fimmtudagur, desember 12, 2002

Nú var ég að koma frá tónleikum í Hallgrímskirkju. Þar var safnað saman glæstu liði; hluti Sinfóníuhljómsveitar Íslands, karlakórsins Fóstbræðra, Vox femine, Gospelkór Fíladelfíu og e-r barnakór lofuðu vissulega mjög góðu. En þrátt fyrir allt þetta virtust tónleikarnir vera pakki utan um "dívur" með söngkonudrauma. Ég vonaðist eftir hátíðlegum jólatónleikum og fékk vissulega eitt og eitt viðeigandi lag, en aðaluppistaðan var eitthvað helvítsi ný-jóla-popp rugl sem kom einstaklega illa út í Hallgrímskirkjunni. Védís Hervör rembdists síendurtekið við undirleik dósahljóðstromma sem voru ekki í takt, Guðrún Árný gaulaði jafnvel enn leiðinlegar en Mariah Carey, á meðan karlakórinn stóð eins og illa gerður hlutur og ekki múkk heyrðist frá sinfóníunni. Ragga Gísla kom tvisvar fram, söng annars vegar Little drummer boy ágætlega en hinsvegar óþarflega arty-farty-vildégværiBjörk-lag. Þessir blessuðu "stór"tónleikar hefðu bara ekki verið par jólalegir hefði ekki verið fyrir Valgerði Gunnarsdóttur og Margréti Eir, sem sungu m.a. Ave Maria og Oh, holy Night, þó ekki án afskipta rembings-Védísar og r-n-b-takta-Guðrúnar. Þessir tónleikar voru bara e-ð að mis....Mikil vinna virðist hafa verið lögð í þetta, alltént eru þær farðaðar voða sætt í auglýsingunum, en tónlistin hefur beðið afgangi. Sök sér þó mér hafi mislíkað lagaval, en útfærslan var stundum (ekki þó alltaf) slæm. Misræmi milli söngs og hljóðfæra og slæmur samhljómur. Stundum. Verst var þó að sjá karlakórinn nýttan svona illa. Fegin að mér var boðið.

Gáta dagsins:

Hvað eiga Flosi Ólafsson, David Beckham og jólasveininn sameiginlegt?

(Þeir sem vita mega ekki segja)

Engin ummæli: