Sýnir færslur með efnisorðinu Kverúlant. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kverúlant. Sýna allar færslur

föstudagur, ágúst 13, 2010

Gerum lífið leiðinlegra

Borgarstjóri varpaði þeirri spurningu fyrir borgarbúa á mánudag hvort réttlætanlegt væri að eyða 3 milljónum króna í flugeldasýningu á Menningarnótt, eða hvort það væri óréttlætanlegt bruðl á þessum síðustu og verstu. Það er ágætt og skemmtilega nútímalegt hjá borgarstjóra að kalla með þessum hætti eftir óformlegri umræðu um ýmis mál meðal borgarbúa, þótt það sé reyndar vitað mál að rökræður á netinu skila aldrei nokkurn tíma af sér vitrænni útkomu. (Til dæmis hafa 660 athugasemdir verið skrifaðar við vangaveltur borgarstjóra en þátttakendur virðast þegar þetta er ritað vera hvergi nærri því að komast að sameiginlegri niðurstöðu.)

En aftur að flugeldunum. Það er afar auðvelt að færa rök fyrir því að flugeldasýningar séu bruðl enda fátt sem kemst nær því að peningar séu beinlínis brenndir, þið kannist við myndlíkinguna sem svo gjarnan er gripið til um áramót.

Flugeldasýningar eru sannarlega ekki lífsnauðsynlegar. Ekki frekar en sumarblómin í beðum borgarinnar eru lífsnauðsynleg. Þau eru samt falleg, gæða borgina lífi og gleðja okkur borgarbúa sem og gesti borgarinnar, rétt eins og flugeldasýningin. Það sama á reyndar við um Menningarnótt í heild sinni, hún er skemmtileg en það er alls ekki nauðsynlegt að halda líflega menningarviðburði. Ef við ætlum okkur virkilega að standa undir nafni sem fátæklingar væri alveg hægt að hætta bara við þetta. Aðrar eins hugmyndir hafa svo sem komið fram síðan kreppan byrjaði, sumir telja til dæmis að svona niðursetningaþjóð eins og við eigum alls ekkert erindi í Eurovision vegna kostnaðar. Reyndar taka öll fátækustu lönd Evrópu þátt af stolti, Moldavía, Albanía, Serbía- og Svartfjallaland. Úkraína, sem er 5. fátækasta land álfunnar, hélt meira að segja keppnina fyrir nokkrum árum.

En sennilega er það rétt að við höfum gert of mikið af okkur, framið of margar syndir, til að eiga það skilið að gera okkur glaðan dag fyrr en við höfum gert ærlega yfirbót.

Hjá sumum þurfa ekki einu sinni sparnaðarmarkmið að ráða því að lífið sé gert leiðinlegra. Ríkissjónvarpið sagði frá því á mánudaginn að gerðar hefðu verið athugasemdir við kleinubakstur dalvískra kvenna á fiskidaginn mikla þar sem lögum samkvæmt mætti í raun ekki selja mat nema hann væri eldaður í viðurkenndu eldhúsi samkvæmt ströngustu gæðareglum. Ætla má því að íslenskir kökubasarar fari brátt að líða undir lok og kannski eins gott að svo verði áður en við fáum öll salmonellu, fyrst heimagerðar hnallþórur eru svona hættulegar. En ég er satt að segja svolítið skúffuð yfir þessu því ég stóð í þeirri trú að þrátt fyrir allt værum við samt ennþá svolítið skemmtileg þjóð sem veigraði sér ekki við að borða bakkelsi án þess að kaupa það úr viðurkenndum eldhúsum og gætum leyft okkur að bruðla svolítið með peninga á hátíðisdögum til að lýsa upp Menningarnæturhimininn. una@mbl.is

Birtist í Morgunblaðinu sem pistill miðvikudaginn 11. ágúst.

föstudagur, nóvember 27, 2009

Á föstudegi - Argalapper

Þær stundir koma í lífi okkar allra að ást okkar á náunganum víkur tímabundið fyrir óþoli. Auðvitað er farsælast að elska náunga sinn eins og sjálfan sig og með þessa ást og umhyggju að leiðarljósi sé ég mig stundum knúna til að...jah...leiðrétta hegðun náunga míns á uppbyggilegan hátt. Svíar hafa öðrum þjóðum fremur fullkomnað þá list að hnýta pent í nágranna sína á hátt sem á ensku myndi kallast „passive agressive". Svíar eru auðvitað allra víkinga dannaðastir, en það þýðir þó ekki að undir allri jafnaðarmennskunni kraumi ekki innibyrgð bræði. Þegar bræðin brýst út fá Svíarnir kurteislega útrás fyrir hana með því að senda svo kallaða arga lapper á nágranna sinn. Nafnið er lýsandi því þeir eru einmitt það, argir miðar.

Á stigagangi í blokk einni í Stokkhólmi mátti nýlega sjá þennan reiðimiða: „Kæri nágranni, það er mér ráðgáta hvers vegna þú bíður alltaf með að nota höggborinn þar til eftir klukkan 20.05 á kvöldin. Ef þú sérð þig knúinn til að halda þessu áfram fæ ég kannski að banka upp á hjá þér við tækifæri með tveimur albönskum félögum mínum. Þá getum við séð hvort þú ert í stuði til að ræða húsreglurnar. Við heyrumst og sjáumst, þinn granni." Skýrari gætu skilaboðin varla verið og þó er öllum kurteisisreglum fylgt, að mestu leyti. Ergelsisskeyti sem þessi eru svo algeng í Svíaríki að þau eru orðin hálfgert listform sem er m.a. safnað til sýningar á vefsíðunni www.argalappen.se.
Íslendingar eiga það ekki síður til en Svíar að vilja vísa náunga sínum til betri vegar, en ég er hrædd um að þeir hafi ekki náð sömu formfágun og þeir sænsku. Sjálf hef ég um árabil stundað það að senda skilaboð á þá samborgara mína sem misbjóða mér með hegðun sinni, einkum þegar kemur að því að leggja í stæði, eða öllu heldur skilja bílinn eftir hvar og hvernig sem er án tillits til annarra. Ég skal viðurkenna að oft freistar það mín að eitra þessi skilaboð með formælingum áður en ég smeygi þeim undir rúðuþurrku þess tillitslausa. Mér hefur tekist að stilla mig en það dugar þó ekki til, því stundum grípa aðrir og óheflaðri siðapredikarar fram fyrir hendurnar á mér.

Það gerðist til dæmis einu sinni þegar ég reyndi að ala upp sportbílaeiganda sem lagði fína bílnum sínum þvert á allar bílastæðalínur í Smáralindinni. Ég skildi eftir kurteislega kveðju á framrúðunni: „Kæri bílstjóri, vinsamlegast lærðu að leggja, kær kveðja." Ég var hins vegar varla sest aftur inn í eigin bíl þegar tvær miðaldra konur gengu fram hjá sportbílnum. Þær stöldruðu við reiðimiðann minn, ráku upp miklar hláturrokur en svo dró önnur þeirra upp penna og krotaði eitthvað. Svo litu þær flóttalega í kringum sig og stukku burt. Ég læddist auðvitað upp að sportaranum aftur og sá að aftan við penu skilaboðin mín höfðu þær bætt risastórum stöfum: „FÍFLIÐ ÞITT!!" Hvort sem sænska leiðin eða sú íslenska er valin mæli ég með notkun reiðimiða til upprætingar hinna ýmsu samfélagsmeina. una@mbl.is
Birtist sem föstudagspistill í Daglegu Lífi Morgunblaðsins 27. nóv. 2009.

mánudagur, september 07, 2009

Hringt á Landspítalann:

Þjónustuborð: Landspítali góðan dag
Ég: Já góðan dag, Una heiti ég, blaðamaður á Morgunblaðinu. Mig vantar að ná tali af einhverjum sem getur svarað fyrir Tækjakaupanefnd, sem gæti þó heitið eitthvað annað núna eftir breytingarnar
Þjónustuborð: ég hef ekki hugmynd um það
Ég: ókei....það var allavega alltaf til Tækjakaupanefnd, mig vantar að tala við einhvern sem er í forsvari fyrir tækjakaup á spítalanum
Þjónustuborð: *stuna* bíddu aðeins

......

Þjónustuborð: það er ekki til tækjakaupanefnd lengur. Þú verður bara að tala við upplýsingafulltrúa en....þú getur ekki talað við hann. Geturðu hringt aftur á morgun?
Ég: er hann ekki við í dag?
Þjónustuborð: (á innsoginu) Nei
Ég: En er ekkert sem tók við af Tækjakaupanefnd?
Þjónustuborð: (á innsoginu) Nei

Seinna sama dag á sama þjónustuborði.


Ég: gæti ég fengið samband við yfirlækni á skurðlækningasviði
Þjónustuborð: það eru sko mjög margir yfirlæknar á þessu sviði þannig að ég veit ekki við hvern þú ættir að tala.
Ég: ókei...mig vantar einhvern sem getur sagt mér hvernig verður brugðist við sparnaðarkröfum á sviðinu. Er einhver yfirmaður sem gæti svarað fyrir það?
Þjónustuborð: *stuna* bíddu aðeins.

(bið í 5 sekúndur)

Þjónustuborð: sko það veit eiginlega enginn neitt um þetta núna þannig að það er enginn læknir sem þú getur talað við.
Ég: Nújá. Ókei. Er ekki einhver sem er, hvað, yfir-yfirlæknir á sviðinu, eða aðalyfirmaður?
Þjónustuborð: (á innsoginu) Nei.

Eftir sit ég og lem höfðinu í lyklaborðið. Þess má svo geta að á báðum þessum sviðum eru yfir-yfir-aðalmenn sem kallast framkvæmdastjórar og ég náði síðar sambandi við eftir öðrum leiðum án "hjálpar" símadömunnar.
Og þeir vissu ýmislegt.

föstudagur, október 19, 2007

Þetta er svona fullorðins

Sumir dagar eru bara leiðinlegri en aðrir. Og um fáa daga hef ég meiri þörf fyrir að blogga en einmitt þá. Ég byrjaði daginn snemma á því að fara í klippingu upp í Mosó, á stofuna Pílus þar sem hárgreiðslukonurnar virðast skilja betur hvað ég vil heldur en á svona “ó-mæ-gad við erum svo kúl” stöðum eins og Tony&Guy og Rauðhettu & úlfinum. Alla jafna fer ég í klippingu tvisvar á ári, þ.e.a.s. um það leyti sem nógu langt er liðið frá því síðast til að ég sé búin að gleyma því að það er yfirleitt svo dýrt að mér verður flökurt. Í þetta skiptið ákvað ég að gera mjög lítið við mig til að losna við blæðandi útgjöld. Ég var komin með nokkurra sentímetra rót og bað því um að það yrði settur smá litur yst í hárið, til að hylja rótina og svona, en ekki allsherjar litun þó. Lét svo særa það og snyrta toppinn. Þannig bjóst ég við að lágmarka kostnaðinn, en neinei, 14 þúsund krónur þakka þér kærlega fyrir. Get ég hvergi farið til að halda hárinu mínu sæmilega snyrtilegu án þess að greiða á annan tug þúsunda fyrir það? Hvaða rugl er þetta?

Þar sem ég var komin upp í Mosfellsbæ kom ég við hjá mömmu og pabba. Þar átti ég smá skammt af gluggapósti eins og svo oft, fyrst og fremst með tilkynningum frá öllum þeim milljónum lífeyrissjóða sem ég er skráð í. Inn á milli leyndist þó þriggja vikna gamalt bréf frá hinum ógurlega Innheimtumanni ríkisins, sem bað mig vinsamlegast um að greiða skuld, auk dráttarvaxta, vegna þing-og sveitasjóðsgjalda sem gjaldféllu um miðjan september. Fyrst skildi ég ekkert hvað þetta væri eiginlega, ég mundi ekki eftir að hafa nokkurn tíma greitt þessi gjöld áður, enda hafa þau hingað til alltaf verið dregin af mér sjálfkrafa sem launþega. Einhvern veginn lenti það þó á milli hluta núna og þegar ég hringdi upp í Toll til að tékka á því kom í ljós að ég hafði aldrei verið á skrá þar sem launþegi hjá Morgunblaðinu einhverra hluta vegna.

Djöfull er stundum glatað að lifa í heimi hinna fullorðnu. Ef það er eitthvað sem fer illa með mig er það að fá svona óvænt útgjöld sem ég gerði ekki ráð fyrir. Ég geri yfirleitt fjárhagsáætlanir í byrjun hvers sumars og vetrar og það fer massíft í taugarnar á mér þegar svona lagað, ásamt svínslegu okri á klippistofum, kemur aftan að mér. Hvað þá ef það er allt sama daginn. Ég ákvað samt að drífa mig þá heim og ganga frá þessari skuld, nema hvað þegar ég klæddi mig í jakkann minn datt af síðasta talan sem eftir var á honum. Þennan jakka keypti ég á 12.þús kr. í Debenhams fyrir innan við mánuði síðan, og á þessum tíma hafa allar tölurnar dottið af tvisvar (ég fór með hann til baka í búðina í viðgerð í millitíðinni.) Hvers á maður að gjalda sem neytandi á Íslandi? Þegar ég var svo búin að keyra langleiðina heim fattaði ég að ég hafði gleymt bréfunum upp í Mosfellsbæ.

Djöfull getur allt verið pirrandi stundum. Ef ekki hefði verið fyrir Let it be, sem hljómaði í útvarpinu á leiðinni heim og yljaði mér að innan, hefði ég örugglega farið að grenja af pirringi í bílnum.

fimmtudagur, september 06, 2007

Kraps in the krapsen

Klukkutímarnir þrír frá kl.17-20 í dag voru mögulega þeir mest pirrandi í mínu lífi hingað til. Það byrjaði allt á því að ég ákvað að taka Sæbrautina í stað Miklubrautar á leiðinni í skúringarnar upp á Lyngháls, með áætlaðri viðkomu í Krónunni Bíldshöfða og Heiðrúnu. Það var versta ákvörðun sem ég hef lengi tekið. Ég gafst upp á Sæbrautinni þegar það hafði tekið mig tæpan hálftíma að komast að Holtagörðum. Það skipti samt engu máli þótt ég gæfist upp, því ég gat ekki farið neitt. Á einum gatnamótunum var ég fimmti bíll frá ljósum og horfði á græna ljósið líða hjá þrisvar sinnum áður en ég færðist úr stað, því umferðin sat pikkföst. Sumir halda því fram að umferðarteppur séu ekki til í Reykjavík, Íslendingar séu bara svo óþolinmóðir. En ef þetta var ekki de luxe umferðarsulta þá veit ég ekki hvað.

Ég var orðin frávita af bræði og byrjuð að svitna yfir grafískum hugsunum um hvernig ég skyldi draga einhvern til ábyrgðar fyrir sprungið gatnakerfi. Enda er ég alveg sannfærð um að þetta var enn einn liður í samsæri ríkisins til að hindra mig í að kaupa mér vín, því þegar ég loksins losnaði var klukkan orðin 18 og Heiðrún þá að sjálfsögðu lokuð.

Þá tók Krónan við og ekki var það nú skárra. Ég veit fátt meira pirrandi en lágvöruverðsverslanir á háannatíma. (Ef ég þyrfti að nefna eitthvað sem gæti verið meira óþolandi er það mögulega að sitja föst í umferðarteppu.) Það versta er reyndar að fara beint í lágvöruverðsverslun, svangur úr vinnunni og eiga eftir að fara heim að elda eitthvað. Þá gerist líka alltaf eitthvað ömurlegt eins og að lenda á langhægustu röðinni afþví að manneskjan á undan borgar allt í klinki. Eða að maður er alveg að komast að kassanum eftir langa bið þegar einhver lítil gelgja kemur og lokar honum og opnar næsta við hliðina, svo allir sem voru á eftir manni í röðinni flykkjast þangað og maður lendir aftur aftast.

Þegar ég var svo búin að borga fyrir tvo fulla innkaupapoka í Krónunni átti ég eftir að fara að skúra. Ekki það skemmtilegasta. Þar náði ég reyndar að kæla mig aðeins niður með því að hlusta á Van Morrison. Blóðþrýstingurinn rauk samt aftur upp á leiðinni heim þegar einhver ungur fáviti í jakkafötum keyrði næstum því inn í hliðina á mér á Miklubraut því honum lá svo á að taka fram úr öllum sem á vegi hans urðu. Ég barði náttúrulega flautuna á eftir honum og horfði illilega á fíflið þegar ég lenti við hliðina á honum á næstu ljósum.
Sem betur fer hafði ég haft vit á því að skella í mig einni Bæjarins bestu áður en ég lagði af stað í leiðangurinn, því ég hefði ekki lifað þessar raunir af á fastandi maga.

Í fyrramálið verður þetta svo allt að baki, því þá fer ég vestur í kyrrðina í Ísafjarðardjúpi. Þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Lögmál Murphys

Þar sem ég bý á tveimur hæðum er að sjálfsögðu óumflýjanlegt að alltaf þegar síminn minn hringir, í hvert einasta skipti, þá er hann undantekningalaust staðsettur á öfugri hæð við mig. Þá er það bara spretturinn.

Beygingarmynd dagsins: sprast

þriðjudagur, mars 13, 2007

The Coke Side of Life

Nýja Coke Zero auglýsingaherferðin virkar ekki neysluhvetjandi á mig. Það er kannski ekki nema von, þar sem ég er líklega ekki í markhópnum. Miðað við þessar auglýsingar virðist Coke Zero eiga að höfða til ungra karlmanna, hugsanlega þeirra sem finnst Diet Coke bara vera drykkur fyrir fegurðardrottningar. (Sjálf sé ég Diet Coke frekar sem drykk masókista, því það er algjört skólp.)

Í gegnum tíðina hefur mér þótt auglýsingataktík Coca Cola mjög vel heppnuð, sérstaklega í samanburði við aðalkeppinautinn. Pepsi byggir sínar herferðir gjarnan á því að fá súperstjörnur eins og Beckham og Britney til að vera andlit sitt útávið. Gegnumgangandi þema hjá Coke hefur hinsvegar verið samkennd og hópstemning með skilaboðunum “drekktu kók og njóttu þess hvað lífið er yndislegt”. Klöppum fyrir þeim auglýsingarnar fyrir Coke Light finnst mér t.d. alveg frábærar, að ógleymdri hilltop auglýsingunni sem er líklega með þeim frægari:



Með nýju Zero auglýsingunum finnst mér Coke hafa brugðist bogalistin, með hundleiðinlegri og jafnvel gelgjulegri nálgun. Þeim hefur ekki tekist að sannfæra mig um að Coke Zero muni gera líf mitt nokkuð yndislegra og mun ég því ekki eyða peningunum mínum í það.

föstudagur, febrúar 02, 2007

Moggablogg

Mér er farið að leiðast fítusinn þar sem bloggarar setja link á sjálfa sig við fréttir á mbl.is. Í grunnin er þetta ekki slæm hugmynd enda getur verið áhugavert að heyra ólíkar skoðanir lesenda. Sumir hinsvegar misnota þennan möguleika algjörlega til að trana sjálfum sér fram. Þegar maður fer inn á síður þeirra bloggara og skrollar niður sést að þetta er eitthvað sem þeir stunda grimmt; hver einasta færsla hjá þeim er tengd frétt á mbl þótt þeir hafi ekkert fram að færa. Mér finnst eins og Mbl styrki þetta fólk í að troða skoðunum sínum upp á mig, með því að leyfa þeim að auglýsa síðuna sína við hlið fréttanna undir formerkjunum “Jón Jónsson, vitleysingur úti í bæ, hefur þetta um málið að segja.” Þannig verða þessir rað-frétta-bloggarar að einhverjum sjálfskipuðum fréttaskýrendum sem tengja sjálfa sig við fjöllesnustu vefsíðu landsins og egóið þeirra hrópar “Sjáðu mig! Sjáðu mig!” á meðan þeir rúnka sér yfir teljaranum sínum.

Þetta fólk tekur bloggin sín mjög alvarlega og virðist vera þeirrar skoðunar að blogg eigi að vera n.k. pólitískur refsivöndur. Sjálf er ég hrifnari af bloggum í afslappaðri stíl, sem veita skemmtilega sýn á hversdagslega hluti, segja gamansögur eða skrýtnar pælingar, í bland við pólitíkina.

Beygingarmynd dagsins: afslappaðastrar

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Í ræktinni

Það er óþolandi þegar gömlu kallarnir sem koma stundum í háskólaræktina taka sig til og slökkva á tónlistinni af því að þeim, greinilega, finnst þetta voðalegur hávaði. Ég hef lent þrisvar í þessu, síðast núna í morgun. Sjálfri finnst mér vera ákveðnar siðareglur varðandi græjurnar þarna, ef ég kem t.d. inn í fullan sal af fólki og stillt er á einhverja ákveðna útvarpsstöð þá lít ég svo á að þögult samkomulag sé um að hlusta á þessa stöð, og skipti því ekki. Ef færri eru í salnum og bróðurhlutinn kannski með i-pod, þá leita ég eftir samþykki þeirra sem næstir mér eru og skipti svo. Þó hafa komið upp undantekningartilfelli þar sem ég frekjast með útvarpið, eins og t.d. ef stillt er á Bylgjuna og þeir spila Eros Ramasotti. Ég einfaldlega neita að láta bjóða mér það að pína mig áfram á brettinu OG þurfa hlusta á Eros Ramasotti um leið.
Þessir kallar, sem eflaust eru háskólaprófessorar, telja sig hinsvegar ekki þurfa að spyrja kóng né prest áður en þeir lækka í botn. Um daginn spurði einn mig reyndar hvort það væri ekki í lagi þótt hann lækkaði aðeins því þetta væri “alveg ærandi”, þegar ég jánkaði því slökkti hann hinsvegar á útvarpinu. Ég hef engan áhuga á að æfa mig í grafarþögn sem er eingöngu rofin þegar kallarnir mása og blása af áreynslunni.

Nú spyrja sig eflaust einhverjir af hverju ég mæti ekki bara með i-podinn minn. Það eru ýmsar ástæður fyrir því; í fyrsta lagi finnst mér hann of stór til að ég nenni því, svo á ég ekkert almennilegt box undir hann sem gott er að hlaupa með og auk þess leiðist mér að vera með þetta í eyrunum á meðan ég er að hamast. Mér líkar ágætlega við að hlusta á útvarpið, svo lengi sem þessir miðaldra kallar skipta sér ekki af því.

Beygingarmynd dagsins:
Vúdútrú

laugardagur, janúar 07, 2006

Helvítis Kanadruslur

Djöfull er pirrandi að þurfa að eiga samskipti við bandaríska sendiráðið. Ég átti þar pantaðan tíma með tveggja vikna fyrirvara, og þurfti að rífa mig á fætur án þess að hafa sofið nægju mína, til að mæta tímanlega. Þá kom hinsvegar í ljós að ég átti í raun ekki pantaðan tíma eins og ég hélt, heldur var ég bara skráð á þennan komutíma, ásamt mörgum öðrum. Það væri svo sem allt í lagi ef Bandaríska sendiráðið biðið gestum sínum upp á biðstofu, en það er ekki svo gott. Ég þurfti því að hanga fyrir utan, í slagviðri, í heilan hálftíma og var ég þá orðin blaut bæði í tærnar og hælana enda slabb úti. Fyrir innan þarf maður svo auðvitað að fara í gegnum málmleitarhliðið og taka af sér yfirhafnir með hnöppum osfrv. Það er nú svona eins og gengur, og öryggisverðirnir voru ósköp kurteisir svo ég pirraði mig lítið á því. En svo þegar ég hélt að ég væri komin í höfn og byrjuð að vísa fram pappírunum kom í ljós að mig vantaði eitt og annað, einhver útfyllt skjöl (DS-156 og DS-158) sem að ég hefði átt að prenta út á netinu, auk passamyndar og fjárhagsvottorðs. Þetta átti ég allt að vita frá einhverjum tékk-lista sem ég sá hvergi þegar ég pantaði tíma, og hef enn hvergi fundið, né heldur þessi skjöl sem ég á að fylla út af netinu. Helvítis möppufasismi á þessu liði.
Ég þurfti því frá að hverfa, blaut, köld og pirruð, og þarf að panta mér aftur tíma seinna til að geta fengið þetta landvistarleyfi.

Partý ársins

Gærdagurinn byrjaði því frekar illa, en hann endaði hinsvegar stórkostlega, í einu allra ruglaðasta partýi sem ég hef farið í lengi. Það var kveðjupartý Önnu Samúelsdóttur, en hún fer í fyrramálið til Danmerkur í Lýðháskóla. Þema partýsins var hallæri og gerði mikla lukku. Þegar leið á kvöldið hefði mátt ætla að partýgestirnir væru allir með tölu á englaryki, því stemninginn var mjög súrrealísk. Hallærið var útfært á marga góða vegu, en Elín Lóa og Snæbjörn toppuðu þó alla, í gervi sambrýnds, hvítarusls, vörubílstjórapars. Meðal annarra búninga má nefna grænröndóttan óléttusamfesting; baby-spice átfitt; ósamstæð jakkaföt við hvíta sportsokka; þröngan, gamlan landsliðsjogging galla ofl. Skrautlegt í einu orði sagt. Og búningarnir gerðu það einhvern veginn að verkum að fólk var í karakter allt kvöldið og sleppti sér gjörsamlega í skjóli hallærisins. Ég hlakka til að sjá myndirnar.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Forræðisógeð

Um daginn ætlaði ég að elda ljúffengar, ofnabakaðar kjúklingabringur, með smjörsteiktum sveppum og hvítlaut og hvítvínssósu. Nema hvað. Mig vantaði hvítvín. Ef allt væri með felldu hefði ég gert mér lítið fyrir, skroppið niður í kjörbúðina á Grundarstíg eða í 10-11 og keypt eina flösku. En nei, mér er bannað að gera það. Ég má ekki kaupa hvítvín úti í næstu búð þegar mig vantar að gera hvítvínssósu, heldur verð ég að skipuleggja matargerðina fyrirfram og versla hjá Ríkinu (undir dulnefni Vínbúðar) innan afar takmarkaðs opnunartíma. Djöfull þoli ég það ekki. Ég krefst þess ekki að sterkt brennivín sé selt á hverju götuhorni, en mér finnst það bara sjálfsagður hlutur að hægt sé að kaupa léttvín í matvöruverslunum. Hver græðir á að hafa þetta svona? Hver vill hafa þetta svona? Ég hugsa með trega til Parísar, þar sem hægt er að kaupa fínasta vín í hvaða búðarholurassgati sem er, og ekki veit ég til þess að Frakkar eigi við meira áfengisvandamál að stríða en Íslendingar.

Nú legg ég hinsvegar af stað til Danmerkur eftir u.þ.b. kortér, þar ættu vínkaup varla að verða vandamál.

sunnudagur, maí 01, 2005

1.maí

Er þetta nú ekki orðið svolítið úrelt, lokandi verslunum hist og bast út af einhverri dagsetningu? Þegar ég vil mitt ostapopp þá fæ ég mitt ostapopp og læt engan verkalýðsdag koma í veg fyrir þá neyslu. Hvers konar greiði á það líka að vera fyrir verkalýðinn að senda hann bara launalausan heim? Verkalýðurinn þarf sinn aur skal ég segja ykkur og það eru alltaf nokkrir á hverjum vinnustað sem vilja fegnir taka á sig aukavakt með 90% álagi. Mér líður bara eins og ég sé komin aftur í forneskju þegar ég tek stefnuna út í sjoppu en kem að lokuðum dyrum. Fuss.

Beygingarmynd dagsins...

...er að þessu sinni inspíreruð af vangaveltum um prófalífstíl. Þannig er nú mál með vexti í mínu tilfelli, og á það eflaust við um fleiri, að ég þarf að múta sjálfri mér til að sitja yfir bókunum. Múturnar felast þá iðulega í einhverjum bölvuðum ólifnaði, s.s. súkkulaði eða karamellum. (Gulrætur...ha? Niðurskorin gúrka? Ertu ekki að grínast?) Að þessu sinni á ostapoppið hug minn allan. Þar af leiðandi er beygingarmynd dagsins snarls

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Kverúlantablogg

Það er helst af mér að frétta að ég nenni ekki að blogga nema til þess eins að kverúlantast. Þegar ég hnýt um einhvern asnaskap hjá meðborgurum mínum grípur mig sterk löngun til að blogga yfirlætislega um hann, en þess á milli ríkir áhugaleysið. (Hugsanleg ástæða er hin hestkvalafulla hálsbólga sem ég þjáist af og hef fulla trú á að verði mitt banamein.) Meðal þeirra umkvörtunarefna sem vermt hafa blogglistann hjá mér eru:

-Hrífandi textasmíð lagsins Eitt með köppunum Í svörtum fötum. Sérstaklega línurnar Dagur kemur, dagur fer / nóttin bíður eftir mér, og við erum eitt / án þín er ég ekki neitt, að ógleymdum í gegnum kulda og byl / þú veitir sól og yl (eða eitthvað álíka.) Sannarlega gæsahúðar-materíal.

-Útvarpsauglýsingar þar sem athygli er vakin á því að "Hinir einu sönnu Skítamórall" haldi bráðum tónleika.

-Þessi árátta að auglýsa enska titla erlendra mynda, sem tengjast ensku annars ekki neitt, í stað íslensks eða hins upprunalega titils. Þetta er meira að segja gert við danskar myndir. Af hverju? Af hverju?

-Ímeilin frá Stúdentakjallaranum. Djöfull hata ég þau. Ég þekki þetta fólk ekkert, af hverju er það þá að þykjast vera vinir mínir? Af hverju reyna þau að poppa upp auglýsingarnar frá sér með óáhugaverðum 1.persónu frásögnum sem virðast eiga að vera fyndnar en eru það sannarlega ekki. Hver er þessi "ég" sem talar í þessum ímeilum? Getur hann ekki auglýst starfsemi sína án þessa rembings?

-Hvaða kjaftæði er það að Árni Þór og Kristján Ra hafi ekki gert sér grein fyrir að þeir eru glæpamenn? Er það einhver afsökun að þeir hafi bara verið 23 ára þegar þetta byrjaði og ekki vitað hvernig lánataka virkaði? (??) Héldu þeir þá að það væri bara alveg eðlilegt að taka blaðalaust og skuldbindingalaust lán upp á 300 milljónir hjá vini sínum í Landsímanum? Þýðir það þá ekki bara að þeir eru glæponar og hálfvitar?

Í ljósi ofangreindra atriða þykir mér ljóst að bloggfærslur næstu daga hefðu allar gengið út frá tesunni "Fólk er fífl og allir eru heimskir fávitar." Ég ákvað því að demba þessu bara saman í eina færslu til að draga úr neikvæðum langtímaáhrifum, og bíða með næstu færslu þar til hugarfarið hefur breyst til hins betra.

þriðjudagur, október 01, 2002

Mjer leiðist.
Læra.
Ohhh.
Þetta reddaðist samt allt.
Nema jakkinn minn, ég er yfirhafnarlaus í hitabeltisskúrnum.
Ég ætla að reyna að gerast æ þunglyndari til að komast inn á "skyldu-listann" hans Sigga Arent Niðurdrepandi blogg ku vera líklegt til vinsælda sbr.Lovísa siggabekkjarsystir.

Bókhlaðan er off sökum yfirhafnarleysis, legg ekki í rigningargöngutúr upp eftir. Þá er það Íþaka.

laugardagur, september 28, 2002

Ég steikti mér beikon og það festist við pönnuna og ég er ekki byrjuð á Njálu en hinsvegar er skítakuldi í húsinu og myrkur úti og enginn heima og enginn nennir að koma alla leið upp í Mosfellsveit að kíkja í heimsókn til Unu því þetta er svo djöfulli langt í burtu finnst fólki en ég fer þessa vegalengd á hverjum degi svo þau geta bara átt sig og sitt plebbanágrenni og svo festist ég yfir myndum á tilverunni af gellum dagsins og þær eru allar ljótar. Mér er kalt á höndunum.

Í hvaða rúmi á ég að sofa í nótt? Af nógu er að taka þar sem allir fjölskyldumeðlimir eru horfninr e-ð út í buskann loksins þegar ég er heima í guð má vita hvaða tilgangi. Svo er mér kalt á nefinu líka.