mánudagur, apríl 04, 2005

Jæja

Þá er maður orðinn tvítugur. Mér líður eins og ég sé búin að vera 19 ára í tvö ár, þar sem nánast allir mínir vinir urðu tvítugir í fyrra (og voru því 19 ára í hitteðfyrra) og ég var mjög mikið í þeim fasa. En það er margt annað en bara talan sem gefur til kynna að ég sé í þann mund að verða fullorðin. Undanfarna daga hef ég fjarlægst bernskuna óðfluga, m.a. vegna eftirfarandi atriða:

1) Ég fékk fyrsta kreditkortareikninginn minn, og upphæðin var nákvæmlega jafnhá mánaðarlaununum mínum, svo tæknilega séð fékk ég ekkert útborgað þessi mánaðarmótin.
2) Ég fékk bréf frá Krabbameinsfélaginu, sem benti mér á að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni vegna leghálskrabbaskoðunar.
3) Ég má núna loksins löglega fara í ríkið, eftir að hafa drukkið áfengi í næstum því 5 ár.

Það er því greinilegt að ég er hætt að vera táningur og er orðin roskin kona.

P.s. þess má svo geta að Önni gaf mér afskaplega fallegan kjól í morgun af þessu tilefni, sem ég er sæl með og þakklát fyrir. Smekkmaður hann Önni.

Engin ummæli: