föstudagur, ágúst 20, 2004

Punktar

1. Þegar ég ferðast um Ísland finnst mér mjög gaman að fylgjast með gamla þjóðveginum eða línuvegunum og hvert leið þeirra liggur. Þeir eru stundum mjög háskalegir.

2. Þegar ég ferðast yfir höfuð finnst mér ómögulegt annað en að vera með kort í för, bæði til ánægju og til að auðvelda ferðina. Mesta sportið er svo að merkja inná kortið alla helstu áningarstaði og leiðirnar sem farnar voru. Mjög gaman.

3. Skv. stundaskrá minni mun ég aðeins sækja kúrsa í Háskólanum á mánudögum og þriðjudögum, og þá nokkuð stíft. Hinum fimm dögum vikunnar get ég ráðstafað að eigin vild. Vonandi verða þær ráðstafanir skynsamlegar.

4. Í næstu viku hætti ég að vinna, fyrr en ég gerði ráð fyrir. Skólinn byrjar ekki fyrr en 6.september. Ég mun því sitja auðum höndum í næstum 2 vikur. Mér líst ekki alveg nógu vel á það og stefni á að finna mér eitthvað að gera.

5. Í allt sumar hef ég reynt að telja Önna á að koma með mér til útlanda áður en skólinn byrjar. Hann hefur enn ekki sannfærst en þó er ekki útséð um það. Kaupmannahöfn og Barcelona eru efst á lista en ég er opin fyrir öllu á hæfilegu verði.

6. Ég er alltaf spurð öðru hvoru hvort ekki fari að líða að lokahluta MR-uppgjörsins. Svo virðist sem 6.bekkjar sé beðið af meiri óþreyju en ég gerði mér grein fyrir og nú er svo komið að ég þori varla að skrifa þessa færslu, hún mun verða algjör antiklímax með þessu áframhaldi.

7. Í sumar hef ég þyngst um 3-4 kíló. Ég hef ákveðið að gera ekkert í því fyrr en fríið er búið, fram að því mun ég halda uppteknum hætti og svelgja í mig ís, pizzum og bjór án samviskubits.

8. Nú er ég búin að vera með bílpróf í rétt rúmlega 2 ár án þess að hafa lent í óhappi, fengið stöðumælasekt eða verið stoppuð af löggunni. Vonandi helst það óbreytt.

9.Ragnar Önundarson var rétt í þessu að færa mér ískalt Gin og Tonic með fersku læmi. Namminamm.

10. Ég er ekki búin að lesa alveg jafnmikið í sumar og ég hefði viljað, en kláraði þó 5 bækur sem er ásættanlegt. Þar af las í 3 í júní, eina í júlí og eina í ágúst. Þykir mér því sýnt að Önni hafi slæm áhrif á lestur. Á meðan hann var á sjónum stytti ég mér stundir við yndislestur en eftir að heimkomu hans við eitthvað annað.

Engin ummæli: