Sýnir færslur með efnisorðinu Fjármál. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Fjármál. Sýna allar færslur

miðvikudagur, maí 16, 2012

Reynlusaga reiðhjólakappa


Aldrei hélt ég að ég yrði þessi týpa sem myndi hjóla 22 kílómetra daglega í og úr vinnu, jafnt í snjó og hálku sem í sól og blíðu, eða roki og rigningu. En reyndar er svo margt sem ég hélt aldrei að ég myndi gera eða gæti, áður en annað kom í ljós.

Heimili mitt hefur verið bíllaust síðan í september. Það kom ekki til af góðu, Volvo gamli var ekki ónýtur en það var ljóst að setja þyrfti talsverðan pening í að gera hann skoðunarhæfan. Að viðbættum bensínkostnaði varð mér ljóst að þetta voru peningar sem mig langaði að eiga í annað. Bíllinn var því seldur og tilrauninHjólað í vinnuna hófst. Ég hafði verið úrtölumanneskjan á heimilinu í þessum efnum, sagðist svo sem vel geta hjólað, ef vinnustaðurinn væri nær heimilinu eða ef hvort tveggja væri í Kaupmannahöfn. Á meðan hvorugt væri raunin kom ekki til greina að leggja bílnum. Það má því segja að orðið hafi mikil hugarfarsbreyting á stuttum tíma.

Hjólaferill minn hefur að vísu ekki verið óslitinn í vetur. Síðan í janúar hef ég haft aðgengi að lánsbíl sem getur verið freistandi að nota. Ég nenni ekki alltaf að hjóla frekar en ég nennti alltaf í ræktina áður. Stundum tek ég strætó og stundum fæ ég lánaðan bíl, en oftast reyni ég að hjóla og líður alltaf betur eftir á. Auðvitað fylgja því ókostir að reiða sig á hjól sem samgöngutæki, en fyrir mitt leyti eru kostirnir mun fleiri. Í fyrsta lagi er það auðvitað sparnaðurinn. Það sem af er ári hef ég eytt 20.000 kr í eldsneyti, en á sama tímabili í fyrra eyddi ég 89.000 kr, auk annars kostnaðar við að eiga bíl.

Viðbótarsparnaður felst í því að ég er hætt að borga fyrir líkamsræktarkort, því leiðin til vinnu er það löng að hjólreiðarnar eru mín hreyfing. Rúm klukkustund á dag úti í fersku lofti og ekki veitir af enda eyðir fólk á Norðurhveli um 90% ævinnar innanhúss. Þegar ég hjóla heim úr vinnunni og fylli lungun af súrefni verður mér sérstaklega hugsað til þeirra sem keyra í síðdegsitraffíkinni í ræktina til að hamast á kyrrstæðum hjólum í svitastorknum spinningsal. 

Ég hjóla frá Þingholtunum að Rauðavatni, umhverfis Öskjuhlíð, inn Fossvog og upp Elliðaárdal. Stærstan hluta leiðarinnar er ég á grænu svæði umkringd dýralífi sem gaman er að fylgjast með og á þar til gerðum hjólastígum sem borgin hefur lagt. Kinnarnar verða rjóðar, lærin styrkjast og á leiðinni heim tæmist hugurinn algjörlega af vinnutengdum hugsunum og streitu. Eftir slíkan dag sofna ég betur að kvöldi. Styttri vegalengdir hjóla ég líka og hef m.a. komist að því að það er mun minna þreytandi að hjóla á barinn í háum hælum en að ganga. Mér finnst líka gaman að hafa ástæðu til að iðka þann íslenska sið að byrja daginn á því að gá til veðurs, til að meta hvernig ég geti best klætt það af mér.

Ætlun mín er ekki að predika yfir lesendum, ég veit að hjólreiðar henta ekki öllum. En ég tel að fleiri gætu hæglega breytt um lífsstíl með þessum hætti og hvet sem flesta til að láta á það reyna að hjóla í vinnuna.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. maí 2012.

miðvikudagur, febrúar 22, 2012

Veistu hvað þú ert að hugsa?
Öll erum við vitsmunaverur sem tökum sjálfstæðar ákvarðanir eftir eigin dómgreind. Eða því viljum við gjarnan trúa. En jafnvel þótt okkur finnist við sjálf vera meðvituð og gagnrýnin í hugsun er staðreyndin sú að við höfum takmarkaðan aðgang að eigin huga og þannig geta ytri aðstæður stundum stýrt því hvernig við högum okkur ómeðvitað. Sálfræðingurinn Daniel Kahneman segir í bók sinni Thinking, Fast and Slowfrá rannsóknum á mannlegri hugsun og atferli sem grafa svolítið undan ímynd okkar sem sjálfstæðar vistmunaverur. 

Stundum er sagt: „Brostu! Þá líður þér betur.“ Slíkir Pollýönnuleikir eru ekki alvitlausir. Í tilraun einni voru tveir hópar háskólanema látnir lesa teiknimyndasögur Garys Larsons, The Far Side. Annar hópurinn var látinn halda blýanti þvert milli tannanna á meðan, þannig að munnvikin spenntust upp í „bros“. Hinn hópurinn hélt blýanti milli varanna þannig að munnsvipurinn varð stúrinn. Niðurstaðan var sú að hópnum með gervibrosið fannst sögurnar skemmtilegri en þeim sem skoðuðu þær með stút á munni. 

Í annarri tilraun voru þátttakendur látnir hlusta á upplestur leiðara úr dagblaði, undir því yfirskini að verið væri að kanna hljómgæði heyrnartólanna. Annar hópurinn var látinn kinka kolli á meðan hann hlustaði, en hinn látinn hrista höfuðið. Eftir á voru þeir fyrrnefndu líklegri til að segjast sammála leiðaranum, en þeir síðarnefndu voru frekar ósammála.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því sem kallað er ýfingaráhrif, þegar eitthvað sem við upplifum hefur ómeðvituð áhrif á hegðun okkar strax á eftir. (Það er t.d. gild ástæða fyrir því að kosningaáróður er bannaður við kjörstaði á kjördag.) Í einni slíkri rannsókn voru áhrif hugsana um peninga könnuð. Þátttakendur voru óbeint minntir á peninga, í orðum eða myndrænt, og í kjölfarið látnir takast á við óvæntar aðstæður. Í ljós kom að ómeðvituð hugrenningatengsl við peninga virtust vekja með þátttakendum meiri einstaklingshyggju. Þeir urðu sjálfstæðari í hugsun en samanburðarhópurinn, en jafnframt eigingjarnari. Peningahópurinn bað síður um hjálp við að leysa erfitt verkefni strax á eftir og var líka mun síður tilbúinn að eyða tíma í að hjálpa ókunnugum manni að tína upp hluti sem hann missti.

Í sambærilegri tilraun var þátttakendum sagt að þeir ættu að spjalla við ókunnuga manneskju og þeir beðnir að stilla upp tveimur stólum meðan hún var sótt. Þeir sem minntir voru á peninga stuttu áður stilltu stólunum upp með að jafnaði 38 cm meira millibili en hinir sem höfðu engin ómeðvituð hugrenningatengsl við peninga. Þetta er umhugsunarvert. Getur verið að menning sem minnir okkur stöðugt á peninga hafi ómeðvituð áhrif á framkomu okkar hvert við annað? Í öllu falli er gott að vera meðvituð um að við höfum kannski ekki jafnfullkomin tök á eigin huga og við viljum trúa.


Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 22. febrúar 2012.

miðvikudagur, apríl 28, 2010

Ormur á gulli

Peningar hafa verið mér hugleiknir undanfarið og er ég eflaust ekki ein um það. Ég hef sem betur fer ekki þurft að hafa mjög miklar áhyggjur af mínum fjármálum að öðru leyti en því að mér finnst eins og afstaða mín til þeirra sé að breytast og ekki endilega til hins betra. Mér líður eins og peningarnir mínir séu ekki eins mikils virði og mér fannst þeir áður. Sem er reyndar því miður hárrétt því þeir eru allir á krónuformi.

Þetta virðist gera það að verkum að rótgróin varfærni mín í fjármálum, sem sumir vilja kalla nísku, er á hröðu undanhaldi. Þessi lúmska hugarfarsbreyting kemur alveg aftan að mér því einhvern veginn hefði ég haldið að einmitt í kreppu myndi ráðdeildarsemin festa sig endanlega í sessi. Núna stend ég mig hinsvegar að því að kaupa nánast umhugsunarlaust hluti sem ég hefði aldrei leyft mér að kaupa í sjálfu góðærinu, a.m.k. ekki fyrr en eftir langan innri „díalóg" og skothelda réttlætingu, því þá hélt ég mjög vel utan um krónurnar mínar sem í dag eru svona uppburðarlitlar.

Ég hef sett fram kenningar um orsakir þessa nýtilkomna kæruleysis í fjármálum. Frá því ég fékk fyrsta launaseðilinn minn hef ég alltaf verið að safna fyrir einhverju og yfirleitt reynt að fylgja sparnaðaráætlun, lagt hluta af laununum mínum mánaðarlega til hliðar inn á sparireikning sem ég hreyfi ekki við nema af góðri ástæðu. Síðustu ár hefur þessi sparireikningur verið eyrnamerktur framhaldsnámi og lengst af gekk vel að safna, en ekki lengur. Í kjölfarið hef ég smám saman misst metnaðinn fyrir þessu enda fæ ég ekkert út úr því að skoða töluna á sparireikningnum mínum um mánaðamótin. Þeir sem hafa sett sér einhver langtímamarkmið, hver svo sem þau eru, þekkja eflaust þessa tilfinningu.

Þegar árangurinn lætur algjörlega á sér standa missir maður smám saman móðinn og fer að standa á sama. Á einhvern öfugsnúinn hátt virðist þetta hafa þau áhrif að mér finnst sá peningur sem ég þó á ekki vera mikils virði lengur. Ég veit að þegar ég fer í framhaldsnám verður þessi litli sparnaður hvort eð er eins og dropi í hafið á móti skuldunum sem ég steypi mér í, svo til hvers að halda áfram að reyna? Allar vonir um að geta fjármagnað námið að mestu án lána eru löngu orðnar hlægilegar.

Þetta er ein meginástæðan fyrir kæruleysinu. Hin er sú að verðskynið hefur breyst því það sem fyrir stuttu þótti fáránlega dýrt er núna orðið lágmarksverð og lítið samhengi á milli verðs og raunverulegs verðmætis. Í dag er rökstuðningurinn sem ég gef samviskunni áður en ég saxa á sparnaðinn því eitthvað á þessa leið: Annars vegar eru þessir ótrúlega fallegu skór sem eru tæknilega séð allt of dýrir. Hinsvegar þarf að fylla á bílinn fyrir jafnmikinn pening. Bensíntankurinn gufar upp á tveimur vikum, en skórnir munu veita mér ánægju næstu árin. Ég held bara að ég leyfi mér það á meðan ég get. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 28. apríl 2010.

fimmtudagur, febrúar 11, 2010

Sitt af hvoru tagi

Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráð hafa komist að samkomulagi um þá stefnu að jafna hlut kynjanna í stjórnum fyrirtækja fyrir árið 2013, þannig að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%. Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri »kvennabankans« Auðar Capital, rökstyður þetta m.a. með því að rannsóknir sýni fram á að stjórnunarhættir breytist þegar bæði kynin sitja í stjórn.Þ.e.a.s. fleiri taka virkan þátt í stjórninni og stjórnarhættir verða gagnsærri, nokkuð sem allir geta núorðið sammælst um að sé jákvætt.

Engu að síður er þetta umdeilt mál og margir eru algjörlega á móti því að verið sé að eyða tíma í að tala um og stefna sérstaklega að því að jafna hlut kynjanna. Það á nefnilega allt saman að gerast af sjálfu sér. Einhverra hluta vegna eru þeir alveg logandi hræddir um að úti í samfélaginu sé heil herdeild af vanhæfum konum sem muni nú flæða inn í stjórnir fyrirtækja í skjóli kúgunaraðgerða og hreinlega lama þau. Hvaðan koma allar þessar vanhæfu konur? Ég veit t.d. ekki betur en konur hafi verið í meirihluta háskólanema á Íslandi í á annan áratug?

Mér er annars minnisstæður félagsfræðitími sem ég sat í menntaskóla þar sem fjallað var um eðli kynjanna. Þar vorum við frædd um að drengir væru hvatvísir, ákveðnir og kappsamir en stúlkur hyggnar, vinnusamar og varkárar. Þetta fór eitthvað í taugarnar á okkur stelpunum í bekknum sem fannst þetta heldur einfeldningsleg fræði og óþægilega í takt við það viðhorf sem okkur fannst við stundum mæta í skólakerfinu: Að ef við stelpurnar stæðum okkur vel væri það vegna þess að við vorum duglegar og iðnar, en ef strákarnir stæðu sig vel væri það vegna þess að þeir voru einhvers konar snillingar frá náttúrunnar hendi. Ég var fegin að geta afgreitt þennan félagsfræðitíma á 40 mínútum, en sú varð ekki raunin því stuttu síðar endurtók hann sig á stærri skala í samfélagsumræðunni.

Þá voru nefnilega launatölur hæstráðenda í fjármálageiranum reglulegt tilefni umtals af ýmsu tagi. Þar á meðal veltu sumir því fyrir sér hvers vegna fáar eða engar konur væru á "ofurlaunum" ásamt þeim hópi óskadrengja íslensku þjóðarinnar sem mestur ljómi stafaði af. Svarið þótti einfalt. Konur höfðu bara ekki drifkraftinn til að ná æðstu stöðum. Þær skorti hörkuna, hvatvísina og áhættusæknina. Þegar fjármálageirinn hrundi þótti hins vegar alls ekki málefnalegt að draga fram þessi sömu rök og benda á að hugsanlega virkuðu þau líka í hina áttina. Það átti ekki að kyngera hrunið.

Persónulega er ég líka algjörlega frábitin svona eðlishyggju, í hvora áttina sem henni er beitt, enda er reynsla mín sú að flest annað en kyn fólks hafi áhrif á hvort ég á samleið með því eða ekki. En hvort sem fólk trúir á "kvenlæga" og "karllæga" stjórnunarhætti eður ei hlýtur að vera jákvætt að nýta hvort tveggja. una@mbl.is

Birtist sem Pistill í Morgunblaðinu 11. febrúar 2010.

miðvikudagur, janúar 27, 2010

Nágrannagæsla

Nú er talað um að byggja upp nýtt og betra samfélag á Íslandi og uppræta meinin sem urðu því gamla að falli. Það er hollt að taka sjálfan sig stundum rækilega í gegn en það þarf líka að fara gætilega í sakirnar. Hér hefur mörgu verið snúið á höfuðið á stuttum tíma og þótt sumt sé til góðs blómstra öfgarnar ennþá, en með öfugum formerkjum þó. Fyrir stuttu var það mörgum mikið keppikefli að eiga pening, en þó umfram allt sýna öllum öðrum að þeir ættu pening. Nú er það akkúrat öfugt, sá sem ekki er stórskuldugur hefur sig hægan til að vekja ekki tortryggni og þeim sem með einhverjum undarlegum hætti tekst að eiga sparifé á bankareikningi er vænlegast að læðast með veggjum. Það er mikil áhætta fólgin í því þessa dagana að kaupa sér flugmiða án þess að geta útskýrt mál sitt. „Ég fékk ókeypis gistingu hjá ættingjum" eða „ég lifði bara á vatni og brauði og fór aldrei út að borða" eru afsakanir sem nauðsynlegt er að hafa á reiðum höndum spyrjist það út að maður hafi farið til útlanda í frí. Guð forði þeim sem á meira en aðrir og leyfir sér að njóta þess.

Síðasta haust gekk ég fram hjá glæpavettvangi í Stokkhólmi, þar sem peningaflutningabíll var rændur. Sænskur kunningi minn fræddi mig um að mikið væri um svona rán í Svíþjóð og kannski ekki skrýtið því „fólk samþykkir frekar að þú verðir ríkur með því að ræna peningaflutningabíl en með því að vinna þér peninginn inn sjálfur". Kannski eru þetta ýkjur, en síðar í sömu Svíþjóðarheimsókn heyrði ég samt sænskan embættismann tala á svipuðum nótum. „Þú uppskerð meiri virðingu ef þú færð fyrsta vinning í lottó en ef þú vinnur þig áfram til ríkidæmis," sagði hann.

Hvort sem þetta eru ýkjur eða ekki hef ég haft það óþægilega á tilfinningunni að Íslendingar séu farnir að feta æ meira í fótspor sænsku stereótýpunnar að þessu leyti, að halda að allir þeir sem eiga pening hafi eitthvað óhreint á samviskunni. Enn er til fólk á Íslandi sem er ríkt en á þessu furða sumir sig eins og það sé eitthvað slæmt að við séum þó ekki öll föst í fátæktargildrunni. Nágrannagæslan fer vaxandi því við gætum þess vandlega að enginn komist upp með að stækka við sig, fara til útlanda eða kaupa sér nýjan bíl án þess að almannarómur veki athygli á því að þessir peningar geti varla verið fengnir með heiðarlegum hætti. Rætnar raddir fljúga af stað um leið og peningalyktin finnst og dómurinn fellur: Auðmaður!

Á einhverjum tímapunkti hættum við að eiga milljónamæringa og fórum að eiga auðmenn. Það var um svipað leyti og menn fóru að hafa milljarða á milli handanna í stað milljóna. Í dag eru fáir eftir sem eiga milljarða en nú virðist þurfa miklu minna til að vera stimplaður auðmaður, bara svo lengi sem þú átt meira en hinn skuldugi meðalmaður. Og eitt er víst, þú átt það alveg örugglega ekki skilið. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 27.janúar.

föstudagur, september 25, 2009

Að hampa mótlætinu

Ég er af góðæriskynslóðinni. Dekurkynslóð kalla hana sumir. Það mætti jafnvel segja að ég hafi verið alin upp undir Kaupthinking-möntrunni alræmdu; „ég get ef ég trúi því að ég geti það“. Reyndar hafði ég ekki áttað mig á að ég tilheyrði neinni sérstakri kynslóð fyrr en ég fór að heyra fólk út undan mér fárast yfir þessu unga fólki sem sleit barnsskónum í taumlausu góðæri, þekkti ekkert nema meðbyr og velsæld, sannfært um að það gæti allt og heimurinn væri leikvöllurinn þess.

Með þessum orðum var búið að skilgreina mig og ég get ekki neitað því að lýsingin sé rétt, þótt mér hafi ekki lærst að líta þessa eiginleika neikvæðum augum. En nú heyri ég að við unga fólkið höfum gott af því að læra hvernig „lífið er í alvöru“ og það er sko ekki eins og við héldum, ónei. Reyndar höfum við þegar fengið að læra ýmsan sannleik sem stangast á við okkar björtu góðærisheimssýn. Mér var t.d. innrætt sú staðfasta trú að maður ætti að eiga en ekki leigja.

„Að leigja er að kasta peningum út um gluggann“ man ég að ég ályktaði við vinkonur mínar í gagnfræðaskóla og við vorum sammála um að þegar við flyttum að heiman væri rétta skrefið að kaupa, því þannig eignaðistu verðmæti með hverri afborgun. Þetta reyndist hrapallegur misskilningur, eftir allt saman er víst best að eiga ekki neitt. Þetta var fyrsta leiðrétting á góðæristrúnni. Sú næsta virðist ætla að vera sú að heimurinn liggi alls ekki að fótum okkar eins og við héldum. Góðæriskynslóðin mín óx úr grasi með ótæmandi kaupmátt, óteljandi tækifæri og öryggi um framtíðina. Við stúdentspróf var vafinn: á ég að fara í háskóla hér eða í útlöndum? Á ég kannski að byrja á því að fara í heimsreisu fyrst? Eða fá mér vinnu? Atvinnuleysi, hvað er það?

Ótrúlega margir Íslendingar undir þrítugu hafa ferðast um tugi landa, jafnvel mánuðum saman í fjarlægum heimsálfum, og enn fleiri hafa stundað nám erlendis, ekki endilega námsins vegna heldur lífsreynslunnar.
Í þessu umhverfi trúði ég aldrei, í einfeldni minni, að ég myndi tilheyra kreppukynslóð. Það eru því ekki lúxusbílarnir, hönnunarvörurnar og glæsihýsin sem ég sakna frá góðærinu, enda átti ég ekkert af þessu þótt ég hefði auðvitað hæglega getað orðið mér úti um það allt saman hefði ég kært mig um. Það sem ég sakna er þessi allsráðandi tilfinning að allar leiðir séu færar, eina vandamálið sé um hversu margar spennandi leiðir er að velja. Það var góð tilfinning.

Nema nú heyri ég að þessi góðærislífssýn sé sjálfsdekur sem tímabært sé að láta af. Var það þá sjálfsblekking allan tímann að lífið sé eitthvað meira en brauðstrit? Nei. Ég er ekki tilbúin að láta af þessari sjálfsöruggu barnatrú. Ég er tilbúin að lifa sparlegar og takast á við kreppuna af æðruleysi, en ég ætla að viðhalda góðærinu innra með mér. Ég ætla að trúa því áfram að ég geti, að ég eigi erindi við heiminn og sé hér til þess að njóta hans.

Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu 25. september 2009

mánudagur, júní 01, 2009

Um peninga

Nú hef ég lent í því tvö mánaðamót í röð að klára heimildina á kreditkortinu mínu áður en nýtt tímabil hefst. Þetta er nýtt fyrir mér og sýnir að mánaðarheimildin sem hefur síðustu 4 árin dugað mér fullkomlega er allt í einu orðin of lág.

Þetta helgast reyndar af tvennu, annars vegar óvenjumiklum útgjöldum vegna utanlandsferða, tannlæknis, klippingar o.fl. (2009 er mitt 2007) og hinsvegar hækkandi verðlagi. Alveg klárlega. Ég hef áður sagt á þessu bloggi að þar sem ég átti engar eignir hafi kreppan fyrst og fremst huglæg áhrif á líf mitt hvað varðar framtíðaráætlanir, bjartsýni o.þ.h. Þetta hefur hinsvegar verið að breytast síðan og verða áþreifanlegra, frá því um áramótin hef ég fundið æ betur fyrir því með hverjum mánuðinum að launin mín endast mun skemur en áður, m.a. vegna launalækkunar í formi yfirvinnubanns.

Þrátt fyrir að góðæri hafi ríkt alla mína tíð á vinnumarkaði fram að þessu hef ég alltaf verið íhaldssöm (stundum kallað gamaldags) í fjármálum að því leyti að ég safna mér inn pening áður en ég eyði honum. Mér hefur alltaf gengið vel að spara, enda verið tilbúin að taka að mér mikla vinnu og lifa hóflega til að ná settum sparnaðarmarkmiðum. Þetta stuðlaði m.a. að því að ég réð við 6 mánaða Bandaríkjadvöl 2006 og 3 mánaða Asíurúnt 2008, með smærri ferðalögum inn á milli, sem allt var greitt úr eigin vasa - og kom í bæði skiptin heim með afgang í ferðasjóðnum.

Nú er allt í einu ekki auðvelt að spara lengur heldur þvert á móti mjög erfitt. Sparnaðaráætlunin mín (ég geri alltaf þannig nokkra mánuði fram í tímann) byrjaði strax að skekkjast á haustmánuðum en nú eftir áramót er hún í raun fokin út í veður og vind. Síðustu tvö mánaðamót hef ég ekki átt krónu eftir af laununum til að leggja til hliðar á sparnaðarreikninginn.

Ég veit að þetta er ekki stórt vandamál miðað við það þann bagga sem sumir þurfa að bera vegna fjármálahrunsins, en það gerir mig samt reiða að allt fari svona úr skorðum vegna aðstæðna sem ég ræð ekkert við. Sparnaðaráætlunin var gerð með framhaldsnám í huga en nú er svo sem í lausu lofti hvenær af því verður. Með beiskju hef ég líka hugsað sem svo að það skiptir orðið engu máli hvort ég nái að skrapa einhverju saman fyrir námi, ég mun samt í öllum tilfellum þurfa að steypa mér í skuldir ef ég ætla að flytja eitthvað út á meðan krónan er svona. Ég sakna þess að finnast heimurinn liggja að fótum mér, en það var víst í þeirri tilfinningu sem ég tók út minn skammt af góðærisvímunni.

sunnudagur, október 19, 2008

Útrásarvíkingarnir

Ég sá þessa úrklippu á Facebook um daginn og langar til að halda henni til haga hér.

Little did we know að þessir milljarðar sem Sigurjón mokaði hlæjandi undir velmegunarsvuntuna á sér hvíla nú á lífeyri ömmu minnar og baki ófæddra barna minna. Takk Sigurjón, ég vona að þú fáir feitan árangurstengdan bónus fyrir þennan stórkostlega árangur. Það tók 5 ár fyrir örfáa menn, og skoffínin sem áttu að hafa stjórn á þeim, að keyra bankana í þrot og þjóðina um leið. Það er sannarlega ótrúlegur árangur. Landráð af gáleysi er líklega réttasta lýsingin.

þriðjudagur, október 14, 2008

Nýja Ísland

Nú er nýlokið þættinum Hlýja Ísland - Hitaveita í heila öld í ríkissjónvarpinu. Þetta er svona "herðið upp hugann, við eigum okkar auðlindir!" dagskrárliður. Mér finnst það ágætt. Mér finnst líka ágætt þegar fólk flaggar íslenska fánanum þessa dagana. Og ekki í hálfa stöng. Það er hressandi að sjá flaggað. Annars varð ég nánast grátklökk þegar ég las stuðningskveðju frá Færeyingum um daginn. Ber er hver að baki og allt það, jafnvel þótt bróðirinn sé lítill.

Þrátt fyrir allt hefur þessi fjármálakreppa líka jákvæðar afleiðingar. Það er fyrst og fremt tvennt sem ég hef tekið eftir. Í fyrsta lagi að ríkissjónvarpið sá loksins ástæðu til að flytja kvöldfréttirnar líka á táknmáli. Reyndar sýnist mér að það ætli að vara stutt þegar mesta dramað er gengið yfir, en ég sá ekki betur en það hafi gengið vel svo vonandi verður meira um það.
Í öðru lagi finnst mér sérlega jákvætt hversu framvarðasveit Frjálshyggjufélagsins hefur hægt um sig þessa dagana. Þeir málglöðustu innan þeirra raða hafa fyrir löngu skipað sér í sess leiðinlegustu og yfirlætislegustu skríbenta landsins með blogg löðrandi af hroka, svo það er ágætt að fá smá hvíld frá þeim.

Merkilegast finnst mér að sjá hversu hraður viðsnúningur getur orðið á ímynd þjóðar, og hversu grunnt vinabönd þjóða rista. Við Íslendingar höfum, alla mína ævi og eitthvað lengur, notið þess að mæta engu nema velvild og meðbyr í öðrum löndum. Ég hef umgengist útlendinga talsvert mikið síðustu ár og stundum átt erfitt með að láta ekki stíga mér til höfuðs áhugann sem mér mætir fyrir það eitt að segjast vera Íslendingur. Við höfum öll verið hrokafull. Það er vandræðalegt að minnast allra frasanna sem hver landsmaður hafði á takteinum um hvað landið okkar væri ríkt og einstakt og æðislegt.

Sem betur fer var samt innistæða fyrir sumum fagurgalanum og við höfum ennþá nóg til að vera stolt af. Ég skil bara aðeins betur núna hvernig sumum skólafélögum mínum í Bandaríkjunum leið, sem höfðu ýmislegt til að skammast sín fyrir í landinu sínu og þurfa að mæta skömmum og alhæfingum frá öðrum þjóðum þegar þau ferðast. Það er bömmer að öllum finnist maður ekki æðislegur lengur, en við ættum samt að geta þolað það eins og flestar aðrar þjóðir.

föstudagur, október 19, 2007

Þetta er svona fullorðins

Sumir dagar eru bara leiðinlegri en aðrir. Og um fáa daga hef ég meiri þörf fyrir að blogga en einmitt þá. Ég byrjaði daginn snemma á því að fara í klippingu upp í Mosó, á stofuna Pílus þar sem hárgreiðslukonurnar virðast skilja betur hvað ég vil heldur en á svona “ó-mæ-gad við erum svo kúl” stöðum eins og Tony&Guy og Rauðhettu & úlfinum. Alla jafna fer ég í klippingu tvisvar á ári, þ.e.a.s. um það leyti sem nógu langt er liðið frá því síðast til að ég sé búin að gleyma því að það er yfirleitt svo dýrt að mér verður flökurt. Í þetta skiptið ákvað ég að gera mjög lítið við mig til að losna við blæðandi útgjöld. Ég var komin með nokkurra sentímetra rót og bað því um að það yrði settur smá litur yst í hárið, til að hylja rótina og svona, en ekki allsherjar litun þó. Lét svo særa það og snyrta toppinn. Þannig bjóst ég við að lágmarka kostnaðinn, en neinei, 14 þúsund krónur þakka þér kærlega fyrir. Get ég hvergi farið til að halda hárinu mínu sæmilega snyrtilegu án þess að greiða á annan tug þúsunda fyrir það? Hvaða rugl er þetta?

Þar sem ég var komin upp í Mosfellsbæ kom ég við hjá mömmu og pabba. Þar átti ég smá skammt af gluggapósti eins og svo oft, fyrst og fremst með tilkynningum frá öllum þeim milljónum lífeyrissjóða sem ég er skráð í. Inn á milli leyndist þó þriggja vikna gamalt bréf frá hinum ógurlega Innheimtumanni ríkisins, sem bað mig vinsamlegast um að greiða skuld, auk dráttarvaxta, vegna þing-og sveitasjóðsgjalda sem gjaldféllu um miðjan september. Fyrst skildi ég ekkert hvað þetta væri eiginlega, ég mundi ekki eftir að hafa nokkurn tíma greitt þessi gjöld áður, enda hafa þau hingað til alltaf verið dregin af mér sjálfkrafa sem launþega. Einhvern veginn lenti það þó á milli hluta núna og þegar ég hringdi upp í Toll til að tékka á því kom í ljós að ég hafði aldrei verið á skrá þar sem launþegi hjá Morgunblaðinu einhverra hluta vegna.

Djöfull er stundum glatað að lifa í heimi hinna fullorðnu. Ef það er eitthvað sem fer illa með mig er það að fá svona óvænt útgjöld sem ég gerði ekki ráð fyrir. Ég geri yfirleitt fjárhagsáætlanir í byrjun hvers sumars og vetrar og það fer massíft í taugarnar á mér þegar svona lagað, ásamt svínslegu okri á klippistofum, kemur aftan að mér. Hvað þá ef það er allt sama daginn. Ég ákvað samt að drífa mig þá heim og ganga frá þessari skuld, nema hvað þegar ég klæddi mig í jakkann minn datt af síðasta talan sem eftir var á honum. Þennan jakka keypti ég á 12.þús kr. í Debenhams fyrir innan við mánuði síðan, og á þessum tíma hafa allar tölurnar dottið af tvisvar (ég fór með hann til baka í búðina í viðgerð í millitíðinni.) Hvers á maður að gjalda sem neytandi á Íslandi? Þegar ég var svo búin að keyra langleiðina heim fattaði ég að ég hafði gleymt bréfunum upp í Mosfellsbæ.

Djöfull getur allt verið pirrandi stundum. Ef ekki hefði verið fyrir Let it be, sem hljómaði í útvarpinu á leiðinni heim og yljaði mér að innan, hefði ég örugglega farið að grenja af pirringi í bílnum.

fimmtudagur, maí 17, 2007

Kreditkort

Það er sérstakt, hið óttablandna viðhorf sem margir hafa til kreditkorta. Maður heyrir ósjaldan af fólki sem treystir sér ekki til þess að fá sér kreditkort því þá muni allt fara til fjandans og skuldirnar safnast upp. Ég ætla ekki að fara út í hvað það er kjánalegt að þykjast ekki vera sjálfrátt og kenna kortinu um slæmar ákvarðanir í fjármálum; en ég skil ekki þetta viðhorf að debetkort séu allt í lagi á meðan kreditkort séu verkfæri djöfulsins.

Sjálf skipti ég debetinu algjörlega út fyrir kreditið fyrir um 2 árum síðan og finnst ég hafa miklu betri stjórn og yfirsýn yfir eyðsluna þannig. Það er mjög fjarri mér að detta í subbulega ofneyslu og benda svo grenjandi á plastið sem sökudólg. Ég veit nákvæmlega hverju ég hef innistæðu fyrir að eyða og nota kortið í samræmi við það. Aðalreglan sem ég reyni að fylgja er að reikningurinn verði í mesta lagi jafnhár launaútborgun næstu mánaðamóta og helst lægri. Þannig held ég mér á floti. Ég lít ekki svo á að ég sé í mínus með því að nota kredit, heldur sé ég þetta sem samhliða ferli. Bankareikningurinn minn stendur algjörlega í stað yfir mánuðinn, svo um mánaðamót kemur launaseðill inn og kreditreikningur fer út. Þannig finnst mér mjög auðvelt að hafa yfirsýn yfir mánaðaútgjöld vs. innkomu án þess að standa í neinum útreikningum. Auk þess er hægt að setja sér fyrirfram hömlur, ákveða að hafa heimildina ekki hærri en t.d. 100 þús (þótt inneign á bankareikning sé kannski 300þús) svo kortið stoppi þig af áður en þú ferð að eyða meira af reikningnum en þú kærir þig um.

Svo eru það færslugjöldin. Á síðasta tímabili t.d. renndi ég kortinu mínu 75 sinnum í posa, sem þýðir að ef ég notaði debet greiddi ég aukalega 975 kr. fyrir mánuðinn, m.v. 13kr. færslugjöld. Þetta væru þá 11.700 krónur á ári í kostnað fyrir að nota debet, en á kreditkortum eru engin færslugjöld. Fyrir utan FIT-kostnaðinn, sem er a.m.k. 750kr. per færslu ef farið er yfir á debetkorti. Eins og svo margir er ég með frítt árgjald á kreditkortinu og ber þess vegna engan kostnað af því. Hinsvegar græði ég í ferðaávísuninni, sem safnast upp, 4 kr. á móti hverjum 1000 og þ.á.m. af föstum greiðslum eins og síma, hita og rafmagni sem fer allt sjálfkrafa út af kortinu mínu.

Ég get kannski trútt um talað meðan ég þarf aðeins að sjá um sjálfa mig. Ég geri mér grein fyrir að einhvern tímann mun sjálfsagt koma tímabil þar sem hallar meira undan fæti hjá mér í fjármálum, en ég lít þá svo á að ég sé núna að byggja mér upp gott kredit áður en að því kemur. Eins og staðan er núna sé ég því ekkert nema ókosti við að nota debetkortið og læt það fegin rykfalla fyrir Mastercard.