Aldrei hélt ég að ég yrði þessi týpa sem myndi hjóla 22 kílómetra daglega í og úr vinnu, jafnt í snjó og hálku sem í sól og blíðu, eða roki og rigningu. En reyndar er svo margt sem ég hélt aldrei að ég myndi gera eða gæti, áður en annað kom í ljós.

Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu.
Mér þótt það hálfneyðarlegt að hrista höfuðið og viðurkenna að ég hefði aldrei komist í tæri við alvörueldgos, bara séð smáöskufall frá Heklu. Í dag er þessi vinkona mín að sjálfsögðu fjölfróður Íslandsáhugamaður og ég að sama skapi mun betur að mér um hið ágæta land Úrúgvæ, sem á það sameiginlegt með Íslandi að vera smáríki með minnimáttarkennd í fótbolta. Ég var sérstaklega roggin af því að geta tilkynnt henni um daginn að ég hefði loksins staðið undir ímynd hennar af alvöru Íslendingi og fylgst með eldgosi í návígi. Henni fannst það mjög spennandi.
Flestir sem eitthvað hafa heyrt af Íslandi vita að það er eldfjallaeyja þar sem er stórbrotin náttúra. Þessi sérstaða hefur lengi verið stór hluti af aðdráttarafli Íslands í augum erlendra ferðamanna og því er það svolítið öfugsnúið að þegar á reynir skuli þessi spennandi staðreynd hafa slíkan fælingarmátt. Það skiptir því augljóslega máli hvernig á málum er haldið og hvorri hlið á peningnum snúið upp. Nú hefur ferðaþjónustan á Íslandi ráðist í markaðsátak þar sem ætlunin er m.a. að virkja almenning til að láta jákvæðar fréttir um eldgosið og lífið í landinu berast um sitt tengslanet.
Mér finnst þetta vel til fundið, enda er það alþekkt að jákvætt umtal er langöflugasta auglýsingin. Þetta krefst ekki heldur mikillar fyrirhafnar fyrir okkur Íslendinga því það er ótrúlega auðvelt að vekja áhuga útlendinga enda landið okkar er afar framandi í augum umheimsins þótt okkur finnist það oft hversdagslegt. Það er a.m.k. mín reynsla að ferðamenn sem hingað koma eru alveg í skýjunum yfir því sem fyrir augu ber, þótt oft komi reyndar á óvart hvað höfðar mest til þeirra.
Í maíbyrjun tók ég til dæmis á móti tveimur Bandaríkjamönnum sem voru í sinni fyrstu, langþráðu Íslandsför. Þingvellir fannst þeim nokkuð snotrir og Gullfoss og Geysissvæðið í meðallagi áhugavert. Hinsvegar gripu þau andann á lofti þegar við keyrðum út úr þoku við Þorvaldseyri og stoppuðum í vegarkanti þar sem gjóskustrókurinn stóð upp af Eyjafjallajökli og bar við bláan himin. Það fannst þeim spennandi, að fá að sjá lifandi sönnun þess að þau væru stödd á þessari umdeildu eldfjallaeyju jafnvel þótt það væri bara frá þjóðvegi 1.
„Leyfið fólkinu að koma til eldfjallsins," sagði Haraldur Sigurðarson eldfjallafræðingur á ferðamálaþingi í síðustu viku og hitti naglann á höfuðið að mínu mati. Eldfjallaeyjan Ísland er nefnilega æsispennandi. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 12. maí.
Á svona dögum minnir sjórinn mig alltaf á mjúkan rjóma og þá er auðvelt að gleyma því hvað hann getur verið ógnvænlegur. En þótt það lægi svona beint við vorum við alls ekki á leiðinni á Suðurskautslandið heldur í gagnstæða átt þar sem jörðin hefur rifnað og blæðir glóandi kviku. Við vorum auðvitað komin í vímu mörgum klukkutímum áður en sást votta fyrir gosstrókunum. Kannski var það vegna óhóflegrar súrefnisinntöku á leiðinni upp brekkurnar, en aðallega var það fannhvítur Eyjafjallajökullinn, dimmblár himinninn, mosinn, sólin og algleymið, fossarnir og svo vitneskjan um hvað beið okkar sem olli vímunni.
Auk þess, þótt veraldleg gæði eigi samkvæmt bókinni að vera víðsfjarri huga manns í svona aðstæðum, þá veitir útivistin samt líka ánægju sem kallast mætti hégómleg, því það er nefnilega svo gaman að finna hvað hlífðarfötin eru góð. Það fylgir því sigurtilfinning að geta klætt utan af sér vindkælinguna svo frostið verður bitlaust. Það er vegna þessa sem mér hefur lærst að elska ullarnærfötin mín jafnmikið og alla fallegu kjólana mína, sem ég ber þó afar heitar tilfinningar til. Ef ull væri ekki hluti af þessum heimi væri líf mitt sennilega allt öðru vísi og verra en það er.
Á svona fallegum degi þarf ekkert eldgos til að njóta þess að vera úti í náttúrunni enda gleymdum við okkur framan af við að skoða fossana í klakaböndum. En kappið heltók okkur samt þegar nær dró gígunum og við fórum að heyra í hjartslættinum. Því þannig er það, djúpur bassahjartsláttur einhvers staðar úr iðrunum þegar kvikan spýtist upp á yfirborðið. Verst að í fjallgöngu virðist aldrei neitt geta verið á næsta leiti. Eftir næsta leiti bíður nefnilega alltaf annað leiti og svo annað leiti og þetta var satt best að segja farið að vera svolítið ergjandi þegar bullandi eldhafið opnaðist okkur allt í einu og öll þreyta gleymdist.
Það er auðvitað ekki hægt og því tilgangslaust að reyna að lýsa því hversu bilað það er að hafa allt í senn fyrir augunum fullt tungl, stjörnubjartan himin, eldgos og norðurljós og það séð frá náttúrulegum áhorfendapalli í beinni augnhæð við hraunspýjurnar. Upplifunin var allavega svo sterk að bólgnu hnén, sem emjuðu undan kílómetra númer þrjátíu og tvö á leiðinni niður, voru löngu gleymd þegar lagt var af stað í aðra ferð að gosinu áður en vikan var á enda, frá Básum í það skiptið, og sennilega er sú þriðja ekki langt undan.
Sumpart er það þessi djúpi hjartsláttur sem togar fæturna til sín í takt við gosspýjurnar en það er líka meðvitundin um hversu mikil forréttindi það eru að hafa vilja, vöðva og getu til að upplifa náttúruundur. una@mbl.is
Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 7. apríl 2010.
Slysin gera ekki boð á undan sér og geta orðið alls staðar í öllum veðrum. Þegar útivistarmaður dettur og fótbrýtur sig í snjókomu á Skarðsheiði virðist hann samt eiga mun minni samúð og tillitssemi inni hjá samborgurum sínum heldur en félagi hans sem dettur og fótbrýtur sig á Esjunni í júlí.
Í báðum tilfellum þarf að kalla eftir hjálp til að koma þeim aftur til byggða vegna þess einfaldlega að þegar slysin verða þarf hjálp, alveg óháð því hversu hátt það er yfir sjávarmáli og hvort hitinn er undir eða yfir frostmarki. Þeir sem heima sitja virðast hins vegar margir telja að Esjugöngumaðurinn óheppni eigi allt hið besta skilið, vegna þess að þá er sól (og vegna þess að Esjan er í hæfilegri fjarlægð frá stofugluggum borgarbúa) en Skarðsheiðarmanninum ætti hins vegar að senda reikninginn og helst setja hann í gapastokkinn í leiðinni vegna þess að hann hætti sér út úr húsi í lélegu skyggni.
Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að nauðsynlegt sé að fara varlega og stundum á einfaldlega enginn erindi út úr húsi þegar veðrið er hvað verst. En það er ekki hægt að stjórna náttúrunni og það lýsir heldur ekki miklum skilningi eða náungakærleik að segja að fólk geti bara sjálfu sér um kennt lendi það í slysi við útivistariðkun. Þeir sem virðast helst vilja loka hálendinu og girða náttúruna af til að koma í veg fyrir slys, sem þeir flokka helst sem óþarfa vesen, fara villur vegar. Það gera líka þeir sem vilja að útivistarfólki sé „refsað" með því að sekta það fyrir störf björgunarsveitarmanna eða hreinlega neita þeim um hjálpina. Það eina sem hefst með því er að fólk sem þarf á aðstoð að halda verður tregara til að kalla eftir henni. Björgunarsveitirnar okkar eru eitt það besta sem við eigum, einmitt vegna þess að þær eru skipaðar hæfu ástríðufólki sem hefur sjálft mikla reynslu af útivist í öllum veðrum og er tilbúið að bjóða fram aðstoð sína í sjálfboðavinnu. Mér er til efs að björgunarsveitirnar yrðu skilvirkari væru þær stofanavæddar og settar á fjárlög. Mér er líka til efs að björgunarsveitarfólk gæti setið hjá og neitað þeim sem deila áhugamáli þeirra um aðstoð í neyð. Í staðinn gerum við hin hvað við getum til að styrkja þær. Enda vitum við að hnoðri í norðri verður að veðri þótt síðar verði. una@mbl.is
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill föstudaginn 19. febrúar 2010.
Landið faðminn breiðir
Svartir janúardagar eru þungir á sálinni. Það er skrýtið hvaða áhrif þetta blessaða skammdegi getur haft á annars léttlyndasta fólk. Sjálfri líður mér eins og vekjaraklukkan og alheimurinn hafi tekið höndum saman í stórfelldu samsæri gegn mér þegar hringingin rekur mig á fætur á morgnana. Janúar er erfiðasti mánuður ársins að þessu leyti því þrátt fyrir að daginn sé tæknilega séð tekið að lengja verður myrkrið allt í einu svo svart þegar jólaljósin slokkna og næsta tilhlökkunarefni er í sex mánaða fjarlægð: sumarið.
Ó elsku íslenska sumar, hvað ég þrái þig heitt. Eftir að gjaldeyrishöft og gengishrun hertóku Ísland og færðu það með einhverjum hætti mun norðar á bóginn og fjær umheiminum en það hafði nokkurn tíma áður verið hefur mér oft orðið hugsað til þess hvað ég er heppin að það skuli þó að minnsta kosti vera hér sem ég sit föst í gjaldeyrishöftunum. Hér þar sem ferðaþráin hefur þrátt fyrir allt næg tækifæri til að fá útrás þótt ekki sé það utan landsteinanna. Ekki síst get ég yljað mér við þessa hugsun nú í verstu skammdegisþyngslunum þegar tilhlökkunin til sumarsins heldur í manni lífinu.
Ég get ekki gert upp við mig hvert mig langar mest til að fara þetta árið; á Hornstrandir eða Austfirði? Í Þjórsárver eða Lónsöræfi? Núpsstaðaskógur eða Langisjór, Herðubreiðarlindir eða Tröllaskagi? Eða að Fjallabaki, þar sem ég get endalaust farið og alltaf fundist ég vera að sjá heiminn í fyrsta skipti enda ber landslagið því vitni að skaparinn hafi verið í trylltu skapi þegar hann galdraði það fram. Ég veit að ég kemst ekki yfir allt saman þetta sumarið en get huggað mig við að eiga nóg framundan næstu sumur á eftir.
Það má vera að það sé klisja, en staðreyndin er sú að kreppan er aldrei fjarlægari en á fjöllum. Hvernig er líka hægt að hugsa um peninga eða skuldir þegar öræfin blasa við og skynfærin bregðast þér: þá er ekki fullnægjandi að sjá fegurðina, þig langar líka til þess að synda í fegurðinni, gleypa hana, faðma fegurðina, syngja hana, vera hluti af henni. Ég hef alltaf fundið til með þeim Íslendingum sem njóta ekki náttúrunnar hér því hún er það besta sem við eigum og án hennar væri þetta harla lítt spennandi sker að búa á. Reykjavík er ekki sérstaklega skemmtileg borg eða falleg. Þær eru margar borgirnar í öðrum löndum sem skáka Reykjavík í þeim efnum enda væri ég sennilega löngu flutt héðan burt ef borgarlífið væri það eina sem þetta land hefði upp á að bjóða, hvað þá í þessu blessaða skammdegisslabbi.
Það er svolítið erfitt að vera Íslendingur þessi dægrin, þegar heiðarleiki okkar er umdeildur á heimsvísu, við erum slypp, snauð og hrakin og svo skammdegisþunglynd í ofanálag. Það er aðeins ein leið til að vinna sig upp úr svoleiðis ástandi og það er að hafa eitthvert markmið til að stefna að og hlakka til. Til skamms tíma litið er það sumarið, til lengri tíma bjartari tíð. una@mbl.is
Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 13. janúar 2010.