laugardagur, júní 12, 2004

Uppgjör við MR II

4.A

Vinskapurinn:
-4.A var talsvert ólíkur 3.A. Við vorum ekki nema 14 ef ég man rétt, í pínulítilli stofu. Mér leist vel á bekkinn man ég, en fyrsta skóladaginn fékk ég samt eitthvað þunglyndiskast og hringdi mig inn veika. Það kom stundum fyrir í 3.bekk að ég gat ekki hugsað mér að fara í skólann, en þetta var í síðasta skipti sem það gerðist. Í 4.A kynntist ég Snæbirni og Frank og seinna Nönnu. Sterkur kjarni myndaðist og við vorum mikið saman, auk þess fór ég að vera meira með Hilmi og Jóni. Þessi félagsskapur stundaði mink á röngunni, þ.e. að gista saman, drekka áfengi og spjalla um sketsa og ýmislegt fleira. Þennan vetur fékk ég lægstu mætinguna á skólaferli mínum, sem var 81%. Í byrjun hvers dags renndi ég yfir stundaskrána og ákvað í hvaða tíma/um ætti að skrópa þann daginn. Svo fórum við niðri í Cösu og héngum þar. Margar skemmtilegar pælingar og umræður spruttu upp úr þeim stundum, en eftir á að hyggja hefði mátt verja tímanum á skynsamlegri hátt.

Félagslífið:
-Aftur tók ég þátt í Herranótt og fyrir mitt leyti var þetta skemmtilegasta Herranæturtímabilið. Milljónamærin var sett upp og heppnaðist vel, þó svo ég hafi misst dálítið áhugann þegar leikritið var stytt rétt fyrir frumsýningu með þeim afleiðingum að flestar af mínum fáu senum voru klipptar út. Eins og alltaf myndaðist nokkurs konar kommúna niðri í Tjarnarbíói. Ég eyddi öllum peningunum mínum í mat og svaf niðri í Cösu, í tímum og á milli bekkja í Tjarnarbíói. Sem er athyglivert vegna þess hversu svefnstygg ég hafði verið fram að þessu og kröfuhörð á aðstæður til svefns.

Tilhugalífið:
-Nú dró til tíðinda. Ég man ekkert eftir Önna frá því í 3.bekk, að undanskilinni úrslitakeppni Sólbjarts þar sem hann varð Orator scholae. Fyrstu vikuna í 4.bekk tók ég hinsvegar strax eftir honum, en framan af vetri var ég samt ekkert að pæla í strákum, ég var ekki hrifin af neinum á meðan Margrét var sífellt ástfangin. En smám saman fór áhugi minn fyrir Önna að vakna. Við töluðum saman í fyrsta skipti inni í tölvustofunni í Elísarbetarminni, hann minntist á eitthvað sem ég hafði skrifað á umræðuvefinn og ég mumlaði eitthvað samþykki dauðfeimin. Mér fannst sífellt meira til hans koma en svo gerðist það í einni hendingu og ég man nákvæmlega hvernig það átti sér stað, að ég féll alveg fyrir honum. Eftir skáktebó sem Framtíðin hélt týndi ég hópnum mínum og varð samferða Önna og félögum í leigubíl. Við fórum í heimsókn til Möggu þar sem hún lét þá skrifa í Skólafélagar mínir bókina sína á meðan við Önni, einhverra hluta vegna, fórum að nudda fætur hvors annars. Við urðum svo samferða heim í leigubíl og áttum gott spjall en ekkert gerðist, annað en það að ég borgaði góðar 3000kr. fyrir ferðina frá Garðabæ í Mosfellsbæ. En næsta mánudag kom Önni til mín niðri í Cösu, brosti voða fallega og þakkaði mér fyrir síðast. Þessu fylgdi amorsör í hjartað og hann átti hug minn allan. Ekki bætti úr skák þegar Magga sýndi mér að hann hafði skrifað í Skólafélagar mínir bókina við spurningunni Skemmtilegast í heimi?: “Að svona falleg Una nuddi tærnar.” Kannski var ekki útilokað að honum fyndist ég alveg ágæt líka.
Jólaprófin gengu í garð og ég ákvað að læra á Íþöku í stað Bókhlöðunnar. Mér til ánægju uppgötvaði ég að Önni stundaði Íþöku í prófatímabilum svo þar gat ég setið tímunum saman og mænt á handleggina á honum. Svo kom að hinu örlagaríka jólaballi. Önni kom til mín og sagðist hafa verið að leita að mér, en ég var fljót að stinga hann af. Ég var hrædd um að hann hefði kannski fundið út að ég væri hrifin af honum og ætlaði að notfæra sér það. Svo ég vildi komast að því hvort hann myndi koma til mín aftur, því ég vildi ekki að þetta yrði “bara hössl” heldur að annað hvort yrði eitthvað meira úr þessu eða ekkert. Allt ballið forðaðist ég hann og faldi mig jafnvel fyrir honum inni á klósetti. Ég sá að hann átti erfitt um vik vegna þess að 3.bekkjarstelpur sátu fyrir honum við hvert fótmál, æstar í að klófesta le pre. Hann hafði samt uppi á mér á endanum og við settumst niður og spjölluðum saman. Ég man ekkert um hvað við töluðum, bara daginn og veginn held ég, allt þar til hann sagði:

“En heyrðu. Ástæðan fyrir því að ég var að leita að þér er sú að...mér finnst þú fallegasta stelpa sem ég hef nokkurn tíma séð og mér væri heiður af því að fá að kyssa þig.”

Hvað gat ég sagt? Þetta er herramannslegasta viðreynsla sem ég hef upplifað og mér var sönn ánægja af því að veita honum það sem hann óskaði eftir. Við höfum lifað hamingjusöm uppfrá því.


Námið:
-Rétt eins og mætingin náði námið sögulegu lágmarki í 4.bekk. Mér finnst ágætt að kenna vinnunni um, því fram í miðjan nóvember vann ég á tveimur stöðum með skólanum og hafði lítinn tíma fyrir annað. Loks sá ég að það myndi ekki ganga og hætti í annarri vinnunni, en byrjaði samt ekkert að læra. Oft hef ég furðað mig á því að Önni skyldi geta hugsað sér að vera með svona slóða. Þrátt fyrir allt náði ég samt að halda sæmilegum dampi í sögu og íslensku með 8 og 9. Flest annað var eitthvað sem best er að gleyma


Allt í allt:
-4.bekkur var í heild annar af tveimur bestu vetrunum í MR. Því má helst þakka frábærum bekk, dýrðarljómi hans lifir enn í minningunni, og Herranótt sem var alveg ævintýralega skemmtileg þetta árið. Þennan vetur myndaðist sá vinahópur sem átti eftir að haldast út MR. Ofar öllu öðru trónir þó að sjálfsögðu minningin um okkur Önna, mér finnst alltaf gaman að rifja það upp. Samband okkar hafði góð áhrif á mig, gaf mér aukið sjálfstraust, meiri metnað fyrir skólanum og veitti mér mikla ánægju. Og gerir enn.

Engin ummæli: