagað, ásamt svínslegu okri á klippistofum, kemur aftan að mér. Hvað þá ef það er allt sama daginn. Ég ákvað samt að drífa mig þá heim og ganga frá þessari skuld, nema hvað þegar ég klæddi mig í jakkann minn datt af síðasta talan sem eftir var á honum. Þennan jakka keypti ég á 12.þús kr. í Debenhams fyrir innan við mánuði síðan, og á þessum tíma hafa allar tölurnar dottið af tvisvar (ég fór með hann til baka í búðina í viðgerð í millitíðinni.) Hvers á maður að gjalda sem neytandi á Íslandi? Þegar ég var svo búin að keyra langleiðina heim fattaði ég að ég hafði gleymt bréfunum upp í Mosfellsbæ.
Djöfull getur allt verið pirrandi stundum.
Kreditkort
Sjálf skipti ég debetinu algjörlega út fyrir kreditið fyrir um 2 árum síðan og finnst ég hafa miklu betri stjórn og yfirsýn yfir eyðsluna þannig. Það er mjög fjarri mér að detta í subbulega ofneyslu og benda svo grenjandi á plastið sem sökudólg. Ég veit nákvæmlega hverju ég hef innistæðu fyrir að eyða og nota kortið í samræmi við það. Aðalreglan sem ég reyni að fylgja er að reikningurinn verði í mesta lagi jafnhár launaútborgun næstu mánaðamóta og helst lægri. Þannig held ég mér á floti. Ég lít ekki svo á að ég sé í mínus með því að nota kredit, heldur sé ég þetta sem samhliða ferli. Bankareikningurinn minn stendur algjörlega í stað yfir mánuðinn, svo um mánaðamót kemur launaseðill inn og kreditreikningur fer út. Þannig finnst mér mjög auðvelt að hafa yfirsýn yfir mánaðaútgjöld vs. innkomu án þess að standa í neinum útreikningum. Auk þess er hægt að setja sér fyrirfram hömlur, ákveða að hafa heimildina ekki hærri en t.d. 100 þús (þótt inneign á bankareikning sé kannski 300þús) svo kortið stoppi þig af áður en þú ferð að eyða meira af reikningnum en þú kærir þig um.
Svo eru það færslugjöldin. Á síðasta tímabili t.d. renndi ég kortinu mínu 75 sinnum í posa, sem þýðir að ef ég notaði debet greiddi ég aukalega 975 kr. fyrir mánuðinn, m.v. 13kr. færslugjöld. Þetta væru þá 11.700 krónur á ári í kostnað fyrir að nota debet, en á kreditkortum eru engin færslugjöld. Fyrir utan FIT-kostnaðinn, sem er a.m.k. 750kr. per færslu ef farið er yfir á debetkorti. Eins og svo margir er ég með frítt árgjald á kreditkortinu og ber þess vegna engan kostnað af því. Hinsvegar græði ég í ferðaávísuninni, sem safnast upp, 4 kr. á móti hverjum 1000 og þ.á.m. af föstum greiðslum eins og síma, hita og rafmagni sem fer allt sjálfkrafa út af kortinu mínu.
Ég get kannski trútt um talað meðan ég þarf aðeins að sjá um sjálfa mig. Ég geri mér grein fyrir að einhvern tímann mun sjálfsagt koma tímabil þar sem hallar meira undan fæti hjá mér í fjármálum, en ég lít þá svo á að ég sé núna að byggja mér upp gott kredit áður en að því kemur. Eins og staðan er núna sé ég því ekkert nema ókosti við að nota debetkortið og læt það fegin rykfalla fyrir Mastercard.