Sýnir færslur með efnisorðinu Beygingarmyndir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Beygingarmyndir. Sýna allar færslur

þriðjudagur, september 25, 2012

10 ára bloggafmæli

Þennan dag fyrir 10 árum, 25. september 2002, ritaði ég fyrstu bloggfærsluna á þessa síðu. Slóðin var valin af handahófi og titillinn í flýti (innblásinn af senu sem mér fannst fyndin í kvikmyndinni A Bug's Life). Eftir á að hyggja er hann nokkuð viðeigandi, því þegar ég renni yfir fyrstu færslurnar sem hér voru skrifaðar má alveg segja að hamskipti Unu Sighvatsdóttur hafi átt sér stað. Ég hef, sem betur fer, breyst talsvert síðan ég var 17 ára sem birtist m.a. í því að ég er orðin aðeins varfærnari í skrifum og vali á því hvað sé birtingarhæft!

Að öðru leyti hef ég þó ekki breyst, því mér finnst ennþá óskaplega gaman að skrifa. Þessi bloggsíða var stofnuð við upphaf mikillar bloggbylgju sem síðar hefur þróast yfir á aðra samfélagsmiðla. (Ég tek ekki lengur ítarlegan bloggrúnt 2-3 á dag, en hangi í staðinn á Facebook). Hvötin hjá mér var þó ekki bara tíðarandinn þá heldur líka ákveðin tjáningarþörf sem enn er til staðar. Þess vegna kannski hefur þessi síða orðið langlífari en margar aðrar sem stofnað var til á sama tíma.

Hamskipti Unu Sighvatsdóttur hafa átt sínar hæðir og lægðir. Hér hafa alls verið skrifaðar 732 færslur og lengi vel var lesturinn á síðunni mikill og sköpuðust oft líflegar umræður í athugasemdakerfinu. Það varð því mikil sorg hjá mér þegar uppgötvaðist, fyrir 1-2 árum, að Haloscan athugasemdakerfið var hætt og þar með margra ára safn af umræðum og athugasemdum glatað.

Undanfarin misseri hefur þessi síða auðvitað ekki verið blogg nema að nafninu til. Ég hef notað þetta sem n.k. skjalasafn fyrir pistlana mína í Mogganum. Eftir að ég byrjaði að skrifa að atvinnu missti ég smám saman bloggþróttinn, ekki síst með tilkomu pistla- og Víkverjaskrifa. Ég hef þó kosið að halda lífi í síðunni með þessum hætti og útiloka ekki að ég muni taka þráðinn hér upp aftur einhvern daginn.

Fyrir nokkrum árum bloggaði ég um tvíklofna afstöðu mína til svona upplýsingasöfnunar eins og verður á bloggsíðu til margra ára. Nú hefur Facebook bæst við, auk gagnasafns Morgunblaðsins. Verði afkomendur mínir áhugasamir um mína hagi munu þeir geta orðið margs vísari um skoðanir mínar, vini, áhugamál og ómerkilegustu athafnir. Ég er ekki ómeðvituð um að komi vissar kringumstæður upp væri hægt að nota ýmsar þær upplýsingar, sem ég hef sjálfviljug sett fram, til ills.

Mín almenna nálgun hefur samt alltaf verið sú að ég sé ekki að setja neitt fram sem ég þurfi að skammast mín fyrir eða fara leynt með. Kannski breytist það mat með tímanum og kannski mun ég við tækifæri fara í gegnum gagnasafnið og hreinsa eitthvað út frá unglingsárum mínum hér! Ég held samt ekki, ég stend með sjálfri mér, þá og nú.

Þetta er annars fyrsta eiginlega bloggfærslan mín hér í langan tíma og er skrifuð vegna þess að mér hefur alltaf þótt svolítið vænt um þessa síðu mína og finnst hún eiga skilið að ég minnist hennar á 10 ára afmælinu. Og um leið þakka ég auðvitað öllum þeim sem fylgdust með mér á árum áður, og slysast kannski hingað inn, fyrir lesturinn!

Beygingarmynd dagsins: Drátthagastrar

mánudagur, maí 25, 2009

Sólsólsólsólsól

Nú er liðin vika síðan sumarveðrið skall allt í einu á okkur og snarbreytti stemningunni á skerinu til betri vegar. Svo vel vildi til að ég átti frí alla síðustu viku vegna uppsafnaðrar yfirvinnu sem ekki er lengur greidd út í launum heldur fríi. Frá því sumarið hófst er ég því búin að...

...ganga á Heklu í fullkomlega heiðskýru veðri og mögnuðu útsýni
...sötra bjór á þétt setnum Austurvelli
...flatmaga í sundi með vinkonum mínum
...flatmaga í sólbaði með kærastanum mínum
...borða grænan frostpinna til að svala mér
....sólbrenna á nefinu
...grilla kjöt og maískólfa
...slappa af í sveitinni og klappa nýfæddum fjórfætlingum
...fara á hestbak
...dansa í miðbænum og sjá ljósaskiptin þegar það hættir að skyggja á miðri leið og verður bara bjart aftur
...sjá ekta poppkorns-sumarsmell í bíó (Angels&Demons)
....endurheimta ljósa lokka og hraustlegra útlit

Þessi eina frívika hefur verið eins og sýnishorn af heilu sumri í mínum huga enda er ég ekki vön því að hafa lengra samfleytt frí á sumrin en það sem nemur langri helgi. Það besta er að ég er ekki einu sinni byrjuð að taka út sjálft sumarfríið, sem er 4 vikur allt í allt, svo ég lít svo á að síðustu dagar séu fyrirboði um einstaklega gott sumar.

Ég hef líka komist að því að ég gæti hæglega vanist því að vera í svona fríi. Alltaf.


Beygingarmynd dagsins: fartina

föstudagur, maí 01, 2009

Ísland vs. Fjarskanistan

Ég hef látið það fara í taugarnar á mér síðan kreppan skrapp á, og reyndar áður líka, þegar tekið er viðtal við Íslendinga sem eru nýkomnir heim frá Afríku og eru uppvægnir að fræða okkur hin um hvað okkar vandamál séu mikið hjóm í samanburði svo við eigum að hætta þessu væli. Þetta er í grunninn alveg rétt, en þetta fólk er ekki að fræða mig um eitthvað sem ég ekki veit auk þess sem ég kýs að miða kröfur mínar til velferðarríkisins hér ekki við þriðja heims ríki.

Núna er ég nýkomin heim eftir stuttan skreppitúr til Bonn í Þýskalandi þar sem ég tók þátt í málstofu fyrir unga blaðamenn, samhliða ráðstefnu á vegum World Health Organization um umhverfis- og heilbrigðismál. Og ég get ekki neitað því að ég sný aftur úr þessari ferð ekki alls kostar laus við einmitt þessa tilfinningu. Ég fór þarna með það í huga að við Íslandi blasi nú ýmis ný vandamál vegna aðstæðna og fróðlegt væri að bera það saman við stöðu annarra landa. Þegar á reyndi fannst mér ég þó í raun hafa lítið til málanna að leggja því svo ólíku var saman að jafna.
Margir hlutar stjórnsýslunnar er enn í Bonn, s.s. umhverfisráðuneyti Þýskalands þar sem málstofan okkar var haldin

Í þetta skiptið hitti ég fólk frá nokkrum löndum sem ég hef ekk haft kynni af áður, þ.e.a.s fjarskanistan löndunum í Mið-Asíu. Þarna voru ungir blaðamenn frá Kazakhstan, Kyrgizstan, Uzbekistan og Tajikistan. Auk þess Armeníu, Albaníu, Bosníu og Herzegóvínu, Búlgaríu, Eistlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Litháen, Noregi, Moldóvíu, Rússlandi, Makedóníu og Bandaríkjunum.

Sjálf þrífst ég á svona alþjóðasamskiptum eins og ég hef eflaust áður talað um á þessu bloggi. Mér finnst fátt skemmtilegra en að sitja með hópi fólks frá ólíkum löndum og bera saman löndin okkar, bakgrunn og viðhorf. Við slík tækifæri lærir maður alltaf eitthvað nýtt en yfir gnæfir sú notalega tilfinning að alltaf á maður nú ótrúlega margt sameiginlegt með fólki sama hvaðan það er úr heiminum. En mikið virtust vandamál Íslands smávægileg í samanburði við þau vandamál sem kollegar mínar í Austur-Evrópu og Mið-Asíu eiga við að etja.

Nokkrir kollega minna ræða saman á málstofunni

Þau Lyudmila og Bakhrom frá Úzbekistan skýrðu t.d. frá því hve erfitt er fyrir þau að fjalla um háa tíðni barnadauða vegna þess að ríkisstjórnin meinar fjölmiðlum að nefna neinar tölur að segja hversu stór vandinn er. Svipaða sögu sagði Galiya frá Kazahkstan, þar sem yfirvöld buðu Írönum að koma endilega og dömpa öllum kjarnorkuúrganginum sínum í sveitirnar ef þá langaði til. Galiya og aðrir ungir blaðamenn gagnrýndu stjórnvöld harðlega fyrir þetta og voru í kjölfarið handtekin. Mengað vatn er stórt vandamál í mörgum þessum löndum, t.d. Litháen, þótt maður sé gjarn á að hugsa bara um Afríku í því samhengi. A.mk. 13 þús evrópsk börn deyja árlega vegna þess að þau hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni. Flestir eiga blaðamennirnir frá þessum löndum í endalausa glímu við ríkisstjórnina um upplýsingagjöf. Þeir ýmist fá ekki í hendur eða mega ekki birta tölur um loftmengun vegna umferðar, dauðsfalla vegna skemmdra matvæla o.s.frv. Mér fannst ég einstaklega bláeygð í samanburði með minn íslenska bakgrunn.

Á kvöldin skemmtum við okkur svp í kokteilboðum borgarstjórnar Bonn og WHO, nýttum okkur ókeypis áfengi eins og maður gerir auðvitað þegar maður er ungur, spiluðum foosball á pöbbum og ödduðum hvort öðru á Facebook. Lík en samt svo ólík.

Beygingarmynd dagsins: drasls

mánudagur, febrúar 18, 2008

Hey, þú...

...sem hefur googlað "una stuna" og farið þannig inn á síðuna mína einu sinni til tvisvar á dag undanfarna 5 mánuði eða svo; hvað er málið? Ekki það að ég sé ekki þakklát fyrir áhugann, alls ekki, haltu endilega áfram að lesa það sem ég skrifa. Ég get samt ekki neitað því að mér hefur fundist svona ögn krípí að fylgjast með þessu. Ögn. Kannski er þetta samt fyrst og fremst hégómi í mér, það fer nefnilega svolítið í taugarnar á mér þegar þessu stunuheiti er klínt við nafnið mitt. Það var ekki beint pælingin þegar slóðin var valin að þessu bloggi fyrir 5 árum að ég væri "una stuna". Ég kynni betur við að þú googlaðir raunverulegt nafn mitt, "Una Sighvatsdóttir", en það vísar líka í þetta blogg. Svo má benda á að í stað þess að nota Google til að komast inn á síðuna mína væri líka hægt að læra bara slóðina, www.stuna.blogspot.com, hún er nú ekki það flókin. En þú hefur auðvitað þína hentisemi. Mér hefur bara þótt þetta svolítið....spes.

Beygingarmynd dagsins...
...er sprottin úr umræðum okkar Önna þess efnis að ég þyrfti að drekka mikið gin og tonic í SA-Asíu til að innibyrða bragðgóða moskítófælu: kíníninu

miðvikudagur, janúar 30, 2008

Glomm

Þessar 70 klst. vinnuvikur eru ekkert voðalega líflegar hjá mér. Eins gott að þetta er allt fyrir góðan málstað.

Beygingarmynd dagsins: munstrum

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Bráðum

Ég verð í Kína á 23.ára afmælisdaginn minn. Það finnst mér alveg frábær tilhugsun. Mig hefur dreymt um að fara til Kína síðan ég las Villta Svani og Forboðnu borgina í gaggó. Sem er kannski ekkert rosalega langur tími. Tæp 10 ár. En það er ekki verra. Staðfestir bara að mér gengur vel að láta drauma mína rætast í stað þess að daga uppi. Lífið: vægi mikið.

Beygingarmynd dagsins: asahláka

þriðjudagur, desember 18, 2007

Fjúsjon

Það er alltaf spennandi að leggja upp í Krambúðarleiðangur með óljósar hugmyndir um kvöldmat og snúa aftur með einhverja kynngimagnaða samsetningu eins og plokkfisk, jólaöl, ab-mjólk lifrarpylsu og ostapopp. Þetta verður þó ekki allt borðað samtímis.

Beygingarmynd dagsins: bjóralið

laugardagur, desember 08, 2007

Best af Nylon

Nýja Nylon platan heitir "Best af Nylon". Hvaða rugl er þetta? Afhverju? Afhverju? Afhverju? Ég skil ekki þennan titil. Meira get ég eiginlega ekki sagt um þetta. Mig svimar.

Beygingarmynd dagsins: sýrðastrar

miðvikudagur, desember 05, 2007

Ohh

Mikið vantar mig stundum Ctrl+F skipunina utan tölvunnar

Beygingarmynd dagsins: Tranta

sunnudagur, júní 17, 2007

17.júní

Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi hátíðahaldanna á 17.júní og verið frekar þver gagnvart skemmtidagskránni sem þar er boðið upp á. Í dag hef ég hinsvegar verið að vinna við að skrifa um atburði dagsins og nú ber svo við að ég dauðsakna þess að hafa aldrei séð hátíðardagskrána á Austurvelli. Ég vildi að ég hefði vaknað snemma í stað þess að sofa úr mér stemningu næturinnar, og hlustað á Karlakór Reykjavíkur syngja þjóðsönginn og Ísland ögrum skorið. Afþví að það er fallegt.
Hvað sem því líður, beygingarmynd dagsins varð á vegi mínum í dag og er stórskemmtileg að vanda: nikkuballs

þriðjudagur, júní 05, 2007

Status check

Þessi síða hefur verið heldur vanrækt af minni hálfu undanfarið. Skrifast það að einhverju leyti á þá staðreynd að ég er í þremur vinnum sem óhjákvæmilega taka sinn skerf af tíma mínum. Ætlunin er að draga aðeins í land hvað það varðar því ég nenni ekki að eyða sumrinu svona. Í augnablikinu eru til dæmis allar helgar júnímánaðar fráteknar fyrir vinnu svo það verður lítið um framkvæmdir ef ég næ ekki að hagræða því. Á móti kemur hinsvegar að nýja vinnan, sem er mesti orkuþjófurinn núna, er mjög hress og rúmlega það. Annars er ég frekar þurrausin.

Beygingarmynd dagsins: gremst

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað

Ég hef miklar efasemdir um þessa safnútgáfu á verkum Halldórs Laxness með “nútímastafsetningu”. Þetta er víst tilraun til að höfða til ungs fólks sem stendur ógn af sérvisku Halldórs við að stafsetja, en ég held einhvern veginn að þeir sem þykjast ekki lesa bækurnar hans vegna stafsetningar sé fólk sem bæri hvort eð er ekki kennsl á rétta stafsetningu þótt hún biti það í slefandi neðri vörina. Treystirðu þér ekki til þess að lesa úngur í stað ungur? Bú-fokkín-húhú, haltu þig þá á Huga.is og vertu til friðs.

Annars hefðu þeir a.m.k. átt að hafa vit á að gefa bókina út eins og mánuði fyrr svo hún rataði í fermingarpakkana.

Beygingarmynd dagsins: einginn

þriðjudagur, apríl 10, 2007

Tóma tunnan

Ég held því fram að ef ekki væri fyrir útþenslu moggabloggsins hefði klámliðinu aldrei verið úthýst þarna um daginn. Að sama skapi hefði Uwe E. Reinhardt ekki séð sig knúinn til að biðjast afsökunar í dag, vegna viðbragða búralegra Íslendinga sem skilja ekki að satíran er ekki á okkar kostnað. Fólk fer bókstaflega hamförum í þessu bloggsamfélagi og tekur sjálft sig svo alvarlega að það hálfa væri nóg. Mér fannst spaugilegt þegar Kazakstanar fóru á límingunum yfir Borat og áttuðu sig ekki á að Bandaríkin voru hið raunverulega skotmark, en núna bregðast Íslenskir moggabloggarar við með sömu viðkvæmni, og jafnvel vissum hroka gagnvart Íran.

Fyrir utan það að þessi grein er skrifuð fyrir háskólavefrit og ber að taka með þeim fyrirvara; það er ekki eins og þetta sé leiðari NY Times. Það væri því óskandi að þessir bloggarar gætu slakað aðeins á, áður en þeir rjúka til og senda hótunarbréf til Bandaríkjanna, og bloggað svo um eitthvað sem þeim sjálfum dettur í hug.

Beygingarmynd dagsins: Hrumustum

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Lögmál Murphys

Þar sem ég bý á tveimur hæðum er að sjálfsögðu óumflýjanlegt að alltaf þegar síminn minn hringir, í hvert einasta skipti, þá er hann undantekningalaust staðsettur á öfugri hæð við mig. Þá er það bara spretturinn.

Beygingarmynd dagsins: sprast

laugardagur, mars 31, 2007

Hressur

Í gær hélt ég partý enda var þrefalt tilefni til að gleðjast. Í fyrsta lagi á ég afmæli í næstu viku, og var það formleg ástæða fagnaðarins. Í öðru lagi endurheimti MR loksins Hljóðnemann góða í Gettu betur, eftir tvísýna keppni. Það var kominn tími til að ný kynslóð MR-inga fengi að opna bjórflöskurnar sínar á gripnum, og ég samgladdist þeim innilega. Reyndar þurfti ég að standa á bak við ísskápinn heima í bráðabananum þar sem mér var ómögulegt að sitja kyrr vegna spennu; og hafði ég þó reynt að telja sjálfri mér trú um að mér stæði svo sem á sama hvernig þetta færi. Gettu betur er eðalsjónvarpsefni. Þriðja fagnaðarefnið var svo hinn nýi starfsvettvangur sumarsins, því við Önni munum bæði hefja störf á Morgunblaðinu í lok maí. Það verður spennandi og án efa mjög lærdómsríkt, svo ég hlakka mikið til.
Ég þakka þeim sem glöddust með mér í gær, þetta var gaman.

Beygingarmynd dagsins: grindar

mánudagur, mars 19, 2007

Djöfull er ég góð

Rétt í þessu lauk ég við að vaska upp 8 matardiska, 8 kaffidiska, 12 skálar, 1 undirskál, 7 glös, 2 kaffibolla, 1 pott, 1 eggjabikar, 1 skurðbretti, 1 tupperware-dollu (plús lok), 4 skeiðar, 1 gaffal, 3 teskeiðar, 7 hnífa og ostaskera, á rétt rúmum 10 mínútum. Það held ég að sé persónulegt met.
Næst verður gerð ítarlegri mæling upp á sekúndu. Stay tuned.

Beygingarmynd dagsins:
keppst (áfram samhljóðaklasar!)

mánudagur, febrúar 12, 2007

Mitt innlegg í umræðuna

Mér finnst Steingrímur Sævarr sætari en Þórhallur.

Beygingarmynd dagsins: útúrdúr

sunnudagur, febrúar 11, 2007

Úti er ævintýri

Klósettlesningin um þessar mundir er bókin Íslensk úrvalsævintýri sem m.a. inniheldur söguna af Fóu og Fóu feykirófu. Það er þrennt sem mér finnst sérstaklega skemmtilegt í þeirri sögu. Í fyrsta lagi endar óbermið Fóa feykirófa lífið í kraumandi grautarpotti og líkinu er síðan hent út í á. Það var ekkert verið að fegra hlutina í þessum gömlu ævintýrum. Í öðru lagi felst hinn hamingjusamlegi endir í því að Fóa, sem endurheimti hellinn sinn eftir dauða nöfnu sinnar feykirófu, giftist hrút. Í þriðja lagi er þetta furðulega hjónaband ekki útskýrt neitt frekar, því ævintýrinu er slúttað mjög snögglega með orðunum “Svo er það búið.”
Í gærkvöldi las svo Önni með tilþrifum fyrir mig söguna um Gípu sem, auk áfasopa og lambabita, gleypti tvo hrafna, tvær mýs, tólf trippi, þrettán kálfa, mann, hund, broddstaf, hundrað kindur, bát og átta sjómenn sem sögðu bara “allabaddarí, fransí” því þeir töluðu allir golfrönsku. Og nei við stundum það ekki að lesa hvort annað í svefn. Það gæti þó breyst ef við finnum fleiri svona sturluð ævintýri.

Beygingarmynd dagsins: urrara

föstudagur, febrúar 02, 2007

Moggablogg

Mér er farið að leiðast fítusinn þar sem bloggarar setja link á sjálfa sig við fréttir á mbl.is. Í grunnin er þetta ekki slæm hugmynd enda getur verið áhugavert að heyra ólíkar skoðanir lesenda. Sumir hinsvegar misnota þennan möguleika algjörlega til að trana sjálfum sér fram. Þegar maður fer inn á síður þeirra bloggara og skrollar niður sést að þetta er eitthvað sem þeir stunda grimmt; hver einasta færsla hjá þeim er tengd frétt á mbl þótt þeir hafi ekkert fram að færa. Mér finnst eins og Mbl styrki þetta fólk í að troða skoðunum sínum upp á mig, með því að leyfa þeim að auglýsa síðuna sína við hlið fréttanna undir formerkjunum “Jón Jónsson, vitleysingur úti í bæ, hefur þetta um málið að segja.” Þannig verða þessir rað-frétta-bloggarar að einhverjum sjálfskipuðum fréttaskýrendum sem tengja sjálfa sig við fjöllesnustu vefsíðu landsins og egóið þeirra hrópar “Sjáðu mig! Sjáðu mig!” á meðan þeir rúnka sér yfir teljaranum sínum.

Þetta fólk tekur bloggin sín mjög alvarlega og virðist vera þeirrar skoðunar að blogg eigi að vera n.k. pólitískur refsivöndur. Sjálf er ég hrifnari af bloggum í afslappaðri stíl, sem veita skemmtilega sýn á hversdagslega hluti, segja gamansögur eða skrýtnar pælingar, í bland við pólitíkina.

Beygingarmynd dagsins: afslappaðastrar

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Í ræktinni

Það er óþolandi þegar gömlu kallarnir sem koma stundum í háskólaræktina taka sig til og slökkva á tónlistinni af því að þeim, greinilega, finnst þetta voðalegur hávaði. Ég hef lent þrisvar í þessu, síðast núna í morgun. Sjálfri finnst mér vera ákveðnar siðareglur varðandi græjurnar þarna, ef ég kem t.d. inn í fullan sal af fólki og stillt er á einhverja ákveðna útvarpsstöð þá lít ég svo á að þögult samkomulag sé um að hlusta á þessa stöð, og skipti því ekki. Ef færri eru í salnum og bróðurhlutinn kannski með i-pod, þá leita ég eftir samþykki þeirra sem næstir mér eru og skipti svo. Þó hafa komið upp undantekningartilfelli þar sem ég frekjast með útvarpið, eins og t.d. ef stillt er á Bylgjuna og þeir spila Eros Ramasotti. Ég einfaldlega neita að láta bjóða mér það að pína mig áfram á brettinu OG þurfa hlusta á Eros Ramasotti um leið.
Þessir kallar, sem eflaust eru háskólaprófessorar, telja sig hinsvegar ekki þurfa að spyrja kóng né prest áður en þeir lækka í botn. Um daginn spurði einn mig reyndar hvort það væri ekki í lagi þótt hann lækkaði aðeins því þetta væri “alveg ærandi”, þegar ég jánkaði því slökkti hann hinsvegar á útvarpinu. Ég hef engan áhuga á að æfa mig í grafarþögn sem er eingöngu rofin þegar kallarnir mása og blása af áreynslunni.

Nú spyrja sig eflaust einhverjir af hverju ég mæti ekki bara með i-podinn minn. Það eru ýmsar ástæður fyrir því; í fyrsta lagi finnst mér hann of stór til að ég nenni því, svo á ég ekkert almennilegt box undir hann sem gott er að hlaupa með og auk þess leiðist mér að vera með þetta í eyrunum á meðan ég er að hamast. Mér líkar ágætlega við að hlusta á útvarpið, svo lengi sem þessir miðaldra kallar skipta sér ekki af því.

Beygingarmynd dagsins:
Vúdútrú