Fjölskylduskemmtun
Gærkvöldið var um margt merkilegt. Fyrir það fyrsta vegna þess að ég var boðin í fjögur samkvæmi, sem gerist ekki á hverjum degi, og í öðru lagi vegna þess að ég djammaði í fyrsta skipti með foreldrum mínum. Þetta byrjaði allt á hefðbundnu matarboði hjá Ásdísi Eir, en tók á sig óvænta mynd þegar leið á kvöldið. Eftir stutt stopp í útskriftarveislu hélt ég á Hverfisgötuna þar sem eldri bróðir minn var með opið hús, kokk, bjór og hundrað manns. Þar hitti ég fyrir alla fjölskylduna utan litlu systur, og tókum við stefnuna þaðan ásamt fleirum niður í bæ. Með í för var kunningi bróður míns, sem ku víst vera lífvörður og töffari mikill. Í krafti hans fór hópurinn allur inn í hið merka VIP herbergi á Pravda, þar sem rýmt var fyrir okkur borð og okkur skaffað ginflösku og tóniki í fötu ásamt læmi og tilheyrandi. Mamma og pabbi voru góð á því og það var Kári bróðir líka, en hann naut mikillar kvenhylli út á það að klæðast stuttbuxum. Ég gerði mér enga grein fyrir hversu tíminn leið þarna inni, því þegar ég kvaddi fjölskylduna til að kíkja á aðra staði var alls staðar verið að loka. Því miður klikkaði ég svo á því að fá mér hina hefbundnu þynnkuforvarnapizzu áður en heim var haldið, og sýp ég því einn seyðið af gleðinni. En það var sannarlega þess virði, því ég hefði ekki viljað missa af þeirri lífsreynslu að taka bæjarröltið með foreldrum mínum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli