Sýnir færslur með efnisorðinu Sumar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Sumar. Sýna allar færslur

sunnudagur, apríl 10, 2011

Landnám í kortlögðum heimi

Fiðringurinn er farinn að láta á sér kræla. Þessi fiðringur sem fylgir því að leifarnar af síðasta snjóskaflinum í portinu fyrir utan eru í þann mund að bráðna ofan í niðurfallið. Sumarfiðringur. Fiðringurinn sem fær mig til að leggjast yfir landakortið og dreyma um ilmandi lággróður og sönglandi læki og hljóðið sem heyrist undan skósólanum þegar maður gengur eftir grýttum slóða og sól sem hitar andlitið og sviðann í húðinni þegar hún verður blóðrisa eftir slagsmál við kræklótt kjarr og um alls konar náttúruhljóð sem vakna til lífsins og hlaða líkamann af orku. Ég er ekki búin að ákveða hvert ég ætla í sumar en það verður eitthvað nýtt. Það er svo gaman að fara um nýjar slóðir, berja augum nýtt útsýni og það góða við Ísland er að hvert sem förinni er heitið eru góðar líkur á því að maður sé löngum einn á ferð og geti því ímyndað sér að maður sé að uppgötva hvern stað fyrstur manna. Landnemi.

Landnám er óstjórnlega heillandi og ævintýraleg tilhugsun því spennan felst í því óþekkta. Hvað svo sem veldur þá hafa alltaf verið til menn sem eru haldnir þessari þörf fyrir að halda af stað til móts við hið ókunnuga í von um að þar leynist eitthvað nýtt og betra en fyrir er, tækifæri til að byggja upp nýjan heim eða dýpka skilning sinn á þeim gamla. Sennilega liggur þetta djúpt í mannlegu eðli. Börn eru haldin eðlislægri forvitni og finna mikla gleði við að uppgötva eitthvað nýtt. Þegar ég var krakki var það mér mikið kappsmál að fá að uppgötva nýja staði sjálf. Ef við ferðuðumst á einhvern nýjan stað, þótt ekki væri nema í látlausan sumarbústað, fór óstjórnlega í taugarnar á mér að vera í seinna hollinu, ef það þýddi að systkini mín eða frændsystkin væru komin á undan mér á staðinn og búin að rannsaka hann. Ég vildi ekki láta sýna mér hluti, ég vildi skoða þá sjálf og segja svo öðrum frá mínum uppgötvunum.

Það var sama áhugamál sem olli því að Jóakim Aðalönd og Lára Ingalls voru meðal uppáhaldssögupersónanna minna, þótt ólík væru. Bæði voru þau landnemar sem þvældust um erfiðar og jafnvel óvinveittar slóðir ókunnrar heimsálfu, sá fyrrnefndi í leit að gulli og gimsteinum en sú síðarnefnda í leit að góðum stað til að byggja sér heimili og lifa af landsins gæðum. Í einni af sögum Don Rosa um Jóakim er hann orðinn gamall og hrumur fyrir aldur fram. Þrátt fyrir allt sitt ríkidæmi og auð vantar hann lífsfyllingu því ekkert er lengur óvænt undir sólinni. Hann er búinn að rannsaka allan heiminn, að hann telur, og fyllist lífsleiða þangað til hann fær tækifæri til að fara út í geim og uppgötva þar ókönnuð svæði. Ég fann til samkenndar með Jóakim Aðalönd í þessari sögu því andi landnemanna er varla til lengur á jörðu sem er óðum að fyllast af fólki. Þangað til ég kemst út í geiminn verð ég því að láta mér nægja að ímynda mér að ég fari um ókortlagðar slóðir í týndum ævintýradal á norðurskauti. una@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 30. mars 2011.

miðvikudagur, júní 23, 2010

Ógleymanlegar andvökur

Geturðu sofið um sumarnætur? var eitt sinn spurt í ljóði. Senn kemur brosandi dagur. Hitnar þér ekki um hjartarætur, hve heimur vor er fagur? Heimurinn var svo sannarlega fagur í Skaftafelli um helgina og ég gat alls ekki sofið, enda kom brosandi dagur áður en nóttin var einu sinni byrjuð og með honum alveg ljómandi sprækur hrossagaukur sem tók hverja dýfuna á fætur annarri beint fyrir ofan tjaldið mitt og hneggjaði með stélfjöðrunum.

Klukkan var bara 5 og ef þetta hefði verið í bænum og ef þetta hefði verið eitthvert annað umhverfishljóð hefði ég sennilega orðið pirruð á sökudólgnum en í staðinn hitnaði mér um hjartarætur eins og séra Sigurði Einarssyni í Holti þegar hann samdi ljóðlínurnar hér að ofan. Og það veitti ekki af, því það var eins og jökullinn fyrir ofan andaði köldu sem nísti í gegnum tjaldið, svefnpokann og ullarfötin, merg og bein. En það gilti auðvitað einu því hver getur svo sem sofið um sumarnætur?

Áttu ekki þessar unaðsnætur
erindi við þig forðum?
Margt gerist fagurt, er moldin og döggin
mælast við töfraorðum.

Björtu sumarnæturnar eru einhverjar lífvænlegustu stundir á norðurhveli og þess vegna fannst mér merkilegt að sjá hvað erlendu ferðamennirnir í Skaftafelli fóru flestir alltaf snemma að sofa. Eflaust átti að nýta daginn vel með því að ná góðum nætursvefni en það er samt synd að sofa af sér þessar stundir þegar hægt er að sitja og horfa á það eins og bíómynd þegar jökullinn roðnar. Og það var fleira sem ferðamennirnir misstu af þessa helgi, en má segja að ég hafi notið góðs af sjálf.

Svona blasti Morsárdalurinn við á göngu okkar Önna

Þetta var nefnilega í fyrsta skipti síðan ég var barn sem ég fer í Skaftafell og ég hafði ákveðnar hugmyndir um hversu troðið það hlyti að vera, í ljósi þeirrar staðreyndar að Skaftafell er alveg við þjóðveg númer 1 og þjóðgarður í ofanálag. Ég taldi víst að maður gæti ekki gengið að sömu kyrrðinni vísri þar líkt og í Þórsmörk til dæmis, því það krefst meiri fyrirhafnar að koma sér þangað yfir vöðin, með rútu eða á jeppa. Að sjálfsögðu reyndist vera fullt af fólki á tjaldstæðinu í Skaftafelli og þegar lagt var á brattann var nokkuð stöðug umferð á stígnum þennan spotta upp að Svartafossi, en fæstir fóru lengra. Þetta var ein af þessum einstöku helgum þegar allt gengur upp, sumarsólstöður, tær sýn til jöklanna, 20 stiga hiti í þjóðgarðinum. Og þarna gengum við í 8 klukkustundir um Morsárdal í einum ótrúlegasta fjallasal sem ég hef augum litið á Íslandi og mættum ekki einni einustu sálu. Það var eins og við ættum þetta land ein, þótt okkur langaði að deila því með fleiri því þetta var svo fallegt. Svo þegar ferðamenn verða hér orðnir milljón talsins eða fleiri á ári eins og spáð er veit ég hvert er hægt að beina þeim, því þeir eru margir fjallasalirnir þar sem enginn er, hvorki á daginn né um bjartar nætur. una@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 23. júní 2010.

fimmtudagur, júní 10, 2010

Þræll sólarinnar

Þetta á ekki eftir að endast, það bara getur ekki verið. Veðrið á ég við. Veðrið er aldrei svona gott á Íslandi til lengdar, er það nokkuð? Allavega ekki á höfuðborgarsvæðinu. Í hádeginu í gær lá ég á teppi með bók í höggmyndagarðinum við safn Einars Jónssonar. Það er garðurinn minn, því ég á ekki minn eigin. Í þetta skiptið deildi ég garðinum mínum með nokkrum léttklæddum leikskólabörnum sem blésu sápukúlur og ungum listamanni sem stóð ber að ofan framan við flennistóran striga og sótti innblástur í höggmyndirnar. Ég dottaði út frá bókinni og hitanum frá sólinni og einhvers staðar þarna á milli svefns og vöku varð ég sannfærð um að ég hlyti að vera stödd víðsfjarri í útlöndum, því þetta var eiginlega of gott til að vera satt.
Ég velti því fyrir mér hvaða þjóð sé líklegust til að persónugera sólina og mynda tilfinningatengsl við hana; sú þjóð sem fær meira en nóg af henni eða sú sem er stöðugt sólarþurfi. Ekki veit ég svarið en ég veit að mér er farið að líða eins og sólin sé að ögra mér. Það hlakkar í henni þegar ég reigi mig og teygi undir henni og keppist við að drekka í mig geislana á meðan ég get, á meðan hún lætur ennþá sjá sig.
Sólin hefur nefnilega gríðarlega mikið vald yfir mér og ég held að hún viti af því. Að skipuleggja sumarfríið sitt á Íslandi er svolítið eins og að taka þátt í lottóinu. Uppsker maður eintóma rigningu og rok eða fær maður stóra vinninginn og hittir á sólartímabilið? Af þessum sökum er ég, gegn betri vitund, farin að hugsa þessari einmuna blíðu þegjandi þörfina. Ég fer nefnilega í sumarfrí í júlí. Haldi júní áfram að vera svona sólríkur og dásamlegur, eins og maí var líka, þá stefnir allt í það að ég þurfi að eyða sumarfríinu mínu í regngallanum. Þess vegna stunda ég störukeppni við sólina núna.
Ég er þræll sólarinnar. Þegar veðrið er gott þá einfaldlega verð ég að fara út, því það er engin leið að vita hversu lengi það endist. Þetta er hinsvegar þreytandi kappleikur því það gildir einu hversu vel ég er sofin eða hvað var á dagskránni þann daginn, ef sólin skín inn um gluggann hjá mér í morgunsárið víkur allt annað fyrir útiverunni og í svefnrofunum byrja ég strax að reikna út hvort ég hafi nú tíma til að fara í sund eða gönguferð fyrir vinnu, til að kreista út nokkrar sólarstundir.
Eflaust myndi það veita mér mikið frelsi undan þessari sjálfsköpuðu kvöð að búa í sólríkara landi þar sem sú tilfinning er ekki ríkjandi að sérhver sólardagur sé sá síðasti. Ég áttaði mig á því að þetta væri ekki alveg eðlilegt þegar ég fann til léttis einn morguninn þegar ég byrjaði daginn eins og venjulega á því að gá til veðurs út um svefnherbergisgluggann og sýndist vera skýjað. Skyndilega varð ég mun rórri og hugsaði með mér að nú gæti ég loksins gefið mér tíma til að sofa út, þrífa öskusallann af gólfinu og svara nokkrum póstum. Þegar ég gáði aftur fimm mínútum síðar var sá draumur úti, heiðblár himinn blasti við og ég varð að fara út. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 9. júní.

laugardagur, maí 29, 2010

Heimur Unu - Almanakið

Ég hef verið að uppgötva maí sem frábæran sumarmánuð. Ég veit ekki alveg hvað gerðist, er það veðrið sem hefur batnað eða hefur maí kannski alltaf verið svona frábær en ég bara ekki getað notið þess því ég var alltaf í prófum?

Reyndar geymir heili minn óljós minningarbrot af mér sitjandi úti undir bókasafnsvegg með jarðarber í tilraun til að samræma próflestur við sólbað og mjög langar hakkísakk lestrarpásur þess á milli. Þetta bendir til þess að yndislegheit maímánaðar séu engin ný tíðindi þótt ég hafi ekki haft mikið færi á að njóta þeirra hingað til. Nú hef ég upplifað þrjá próf- og skólalausa maímánuði á ævi minni síðan ég komst til vits og ára og þeir hafa verið hver öðrum frábærari undir skínandi maísól hins vinnandi manns. Það er ekkert lítið sem sumarið lengist með þessu.

Reyndar er það þannig að eftir að hafa eytt bróðurparti ævinnar í skóla tekur það dálítinn tíma að brjótast út úr hugarfarinu sem fylgir skóladagatalinu. Samkvæmt skóladagatalinu byrjar sumarið ekki fyrr en í júní og það er búið um miðjan ágúst, alveg óháð því hvort sólin heldur áfram að glenna sig eða ekki. Í raunveruleikanum er það hins vegar þannig að sumarið byrjar um miðjan maí, allavega í góðu árferði, varir út ágústmánuð og teygir sig jafnvel fram í september.

Septemberdag einn í hitteðfyrra lá ég á pallinum hjá foreldrum mínum í steikjandi heitu sólbaði og fyrir tæpu ári fór ég í septemberferð inn í Þórsmörk dúðuð ullar- og hlífðarfatnaði en þurfti að rífa mig úr nánast hverri flík nema gönguskónum því blessuð sólin var svo heit. Ég sé því fram á að sumarfílingurinn, sem byrjaði fyrir hálfum mánuði, muni vara sleitulaust næstu 14 vikurnar eða svo. Ekki slæmt það fyrir land sem kennt er við ís.

Út úr pappakassanum

Þannig hefur mér lærst að brjótast undan viðjum skóladagatalsins. Reyndar hef ég almennt haft frekar illan bifur á því að láta almanök stjórna lífi mínu, alveg síðan ég fór í nokkurra mánaða bakpokaferðalag. Það er stórhættulegt að fara í svona ferðalag get ég sagt ykkur, ekki vegna þess að umheimurinn sé svona háskalegur staður, heldur vegna þess að það er mun erfiðara að sætta sig við lífsmunstur hversdagsins þegar maður neyðist til að snúa aftur heim. Eftir að hafa upplifað það til lengri tíma að það skiptir nákvæmlega engu máli hvaða dagur er og nánast engu máli heldur hvaða tími dagsins þá afhjúpaðist fyrir mér, þræl hversdagsins, að reglur almanaksins og hinnar hefðbundnu vinnuviku eru í raun algjörlega merkingarlaus höft.


Föstudagslegur mánudagur

Hver segir til dæmis að frí þurfi endilega að vera á laugardögum og sunnudögum? Og af hverju ætti maður alltaf að byrja að vinna á sama tíma á morgnana, bæði sumar og vetur þegar líkamsklukka manns segir manni eitthvað allt annað? Þessa dagana er ég t.a.m. oft glaðvöknuð klukkan 5 á morgnana á meðan það kostar mig mikið átak að komast á fætur fyrir klukkan 8 í janúar. Þegar allt kemur til alls eru hugtök eins og „mánudagur" eða „föstudagur" algjörlega handahófskennd og ekkert sem segir að ég þurfi endilega að vera í meira stuði á föstudagskvöldi en á mánudegi. Helgin er svo lengi að líða, hversu lengi má ég bíða, fram á þriðjudagskvöld?

Eftir sem áður er ég tilbúin að samræma lífsstíl minn að einhverju leyti þessum samfélagslega ramma sem dagatalið er, bara svona til að vera ekki með óþarfa derring, en ég tel að það sé öllum hollt að brjótast aðeins út úr þessum viðjum og öðrum sem okkur eru settar af samfélaginu og við verðum allt of auðveldlega samdauna. una@mbl.is

Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 28. maí.

miðvikudagur, janúar 13, 2010

Landið faðminn breiðir

Svartir janúardagar eru þungir á sálinni. Það er skrýtið hvaða áhrif þetta blessaða skammdegi getur haft á annars léttlyndasta fólk. Sjálfri líður mér eins og vekjaraklukkan og alheimurinn hafi tekið höndum saman í stórfelldu samsæri gegn mér þegar hringingin rekur mig á fætur á morgnana. Janúar er erfiðasti mánuður ársins að þessu leyti því þrátt fyrir að daginn sé tæknilega séð tekið að lengja verður myrkrið allt í einu svo svart þegar jólaljósin slokkna og næsta tilhlökkunarefni er í sex mánaða fjarlægð: sumarið.

Ó elsku íslenska sumar, hvað ég þrái þig heitt. Eftir að gjaldeyrishöft og gengishrun hertóku Ísland og færðu það með einhverjum hætti mun norðar á bóginn og fjær umheiminum en það hafði nokkurn tíma áður verið hefur mér oft orðið hugsað til þess hvað ég er heppin að það skuli þó að minnsta kosti vera hér sem ég sit föst í gjaldeyrishöftunum. Hér þar sem ferðaþráin hefur þrátt fyrir allt næg tækifæri til að fá útrás þótt ekki sé það utan landsteinanna. Ekki síst get ég yljað mér við þessa hugsun nú í verstu skammdegisþyngslunum þegar tilhlökkunin til sumarsins heldur í manni lífinu.

Ég get ekki gert upp við mig hvert mig langar mest til að fara þetta árið; á Hornstrandir eða Austfirði? Í Þjórsárver eða Lónsöræfi? Núpsstaðaskógur eða Langisjór, Herðubreiðarlindir eða Tröllaskagi? Eða að Fjallabaki, þar sem ég get endalaust farið og alltaf fundist ég vera að sjá heiminn í fyrsta skipti enda ber landslagið því vitni að skaparinn hafi verið í trylltu skapi þegar hann galdraði það fram. Ég veit að ég kemst ekki yfir allt saman þetta sumarið en get huggað mig við að eiga nóg framundan næstu sumur á eftir.

Það má vera að það sé klisja, en staðreyndin er sú að kreppan er aldrei fjarlægari en á fjöllum. Hvernig er líka hægt að hugsa um peninga eða skuldir þegar öræfin blasa við og skynfærin bregðast þér: þá er ekki fullnægjandi að sjá fegurðina, þig langar líka til þess að synda í fegurðinni, gleypa hana, faðma fegurðina, syngja hana, vera hluti af henni. Ég hef alltaf fundið til með þeim Íslendingum sem njóta ekki náttúrunnar hér því hún er það besta sem við eigum og án hennar væri þetta harla lítt spennandi sker að búa á. Reykjavík er ekki sérstaklega skemmtileg borg eða falleg. Þær eru margar borgirnar í öðrum löndum sem skáka Reykjavík í þeim efnum enda væri ég sennilega löngu flutt héðan burt ef borgarlífið væri það eina sem þetta land hefði upp á að bjóða, hvað þá í þessu blessaða skammdegisslabbi.

Það er svolítið erfitt að vera Íslendingur þessi dægrin, þegar heiðarleiki okkar er umdeildur á heimsvísu, við erum slypp, snauð og hrakin og svo skammdegisþunglynd í ofanálag. Það er aðeins ein leið til að vinna sig upp úr svoleiðis ástandi og það er að hafa eitthvert markmið til að stefna að og hlakka til. Til skamms tíma litið er það sumarið, til lengri tíma bjartari tíð. una@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 13. janúar 2010.

föstudagur, júlí 31, 2009

Á föstudegi - Barnsleg gleði

„ÉG var hjá Önnu um helgina. Á laugardaginn var pizza og ís. Já og negrakossar. Svo fórum við í kínverskt box og hástökk. Svo sváfum við inni í stofu. Morguninn eftir fórum við upp á Reykjalund að heimsækja afa þeirra. Það var mjög gaman. Við fórum í þrekhjól, hjólastól, lyftulistir og margt fleira. Svo reyndum við að brjóta upp lás á hliði á leikskóla og fórum í hjólatúr." Vá hvað þetta var skemmtilegur dagur. Eða hann hljómar allavega þannig, miðað við hvernig ég lýsi honum í dagbókinni minni þegar ég var 10 ára. Þá vorum við skikkuð til að halda dagbók í skólanum til að efla ritfærni og tjáningarþroska eða eitthvað í þá áttina.

Núna er ég þakklát fyrir það því þessar dagbókarfærslur eru ómetanleg heimild um lífið sem var þegar helginni var reddað með því að draga allar dýnur úr rúmunum til að fara í kínverskt box og meira að segja spítalaheimsóknir voru fjör af því það var svo gaman að djöflast í hjólastólunum á gólfdúknum. Ég sakna þess tíma stundum. Til dæmis þegar ég fæ bréf frá Tollstjóranum í Reykjavík sem ég skil ekkert hvað þýðir annað en að ég muni tapa peningum af reikningnum mínum. Eða þegar bifreiðagjöld, óhjákvæmileg kaup á nýjum rafgeymi og hraðasekt koma í bakið á mér allt í sömu vikunni.

Ekki svo að skilja að lífið hafi verið algjörlega áhyggjulaust við 10 ára aldurinn, alls ekki. Ég man til dæmis að ég átti oft í miklu sálarstríði fyrir háttinn því ég gat ekki ákveðið hvort ég átti að hafa dyrnar lokaðar, ef kvikna skyldi í húsinu um nóttina, eða opnar ef það kæmi jarðskjálfti. Ákvað á endanum að loka þeim aðra hverja nótt. Ég man líka að ég fylltist stundum angist yfir tilhugsuninni um að verða fullorðin. Mér sýndist á mömmu og pabba að það væri hreint ekkert svo skemmtilegt. „Þarf ég þá að hætta að klifra í trjám?" hugsaði ég kvíðin með mér.

Þrátt fyrir gleði æskunnar kom nefnilega snemma í ljós að engum lætur betur en mér að trega og ég var þegar byrjuð, tregaði mína eigin barnæsku löngu áður en hún var búin. Ég tregaði ævintýrin sem ég hélt að ég myndi hætta að hafa gaman af, en vissi ekki að Harry Potter átti eftir að verða til og skemmta mér fram eftir öllum aldri. Ég tregaði ímyndunaraflið sem ég taldi að myndi glatast, en vissi ekki að ég átti eftir að gleyma mér heilu dagana í dagdraumum um ferðalög á framandi slóðir, í stað þess að læra fyrir háskólaprófin. Og ég vissi ekki heldur að ég ætti eftir að fara á þessa staði. Og klappa tígrisdýri.

Ég tregaði líka leikina sem ég hélt að ég myndi hætta að leika þegar ég væri föst yfir vinnu alla daga, en vissi ekki að um leið og mér gæfist frí gripi ég tækifærið til að velta mér upp úr drullusvaði í eltingarleik við bolta. Með öðru fullorðnu fólki. una@mbl.is

Birtist sem föstudagspistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins 31. júlí 2009.

mánudagur, maí 25, 2009

Sólsólsólsólsól

Nú er liðin vika síðan sumarveðrið skall allt í einu á okkur og snarbreytti stemningunni á skerinu til betri vegar. Svo vel vildi til að ég átti frí alla síðustu viku vegna uppsafnaðrar yfirvinnu sem ekki er lengur greidd út í launum heldur fríi. Frá því sumarið hófst er ég því búin að...

...ganga á Heklu í fullkomlega heiðskýru veðri og mögnuðu útsýni
...sötra bjór á þétt setnum Austurvelli
...flatmaga í sundi með vinkonum mínum
...flatmaga í sólbaði með kærastanum mínum
...borða grænan frostpinna til að svala mér
....sólbrenna á nefinu
...grilla kjöt og maískólfa
...slappa af í sveitinni og klappa nýfæddum fjórfætlingum
...fara á hestbak
...dansa í miðbænum og sjá ljósaskiptin þegar það hættir að skyggja á miðri leið og verður bara bjart aftur
...sjá ekta poppkorns-sumarsmell í bíó (Angels&Demons)
....endurheimta ljósa lokka og hraustlegra útlit

Þessi eina frívika hefur verið eins og sýnishorn af heilu sumri í mínum huga enda er ég ekki vön því að hafa lengra samfleytt frí á sumrin en það sem nemur langri helgi. Það besta er að ég er ekki einu sinni byrjuð að taka út sjálft sumarfríið, sem er 4 vikur allt í allt, svo ég lít svo á að síðustu dagar séu fyrirboði um einstaklega gott sumar.

Ég hef líka komist að því að ég gæti hæglega vanist því að vera í svona fríi. Alltaf.


Beygingarmynd dagsins: fartina

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Einu sinni á ágústkvöldi

Strax eftir verslunarmannahelgi byrjar grátkórinn um að nú sé haustið komið, sumarið búið og veturinn óðum að nálgast. Hvers konar vantrú á íslenska sumrinu er þetta? Mætti ég þá benda ykkur á það litlu vinir að undanfarin 10 ár hefur meðalhitinn í Reykjavík alltaf verið hærri í ágúst en í sumarmánuðinum sjálfum júní, fyrir utan 2002 þegar hann var 0,6 gráðum hærri í júní. (Eflaust ná þessir yfirburðir lengra aftur í tímann en ég nennti ekki frekari heimildavinnu.) Hitabylgjan mikla árið 2004 stóð hæst í miðjum ágústmánuði. Hver hugsaði til haustsins þá?

Hún var ekki amaleg kvöldspáin þann 27.ágúst

Eflaust brenglar samanburðurinn við næsta mánuð á undan skynjunina eitthvað, því sé miðað við maí er júní nokkuð hlýr, en að júlí liðnum virkar ágúst kaldur, en ekki láta blekkja ykkur. Íslenska sumarið er aldrei neitt Kanarí, svo hvers vegna fær ágúst ekki að njóta sannmælis eins og júní og júlí?
Ég held annars að þetta hugarfar skýrist að einhverju leyti af því að fólk setji samasem merki á milli sumarfrís og sumarsins sjálfs, sérstaklega skólafólk. En þótt skólarnir byrji í ágúst er sumrinu ekki þar með lokið. Víðast hvar í Evrópu byrja nemendur ekki í sumarfríi fyrr en í júnílok, það þýðir þó ekki að sumarið sjálft sé ekki þegar byrjað.

Auðvitað minnir dvínandi birta mann óhjákvæmilega á að sumarið er ekki endalaust, en það er óþarfi að leyfa ótímabæru skammdegisþunglyndi að ná tökum á sér. Sumrinu þarf ekki að vera lokið þótt húmi að, annars staðar í heiminum er kolniðamyrkur allar nætur yfir hásumarið en það er ekkert minna sumar fyrir því.
Ég er einfaldlega ekki tilbúin til að afsala mér sumrinu strax eftir verslunarmannahelgi. Í allramesta lagi er ég tilbúin að kalla ágúst síðsumar en ég fer ekki feti lengra en það. Og já, þetta er spurning um hugarfar, þannig að hættið þessu væli og farið út að grilla.


sunnudagur, júní 17, 2007

17.júní

Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi hátíðahaldanna á 17.júní og verið frekar þver gagnvart skemmtidagskránni sem þar er boðið upp á. Í dag hef ég hinsvegar verið að vinna við að skrifa um atburði dagsins og nú ber svo við að ég dauðsakna þess að hafa aldrei séð hátíðardagskrána á Austurvelli. Ég vildi að ég hefði vaknað snemma í stað þess að sofa úr mér stemningu næturinnar, og hlustað á Karlakór Reykjavíkur syngja þjóðsönginn og Ísland ögrum skorið. Afþví að það er fallegt.
Hvað sem því líður, beygingarmynd dagsins varð á vegi mínum í dag og er stórskemmtileg að vanda: nikkuballs

miðvikudagur, apríl 18, 2007

Sumarið nálgast

Þar sem ég á nú að vera að vinna að leiðinlegasta verkefni allra tíma þykir mér mjög aðkallandi að setja saman ferðaáætlun fyrir heimsókn Pablo vinar míns og Lasheenu vinkonu hans. Því miður stoppa þau afar stutt, frá 23.-26.maí, þegar þau fljúga áfram til meginlandsins í Evrópureisu. Þessa 3 daga sem þau eru hér ætla ég hinsvegar að nýta vel til að gera Ísland eftirminnilegt.
Planið er gróflega eins og hér segir:


Dagur 1 – Miðvikudagur

-Sæki þau í Leifsstöð kl. 6:30
-Morgunmatur á Freyjugötu og þau koma sér fyrir
-Rölt um Reykjavík, m.a. upp í Hallgrímskirkjuturn, miðbæinn, pulsa á Bæjarins beztu, harðfiskur í Sægreifanum. Mögulega kíkja á Sögusafnið í Perlunni og Árbæjarsafn (uppáhalds safnið mitt).
-Um kvöldið ætla ég að elda fyrir þau humar (sem Pablo hefur aldrei smakkað) og súkkulaðiköku.
-Pæling að fara kannski í kvöldtúr í Laugardalslaugina og flatmaga í heitum pottum fyrir svefninn.


Dagur 2 – Fimmtudagur

-Keyrum upp í Mosó, með viðkomu í Mosfellsbakaríi og borðum svo brunch með fjölskyldunni minni í Akurholtinu; sýna honum hvar ég ólst upp.
-Golden Circle; gefum okkur góðan tíma á Þingvöllum, Gullfossi og Geysi. Mig langar líka mikið að kíkja á Geysisstofu, þar er víst nokkuð sniðugt safn núna með norðurljósa, -jarðskjálfta og eldfjallasýningu.
-Ef tími gefst til langar mig að kíkja upp í Reykjadal eftir þetta og sjá hvort við getum ekki skolað af okkur ferðarykið í heitri laug. Af Ölkelduhálsi er víst líka fallegt útsýni.
-Um kvöldið förum við í Hvamm, jörð foreldra minna rétt fyrir utan Hellu, grillum lambakjöt og slöppum af.


Dagur 3 – Föstudagur

-Hleypi þeim mögulega á hestbak, þó ekki viss.
-Frá Hvammi keyrum við eftir Suðurströndinni og komum við á þessum helstu stöðum; Seljalandsfoss, Skógar, Reynisfjara. Allt þetta svæði austur undir Eyjafjöllum er ótrúlega fallegt, með fjalla –og jöklasýn og mjög túristavænt.
-Skyldustopp í Seljavallalaug, skemmtilegasta laug landsins.
-Keyrt aftur í bæinn, ekki ólíklegt að við endum á Eldsmiðjupizzu þetta kvöldið.
-Hugsanlega stuttur rúntur niður Laugaveginn ef tími og orka leyfir.


Dagur 4 – Laugadagur

-Keyri þau eldsnemma í Leifsstöð


Auðvitað eru fjölmargir fleiri staðir sem mér finnst þau ættu að sjá. Langar t.d. mikið að ganga með þeim upp a Glym, fara að Jökulsárlóni etc. Því miður gefst ekki tími til þess í þetta skiptið. Ég ræð mér varla fyrir spenningi, enda veit ég fátt skemmtilegra en að ferðast með útlendingum um landið mitt (nema ef vera skyldi að vera sjálf útlendingur í annarra löndum). Auk þess er Pablo svo frábær og mér þykir óskaplega vænt um hann. Ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar, sérstaklega ef þið vitið um einhverja góða staði sem mér hefur ekki komið til hugar.

sunnudagur, október 29, 2006

To Whom it May Concern:

Ég setti inn myndaalbúm frá síðasta sumri. Þar má m.a. finna myndir frá Laugarvatnsferð, afmæli Ásdísar í Heiðmörk, afmæli Önnu, Sigurrósartónleikum á Miklatúni og í Ásbyrgi og Mývatnsútilegu.

Eitt skemmtilegasta kvöld sumarsins var þó ekki fest á filmu, þar sem engin myndavél var með í för. Þetta var miðvikudagskvöld í júní þegar við fórum nokkur út í leiki í Hljómskálagarðinum. Þar fórum við í n.k. Advanced Eina krónu sem var æsifengin, en leikurinn fór þannig fram að í stað þess að hlaupa að nærliggjandi staur þurfti að komast upp á topp á pýramída-klifurgrindinni í Hljómskálagarðinum, og æpa þaðan "Ein króna fyrir mér einn tveir og þrír!" Mér hefur alltaf þótt Ein króna skemmtilegur leikur en hann hefur aldrei áður verið jafnspennandi og þetta kvöld, þegar ég hljóp út úr runna og kepptist við að vera á undan Snæbirni upp klifurgrindina, með dúndrandi adrenalínhjartslátt. Ekki spillti svo fyrir hversu fallegt kvöldið var, logn og heiðskýrt og regnbogi í gosbrunninum í Tjörninni. Og svo fengum við okkur miðnætur-ís.
Svona var sumarið 2006.

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

Blíðan

Bongó?
Já, mongó bongó.


Setti myndir frá Las Vegas inn á myndasíðuna.

laugardagur, júlí 22, 2006

Laugardagsmorgnar

Ég elska þegar Hallgrímskirkjuklukkurnar spila Ísland ögrum skorið um helgar. Það er svo notalegt. Nú fer ég upp, hita mér smábrauð í ofninum og les Moggann.

Hallgrímskirkja rétt eftir miðnætti á júníkvöldi

laugardagur, júlí 02, 2005

Nú er liðinn 1/3 hluti af hinu formlega íslenska sumri og ég er ágætlega sátt við hvernig ég hef nýtt hann. Ef maður passar sig ekki eiga sumrin það til að renna manni úr greipum án þess að nokkur skapaður hlutur gerist. Vonandi verður ekki svo þetta árið.
Í júní gerðist þetta:

Ég...
...fór í brúðkaup uppi í Skorradal, sem endaði á næturlöngu heitapottspartýi með móðurfjölskyldu Önna (þótt Önni hafi reyndar verið fjarri góðu gamni)
...fór í 2 grillveislur
...brunaði á Snæfellsnes til að sofa í tjaldi
...var dræver í 17.júní skrúðgöngu og keyrði síðan til baka, upp Laugaveginn, klædd eins og Marilyn Monroe með stóra rólu á bílþakinu.
...fór í hestaferð með fjölskyldunni
...fór í óvissuferð með vinnunni

Í júlí og ágúst stendur svo ýmislegt til, svo þetta sumar virðist ætla að verða ágætt.

laugardagur, apríl 23, 2005


Heimurinn er búinn að vera allt of fallegur undanfarið til að hægt sé að læra nokkurn skapaðan hlut. Það er alveg vonlaust að skikka mann í próf og ritgerðaskrif þegar vorið er búið að læsa klónum í allan líkamann á manni. Ég finn alltaf meira fyrir árstíðamuninum eftir því sem ég eldist. Sem krakki velti maður sér lítið upp úr þessu, en ég finn mikið fyrir skammdeginu núna. Það er bara ekki hægt að líkja saman morgunskapinu núna og í desember. Svo er ég miklu léttari og orkumeiri, en þetta þarf allt að bæla niður yfir lestrinum.
Ég get líka ómögulega hlustað á tónlist við þessar aðstæður, hugurinn reikar alltaf út um gluggann og fyrri sumarminningar streyma fram. Alls konar klénar minningar um útiveru og gras og gönguferðir og gítarsöng og sund og svaml og léttklædd partý og grillveislur og sólbruna. Svo syngja fuglarnir utan við gluggann minn alla nóttina. Í gær fór ég í gönguferð út að Vífilstaðavatni og það ilmaði allt af gróðri. Mér fannst það alveg grátlegt að þurfa að fara inn aftur. Það er svo fallegt úti. Fallegt, fallegt, fallegt.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Bless

Ég er farin vestur á vit forfeðranna. Berin eru snemma á ferð í ár.

fimmtudagur, júní 17, 2004

17.júní

Mikið er þetta leiðinlegur og óáhugaverður dagur. 90% álag og ég fæ ekki að vinna vegna þess að fastráðnir starfsmenn ganga fyrir og allt er lokað alls staðar, ekki einu sinni hægt að fara í sund. Svo líður að kveldi og þá fyllist bærinn af fullum 14 ára krökkum. Á meðan ég hvorki er barn né á barn þá er þetta leiðindadagur.

mánudagur, júlí 14, 2003

Öfund

Öfundsýki hrjáir mig mikið á sumrin. Mér finnst grasið alltaf grænna hinum megin við lækinn og allir vera að gera eitthvað skemmtilegra en ég. Ég öfunda evrópuflakkarana alla saman svo mikið að ég er alveg græn í gegn. Svo er dagamunur á því hvort mig langar til Krítar eða ekki, annan hvern dag sé ég eftir peningnum og finnst ég hefði bara átt að sleppa þessu, en hina dagana hlakka ég mikið til.

Í vinnunni í gær var mér tilkynnt að ég væri duglegur og samviskusamur starfskraftur og ynni vel. Það var gott að heyra það og mjög hvetjandi. Við ættum að gera meira af því að útdeila hrósi.

Skemmtilegt: Conversation / conservation

laugardagur, júlí 05, 2003

Áðan varð ég vitni að geitungsstungu í fyrsta skipti. Fórnarlambið var Snæbjörn Guðmundsson, eða réttara sagt hægri fótur hans, þar sem setið var við matarborð Maack-fjölskyldunnar að Bergstaðarstræti og svört hrísgrjón snædd. Fyrir mitt leyti var þetta skemmtileg lífsreynsla, toppaði jafnvel bollatækið sem ég borgaði 400 krónur fyrir í Tævolæinu í Smáralind nokkru seinna. Liðið sem ég sá þar er fólk sem ég gleymi að er til fram á miðnætti 17.júní og á Eldborgarhátíðum, ef ég færi á slíkar. Afskaplega steiktur flokkur ungs fólks.

Nýjustu fregnir af úthafinu herma að Þerney sé á leið í slipp í júlí og því verði þessi túr Önundi ekki nógu mikil ferð til fjár. Skipið kemur þá í land í kringum þann tuttugasta sem er eiginlega óheppilega snemmt. Mér finnst reyndar allt annað en slæmt að fá drenginn til mín, en óneitanlega væri fjárhagslega betra ef hann yrði 5 vikur eins og í fyrra. Gervihnattasíminn virðist ekki virka sem skyldi, Önni rétt náði að segja mér að hann hefði dreymt kvenmann í klefanum sínum, þegar sambandið slitnaði. Ég verð víst að bíða í viku eftir nánari útskýringum á þessari ókunnu konu.

Annars verð ég að lýsa yfir svekkelsi mínu vegna þessarar SMS-hátíðar í Þjórsárdal. Ekki fékk ég neitt sms.

Beygingarmynd dagsins: Taus

laugardagur, júní 28, 2003

Önundur...

...er farinn. Í þetta skiptið var fyrirvarinn í lengra lagi, þ.e. 3 sólahringar. Það var mjög gott. Samt finnst mér frekar skítt að hann skyldi fara í gær, við bjuggumst ekki við skipinu svona snemma og vorum búin að plana þessa blessuðu fríhelgi mína. Ég búin að hlakka mikið til. Að vissu leyti er samt gott að hann fór snemma, því þá kemur hann vonandi fyrr heim og þá höfum við nokkra daga áður en ég fer til Krítar. Ætli ég hafi ekki þroskast undanfarið ár, eða sambandið eða epli. Eitthvað hefur a.m.k. breyst því í fyrrasumar grenjaði ég eins og hlandblautt braggabarn fyrstu vikuna en núna sýni ég mikla stillingu með framúrskarandi jafnaðargeði. Ég hef ákveðið að gera eftirfarandi í júlímánuði:

1. Taka á mig allar aukavaktir í Víðinesi og alla vinnu í bíóinu sem mér býðst.
2. Lesa eins mikið og ég get.
3. Fara vestur með ömmu og afa.

Svo þarf ég líka að muna að það er hann Önni blessaður sem fer á sjóinn, ég er bara heima ennþá í vellystingum. Svo myndi maður kannski halda að særokið gerði hann að ísköldum harðjaxli, þegar raunin er sú að hann er sú allra blíðasta, velviljaðasta og yndislegasta manneskja sem ég hef kynnst. Góður strákur hann Önni.

Ég ætlaði víst að blogga um líknardauða en nenni því ekki.

Beygingarmynd dagsins...
...er tileinkuð dr.Braga Diskó-snaga; kúktu