laugardagur, júní 26, 2004

Uppgjör við MR III

5.A

Bekkurinn:
-Þrátt fyrir slælega frammistöðu fyrsta árið mitt í latínu kaus ég að halda áfram á sömu braut og fara á fornmáladeild. Nýmáladeildirnar vöktu aldrei áhuga minn, en ég hafði enga sérstaka ástríðu gagnvart fornmáladeildinni heldur. Ég sé alls ekki eftir þessu vali, mér fannst gaman á fornmáladeild og bekkurinn var frábær. Þ.e.a.s. bekkurinn var skipaður af frábærum einstaklingum, en einhverra hluta vegna tengdum við ekkert voðalega vel í 5.bekk. Ég stend enn við þá kenningu mína að stofunni hafi mikið til verið um að kenna. Hún var algjör geimur og svo langt á milli fremsta og aftasta borðs, og vinstri og hægri helmings, að það var ekki nokkur leið að hafa samskipti þar á milli. Ég sat aftast með Frank, Möggu og Markúsi þar sem við unnum alla latínustíla ofl. í sameiningu. Mér fannst samt ágætisandi í bekknum og ég naut félagsskaparins.

Félagslífið:
-Ég tók mig til í 5.bekk og gerðist frekar anti-sósjal. Í samræmi við það að vera komin með kærasta fékk ég leið á böllum, enda mesti ljóminn farinn af þeim. Ég held ég hafi ekki mætt á eitt einasta ball allan veturinn, ekki einu sinni árshátíðarnar tvær. Reyndar tók ég þátt í skemmtiatriði Herranætur á Skólafélagsárshátíðinni, þar sem ég klæddist nautsgrímu úr miklu víravirki og endaði öll blóðrisa og rispuð í andlitinu. Partýástundunin var samt aðeins samviskusamlegri, enda hefur mér löngum þótt þau mun skemmtilegri en böllin. Á haustmisseri slóst ég í lið með ritstjórn Loka Laufeyjarsonar, því þá vantaði einn til. Ég gerði mitt besta í þessu blaði, halaði inn nokkrum auglýsingum, myndum ofl. En ég veit ekki hversu mikil hjálp var í mér, það hentar mér illa að bera ábyrgð á öðru en sjálfri mér. Ég ákvað að taka ekki þátt í Herranótt þetta árið, en einhvern veginn lét ég plata mig út í það samt þegar á leið og endaði sem sýningarstjóri. Það var reyndar alveg ágætt, allt batteríið í kringum Herranótt er skemmtilegt, en ég fékk samt nett ógeð á þessu.

Tilhugalífið...
...var nú komið á rólega siglingu. Eftir 5 vikna dvöl hans á sjónum, sem við héldum reyndar að myndi kannski jarða sambandið þar sem við höfðum þá verið svo stutt saman, þá komumst við að því að okkur langaði til að halda þessu áfram og að við söknuðum hvors annars. Önni byrjaði í lögfræðinni, sem þýddi að ef mig langaði að njóta nærveru hans varð ég að gjöra svo vel að mæta upp á Þjóðarbókhlöðu eftir skóla. Mér hundleiddist það stundum, þegar mig langaði bara að hanga og gera ekki neitt. En það var bara harkan sem dugaði, og í jólaprófunum hittumst við bara um helgar. Þá tók ég mig líka til, hver svo sem ástæðan var, missti alla matarlyst og léttist um nokkur kíló. Reyndar veitti ég því ekki athygli sjálf, þar sem ég hef löngum átt erfitt með að leggja raunhæft mat á eigið holdafar.

Námið
-Strax um haustið í 5.bekk tilkynnti ég foreldrum mínum að ég ætlaði mér ekki að ná stúdentsprófinu í stærðfræði. Ég sá það út um jólin í 4.bekk að það væri raunhæfur möguleiki að læra aldrei aftur á ævinni stærðfræði án þess að það hefði nein meiriháttar áhrif á veru mína í MR. Þannig gæti ég tekið upp með mér fall vorið í 4.bekk og þar sem leyfilegt er að útskrifast með fall í 2 stúdentsprófum væri tilvalið að “nýta” stærðfræðina í það. Vegna þrjósku og ungæðisháttar keyrði ég þessa ákvörðun í gegn. Ég mætti í alla tímana enda átti þetta ekki að koma niður á mætingunni, en ég keypti aldrei stærðfræðibókina heldur las skáldsögur í tímum og skilaði öllum prófum auðum allan veturinn. Ef ég var í góðu skapi teiknaði ég kannski mynd á þau. Á stúdentsprófinu leysti ég prósentudæmin sem voru 15% og svo lærði ég fyrstu 5 sannanirnar fyrir munnlega prófið og fékk reyndar eina þeirra. Þetta dugði mér til að fá 2 sem var lágmarkið. Bókhlöðudagarnir skiluðu sér hinsvegar ágætlega í öðrum fögum þar sem ég bætti mig töluvert og fékk meira að segja fyrstu tíuna mína á misserisprófi, í líffræði sem mér fannst, andstætt flestum í bekknum, bara alveg ágætisfag. (Þótt kennarinn hafi ekki getað svarað sumum þeirra spurninga sem brunnu á vörum mínum, eins og t.d. þessari um snípinn, sem ég tel enn vera óútskýrt svo fullnægjandi sé.) Ég var sem sagt að þroskast smám saman námslega séð, a.m.k. í áttina.

Allt í allt:
-Einhverra hluta vegna er 5.bekkur sá vetur sem ég man hvað síst eftir. Hann er há-og lágpunktalaus í minningunni, ætli það standi ekki upp úr að ég kynntist nýju fólki sem mér er nú farið að þykja mjög vænt um, og styrkti kynnin við aðra. Mætingareinkunnin rauk upp úr öllu valdi, varð rúm 90% og ætli ég hafi ekki orðið á flestan hátt stilltari og skynsamari ung stúlka, að stærðfræðinni undanskilinni.

Engin ummæli: