föstudagur, júní 04, 2004

Uppgjör við MR I

Nú hef ég verið stúdent í viku og tími til kominn að gera upp tímabilið sem var undanfari þessa titils. Árin voru fjögur og þau voru viðburðarrík og jafnframt afdrifarík. Ég stend uppi sem þroskaðari og mótaðari manneskja og ég veit ég mun líta aftur til þessara ára með trega, enda lætur fáum betur að trega en mér. Þessu uppgjöri verður skipt í fernt og mun hver færsla taka fyrir einn vetur.


3.A

Upphafið:
-Við fórum 5 vinirnir úr Mosfellsbænum í MR og við Bragi lentum saman í bekk. Ég hafði lengi haft talsverðar væntingar til menntaskólaáranna, ég gerði fastlega ráð fyrir endalausum vinafans og partýstandi en gerði mér fljótlega grein fyrir að ekkert var sjálfgefið. Til að byrja með missti ég dálítið kjarkinn, ég lenti náttúrulega í stelpubekk og fannst allar stelpurnar vera fullorðinslegri en ég og miklar gellur, en samt voru þær ekkert vitlausar, andstætt því sem ég átti að venjast (!) Stórum hluta 3.bekkjar (og lengur) varði ég því í að “finna sjálfa mig” því í rauninni missti ég alveg statusinn minn frá því í grunnskóla að mér fannst. En þrátt fyrir ósætti við sjálfa mig var ég í skýjunum yfir MR. Mér fannst allt æðislegt og leið eiginlega eins og ég væri komin í annan heim, enda stemningin og fólkið í MR talsvert ólíkt Gaggó í Mosfellsbæ.

Félagslífið:
-Við Bragi vorum fljót að laumast frá fremsta bekk þar sem við lentum fyrst fyrir slysni og færa okkur aftast, þar sem við kynntumst Margréti. Þau Siggi Arent urðu svo mínir helstu vinir í bekknum, en leiklistarnámskeið og síðar Herranótt urðu helst til þess að ég kynntist fólki héðan og þaðan úr skólanum. Seinna kom í ljós að margir sem ég þekkti ekkert þekktu mig samt af taumlausum skrifum mínum á umræðuvef Framtíðarinnar, sem ég ánetjaðist snemma. Bragi var samt aðalförunautur minn enda héldu margir að við værum par. Bragi var fljótur að kynnast fólki og þá sérstaklega eldri bekkingum og ég svindlaði mér inn bakdyramegin í gegnum hann. Ég fann fyrir áhrifum áfengis í fyrsta sinn um haustið og líkaði ágætlega ef svo má að orði komast, en gerðist aldrei mikil drykkjumanneskja í 3.bekk og var mjög stillt í neyslunni ef frá er talið eitt skipti.

Námið:
-Því miður tók ég það feilspor strax fyrstu vikuna að vanrækja námið. Engar tilraunir voru gerðar til að bæta fyrir það fyrr enn rúmum 2 árum síðar. Í 3.bekk hugsaði ég aldrei til enda skólans. Ég leiddi hugann aldrei að útskrift, prófum né meðaltali úr einkunnum og datt að sjálfsögðu ekki í hug að einhvern tíma myndi ég kannski sjá eftir því. Námið gekk þó stórslysalaust fyrir sig, en þarna hófst strax ferill minn sem fallisti í stærðfræði og átti hann eftir að verða langur og farsæll.

Tilhugalífið:
-Mér til mikillar og einlægrar furðu kom brátt í ljós að einhverjir strákar voru dálítið skotnir í mér. Ég var samt frekar dræm til leiks og kyssti bara einhvern sem var ekkert skotinn í mér og vildi bara eitthvað annað. Sem ekki fékkst. Svo ástarlíf mitt gat varla talist fugl né fiskur í 3.bekk, enda mændi ég öllum stundum úr fjarlægð á karlmannlega 6.bekkinga frekar en að aðhafast nokkuð.

Í heildina litið:
-Veturinn í 3.A var mér nokkuð góður þrátt fyrir ófáar, sjálfskapaðar krísur og brenglað sjálfsmat. Auðvitað var betra að umgangast fólk sem ég leit upp til og virti, frekar en fólk sem ég þoldi ekki og ég elskaði MR sannarlega af öllu hjarta fyrir að hafa frelsað mig úr grunnskólaprísundinni. (Sem ég hlýt eiginlega að hafa gert of mikið úr, eftir á að hyggja, var grunnskólinn í raun svona slæmur?) 3.A lagði grunninn að því sem á eftir fylgdi og sá grunnur var námslega byggður á sandi en félagslega á tryggari jarðvegi.

Engin ummæli: