sunnudagur, júní 19, 2005

Ein með sjálfri mér

Nú eru 2 vikur síðan Önundur fór og stefnir í 3 vikur til viðbótar miðað við hve illa gengur að fiska. Þetta er fjórða sumarið sem hann fer burt frá mér á sjóinn og árlega engist ég um í rómantíkurkasti á meðan. Hvað er enda rómantískara en að eiga ungan elskhuga á hafi úti? Að ganga í sumarnóttinni niðri í fjöru fyrir neðan húsið, horfa á hafið og hugsa til hans? Sögulegt, íslenskt minni. Klisja.

Það er líka gaman að því að hverju sinni tek ég ástfóstri við eitthvað eitt lag, sem ég hnýt um af hendingu og hlusta stanslaust á þar til hann snýr aftur. Fyrsta sumarið var það My Friends með Red Hot Chilli Peppers einhverra hluta vegna. Svo man ég að vísu ekki í svipinn hvað það var annað árið, en í fyrra var það Þú átt mig ein með Vilhjálmi Vilhjálmssyni. Nú um helgina áttaði ég mig svo á því að lag þessa árs er komið í höfn, enda hef ég hlustað stanslaust á það í i-podinum. Í þetta skiptið er það lagið Tvær stjörnur með Megasi sem fangaði mig. Textinn er dásamlega fallegur eins og svo margir texta Megasar, en hann er á þessa leið:

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér
og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.
En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín
og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,
svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.
Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð
og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin
Því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðin.
Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.
Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,
augnlínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.
Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,
En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttinni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og ég sé við erum saman þarna tvær
stjörnur á blárri festingunni sem færast nær og nær.
Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.
En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.


Annar fallegur Megasartexti (því þeir eru nú ekki allir fallegir þótt góðir séu) er úr lagi sem var reyndar líka sterkur kandídat sem "Önnalagið" þetta sumarið. Það er auðvitað Orfeus og Evridís. Þar segir meðal annars:

Einsog hamar ótt á steðja
uppi á þaki regnið bylur.
En í þínu þæga tári
þar er gleði, birta, ylur

Á þínum góðu unaðstöfrum
önd mín, sál og kraftur nærist.
Þér ég æ mun fé og föggum
fórna meðan að hjartað hrærist.

Fjallahringurinn, hann er dreginn
hringinn í kringum mig.
Og utan hans, þar er ekki neitt
því innan hans, þar hef ég þig


Það væri munur ef allir íslenskir popptónlistarmenn semdu svona almennilega texta.

En svo líður mér líka hálfkjánalega að vera svona gagntekin söknuði, vitandi hve smávægileg og tímabundin orsökin er. Og afhverju skyldi ég ekki kæra mig kollótta? Áður en hann kom til sögunnar fann ég aldrei til einmanakenndar þegar ég fór að sofa, eða tómleikatilfinningar þegar ég vaknaði. Mér finnst skrýtið að hafa hleypt einhverjum svo nærri mér að mér finnist ég varla nema hálf þegar hann fer burt. Stundum get ég litið á hann og séð hann sem ókunna manneskju, horft á hann og hugsað "Hver ertu eiginlega?" og furðað mig á að þessi manneskja sem fyrir nokkrum árum var ekki til fyrir mér, sé mér allt í einu svo mikils virði. Og ég sem trúði aldrei á æskuástir. Lífið hendir gaman að mér.

Engin ummæli: