Sýnir færslur með efnisorðinu Matur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Matur. Sýna allar færslur

fimmtudagur, desember 01, 2011

Ímyndaðar óvættir
Jólakötturinn er óvættur sem áður fyrr vakti hroll á hverjum bæ fyrir jólin, samkvæmt þjóðsögum Jóns Árnasonar. Forfeður okkar gátu ekki notið jólanna með öllu áhyggjulausir vitandi af jólakettinum á ferð nema þeir hefðu fengið nýja flík til að halda honum í skefjum.

Í dag missa fæstir svefn yfir jólakettinum en þegar gamlar óvættir hverfa spretta aðrar fram og nútímaþjóðsögur hafa tekið við til að tryggja að við getum samt ekki notið jólanna með öllu áhyggjulaus. Óvættirnar sem nú eiga að tryggja að við höldum okkur á mottunni og hegðum okkur vel eru ekki Grýla eða Leppalúði, jólakötturinn eða jólasveinarnir, nei, þeir eru jafnvel enn verri við að eiga, nefnilega hin ógnvænlegu jólakíló. Jólin eru ekki einu sinni byrjuð þegar sumir eru farnir að hafa áhyggjur af því hvernig þeir muni ná jólakílóunum af sér að þeim loknum, verði þeir svo óheppnir að lenda í þeim.

Megrunariðnaðurinn hefur hræðsluáróðurinn um svipað leyti og jólaskrautið birtist í Ikea; hvernig á að koma sér í kjólinn fyrir jólin, forðast freistingarnar, hlaupa af sér mörinn eftir áramót. Þessi óvættur er þó ekki árstíðabundin, á aðventunni heitir hún jólakílóin, en á útmánuðum heitir hún sundfataform.
Aukakílóahræðslan á sér farveg allt árið um kring og þjóðsagan um hvað fita er ofboðslega vond lifir góðu lífi. Afleiðingin er sú að fjöldi fólks er í stöðugu tilgangslausu stríði við líkama sinn sem veldur því mikilli vansæld. Í stað þess að beina sjónum að heilsu, hamingju og hreysti fer umræðan um heilbrigðan lífsstíl öll fram á forsendum kílóa og fitu, þrátt fyrir að það sé ekkert sem segir að þeir sem eru lausir við öll „auka“kíló séu heilbrigðir.

Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur hefur bent á að grannt fólk lifi oft í sjálfsblekkingu um eigin heilsu vegna þess að samfélagið er svo gegnsýrt ofurtrúnni á hinn granna líkama. Sigrún hefur sagt megrunarumræðunni stríð á hendur, en rödd hennar má sín lítils þegar flestir fjölmiðlar taka af kappi þátt í þeirri menningu að mæla ágæti fólks út frá kílóatölu og fituprósentu.

Sú hugmynd að grannt sé gott og feitt slæmt er svo allsráðandi að grönnum einstaklingum er gagnrýnilaust hampað sem góðum fyrirmyndum og gildir þá einu hvaða innri mann þeir hafa að geyma eða þótt þeir lifi í reynd óheilbrigðum lífsstíl. Að sama skapi er gengið út frá því sem gefnu að þeir sem hafa annan líkamsvöxt en tággrannan hljóti að vera óánægðir með sjálfa sig, vegna þess að öll eigum við stöðugt að keppa að því að vera nógu grönn til að fullkomna líf okkar.

Ég neita að láta ótta við þjóðsagnakenndar óvættir varpa skugga á jólin. Ég ætla að taka hraustlega til matar míns, enda þarf að byggja upp forða til að þreyja janúarmyrkrið. Ég ætla að gæða mér án nokkurs samviskubits á öllum þeim kræsingum sem þessi dásamlegi árstími hefur upp á að bjóða og njóta þess að finna hvernig ég fylli út í gamla jólakjólinn minn.

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 30. nóvember

sunnudagur, nóvember 16, 2008

70 ár aftur í tímann

Í elsta húsi höfuðborgarinnar í Aðlstræti 10 stendur nú yfir stórsniðug sýning sem kallast Reykvíska eldhúsið - matur og mannlíf í hundað ár, þar sem tekið er saman yfirlit um mat og matarmenningu Reykvíkinga á 20. öld.

Það er hollt að setja lífið í sögulegt samhengi við það sem á undan hefur farið og í þessu tilfelli fannst mér það skemmtileg tilbreyting að skoða söguna frá sjónarhorni matarmenningar í stað stjórnmálanna, eins og oftast var gert í sögutímum. Reyndar er það augljóst af sýningunni að ekki er hægt að skilja matarmenninguna alfarið frá pólitíkinni. Mér fannst t.d. fróðlegt að lesa um matarskort og innflutningshöftin sem komið var á sökumgjaldeyrisskorts í landinu upp úr 1930. Þetta var ekki löngu eftir að Íslandsbanka fyrri var lokað með inngripi, daginn eftir neyðarfund ríkisstjórnarinnar seint á sunnudagskvöldi. Einkennilegt hvað sagan endurtekur sig.

Ekki er síður áhugavert að glugga í gamla Mogga frá þessum tíma. Þann 11. apríl 1931 er t.d. sagt frá umræðum á Alþingi um lokun Íslandsbanka: "Pjetur Magnússon tók næstur til máls. Sagði hann að lokun Íslandsbanka hefði verið svo afleiðingaríkur atburður að ekki mætti teljast óþarft að tildrögin yrðu rannsökuð. [...] Erlend firmu hefðu kippt að sjer hendinni um viðskifti við Ísland. Hefðu menn litið svo á, að aðfarirnar við Íslandsbanka bæru þess vott, að hjer sæti að völdum stjórn með slíkt bolsivíkka stjórnarmið, að hjer væri best sem fæstu að treysta [...] þar sem hún hefði ætlað að losast við erlendar kröfur með því að láta þær falla ófullnægðar. Mönnum hætti til að líta svo á a stjórn eins lands væri spegilmynd af þjóðinni."

Á sýningunni í Aðalstræti er margt annað fróðlegt. Þar má t.d. sjá fyrstu heimildir um pizzugerð hér á landi, en þær eru frá 1958-59 svo pizzan kom fyrr hingað en ég hélt. Þar segir m.a. frá ungu íslensku pari sem dvalið hafði í Róm og vildu stofna Pizzeriu í Reykjvík. Þau fengu húsnæði, en draumurinn strandaði á tvennu, í fyrsta lagi var ekki til neitt grænmeti til að notast sem álegg, og í öðru lagi fengu þau ekki skammtaðan þurrger þar sem þau höfðu ekki bakararéttindi. Einnig þótti mér fróðlegt að um aldamótin 1900 mátti fá 25 gerðir af sultu, parmesanost og blóðappelsínur um miðjan vetur í magasínum heldra fólksins í Reykjavík. Á meðan ríkti hinsvegar alvarlegur mjólkurskortur í borginni.

Ég mæli sumsé með sýningunni um Reykvíska eldhúsið. Á fimmtudagskvöldum er Sólveg Ólafsdóttir sagnfræðingur, sem tók sýninguna saman, með leiðsögn um hana. Þess fyrir utan er hún opin til að skoða sjálfur, og stendur til 23. nóvember.

mánudagur, september 01, 2008

Mánudagskvöld

Við Önni vorum búin í vinnunni klukkan að ganga sjö svo við rétt náðum í versta staðinn sem hægt er að vera á þessum tíma, Krónuna. Svöng, þreytt og hugmyndasnauð. Önni stakk upp á medister-pylsu sem ég skaut strax í kaf enda vil ég líta svo á að medister-tímabilinu sé lokið í lífi mínu. Í bili. Ég kom svosem ekki með betri tillögu; hamborgarar. Fékk dræmar undirtektir. Pirringur jókst.
Hjá kæliborðinu mundi ég allt í einu að við áttum risarækjur í frystinum heima síðan einhvern tíma þegar grillæðið stóð hvað hæst í sumar. Þá fór búltinn að rúlla maður. Haaa. Við fórum að muna eftir ýmsu öðru sem leyndist í frystinum og ísskápnum heima. Úr var þessi líka ljúffenga veisla:

Forréttur
Volgt hvítlauksbrauð

Aðalréttur
Grillaðar risarækjur sem hvítlauk og steinselju
Grillaðir maískönglar með smjöri
Klettasalat með vínberjum og ferskjum

Eftirréttur
Aðalbláber af ömmuslóðum að vestan, með rjóma


Pirringur breyttist í vellíðan. Það er enginn mánudagur í mönnum á Freyjugötu. Svo ég ákvað náttúrulega að blogga um það, enda ekki nema 19 af 614 færslum á þessari síðu undir flokknum matur.

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Blákaldur veruleiki

Ég vil taka það fram að þessi færsla hér að neðan er sko enginn baggalútur, kæru lesendur.

miðvikudagur, janúar 16, 2008

Holtselshnoss

Uppgötvun síðustu helgar var tvímælalaust Holtselshnoss rjómaísinn, sem er fjölskylduframleiðsla frá bænum Holtseli í Eyjafjarðarsveit. Ekki einasta er Holtselshnossið sannkallað hnossgæti, heldur fer nafnið sérlega vel í munni líka og ber vitni um margbreytileika íslenskrar tungu, enda vakti hljómur þess hjartanlegan hlátur á rauðvínsbláum vörum í Hvammi þessa helgina. Ég get einlæglega mælt með því að íslenskir neytendur næli sér í dollu af Holtsnesshnossi og eins væri tilvalið að gera sér ferð í Eyjaförðinn næsta sumar, berja augum norðlenska fegurð og hvíla loks beinin að Holtseli því þar hafa bændur komið upp kaffihúsi á efri hæð fjóssins þar sem hnossið er að sjálfsögðu á matseðlinum. Styðjum einstaklingsframtakið! Kaupum Holtselshnoss!

Guðmundur Jón Guðmundsson ísgerðarmeistari er stoltur af Holtselshnossinu

þriðjudagur, desember 18, 2007

Fjúsjon

Það er alltaf spennandi að leggja upp í Krambúðarleiðangur með óljósar hugmyndir um kvöldmat og snúa aftur með einhverja kynngimagnaða samsetningu eins og plokkfisk, jólaöl, ab-mjólk lifrarpylsu og ostapopp. Þetta verður þó ekki allt borðað samtímis.

Beygingarmynd dagsins: bjóralið

fimmtudagur, október 25, 2007

Það eru þessir litlu hlutir

Fyrir stundu fór ég í Krónuna til að kaupa í matinn og náði þar hinni fullkomnu, ökónómísku röðun ofan í annan pokann. Rými hans var nýtt til hins ítrasta, án þess þó að hann yrði úttroðinn, jafnvægi léttra og þungra eininga var með besta móti og hver og ein matvara var kyrfilega niðurnjörvuð og haggaðist ekki á leiðinni heim. Þetta veitti mér talsverða gleði á annars grámóskulegum degi. Einnig gladdi það mig að geta keypt stóran brúsa af handsápu og sturtusápu á einungis 99 kr stykkið, en slíkar lágmarksnauðsynjar eru oft óþarflega dýrar. Svo má geta þess að í gærkvöldi var það mér sannkallað gleðiefni að kaupa 1944 til að taka með á kvöldvakt. Það vill nefnilega svo heppilega til að uppáhaldsrétturinn minn, kjötbollur í brúnni sósu með kartöflumús, er talsvert stærri en aðrir réttir frá 1944, en jafnframt sá ódýrasti. Ég veit þetta hljómar eins og hin ótrúlegasta lygasaga en nei, kæru lesendur, svona getur auðnuhjólið snúist manni í vil.

Með hlýrri kveðju úr neytendahorni Unu.

miðvikudagur, júní 06, 2007

mánudagur, apríl 16, 2007

Ef við erum soltin, já ef við erum svöng...

Þegar ég var í Varmárskóla sem barn bauðst nemendum að kaupa þar drykkjar-og jógúrtmiða til að framvísa í hádegishléi. Valið stóð á milli svalamiða, mjólkur-Kókómjólkur-og Skólajógúrtmiða. Mamma lét okkur systkinin yfirleitt kaupa mjólkurmiða, enda voru þeir ódýrastir. Svalamiðar komu ekki til greina, því Svali var svo sykraður, en stundum fékk ég þó að kaupa mér Kókómjólk. Skólajógúrtmiðarnir voru dýrastir af þeim öllum, mig minnir að þeir hafi kostað hátt í þúsund krónur kartonið. Þess vegna var algjört spari þegar manni leyfðist stöku sinnum að kaupa svoleiðis. Bláa jógúrtin með ferskjunum var alltaf í mestu uppáhaldi hjá mér og er enn. Þessi minning er svo vandlega greypt í hugann að ég kaupi bláa skólajógúrt ennþá svolítið sem spari, t.d. sem nesti þegar ég fer í ferðalag. Þótt hún sé ekkert betri eða dýrari en önnur jógúrt eimir samt eftir af þeirri tilfinningu að Skólajógúrt sé munaðarvara.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Ostapopp

Eins og margir vita hefur Stjörnu-Ostapopp verið dópið mitt síðan ég uppgötvaði það, fyrir tæpum 2 árum síðan. Vegna áhrifa frá almenningsáliti var ég alltaf haldin þeim misskilningi að ostapopp væri ógeðslegt, en þá var eg villur vega og auðigur þóttumst þegar ég loksins smakkaði það. (Úðaþurrkaði Cheddar osturinn maður!)
Stundum sekk ég mér í óhóflegt ostapoppsát, eins og t.d. þegar ég tók LOST maraþon í fyrrasumar. Nú hef ég hinsvegar ekki leyft mér þennan munað í örugglega 3 mánuði þar sem ég er í n.k. aðhaldi. En brátt verður breyting þar á, eftir að ég rakst á þessa grein. Gert var mat á hollustu Stjörnupopps og niðurstöðu segja m.a. að Stjörnupopp sé

"trefjaríkt, enginn sykur er í því,
engar transfitusýrur og það inniheldur ívið minni fitu og orku en sambærilegar vörur."

Ekki nóg með það heldur get ég aukið trefjaneyslu um 5-7 g. að meðaltali á dag með því að borða Stjörnupopp 3x-4x í viku. Þetta var það sem ég þurfti að heyra, ostapopp, hér kem ég.

þriðjudagur, október 24, 2006

Hvalurinn

Mér finnst svolítið skrýtið þegar það er notað sem rök gegn hvalveiðum að aðeins 1,5% Íslendinga hafi borðað hvalkjöt reglulega á undanförnum X árum. Nú hefur ekki verið jafnmikið framboð af hval eins og af öðru kjöti, og jafnvel þótt það sé stundum til þá hefur það ekkert verið markaðsett og er aldrei nokkurn tíma auglýst.

Um daginn keypti Önni hrefnukjöt vegna þess að hann sá það fyrir tilviljun á tilboði. Okkur fannst það mjög gott, snöggsteikt með piparsósu og ofnbökuðum kartöflum.
Ég tel ekki útilokað að ef gert væri skurk í markaðsmálum hvalkjöts gæti eftirspurnin orðið meiri. Ég man líka að þegar ég vann í kjötborði Nóatúns fengum við mjög góð viðbrögð við hrefnukjöti þegar boðið var upp á það.

Annars er ég svolítið ringluð í öllu þessu hvalamáli. Eins og flestir Íslendingar hef ég ekkert á móti því í prinsippinu að hvalir séu drepnir eins og önnur dýr, en samt sem áður er ýmislegt sem mælir gegn því. Sumir vilja t.d. meina að langreyður sé í útrýmingarhættu, þótt aðrir segi að svo sé ekki. Ef að það er vafaatriðið finnst mér að þeir ættu bara að halda sig við hrefnuna, sérstaklega á meðan óvíst er hvort hagnaður verður af þessu.

Ef langreyðurin er hinsvegar á góðu róli mega þeir svo sem veiða hana mín vegna, og ef það reynist ekki arðbært þá fara þeir væntanlega bara á hausinn og þá er vandamálið úr sögunni. Ekki nema borgað sé með þessum veiðum?

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Flatbaka*

Við Kári höfum komist að því að stigmagnandi hungur hámarkast í þeirri tilfinningu að engir aðrir úrkostir séu lengur í stöðunni, aðrir en að fá sér pizzu. Áður en ég fór að heiman í morgun ákvað ég að í kvöld skyldi ég sjóða ýsuna úr frystinum og borða með henni kartöflur með smjöri og salti og rúgbrauð. Þetta þykir mér afskaplega góður matur og ég hlakkaði til að setjast til matar að kvöldi. Deginum hef ég síðan eytt á bókhlöðunni og hef lítið borðað. Enda leiðist mér hversdagslegar máltíðir yfir daginn, ef ég sit ein til borðs með eitthvað óáhugavert af bensínstöðinni eða bakaríinu fyrir framan mig. Slíkar máltíðir eru til þess eins að nærast svo vinnan geti haldið áfram; ánægjan af máltíðinni er engin. Þess vegna finnst mér slíkar máltíðir í raun vera tímaeyðsla. Annað hvort vil ég borða einhvern almennilegan gourmet mat, eða helst bara sleppa því yfir höfuð. (Tæknilega séð.)
Hvað sem því líður. Vegna þess hve lítið ég hef borðað í dag er ég nú orðin alveg skelfilega svöng. Og eftir því sem hungrið eykst, dregur jafnframt úr lönguninni til að eyða tíma í innkaup og eldamennsku. Á endanum koma þeir möguleikar ekki einu sinni til greina lengur. Framkvæmdagleðin sem var kveikjan að eldamennskuplaninu í morgun er ekki lengur til staðar, hún hefur vikið fyrir vonleysi. Mér líður eins og maginn í mér grátbiðji mig um að binda skjótan endi á kvalirnar með því að panta pizzu, og það strax.

*Upphaflega var titillinn mun alþjóðlegri, en aðeins nokkrum mínútum eftir að ég birti færsluna fékk ég "spam" í kommentakerfið í fyrsta skipti. Ég veit ekki hvort það var fyrirsögnin sem vísaði helvítinu slóðina á síðuna mína, en ég kýs að hafa hana sérhæfðari til vonar og vara.

Viðbót:

Þrátt fyrir stór orð í færslunni þá leysti undirrituð málið með því að hlaupa út á bensínstöð og hakka í sig eina pulsu. Ekki eins ljúffengt og Eldsmiðjupizza, en praktískara.

laugardagur, nóvember 05, 2005

Kökur og kruðerí

Í dag hélt kvenfélag Barðstrendingafélagsins sinn árlega basar-og kaffiboð í Djúpmannabúð. Þangað fórum við Önni með afa og fundum þar ömmu fyrir með hvíta svuntu, sem er eingöngu brúkuð við þetta tilefni. Á basarnum var boðið upp á 12 sortir og rúmlega það; rjómatertur, pönnukökur, flatkökur með kæfu eða hangikjöti, kleinur osfrv.

Meðalaldurinn hefur líklega verið um sextugt og stemninginn notaleg eftir því. Basarinn bauð upp á harðfisk, hannyrðar, notaðar bækur og sultutau. Þegar stemninginn náði hámarki hófst happadrættið. Amma og afi höfðu keypt 8 miða og við fylgdumst spennt með drættinum og töldum vinningslíkur okkar góðar, en annað kom á daginn. Mun þetta vera í fyrsta skipti sem afi fer vinningslaus heim af basarnum, en hefur alltaf verið mikið fyrir lottó og happadrætti.

Þarna hitti ég svo fyrir ekki ómerkari mann en Kolbein Sæmundsson latínu, grísku -og rússneskukennara og tókum við tal saman. Kolbeinn ólst upp á Patreksfirði til 15 ára aldurs og er virkur meðlimur Barðstrendingafélagsins. Hann mætir auk þess á öll myndakvöld Ferðafélagsins og var leiðsögumaður í ferð sem amma fór í sumar um
Syðri-Fjallabaksleið. Amma vildi meina að Kolbeinn hefði verið skemmtilegasti leiðsögumaður sem hún hefði ferðast með, og hefur hún farið ófáar ferðir.

Amma leysti okkur svo út með randalín og jólaköku í búið. Má því sannlega segja að þetta hafi verið ferð til fjár þrátt fyrir happadrættið. Það er langt síðan ég mætti síðast á atburð á vegum Barðstrendingafélagsins, en þegar ég var yngri fór ég stundum með ömmu og afa í félagsvist, auk skógræktarferðanna í Heiðmörk.

Það er gaman að því að þetta fólk skuli finna til svona samkenndar sem Barðstrendingar og rækta sambandið. Ég veit líka að amma mætir alltaf reglulega á böll með Barðstrendingunum og ég hef líka séð fyndnar myndir af skemmtikvöldi þar sem afi tók þátt í drag-skemmtiatriði, klæddur sem kona.

Það var skemmtileg tilbreyting að mæta þarna í dag, en verra er þó að ég virðist hafa borðað yfir mig af sætabrauði, enda langt síðan ég fór í kökuboð síðast, svo nú er mér hálfflökurt.

mánudagur, október 31, 2005

Bernhöftsbakarí

Hversu lélegt getur eitt bakarí verið? Á meðan ég var í MR álpaðist ég stundum þangað í hádegishléinu og prísaði mig jafnan sæla yfir að búa í nágrenni við almennilegt konditori. En nú bý ég ekki svo vel. Í gærmorgun gekk ég niður í Bernhöfts til að kaupa sunnudags-brunch. Þaðan gekk ég út með ekkert nema brauð. Brauðin eru jú ásættanleg, enda þyrfti mikið til að bakarí klúðraði brauðgerð. Þarna hafði ég hinsvegar ætlað mér að kaupa jógúrt, en enga jógúrt var að fá. Engin jógúrt, en nóg var af Gatorade og gosi. Auk þess langaði mig í appelsínusafa og jú, hann var til, en ekki kaldur. Kælirinn var greinilega nýfylltur og því höfðu vörurnar ekki náð að kólna. Mér er spurn, hvers konar vöntun á fyrirhyggju bakaríisstarfsmanna er það að undirbúa sig ekki fyrir sunnudagsmorgna?
Þegar ég kem þarna er brauðborðið iðulega hálftómt og aldrei er hægt að ganga að neinu vísu þarna, vara sem maður keypti í gær verður kannski ekki bökuð aftur fyrr en hinn daginn. Um daginn stóð mamma þarna í röð fyrir aftan konu sem spurði um kringlur. Afgreiðslustúlkan fór þá baka til og kom með eina kringlu til baka á töng til að sýna viðskiptavininum. Þegar konan bað um fimm stykk svaraði stúlkan að "nei, við erum eiginlega hætt að baka kringlur, það er svo lítið keypt af þeim." En samt baka þau eina? Eða geyma þau kannski þessa einu til minningar? Í Bernhöftsbakarí hef ég líka gert ýmsar tilraunir til sætabrauðskaupa, en undantekningalítið fengið þurrt og óáhugaverð stykki.
Mér finnst þetta svo sérkennilegt, því þetta er eina bakaríið í Þingholtunum að því er ég best veit, og ætti því ekki að vera skortur á viðskiptavinum. Samt hafa þeir ekki meiri metnað en svo að bjóða fólki upp á hálftómt kökuborð og volgan (og jafnframt stundum galtóman) kæli. Maður myndi þá kannski ætla að vegna takmarkaðs úrvals og lélegra gæða væri verðið hugsanlega lægra, en svo er ekki. Það er kannski ekki nema von, þar sem næsti samkeppnisaðali er Björnsbakarí á Hringbraut og þótt það sé ögn skárra er það samt arfaslakt.
Núna er ég því farin að skilja betur þær furðusögur sem oft heyrðust í Mosó, að þangað keyrði fólk úr öðrum bæjarfélögum á sunnudagsmorgun til að kaupa í morgunmat.

fimmtudagur, október 06, 2005

Mjög gott

-Pistasíuhnetur
-Flatkökur með hangikjöti
-Ostapopp
-Saltkex með mexíkó-osti og rifsberjahlaupi
-Hvítlaukur
-Rauðvín
-Harðfiskur með smjöri
-Að dífa jarðaberjum og banönum í bráðið súkkulaði
-Sambó lakkrís
-Hjónabandssæla og mjólk
-Reykt svínakjöt með dass af epla-chutney
-G&t
-Mozarella fingur með súrsætri sósu
-Melónur með parmaskinku
-Hrísgrjónagrautur

Beygingarmynd dagsins: feðra

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Forræðisógeð

Um daginn ætlaði ég að elda ljúffengar, ofnabakaðar kjúklingabringur, með smjörsteiktum sveppum og hvítlaut og hvítvínssósu. Nema hvað. Mig vantaði hvítvín. Ef allt væri með felldu hefði ég gert mér lítið fyrir, skroppið niður í kjörbúðina á Grundarstíg eða í 10-11 og keypt eina flösku. En nei, mér er bannað að gera það. Ég má ekki kaupa hvítvín úti í næstu búð þegar mig vantar að gera hvítvínssósu, heldur verð ég að skipuleggja matargerðina fyrirfram og versla hjá Ríkinu (undir dulnefni Vínbúðar) innan afar takmarkaðs opnunartíma. Djöfull þoli ég það ekki. Ég krefst þess ekki að sterkt brennivín sé selt á hverju götuhorni, en mér finnst það bara sjálfsagður hlutur að hægt sé að kaupa léttvín í matvöruverslunum. Hver græðir á að hafa þetta svona? Hver vill hafa þetta svona? Ég hugsa með trega til Parísar, þar sem hægt er að kaupa fínasta vín í hvaða búðarholurassgati sem er, og ekki veit ég til þess að Frakkar eigi við meira áfengisvandamál að stríða en Íslendingar.

Nú legg ég hinsvegar af stað til Danmerkur eftir u.þ.b. kortér, þar ættu vínkaup varla að verða vandamál.

mánudagur, júní 06, 2005

Kvöldmatur

Ég byrjaði á því að stúta einum skyr.is drykk (sem inniheldur einmitt ekkert skyr heldur undanrennu) Því næst settist ég fyrir framan sjónvarpið með skál af kókópöffsi. Nú sit ég hér enn, í náttbuxum og hlýrabol, snarlandi pistsíuhnetur og kók yfir LOST. Önundur fór á sjóinn í morgun og samstundist breyttist ég í piparsvein.

Beygingarmynd dagsins: Sæðisgæði

sunnudagur, maí 08, 2005

Pizza the Hut

Nú er ég búin að hringja tvisvar sinnum í pöntunarsíma Pizza Hut og aldrei er svarað. Djöfull er það ógeðslega fökkin slappt. Og hvað er málið með að engir pizzastaðir bjóði upp á hvítlauksbrauð? Þvílík ömurð.

Viðbót: Hvítlauksbrauðið fékkst svo á Hróa Hetti í næsta nágrenni. Að vísu bragðast það fremur af salti en hvítlauk. Það er heldur ekki þakið kraumandi mozzarellaosti. Hvítlaukur er stórlega vannýtt hráefni á Íslandi. Það er nefnilega ekkert betra en hvítlaukur. Ef steikja á kjöthakk td er ferskur hvítlaukur, 5 rif minnst, ávísun á góða útkomu. Svei mér ef hvítlaukur eykur ekki bara lífslíkur og hamingjuna líka.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Kvöldkaffi

Ísköld nýmjólk í glasi, hálf plata af 70% súkkulaði og Sex and the City í tölvunni
(Hvað er annars með þennan Big? Ég er ennþá að komast inn í þetta.) Gæti það verið betra? Námið verður a.m.k að bíða enn um sinn. Nammi namm.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Fullkomið samfélag?

Mér finnst sárvanta meira úrval af karamellufylltu súkkulaði í samfélag okkar mannanna.