Sýnir færslur með efnisorðinu Pistlar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Pistlar. Sýna allar færslur

föstudagur, desember 20, 2013

Sambýlismaður minn er nýbyrjaður í kór svo nú er stöðugt sungið á mínu heimili. Það er af hinu góða því söngur bætir sálarlífið og lyftir mannsandanum, sem ekki veitir af í svartasta skammdeginu.

Sjálfri hefur mér alltaf þótt gaman að syngja, þótt listagyðjan hafi ekki verið raddböndum mínum hliðholl. Takmarkað raddsvið bæti ég upp með því að vera hálfgerður límheili á ljóð og með ágæta tónheyrn (ég er algjör meistari í brengluðu lagaþrautinni í Útsvarinu, þó ég segi sjálf frá). Á meðan kórsöngvari heimilisins rýnir í nótnablöðin syng ég því, kannski falskt, en allavega blaðlaust og beint frá hjartanu (meistaralega jafnvel) með flestum lögum á skránni svo hann geti æft sig í að para bassann við laglínuna.

Eðli málsins samkvæmt eru jólalög eitt helsta viðfangsefnið á þessum tíma árs. Það kemur sér vel því ég er líka algjör sálmameistari, þó ég segi sjálf frá. Ég elska sálma. Þegar þetta er skrifað er ég að hlusta á Það aldin út er sprungið í 10. sinn í röð. Á aðventunni er sálmadýrkun mín taumlaus. Sumum finnst það ríma illa saman við þá staðreynd að ég trúi ekki á guð, en sálmar eru bara svo fallegir. Guðstrú getur líka verið falleg, jafnvel þótt maður finni hana ekki innra með sjálfum sér. Á þessum tíma er ágætt að velta fyrir sér boðskap jólaguðspjallsins, því eins og segir í texta Braga Valdimars Skúlasonar: „Þótt ýmsir hafi annan sið, er eitthvað þessa frásögn við, sem snertir mestallt mannkynið. Hún mögnuð er og þunga ber, hvað svo sem hún segir þér.“

Þessa aðventuna hef ég einmitt skrifað margar fréttir um framtakssemi einstaklinga sem láta sér annt um náungann og sýna kærleik í verki. Það eru ótrúlega margir sem taka það upp hjá sjálfum sér að gleðja þá sem eru daprir eða láta fé af hendi rakna til þeirra sem minna mega sín.

Ég trúi reyndar á það góða í manninum árið um kring, en það er eitthvað við þennan tíma ársins sem dregur fram okkar bestu hliðar og þjappar fólki sérstaklega saman. Á sumum heimilum gerist það í (meistaralegum) sálmasöng.

Birtist í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 20. desember 2013.

föstudagur, nóvember 01, 2013

Í fyrsta lagi vil ég taka það fram að ég barði hann ekkert í æsku, ég hristi hann bara svolítið til. Þegar við vorum yngri var Jón alltaf öðruvísi en allir aðrir. Hann klæddist öðruvísi, hann talaði öðruvísi og hann hegðaði sér öðruvísi. [...] Hann var nörd í augum þeirra sem voru ekki á sömu línu og hann. Þess vegna varð hann stundum fyrir barðinu á þeim. Í dag er Jón í raun alveg eins og hann var.“

Þarna er engum meðal-Jóni lýst, heldur Jóni Gnarr, fráfarandi borgarstjóra Reykjavíkur. Gamall skólafélagi Jóns tók svona til orða í vikublaðinu Fókus árið 1998.
Jón Gnarr hefur síðan haldið sama hætti og verið öðruvísi, líka sem borgarstjóri. Hann klæðir sig öðruvísi (bleik jakkaföt, anarkistalopapeysa, upphlutur), hann hegðar sér öðruvísi (viðurkennir t.d. þegar hann veit ekki hluti, framselur völd sín frekar en að reyna að auka þau) og hann talar öðruvísi („Ég er geimvera“). Jón Gnarr passar ekki í neitt fyrirframgefið skapalón samfélagsins eða stereótýpísk box sem sumum finnst svo þægilegt að troða öllum í.

Mig langar til að nýta tækifærið og þakka Jóni fyrir það, nú þegar ljóst er að að hann ætlar að hætta sem borgarstjóri, þrátt fyrir að standa uppi sem sigurvegari kjörtímabilsins. Það er frábær árangur að hafa leitt nýtt stjórnamálaafl sem mældist um síðustu mánaða
mót það stærsta í borginni, þrátt fyrir að andstæðingar hans hafi frá fyrsta degi reynt að telja sjálfum sér trú um fram að borgarbúar séu yfir sig óánægðir með Jón.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í önnur ummæli um Jón Gnarr, sem birtust í grein eftir Lilju Magnúsdóttur kennara í Fréttablaðinu í gær. Hún talar um að einelti sé hluti af þeirri trú að það megi vera andstyggilegur við þá sem eru „öðruvísi“ og segir:

„Jón Gnarr hefur lagt mikið til íslensks samfélags með því að vera „öðruvísi“. Hann er ekki stúdent, hann er „brottfall“, hann er leikari með enga menntun í því fagi, klæðist bleikum kvenmannsfötum í Hinsegin göngunni og hann er rauðhærður og með gleraugu. Hann er allt sem hefur þótt eðlilegt að leggja í einelti nema: hann er borgarstjóri Reykjavíkur.“

Ennþá verður Jón Gnarr fyrir barðinu á þeim sem þola illa hvað hann er samkvæmur sjálfur sér í því að vera öðruvísi. Alveg eins og á skólalóðinni í gamla daga reyna þeir stöðugt að berja á honum eða „hrista hann svolítið til“, en án árangurs. Jón Gnarr hét því í framboði að gera Reykjavík skemmtilegri og fyrir mitt leyti tókst honum það. En sem borgarstjóri hafði Jón áhrif langt út fyrir stjórnmálin. Það er hollt fyrir samfélagið að þurfa að viðurkenna tilvistarrétt þess sem er öðruvísi. Sérstaklega fyrir þá sem eru vanir því að halda um stjórnartaumana og fara sínu fram. Ég vona að áhrifa Jóns gæti áfram, því þau eru af hinu góða.

Takk, Jón.

Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 1. nóvember 2013.

föstudagur, apríl 12, 2013

Sumir segja að tvær þjóðir búi í þessu landi, landsbyggðapakkið og miðbæjarrotturnar. Í einni af ótal „rök“ræðum sem ég las um yfirburði sveitar yfir borg eða öfugt sá ég ummæli sem stungu mig svolítið og sátu í mér. Þar var á ferð kona ein sem sagði með öllu óskiljanlegt að fólk vildi búa í miðborg Reykjavíkur því þar væri ekkert nema mengun og skrílslæti og því óábyrgt eða beinlínis skaðlegt að búa þar með börn. Sjálf fyllti hún hóp þeirra sem gætu alls ekki hugsað sér að búa neins staðar annars staðar en einmitt þar sem þau fæddust.

Ég hef sjálf ekki búið svo mjög víða, en þó í einum af nágrannabæjum Reykjavíkur, í litlu þorpi á Norðurlandi sem og í 3,6 milljóna borg í annarri heimsálfu, auk þess sem foreldrar mínir búa í sveit á Suðurlandi þar sem ég dvel gjarnan. Núna bý ég í hjarta miðborgarinnar, á hinu sögulega Skólavörðuholti.

Á öllum þessum stöðum hefur mér liðið vel og fannst ég á réttum stað á réttum tíma í lífi mínu hverju sinni. En þar sem þessari ágætu konu finnst óskiljanlegt að heilbrigð manneskja vilji búa þar sem ég bý, þá finnst mér ekki nema sjálfsagt að útskýra það í örfáum orðum. Þannig er nefnilega að eins mikið og ég kann að meta einveru, sem ég sæki m.a. uppi á hálendinu á hverju sumri, þá elska ég líka mannlífið. Fólk er skemmtilegt og þegar ég fer t.d. á veitingastað vil ég hafa það í kringum mig og virða það fyrir mér. Það geri ég líka oft því í götunni minni og næstu götum er fjöldi veitingastaða.

Við götuna mína eru líka tvö listasöfn og einstakur höggmyndagarður sem er opinn allan sólarhringinn. Þar sit ég stundum á heitum sumardögum, les í bók og fylgist með leikskólabörnum í vettvangsferð og ferðamönnum í skoðunarferð. Í götunni minni er nefnilega bæði gistiheimili og dagheimili og tveir leikskólar í næstu götum. Í götunni minni er líka fiskbúð, þar sem oft er mikið kjaftað, við enda hennar er bakarí og tvær kjörbúðir í næstu götum. Alla þessa þjónustu get ég sótt gangandi á innan við 5 mínútum. 

Gatan mín er friðsæl og örugg, þar er einstefna með 30 km hraða þannig að bílaumferð er bæði lítil og hæg. Helstu umhverfishljóðin í götunni minni stafa frá kirkjuklukkum og börnum að leik. Gatan mín er líka gróin, þar eru allt að 100 ára gömul hús og jafnvel enn eldri tré með laufblöðum á stærð við barnshöfuð. Gatan mín í miðborg Reykjavíkur er yndisleg og þar, eins og svo víða, er frábært að búa.

Birtist sem pistill í Daglegu lífi Morgunlaðsins föstudainn 12. apríl 2013.

föstudagur, febrúar 01, 2013

Ég heiti Una. Það er einfalt og þægilegt nafn, en þó ekki einfaldara en svo að útlendingar hvá yfirleitt, þar til ég kynni það á spænskan máta. Úna chica. 

Þótt hann hafi valið það virðist Una líka vera óþarflega einfalt nafn í huga pabba míns, því hann er iðinn við að snúa út úr og kalla mig t.d. Unfríði Unfríðardóttur frá Unfríðarstöðum í Unfríðarstaðasveit. Hann lætur ekki staðar numið þar því mamma kallast aldrei sínu rétta nafni, Ólína, í hans meðförum heldur ýmist Geirmundína, Þrýstiloftmunda eða Jósafat.

Við systkinin heitum öll gömlum, íslenskum nöfnum en þegar betur er að gáð eru þau þó ekki sjálfsagðari en hvaða önnur samsetning af bókstöfum sem er. Karlmannsnafnið Sturlu má t.d. rekja langt aftur en þegar Sturla bróðir minn var lítill stemmdi það illa við máltilfinningu margra jafnaldra hans, enda er það í reynd kvenkynsorð. Hann var því oft kallaður Sturli. Nafn systur minnar Brynhildar hefur mér alltaf þótt fallegt en þegar ég heyrði í fyrsta sinn nafnið Brimhildur fannst mér það fáránlegt, þótt það sé nánast alveg eins. 

Maðurinn minn heitir Önundur. Það er landnámsnafn sem heill fjörður er nefndur eftir en ótrúlega margir virðast þó vera að heyra það í fyrsta skipti. Mér er minnisstæð stelpan á Pizza Hut sem þurfti að heyra það endurtekið fjórum sinnum áður en við fengum pitsuna okkar (Ööön....?) Flestir kalla hann Ögmund og held ég að eina lausnin fyrir Önund sé að ná því að verða frægari en Ögmundur Jónasson til að leikar snúist. 

Um leið og maður venst nöfnum hætta þau nefnilega að vera fáránleg. Ég hef heyrt af leikskólabörnum sem springa úr hlátri yfir nafninu Jónatan en eiga þrjá vini sem heita Tristan og finnst ekkert eðlilegra.

Sjálf hef ég hneykslast á innsoginu yfir því hvað fólk sé að gera börnunum sínum með ákveðnum nafngiftum, þar til ég fattaði að það kemur mér ekki nokkurn skapaðan hlut við hvað annað fólk heitir. Nöfn eru tilbúningur okkar eins og öll önnur orð og hafa enga merkingu í sjálfu sér. Það er valkvætt að vera fordómafullur og það er vond menning sem segir okkur að það sé eðlilegt að hæðast að fólki fyrir það eitt að heita nafni sem hljómar framandi við fyrstu viðkynningu. Eða leyfist mér að hljóma eins og bandarísk unglingamynd og vitna í Shakespeare: 

Hvað felst í nafni? Það sem við köllum rós ilma myndi jafn vel undir öðru heiti.

Birtist í Daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 1. febrúar 2013

föstudagur, desember 21, 2012


Síðasta innsýn í heim undirritaðrar birtist hér í september í pistli sem sagði frá þeirri ákvörðun að setjast aftur á skólabekk eftir fimm ára hlé. Svona rétt til að fullnýta þær stundir sólarhringsins sem ekki eru lagðar undir vinnu. Pistillinn einkenndist af hvoru tveggja í senn: Spenningi fyrir að prófa eitthvað nýtt (eða rifja upp gamla takta kannski frekar) og dassi af sjálfsblekkingar-peppi um hversu stórkostlega skemmtilegt það sé nú að vera í skóla. Nú rúmum þremur mánuðum síðar er mér ljúft og skylt að greina frá því sem ég hef lært.

Það fyrsta sem ég lærði, sama dag og ég byrjaði í skólanum, var að nú eru til pennar með bleki sem hægt er að stroka út. Þetta hafði ég aldrei séð áður og eftir á að hyggja eru þessir pennar sennilega það sem kom mest á óvart á þessari önn, því þetta er í alvörunni töfrum líkast. Löngum stundum sat ég yfir námsbókunum og krotaði eitthvað með bleki til þess eins að stroka það síðan út aftur í andakt. 

Annað sem ég lærði er að það getur tekið svolítið á að vera settur inn í lokað herbergi með hópi af ókunnugu fólki og þurfa að hlusta á skoðanir þess í 3 klukkutíma. (Ekki endilega vegna þess að þær séu svona vitlausar samt). Í grunnnáminu í háskólanum hafði fólk alls ekki svona miklar skoðanir, og á netinu er alltaf hægt að loka athugasemdakerfinu.

Ein lexía sem tók svolítinn tíma að síast inn er sú að það gengur nokkuð freklega á orkubúskap líkamans að vera í 50% námi ofan á 100% vinnu. Eftir nokkrar vikur með dögum sem hófust í skólanum klukkan 9 og enduðu í vinnunni klukkan 24, eða öfugt (hádegis- og kvöldmatur snæddur við skrifborðið) þá komst ég að því að ég er alls engin 150% manneskja. Ég er ekki einu sinni A-manneskja.

Að öllu gríni slepptu lærði ég þó auðvitað heilmargt, enda komst ég þrátt fyrir allt yfir að lesa einhver hundruð blaðsíðna, þótt mér fyndist ég stöðugt vera að dragast aftur úr námsáætluninni. Ég komst líka að því, sem mig grunaði reyndar fyrir, að eftir nokkurra ára þátttöku í samfélaginu sem fullorðinn einstaklingur nálgast maður námsefni öðruvísi og á hægara með að tengja milli teoríu og praxís. En mér lærðist líka að þótt námsbækurnar væru nógu áhugaverðar til að lesa þær uppi í rúmi á kvöldin, þá fannst mér hreint ekki nógu áhugavert að þurfa svo að leggja þær á minnið til að láta einhvern annan prófa mig upp úr þeim.

Mér lærðist að þótt ég eigi margar nostalgískar minningar um líf námsmannsins þá hef ég sennilega rómantíserað úr hófi fram þá hugmynd að vera eilífðarstúdent – nema þá sjálflærður sé.

föstudagur, september 14, 2012

Heimur Unu - Aftur í skóla

Í síðustu viku settist ég á skólabekk að nýju eftir 5 ára hlé. Á meðan á sleitulausum námsferli stóð frá leikskóla til BA-prófs heyrði ég stundum að það væri óskynsamlegt að taka sér hlé frá námi af því þá væri svo erfitt að byrja aftur. Ég gaf frekar lítið fyrir þetta enda taldi ég mig svo mikinn akademíker í eðli mínu. Skólabekkurinn væri mitt náttúrlega umhverfi. Það fór því um mig fiðringur af tilhlökkun fyrir haustinu þegar ég skráði mig í Háskóla Íslands í maí.

Haustin eru nefnilega tími skólanna, allar auglýsingar og fréttir eru uppfullar af áminningum um skólastarf í öllum myndum. Verandi hvorki nemandi né foreldri skólabarns hef ég verið svolítið utanveltu á haustin síðustu ár. Lönguninni til að kaupa fallega penna, skrifa merkimiða á möppur og strika nýja þekkingu út af leslista vikunnar, hefur ekki verið fullnægt.

Ég hef reynt að klóra í kláðablettinn með því að fara á námskeið. Haustið 2011 fór ég á samnorrænt námskeið fyrir blaðamenn í Danmörku. Haustið 2010 fór ég á ljósmyndanámskeið. Haustið 2009 fór ég á köfunarnámskeið. Haustið 2008 sat ég hraðnámskeið í efnahagshruni smáríkja, ásamt reyndar allri þjóðinni. Haustið 2012 ákvað ég að ganga lengra og skrá mig aftur í Háskóla Íslands. Sem fyrr segir vakti tilhugsunin hjá mér spennu í vor, en þegar leið á sumarið fóru að renna á mig tvær grímur. 

Skyndilega rifjaðist nefnilega upp fyrir mér fylgifiskur þess að vera í skóla: Hið stöðuga samviskubit. Vinnudagur háskólanemans er aldrei búinn í reynd. Ef maður fer í bíó, horfir á sjónvarpið, situr lengi við kvöldverðarborðið, les bók sér til skemmtunar eða sefur út á sunnudegi, er það aldrei gert af heilum hug því undir niðri er þessi nagandi tilfinning að maður ætti að vera að gera eitthvað annað. Læra.

Ég áttaði mig á því að ég væri að gefa frá mér allan frítíma minn, sjálfviljug og óumbeðin, með því að velja að eyða öllum stundum utan vinnunnar í að læra eða vera með samviskubit yfir að vera ekki að læra. Þessi tæpu 5 ár sem ég hef eingöngu verið á vinnumarkaði hefur mér lærst að meta frítíma minn mjög mikils.

Ég var því farin að kvíða svolítið fyrir fyrsta skóladeginum. En það bráði fljótt af mér. Jú, í desember mun ég án efa sakna þess að geta legið áhyggjulaus uppi í sófa með nýjustu afurðir jólabókaflóðsins, en veturinn leggst samt vel í mig. Það er gaman í skóla.

Birtist sem föstudagspistill í Daglegu lífi Morgunblaðsins 14. september 2012. 

fimmtudagur, september 06, 2012


Óttinn við konur


Ef konur klæddu sig siðsamlega myndi enginn snerta þær. Þær sem klæða sig eins og druslur eru að biðja um það. Hljómar kunnuglega? Þannig var svar egypskra stráka, sem fréttaritari BBC ræddi við um tíðar árásir á kvenkyns landa þeirra.

Á „frelsistorginu“ í Kaíró er ítrekað brotið á frelsi kvenna. Um stund töldu þær sig jafngilda körlum, þegar þær stóðu þeim við hlið í byltingunni. Sú von dofnaði þegar ráðist var á bandaríska fréttamanninn Löru Logan, í miðjum gleðilátum yfir afsögn Mubaraks. Árásin var því miður ekki einsdæmi heldur varpaði hún aðeins ljósi á napran veruleika. Fleiri dæmi eru þess að æstur múgur karla ráðist á konur á götum úti í Egyptalandi, konur hvers nafn og andlit birtast hvergi enda hylja þær flestar ásjónu sína í samræmi við siðvenjur.

Ólíkt því sem margir halda skiptir nefnilega engu máli hvernig konurnar klæða sig. Íhaldssamur fatnaður er engin vörn gegn kynferðisofbeldi. Í rannsókninni 2008 kom fram að 60% þátttakenda, af báðum kynjum, töldu að léttklæddar konur væru líklegri til að verða fyrir nauðgun. Sömu viðhorf hafa verið þrautseig á Íslandi, en Druslugangan hefur boðið þeim birginn síðustu tvö ár. Rótin að kynferðisofbeldi liggur í öðru en klæðaburði. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að samband sé milli klæðnaðar kvenna og kynferðisofbeldis. Engin skilgreining liggur heldur fyrir á því hvað teljist „druslulegt“ enda er smekkurinn misjafn, ekki aðeins milli landa heldur líka í huga einstaklingsins. Að ætlast til að konur klæði sig þannig að þær verði ekki fyrir nauðgun er því krafa sem konum er ómögulegt að uppfylla, þegar nauðgarinn hefur sjálfur skilgreiningarvaldið. 

Í Egyptalandi er reynslan sú að konur sem klæðast niqab og sýna þannig ekkert nema augun verða engu síður en aðrar fyrir árásum. Strákarnir sem BBC ræddi við í Kaíró áttu auðvelt með að útskýra þetta. Konur sem klæðast aðsniðnum niqab, frekar en hólkvíðum, eru nefnilega að biðja um það.

Með því að áreita þær kynferðislega er verið að refsa konunum fyrir að hafa sjálfstæðan vilja. Árásirnar beinast gegn kvenleikanum, í hvaða mynd sem hann birtist. 

„Þar sem feðraveldið ríkir er ekki samþykkt að konur skáki körlum,“ hefur BBC eftir prófessornum Said Sadek. Árásir karla á konur í Egyptalandi eru birtingarmynd ótta feðraveldisins gegn uppgangi kvenna. Sama tilhneiging hefur birst okkur í fréttum víðar að. Í Íran hafa stjórnvöld ákveðið að loka háskólum landsins að mestu fyrir konum, því þær eru orðnar meirihluti nemenda og standa sig betur en karlar. Í Bandaríkjunum heyja repúblikanar „stríð gegn konum“ og reyna að svipta þær lagalegum ráðum yfir eigin líkama.

Konurnar í þessum löndum eiga það sameiginlegt að hafa gert sig sekar um að láta í auknum mæli að sér kveða á opinberum vettvangi, utan veggja heimilisins, á eigin forsendum. Og feðraveldið er lafhrætt við þær. 

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 5. september 2012

fimmtudagur, ágúst 23, 2012


Alveg ofboðslega frægur


Tryllingur greip um sig í Noregi í sumar þegar kanadíska ungstirnið Justin Bieber hélt þar tónleika. Miðborg Óslóar iðaði af æstum unglingsstelpum sem vonuðust til að sjá strákinn og sjálfur kom hann fram í fjölmiðlum til að biðja norska aðdáendur sína um að fara varlega, eftir að einhverjar þeirra höfðu nánast kastað sér fyrir bílinn hans. Þessi hömlulausa aðdáun er heimsfaraldur sem hlotið hefur nafn og kallast Bieber-hitinn (e. Bieber fever).

Justin Bieber er auðvitað ekki sá fyrsti sem á fótum sínum fjör að launa fyrir æstum aðdáendum. Frægar eru t.d. myndirnar frá 7. áratugnum af ungum konum grátandi og fallandi í yfirlið í miðju Bítlaæðinu sem svo var nefnt (e. Beatlemania).

120 árum fyrr setti þýska ljóðskáldið Heinrich Heine fram í bréfi hugtakið „Lisztomania“, um dýrkunina á píanóleikaranum Franz Liszt. Sagt er að aðdáendur Liszt um miðja 19. öld hafi komist í mikla geðshræringu við að hlusta á hann spila og verið aðgangsharðir á tónleikum, flykkst að honum með látum og reynt að slíta af honum hárlokk eða hanska.

Rétt er líka að halda því til haga að karlar hafa ekki síður tilhneigingu til að missa sjónar á sjálfsvirðingunni þegar stjörnudýrkunin ber þá ofurliði. Sem dæmi varð tengdamóðir mín nánast undir í slagsmálum tveggja miðaldra karla þegar Zinedine Zidane kastaði bolnum sínum beint fyrir framan fæturna á henni á úrslitaleik Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu 1998. Báðir vildu þeir ólmir klæðast svitablautri treyju kappans utan yfir jakkafötin sín.

Áður fékk þessi tilhneiging líka útrás í dýrkun á konungbornum og guðum af ýmsum gerðum, en bent hefur verið að Hollywood-stjörnur og íþróttahetjur fylli í skarð þeirra að einhverju leyti í dag. Stjörnurnar eru guðum líkar, áferðarfallegri og hæfileikaríkari en venjulegt fólk og búa við ríkidæmi og glamúr á við kóngafólk. Stjörnudýrkun hefur því lengi fylgt manninum og vilja sumir meina að hún sé hluti af mannlegu eðli þótt birtingarmyndin geti orðið brengluð.

Í nútímasálfræði er stjörnudýrkun skilgreint hugtak því tilfellið er að þótt hún sé yfirleitt saklaus og skemmtileg dægradvöl þá getur hún orðið sjúkleg. Þetta er ágætt að hafa í huga núna, þegar vart er þverfótað á Íslandi fyrir heimsfrægum stjörnum. Við stærum okkur gjarnan af því að hér fái stjörnurnar að vera í friði og sú virðist líka raunin ef þær reyna ekki þeim mun meira að vekja á sér athygli. Vonandi helst það þannig.

Sjálf taldi ég mig yfir stjörnudýrkun hafna, enda vönd að virðingu minni. Það er að segja þangað til Russell Crowe kom til landsins. Þá rifjaðist allt í einu upp fyrir mér að ég var lengi heitur aðdáandi hans og þótt nokkur ár séu liðin risti það greinilega dýpra en ég hélt. Þegar ég var farin að hjóla löturhægt um Fossvogsdalinn og rýna stíft í andlit allra sem ég mætti í von um að það væri Russell Crowe að koma „heim“ úr ræktinni, þá skildi ég að það væri bara stigsmunur á mér og Bieber-heitu smástelpunum. Það er ágætt að karlinn fór af landi brott áður en ég varð mér til skammar.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 22. ágúst 2012.

miðvikudagur, ágúst 08, 2012

Sjálfsbjargarviðleitnin þá og nú


Það er sterk upplifun að standa á Hornbjargi á heiðskírum degi þar sem útsýni er um allar Hornstrandir að Tröllaskaga og yfir fjallaskörðin til Jökulfjarða, með óendanlegan blámann framundan í Grænlandsátt. Á þessum tíma árs iða Hornstrandir og Jökulfirðir af lífi. Gönguhópur sem þar var á ferð um miðjan júlí hreppti ótrúlegt veður og fékk því að njóta friðlandsins þegar það er líkast paradís á jörðu. 

En þessir fáu sólardagar eru blekkjandi og hugurinn hvarflaði óhjákvæmilega að því hvernig lífið hefur verið þarna í myrkri og einangrun bróðurhluta ársins. „Hornstrandir hafa löngum verið alkunnar að því, að þar væri einhver hinn kaldranalegasti og óvistlegasti útkjálki á landinu, enda er eigi ofsögum af því sagt hve harðýðgisleg náttúran er á Ströndum.“ Svo hljóðaði frásögn Þorvaldar Thoroddsen sem birtist í vikuritinu Suðra eftir ferð um svæðið í ágúst 1886 og var samhljóma ferðalýsingu Eggerts Ólafssonar þaðan 150 árum fyrr. 

Það var því kannski ekki nema von að einn í gönguhópnum velti því fyrir sér efst á Kálfatindum hvers vegna fólk hefði ákveðið að búa á þessum útkjálka, sem þótti meira að segja vera slíkur fyrir 260 árum þegar Ísland allt var einn allsherjar útkjálki. Það er víst ekki alltaf svo að fólk hafi mikið val um búsetu og jarðnæði var af skornum skammti. Fólk sem rífur sig upp og heldur til móts við óvissuna gerir það oftast nær vegna þess að það eygir von um betri kjör, þótt fjarlæg sé. Þegar tækifærin buðust annars staðar lagðist Hornstrandabyggðin af. 

Þetta minni kemur fyrir í búsetusögu Íslands allt frá fyrsta landnámi. Fólk hefur flust til landsins eða frá því sem og á milli landshluta eftir því sem kjörin bjóðast og það sama á við um aðra kima heimsins. Fyrir rúmri öld flúði stríður straumur Evrópubúa bág kjör og freistaði gæfunnar í Ameríku. Á undanförnum árum hefur straumurinn verið þungur frá Norður-Afríku til Evrópu. Talið er að þúsundir manna drukkni árlega á hafi úti við að reyna að komast yfir. Sumir flýja vegna þess að þeim er beinlínis ógnað og skilgreinast þá sem flóttamenn samkvæmt alþjóðasamningum. Aðrir búa við svo bág kjör að þeir eru tilbúnir að fórna öllu í von um að öðlast betra líf annars staðar. Oft er erfitt að sannreyna í hvorn flokkinn menn falla, en í dag teljast búferlaflutningar þess síðarnefnda ólöglegir. 

Glæpurinn felst í því að leggja í lífshættulegt ferðalag án þess að vera með réttan stimpil í tilteknum skjölum. Sumum tekst að komast með þessum hætti alla leið norður til Íslands, þótt þeir hafi jafnvel aldrei heyrt um landið áður. Þeim fer fjölgandi sem hingað hrekjast og ekki skal gera lítið úr þeim vanda sem því fylgir, við honum er engin einföld lausn. En það skortir eitthvað upp á mannúðina þegar Íslendingar afgreiða þetta fólk með einu pennastriki sem hyski og glæpamenn. Fólk sem hefur gerst sekt um fátt annað en að vera drifið áfram af þeim sammannlega eiginleika sem sjálfsbjargarviðleitnin er.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 8. ágúst 2012.

miðvikudagur, júní 13, 2012

Sól yfir Íslandi


Á sólríkum sumardögum eins og núna get ég ekki ímyndað mér að nokkurs staðar annars staðar í heiminum sé betra að vera en hér á Íslandi. Í mesta lagi jafngott. Tilhugsunin um hve margir slíkir dagar eru enn framundan fyllir mig auknum þrótti og framkvæmdagleði. Þvílík forréttindi sem það eru að fá að vera ungur í íslensku sumri. 

Einn besta sólardaginn til þessa átti ég með góðum vinum í tjaldi á lækjarbakka, þar sem sólin og fuglasöngurinn vöktu okkur með slíku offorsi að það var ekkert annað í boði en að skríða úr poka fyrir allar aldir til að ná andanum. Við leyfðum okkur að kvarta svolítið yfir þessum ósköpum og einn klykkti út með því að í ofanálag við sólina og fuglasönginn og ferska loftið væri þarna allt of mikið af háværu, drykkjarhæfu vatni sem héldi fyrir manni vöku. Þetta eru svokölluð fyrsta heims vandamál, sem vinsælt er að grínast með á eigin kostnað, vegna þess að við vitum innst inni hvað við höfum það þrátt fyrir allt gott þótt hér ríki kreppa. 

Með í tjaldbúðunum voru tvö eintök af yngstu kynslóðinni í sinni fyrstu útilegu, þ.ám. einn sem vann ótrauður að því að taka sín fyrstu skref. Við létum hann ganga úr einu fangi í annað, því á misjöfnu þrífast börnin best. Það er að segja á misjöfnu undirlagi auðvitað, því það er helst í þýfðu grasi sem íslensk börn finna misjöfnur, ef marka má nýjustu skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem leiddi í ljósi að fátækt barna er hvergi í heiminum minni en á Íslandi. Við sem höfðum slegið þarna upp tjöldum gátum því verið nokkuð örugg um að litlu tapparnir tveir sem léku sér við okkur hafa átt eins gæfuríkt fyrsta æviár og kostur er.

Í ljósi þessarar sólarsælu allrar sem á undan hafði gengið kom það alveg sérstaklega flatt upp á mig um kvöldið, þegar ég settist fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með umræðuþætti forsetaframbjóðenda, að hlusta enn og aftur á sitjandi forseta byggja málflutning sinn fyrst og síðast á því að mikil óvissa vofði yfir okkur. Hann kannaðist ekki við að vera að ala á ótta þrátt fyrir að hafa nefnt óvissu 20 sinnum í tveimur viðtölum, en allt þetta tal um að hann einn sé fær um að „bjarga þjóðinni“ gefur samt til kynna að það þurfi að bægja frá okkur mikilli ógn. 

Ólafur Ragnar sagði líka í nefndum þætti að hann vildi skapa ungu fólki tækifæri og tryggja að það vildi búa hér áfram. Þær stundir hafa vissulega komið að mig langar alls ekki að búa hér. Það gerist fyrst og fremst þegar mér ofbýður sá bölmóður og neikvæðni sem hér virðist stundum allt ætla að drepa, að ástæðulausu. Vandamálin sem við glímum við eru fyrsta heims vandamál og þótt óvíst sé hver niðurstaðan verður í ýmsum málum þá getum við og munum leysa úr þeim í sameiningu, á lýðræðislegan hátt. 

Við þurfum ekki að treysta á einn mann til að „bjarga okkur“, við höfum alltaf getað bjargað okkur sjálf og forseti sem setið hefur í 16 ár myndi best veita ungu fólki tækifæri með því að treysta því til að taka við.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 13. júní 2012.

föstudagur, júní 01, 2012

Heimur Unu - Af kynlífi kvenna

Fyrst þegar hann fór inn í hana var það hræðilega sárt en fljótlega fór það að verða gott... þar til hún fékk raðfullnægingu.

Nokkurn veginn svona (í einfölduðum útdrætti undirritaðrar) hljómaði lýsingin á fyrstu kynlífsreynslu aðalkvenhetjunnar í bókinni Norwegian Wood eftir þann ágæta höfund Haruki Murakami, sem ég las á mínum unglingsárum. Nú ætla ég ekki að fullyrða eða taka of stórt upp í mig (...) en ég held að fyrsta kynlífsupplifun fæstra kvenna rími við þessa senu.
Konur njóta samt almennt kynlífs og flestar fá sína fullnægju með tímanum, jafnvel í röðum, og eiga líka sínar kynlífsfantasíur. Engu að síður hefur staðan lengi verið sú að yfirgnæfandi meirihluti kynlífsefnis, kláms og erótíkur, er framleiddur af körlum fyrir karla og er sömu takmörkunum háður og lýsingar Murakamis á afmeyjun skólastúlkunnar, þ.e. samhljómurinn er lítill við hugarheim kvenna.
Það þarf ekki að fletta lengi í gegnum klám á netinu til að verða átakanlega var við þessa staðreynd, því karlkyns klámmyndaleikarar eru augljóslega ekki valdir í hlutverkin til að kveikja í konum. Leit eftir kynferðislega örvandi efni á netinu getur verið eins og að leika sér í parís á jarðsprengjusvæði, því með einum smelli er óvært hægt að fara af síðu sem kveikir lostann yfir á síðu sem slekkur hann svo rækilega að maður verður nánast afhuga öllu því sem holdlegt er í marga daga á eftir.
Þetta hefur samt sem betur fer allt verið að breytast, konur eru í auknum mæli farnar að framleiða erótík og klám fyrir konur, þótt það sé á jaðrinum. Og efnið er í sjálfu sér ekki svo ólíkt, áherslurnar eru bara aðrar. Sumt er lélegt eins og gengur, annað gott og skemmtilegt. Nýjasta framtakið hér heima í þessa átt er samantekt á kynórum íslenskra kvenna á bók.
Bókin hefur enn ekki verið skrifuð en samt eru nokkrir nú þegar byrjaðir að gagnrýna hana fyrir að verða of klámvædd, of markaðsvædd, eða ekki nógu raunsönn. Allt undir yfirskini femínisma, sem verður ítrekað fyrir því að verða skálkaskjól fyrir útrás á andúð á kapítalisma. Kannski verður þessi bók ömurleg og þá þurfum við heldur ekki að hafa áhyggjur af því að hún rati víða. Kannski verður þvælt eintak af henni í hverri náttborðsskúffu. Eigum við ekki bara að bíða og sjá áður en við fordæmum? 

miðvikudagur, maí 30, 2012

Gamlar sálir Reykjavíkur

Þegar kirkjuklukkurnar hringdu níu sinnum að morgni annars í hvítasunnu vöknuðu húseigendur Freyjugötu 25 B í Reykjavík eftir aðeins fjögurra stunda svefn.

Það var samt ekki klukknahljómurinn sem truflaði svefninn heldur traustabrestir í húsinu, sem hafði mátt þola fremur harkalegan umgang þá um nóttina, enda blásið til veislu þar sem fjöldi gesta var nokkurn veginn á pari við fermetrana. Húsið virtist timbraðara en við gestgjafarnir þennan morgun, ekki bara í bókstaflegri merkingu, og þótt undirrituð væri þakklát fyrir að vakna heil heilsu var ekki laust við að samviskubit gerði vart við sig gagnvart blessuðu bárujárninu. Það var víst áreiðanlega ekki byggt með það í huga að verða dansgólf, enda kveinkaði það sér undan okkur.

Auðvitað er það þannig að ég á þetta fallega litla hús að Freyjugötu 25 B, stimplaðir pappírar frá sýslumanni geta vottað það, og þess vegna ræð ég svo sem hvað ég geri við það, innan húsverndunarmarka. Samt er ekki laust við að mér líði svolítið eins og gesti í húsinu mínu, því þótt ég hafi búið þar í sjö ár veit ég að svo ótal margir hafa kallað húsið sitt á undan mér og aðrir munu vonandi gera það á eftir mér líka. Það er þannig með hús að þótt þau séu úr dauðu efni geta þau verið afskaplega lifandi, líkt og líf allra þeirra sem dvalið hafa innan veggja þess skilji eftir sig svolítinn neista og sögu. Það er engin tilviljun að talað er um gömul hús með sál. 

Húsið mitt tilheyrir fyrstu kynslóð húsa sem reist voru með miklu basli í jaðri byggðar efst á Skólavörðuholti við lok fyrra stríðs. Guðlaug Jónsdóttir ekkjukona reisti það samkvæmt skrám árið 1921. Ég veit ekki hver hún var en kann henni þakkir fyrir að vanda til verksins. Þá var mikill skortur á bæði húsnæði og byggingarefni í Reykjavík og engin skipulagslög í gildi. Nú 90 árum síðar er fólk enn að villast inn í portið í leit að öðrum húsnúmerum. Þótt húsið mitt sé aðeins 38 fm að grunnfleti á tveimur hæðum skilst mér að á tímabili hafi íbúðirnar verið fjórar umhverfis stóra skorsteininn, sem hélt hita á fólkinu þá en er í daga bara skrautmunur og minnisvarði um fyrri tíð. Nú búum við bara tvö í húsinu. Lífskjör Reykvíkinga hafa sannarlega batnað.

Grúsk í gömlum dagblöðum leiddi í ljós að árið 1927 var hægt að fá gert við kjöt- og sláturílát eða smíðuð ný hjá einum íbúanna í húsinu. 1930 var auglýst eftir einhleypum karli til að leigja herbergi í húsinu, en árið 1937 var það á lista í Þjóðviljanum yfir óhæfar kjallaraíbúðir í Reykjavík. Þökk sé umhyggju þeirra sem á undan fóru er húsið þó hér enn og kjallarinn langt frá því að vera óhæfur. Þar sofnuðu núverandi húseigendur vært eftir þrítugsafmælið á sunnudag en hrukku sem fyrr segir upp þegar hið níræða hús gerði vart við sig með brestum.

Ég gat ekki að því gert að klappa veggjunum svolítið þegar ég fór á fætur og lofaði því í hljóði að skila húsinu mínu fallegu og með sál til næstu kynslóðar Reykvíkinga. 

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 30. maí 2012.

miðvikudagur, maí 16, 2012

Reynlusaga reiðhjólakappa


Aldrei hélt ég að ég yrði þessi týpa sem myndi hjóla 22 kílómetra daglega í og úr vinnu, jafnt í snjó og hálku sem í sól og blíðu, eða roki og rigningu. En reyndar er svo margt sem ég hélt aldrei að ég myndi gera eða gæti, áður en annað kom í ljós.

Heimili mitt hefur verið bíllaust síðan í september. Það kom ekki til af góðu, Volvo gamli var ekki ónýtur en það var ljóst að setja þyrfti talsverðan pening í að gera hann skoðunarhæfan. Að viðbættum bensínkostnaði varð mér ljóst að þetta voru peningar sem mig langaði að eiga í annað. Bíllinn var því seldur og tilrauninHjólað í vinnuna hófst. Ég hafði verið úrtölumanneskjan á heimilinu í þessum efnum, sagðist svo sem vel geta hjólað, ef vinnustaðurinn væri nær heimilinu eða ef hvort tveggja væri í Kaupmannahöfn. Á meðan hvorugt væri raunin kom ekki til greina að leggja bílnum. Það má því segja að orðið hafi mikil hugarfarsbreyting á stuttum tíma.

Hjólaferill minn hefur að vísu ekki verið óslitinn í vetur. Síðan í janúar hef ég haft aðgengi að lánsbíl sem getur verið freistandi að nota. Ég nenni ekki alltaf að hjóla frekar en ég nennti alltaf í ræktina áður. Stundum tek ég strætó og stundum fæ ég lánaðan bíl, en oftast reyni ég að hjóla og líður alltaf betur eftir á. Auðvitað fylgja því ókostir að reiða sig á hjól sem samgöngutæki, en fyrir mitt leyti eru kostirnir mun fleiri. Í fyrsta lagi er það auðvitað sparnaðurinn. Það sem af er ári hef ég eytt 20.000 kr í eldsneyti, en á sama tímabili í fyrra eyddi ég 89.000 kr, auk annars kostnaðar við að eiga bíl.

Viðbótarsparnaður felst í því að ég er hætt að borga fyrir líkamsræktarkort, því leiðin til vinnu er það löng að hjólreiðarnar eru mín hreyfing. Rúm klukkustund á dag úti í fersku lofti og ekki veitir af enda eyðir fólk á Norðurhveli um 90% ævinnar innanhúss. Þegar ég hjóla heim úr vinnunni og fylli lungun af súrefni verður mér sérstaklega hugsað til þeirra sem keyra í síðdegsitraffíkinni í ræktina til að hamast á kyrrstæðum hjólum í svitastorknum spinningsal. 

Ég hjóla frá Þingholtunum að Rauðavatni, umhverfis Öskjuhlíð, inn Fossvog og upp Elliðaárdal. Stærstan hluta leiðarinnar er ég á grænu svæði umkringd dýralífi sem gaman er að fylgjast með og á þar til gerðum hjólastígum sem borgin hefur lagt. Kinnarnar verða rjóðar, lærin styrkjast og á leiðinni heim tæmist hugurinn algjörlega af vinnutengdum hugsunum og streitu. Eftir slíkan dag sofna ég betur að kvöldi. Styttri vegalengdir hjóla ég líka og hef m.a. komist að því að það er mun minna þreytandi að hjóla á barinn í háum hælum en að ganga. Mér finnst líka gaman að hafa ástæðu til að iðka þann íslenska sið að byrja daginn á því að gá til veðurs, til að meta hvernig ég geti best klætt það af mér.

Ætlun mín er ekki að predika yfir lesendum, ég veit að hjólreiðar henta ekki öllum. En ég tel að fleiri gætu hæglega breytt um lífsstíl með þessum hætti og hvet sem flesta til að láta á það reyna að hjóla í vinnuna.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 16. maí 2012.

miðvikudagur, maí 02, 2012

Ótti kvenna

Stuttu eftir að ég eignaðist minn fyrsta gemsa varð ég hrædd á leið heim til mín, ein í myrkri, svo ég greip til þess ráðs að stimpla inn 112 og hafa fingurinn tilbúinn á „call“ takkanum. Ég hafði nýlega séð nauðgunarsenu í bíómynd sem sat í mér. Auðvitað gerðist ekki neitt, en þetta var ekki í síðasta skiptið sem ég gekk heim tilbúin að hringja í Neyðarlínuna. 

Mörgum árum síðar nefndi ég þetta í kvennahópi og þá kom í ljós að flestar höfðu gert það sama. Ein sagðist alltaf ganga með lyklakippuna í hnefanum ef hún var ein, en einn lykil milli fingranna, til að geta betur slegið af sér hugsanlegan árásarmann. Þegar ég nefndi þetta við karlkyns vini voru viðbrögðin ýmist hlátur yfir því hvað við værum nú allar móðursjúkar eða meðaumkun og uppástunga um að við færum á sjálfsvarnarnámskeið til að láta okkur líða betur. 

Ég hef fyrir löngu látið af þessum 112-vana, enda er ég yfirleitt ekki hrædd þegar ég geng einsömul heim til mín og vil heldur ekki láta daglegt líf mitt stjórnast af ótta, jafnvel þótt fleiri en ein kona hafi orðið fyrir hópnauðgun úti á götu í hverfinu þar sem ég bý. Mér varð samt hugsað til þessa þegar stóra bílastæðamálið við Hörpu kom upp í síðustu viku. 

Óttast konur á Íslandi bílastæðahús og hafa þær ástæðu til að vera hræddar? Viðbrögðin við kvennabílastæðunum benda sem betur fer til þess að svo sé almennt ekki, en þó skyldi ekki gera lítið úr þeim konum sem finna fyrir slíkum ótta. Það sem skelfir mig samt meira en bílastæðahús er sú samfélagslega sátt sem virðist stundum ríkja um það, að eina leiðin til að koma í veg fyrir nauðganir sé sú að konur breyti hegðun sinni. 

Um allan heim virðist hugmyndafræðin vera sú sama: Reynt er að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi með því að skerða athafnafrelsi kvenna, þeim til verndar. Sumstaðar er konum bannað að fara út úr húsi nema í fylgd með karlkyns ættingja, þeim til verndar. Í þessu tilfelli er lausnin sú að gera konum kleift að leggja alveg við innganginn svo þær þurfi að verja sem skemmstum tíma einar undir beru lofti. Þetta er vel meint, en skapar bara falsöryggi og er engin tilraun til að takast á við þann samfélagsvanda sem kynferðisofbeldi er. 

Hvað hefði svo gerst ef kona hefði lagt í hinum enda bílastæðahússins og verið nauðgað eftir tónleika? Hefði þá hinn kunnuglegi kór farið af stað: „Hvað var hún líka að gera ein í bílastæðahúsi um kvöld? Af hverju lagði hún ekki við innganginn? (Og af hverju var hún í svona stuttu pilsi?)“ 

Þótt flestir hafi andstyggð á nauðgunum, láta fæstir sig málið raunverulega varða. En kynferðisofbeldi er ekki bara kvennavandamál sem konur geta sjálfar leyst með því að klæða sig á ákveðinn hátt, vera aldrei einar á ferð og leggja í sérmerkt bílastæði – eða vera beintengdar við Neyðarlínuna. Nauðganir verða aldrei upprættar ef karlar yppa bara öxlum yfir þessari ógn í lífi kvenna og segja: „Viltu ekki bara fara á sjálfsvarnarnámskeið?“

mánudagur, apríl 30, 2012


Kyndill

Fyrir nokkrum mánuðum keypti ég mér Kyndil frá Amazon. Hann varð brátt uppáhaldsgræjan mín á heimilinu (og utan þess) og ég þreytist seint á að mæra hans einföldu snilld við hvern sem heyra og lesa vill.

Ég keypti mér einföldustu og ódýrustu gerðina af Kyndli (hann kostaði um 17 þúsund kr.) vegna þess að þótt ég eigi mjög auðvelt með að gleyma mér tímunum saman við lestur er ég líka með athyglisbrest ef svarthol netsins er innan seilingar. Ég ver nú þegar allt of löngum tíma á netinu, ýmist í tölvunni eða símanum og þess vegna vil ég að bókin mín sé bara bók, jafnvel þó að hún sé rafbók.
Í Kyndlinum er samt þráðlaus nettenging svo ég get farið inn á Amazon, keypt bók með einum smelli og fengið hana senda á 10 sekúndum. Það er mjög freistandi og úrvalið í þessari stærstu bókabúð heims á gerir það að verkum að ég verð eins og krakki í nammibar Hagkaupa á laugardegi.

Lestrarupplifunin sjálf er ekki síðri með rafrænu bleki en á prenti að mínu mati. Kyndillinn er auðvitað mun handhægari og meðfærilegri en þykkustu doðrantarnir. Það var aðallega lyktin sem ég hafði áhyggjur af, ég er nefnilega ein af þeim sem þefa af bókum. Lykt af nýprentaðri bók er góð og fyllir mann af eftirvæntingu, en ég leysti þetta með því að kaupa mér fallegt leðurhulstur um Kyndilinn minn. Lyktin af leðri er nefnilega ekki síður góð.

Svo býður Kyndillinn upp á öðru vísi lestur en áður. Bæði er hægt að ná í ýmsa klassík frítt á netinu (í vikunni sótti ég mér t.d. ritgerðasafn Mark Twain ókeypis). Langar greinar á vefsíðum má senda í Kyndilinn ef maður nennir ekki að lesa þær af tölvuskjá. Núna sæki ég líka lesefni sem mér fannst ekki réttlætanlegt að kaupa áður og fá sent til landsins með tilheyrandi kostnaði.

Ég freistast til að kaupa bækur fyrir forvitni sakir, vegna þess að þær eru ódýrar á rafrænu formi. Kyndilinn er ekki hægt að dæma af kápunni, sem gefur manni frelsi til að lesa klámfengnar eða vandræðalega hallærislegar bækur á mannmörgum stöðum án þess að neinn viti af því. (Og lesturinn verður auðvitað mun skemmtilegri fyrir vikið). Vegna alls þessa er mín reynsla sú að eftir tilkomu Kyndilsins kaupi ég fleiri bækur en nokkru sinni fyrr.

Ef það er nógu auðvelt og ódýrt að nálgast efni löglega á netinu sé ég nefnilega enga ástæðu til að stela því. Ég vil mjög gjarnan styðja höfunda verkanna sem ég nýt með því að borga fyrir þau. Enn hef ég þó enga íslenska rafbók keypt. Ég einfaldlega tími því ekki.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu föstudaginn 27. apríl 2012

miðvikudagur, apríl 18, 2012

Hættulegt hatur

Það var verulega ógeðfellt að sjá fjöldamorðingjann Anders Behring Breivik bresta í grát í réttarsal í Ósló á mánudag, þegar áróðursmyndband sem hann bjó sjálfur til var sýnt fyrir fullum sal. Breivik var snortinn yfir sjálfum sér. Þetta augnablik sagði meira um það hvaða mann Breivik hefur að geyma en allar þær fréttir sem borist hafa af hegðun hans í einangrun undanfarna mánuði. Meðal annars þannig þjóna réttarhöldin sínum tilgangi, þótt sitt sýnist hverjum um framkvæmd þeirra. 

Ódæðisverkin sem Breivik framdi fara langt út fyrir skalann sem norskt réttarkerfi gerir ráð fyrir. Engin refsing virðist vera til sem hæfir brotinu. Sumir hafa tjáð þá skoðun sína að læsa ætti manninn inni strax og henda lyklinum án þess að gefa honum frekara færi á að baða sig í sviðsljósinu.
En þannig virkar réttarríkið ekki. Lögin gilda um Breivik eins og alla aðra, þótt hann sé andsnúinn grunngildum samfélagsins. Ódæðisverk hans megnuðu ekki að hafa slík áhrif að þeim gildum verði breytt. Þótt hann viðurkenni sjálfur ekki réttinn verður Breivik að sætta sig við það að samfélagið sem hann fordæmir svo mjög veitir honum réttláta málsmeðferð.

Fjöldamorðinginn Breivik er sprottinn úr sama menningarlega baklandi og flest ungt fólk á Norðurlöndum. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd og spyrja okkur hvað varð til þess að þær hatursfullu hugmyndir sem hann þróaði með sér leiddu hann á endanum til fjöldamorðs. Hann vísar til Noregs sem fangelsis og virðist ekki finna sér stað í samfélaginu, sem flestir telja þó gott. Hugarheimur hans er hættulegur vegna þess að hann gengur allur út á að stilla upp andstæðum fylkingum; „við“ og „hinir“. Þessar hugmyndir rakti hann nokkuð ítarlega í 1.500 blaðsíðna stefnuskrá sinni og af henni má ráða að sjálfsmynd Breivik byggist á því að samsama sig mjög þröngum hópi en leggja fæð á alla aðra. 

Hann hatar þá sem eru af öðrum kynþætti en hann sjálfur, fyrst og fremst múslíma, hann hatar femínista, hann hatar fjölmenningarsinna og aðra þá sem starfa í þágu „menningarlegs marxisma“. Þetta fólk telur hann réttdræpt fyrir að grafa undan evrópska feðraveldinu, því sem veitir Breivik sjálfum óverðskuldaðan heiðurssess umfram annað fólk vegna þess eins hvernig hann lítur út.

Hatursorðræðan sem Breivik byggir gjörðir sínar á er óþægilega kunnugleg. Hún er nefnilega ekki bundin við hann einan, því hún skýtur upp kollinum í ýmsum myndum í umræðum á netinu. Fæstir þeir sem missa sig í hatursorðræðu á netinu myndu nokkurn tíma sýna það í verki enda ristir hatrið vonandi grynnra en orðfærið gefur stundum til kynna. En orðum fylgir líka ábyrgð. Við megum ekki gefa öfgamönnum sem leynast á meðal okkar tilefni til að halda að hatursfullar aðgerðir eigi sér bakland.

Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 18. apríl 2012.

miðvikudagur, apríl 04, 2012

Femínistar

Ég hef verið femínisti síðan áður en ég vissi að þetta hugtak væri til. Femínismi var sennilega sá vettvangur þar sem ég fann fyrst hvöt til að leggja mitt af mörkum í umræðunni til að fá hlutunum breytt. Feminísk umræða hefur gengið í bylgjum en fer mjög hátt um þessar mundir. Sem femínisti ætti ég sennilega að fagna þessu en ósjálfráð viðbrögð mín hafa frekar verið þau að draga mig í hlé.

Ég á erfitt með að finna mig í umræðunni á þeim stað sem hún er núna. Hún er hatrömm á báða bóga og stundum hatursfull. Oftar en ekki fer hún fram á vettvangi fjölmiðla sem virðast beinlínis þrífast á því að etja fólki saman í rifrildi. Upp að vissu marki er ég þakklát þeim femínistum sem nenna að „taka slaginn“ en á hinn bóginn virðist mér sem sá slagur sé líka oft tilkominn vegna þess að ákveðið var að velja baráttunni farveg sem borin von var að endaði öðruvísi en stál í stál.

Þar liggur hundurinn sennilega grafinn. „You have to pick your battles,“ segja þeir á enskunni og þeir femínistar sem duglegastir eru að láta í sér heyra í dag velja ítrekað að heyja orrustur sem ég hef engan drifkraft til taka þátt í og stundum með vopnum sem ég vil ekki beita.

Mín upplifun er sú að afleiðingin af þessu verði ómálefnaleg umræða sem fer í hringi þar til hún festist í rembihnút eða springur í loft upp. Kannski er einhverjum markmiðum náð með þessu en mér tekst þá ekki að sjá hver þau eru. Mér fallast bara hendur. Öfgafemínisma kalla sumir þetta. Ég veit ekki með það. Mér finnst viðbrögð andstæðinga femínista yfirleitt vera mun öfgafyllri en hinar meintu öfgar sjálfar.
En ég veit líka að ég er ekki sammála þeim sem segja að það sé ekkert til sem heiti öfgafullur femínismi. Jafnréttisbaráttan getur farið út í öfgar eins og allt annað og myndi gera það ef sumir fengju að ráða, t.d. sú sem sagðist ekki geta hugsað sér að styrkja starfsemi munaðarleysingjahælis vegna þess að hlutfall drengja þar sé hærra en stúlkna.

Hver er svo niðurstaðan af þessu? Þótt mér finnist ég ekki eiga samleið með þeim róttæku femínistum sem hafa verið ráðandi í umræðunni undanfarið finnst mér allt í lagi að til séu einhverjir sem eru tilbúnir að ganga lengra heldur en ég er sjálf. En ég á erfitt með að sjá að aðferðafræðin sé að skila gagni. Það væri auðvelt að segja róttæka vinstrimenn hafa stolið femínismanum, þeir hafa sannarlega gert hann að sínum, en þótt ég fylli ekki í þeirra raðir þýðir það ekki að ég eigi ekki minn skerf af femínismanum líka.
Verst finnst mér bara þegar stillt er upp í andstæðar fylkingar að óþörfu og að þeir sem skrifa ekki undir róttæknina séu gerðir afturreka úr umræðunni eða þora ekki að taka þátt í henni. Ég mun allavega halda áfram að kalla mig femínista og reyna að leggja mitt af mörkum eftir eigin nefi, því femínistar þurfa ekki allir að vera eins.

Birtist sem pistill í Morgunblaðínu miðvikudaginn 4. apríl 2012.

miðvikudagur, mars 21, 2012

500 kílómetra fyrir 600 krónur

Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt lækkun virðisaukaskatts á rafbíla og tvinnbíla og er vonandi að frumvarp þess efnis, sem hefur raunar verið í pípunum í meira en ár, verði afgreitt af þinginu sem fyrst. Þetta eru góð tíðindi fyrir okkur öll sem fellum tár þegar við fyllum á bensínahákana okkar og sjáum peningana þannig fuðra upp.

Bílaframleiðendur um allan heim eru farnir að framleiða rafbíla af öllum stærðum og gerðum, fjöldaframleiðsla er handan við hornið svo með aðgerðum eins og þeim sem stjórnvöld ætla nú að ráðast í ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að ómþýðir rafbílar byrji brátt að líða mengunarlaust um götur Reykjavíkur. Fram kom í Mbl.is í gær að tvinnbíllinn Chevrolet Volt muni, sem dæmi, lækka í verði um eina milljón króna verði virðisaukaskatturinn felldur niður. Það munar um minna. Sambærilegar aðgerðir hafa gefið góða raun annars staðar, t.d. í Noregi þar sem rafbílum hefur fjölgað jafnt og þétt á götunum.

Kostir þess að keyra bílaflotann okkar, sem er einn sá stærsti í heiminum miðað við höfðatölu, á endurnýjanlegri, innlendri orku eru auðvitað óteljandi. Umhverfissjónarmið skipta þar miklu máli en gagnvart hinum almenna neytanda, að ónefndum gjaldeyrisforða ríkisins, vegur án efa þyngst sá gríðarlegi sparnaður sem felst í því að vera ekki háð innfluttu jarðefnaeldsneyti, á því verði sem olíutunnan býðst í dag. Undanfarin ár hefur miklu verið varið í rannsóknir og þróun á nýjum orkugjöfum fyrir samgöngur enda fyrirséð að hratt gengur á olíubirgðir heimsins.

En hér á landi tekur því satt að segja varla að ræða aðra orkugjafa en rafmagnið þegar samgöngur eru annars vegar. Yfirburðir rafmagnsins eru miklir, ekki síst hér þar sem framleiðsla rafmagns er græn og væn eins og við erum sífellt að státa okkur af og framboðið nóg til að knýja allan bílaflotann. Vökvar og gas af ýmsum tegundum hafa verið nefnd til sögunnar og eru ágæt til síns brúks en geta varla talist heildstæð lausn fyrir orkuskipti í samgöngum líkt og rafmagnið.

Augljósasti ókosturinn er að gas og olíur þyrfti alltaf að flytja í stórum tankbílum milli landshluta með tilkostnaði, sliti á vegum og slysahættu. Rafmagnið þarf hins vegar ekki að flytja. Það er nú þegar inni á hverju einasta heimili og vinnustað, snarkandi í þéttu neti sem búið er að leggja um allt landið. Það þarf ekki annað en að stinga bílnum í samband á meðan við sofum eða vinnum.

Vonandi verða þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að hreyfa við markaðnum og færa okkur rafbíla sem raunhæfan kost, því allar forsendur eru til staðar og ég efast ekki um að fleiri en ég myndu vilja getað farið inn í sumarfríið eins og facebookvinur minn sem skrifaði um daginn, keyrandi um á Benz ML350-rafjeppa:

„Búinn að keyra yfir 500 km og nota rafmagn fyrir 600 krónur. Aldrei aftur bensínstöð.“


Birtist fyrst sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 21. mars 2012.

miðvikudagur, febrúar 22, 2012

Veistu hvað þú ert að hugsa?
Öll erum við vitsmunaverur sem tökum sjálfstæðar ákvarðanir eftir eigin dómgreind. Eða því viljum við gjarnan trúa. En jafnvel þótt okkur finnist við sjálf vera meðvituð og gagnrýnin í hugsun er staðreyndin sú að við höfum takmarkaðan aðgang að eigin huga og þannig geta ytri aðstæður stundum stýrt því hvernig við högum okkur ómeðvitað. Sálfræðingurinn Daniel Kahneman segir í bók sinni Thinking, Fast and Slowfrá rannsóknum á mannlegri hugsun og atferli sem grafa svolítið undan ímynd okkar sem sjálfstæðar vistmunaverur. 

Stundum er sagt: „Brostu! Þá líður þér betur.“ Slíkir Pollýönnuleikir eru ekki alvitlausir. Í tilraun einni voru tveir hópar háskólanema látnir lesa teiknimyndasögur Garys Larsons, The Far Side. Annar hópurinn var látinn halda blýanti þvert milli tannanna á meðan, þannig að munnvikin spenntust upp í „bros“. Hinn hópurinn hélt blýanti milli varanna þannig að munnsvipurinn varð stúrinn. Niðurstaðan var sú að hópnum með gervibrosið fannst sögurnar skemmtilegri en þeim sem skoðuðu þær með stút á munni. 

Í annarri tilraun voru þátttakendur látnir hlusta á upplestur leiðara úr dagblaði, undir því yfirskini að verið væri að kanna hljómgæði heyrnartólanna. Annar hópurinn var látinn kinka kolli á meðan hann hlustaði, en hinn látinn hrista höfuðið. Eftir á voru þeir fyrrnefndu líklegri til að segjast sammála leiðaranum, en þeir síðarnefndu voru frekar ósammála.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því sem kallað er ýfingaráhrif, þegar eitthvað sem við upplifum hefur ómeðvituð áhrif á hegðun okkar strax á eftir. (Það er t.d. gild ástæða fyrir því að kosningaáróður er bannaður við kjörstaði á kjördag.) Í einni slíkri rannsókn voru áhrif hugsana um peninga könnuð. Þátttakendur voru óbeint minntir á peninga, í orðum eða myndrænt, og í kjölfarið látnir takast á við óvæntar aðstæður. Í ljós kom að ómeðvituð hugrenningatengsl við peninga virtust vekja með þátttakendum meiri einstaklingshyggju. Þeir urðu sjálfstæðari í hugsun en samanburðarhópurinn, en jafnframt eigingjarnari. Peningahópurinn bað síður um hjálp við að leysa erfitt verkefni strax á eftir og var líka mun síður tilbúinn að eyða tíma í að hjálpa ókunnugum manni að tína upp hluti sem hann missti.

Í sambærilegri tilraun var þátttakendum sagt að þeir ættu að spjalla við ókunnuga manneskju og þeir beðnir að stilla upp tveimur stólum meðan hún var sótt. Þeir sem minntir voru á peninga stuttu áður stilltu stólunum upp með að jafnaði 38 cm meira millibili en hinir sem höfðu engin ómeðvituð hugrenningatengsl við peninga. Þetta er umhugsunarvert. Getur verið að menning sem minnir okkur stöðugt á peninga hafi ómeðvituð áhrif á framkomu okkar hvert við annað? Í öllu falli er gott að vera meðvituð um að við höfum kannski ekki jafnfullkomin tök á eigin huga og við viljum trúa.


Birtist sem pistill í Morgunblaðinu miðvikudaginn 22. febrúar 2012.

föstudagur, febrúar 17, 2012

Föstudagspistill - ömmur

Í þessum pistli segir af tveimur mætum konum, þeim Brynhildi Sæmundsdóttur og Auði Einarsdóttur. Þær fæddust báðar árið 1928, Auður að Nýjabæ undir Eyjafjöllum en Brynhildur að Kletti í Kollafirði á Barðaströnd. Lengi vel vissu þessar konur ekki hvor af tilvist annarrar, né að fyrir þeim báðum ætti að liggja að verða ömmur mínar. Auður amma og Binna amma.

Auður amma dó í lok janúar. Þess vegna hafa ömmur verið mér sérstaklega hugleiknar síðustu vikur og að maður eigi ekki að bíða með að þakka fyrir ömmur sínar þar til í minningargrein.

Ég var svo heppin að eiga tvær ömmur fram á fullorðinsaldur og Binna amma er enn í fullu fjöri, enda hálfgert náttúruafl. Báðar stóðu þær sig með eindæmum vel í ömmuhlutverkinu og uppfylltu öll þau fyrirframgefnu skilyrði sem maður í huganum setur ömmum sem barn.

Þær voru góðar og ástúðlegar og þær dekruðu við barnabörnin sín, gáfu okkur fallegar flíkur sem þær höfðu unnið í höndunum, sungu fyrir okkur og kenndu okkur. Og það sem er kannski mikilvægast af öllu í ömmufræðunum: Hvor um sig höfðu þær fullkomnað ákveðna tegund bakkelsis sem barnabörnin fengu að gæða sér á í heimsóknum.

Auður amma á Hellu steikti heimsins bestu kleinur. Það verður aldrei af henni tekið. Flatkökurnar hennar þóttu líka algjört met, en ég borðaði mig aðallega sadda af kleinunum. Binna amma gerir enn bestu randaköku sem ég hef smakkað. Hún saumaði líka jólaföt í stíl handa öllum barnabörnunum, svo hópurinn varð mjög myndrænn á stórhátíðum, en Auður amma prjónaði tátiljur í metravís í öllum stærðum og gerðum handa afkomendum sínum og hverjum þeim sem átti leið hjá.

Þessar minningar hafa satt að segja orðið svolítið áhyggjuefni því mér þykir einsýnt að ég muni ekki standa sjálf undir þessum ömmuskilyrðum þegar fram í sækir, með mína 10 þumalputta. Eftir því sem maður eldist lærist manni samt að kunna að meta ömmur sína sem meira en bara ömmur, ef maður er svo heppinn að fá að eiga þær nógu lengi að. Smám saman áttaði ég mig á því að ömmur mínar væru ekki bara frábærar ömmur heldur líka frábærar konur og fyrirmyndir.

Auður amma mín var skemmtileg og lífleg, alltaf hress en líka prinsipp-manneskja því hún slúðraði ekki um nokkurn mann, jafnvel þótt hún byggi í smáþorpi þar sem eflaust var nóg af kjaftasögum. Hún vann um tíma fyrir barnaverndarnefndina, sem henni fannst erfitt, og var stofnfélagi í hestamannafélaginu, sem henni fannst skemmtilegt. Það er því kannski ekkert skrítið að hún Auður amma hafi verið vinsæl, en samt kom það mér ánægjulega á óvart að sjá að fullt var út úr dyrum í jarðarförinni hennar.

Binna amma mín er eins og áður sagði hálfgert náttúruafl. Það kemur mér sífellt á óvart hvað hún er klár og skemmtileg og hvað við tvær eigum margt sameiginlegt í skoðunum og áhugamálum. Ekki vegna þess að ég sé svona gamaldags, heldur vegna þess að amma er svo opin og víðsýn og lifandi.

Jafnvel þótt ég læri aldrei að prjóna eða sauma og setji ekki kennimark mitt á neitt bakkelsi þá held ég samt að mér gæti lukkast að verða ágætis amma einhvern daginn, ef ég bara tek mér þessar tvær heiðurskonur til fyrirmyndar.

Birtist sem pistill í daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 16. febrúar 2012.