Krúttlegt
Ég mæli með stórskemmtilegri, innsendri grein á blaðsíðu 36 í Morgunblaðinu í dag. Það er alltaf gaman að því að fólk skuli finna hjá sér hvöt til að senda inn greinar um menn og málefni. Höfundur þessarar greinar hefur einlægar áhyggjur af fordómum og þekkingarleysi samfélagsins og hefur skrif sín svona:
"Fyrir stuttu kom ég formlega út úr skápnum sem sósíalisti. Þetta gerðist í kjölfarið af því að ég var að lesa mér til um kommúnismann og fattaði þá allt í einu hvað þetta er frábær hugmynd."
Hann útskýrir síðan þá tímamóta-uppgötvun sína að kommúnisminn hafi ekki virkað sem skyldi hingað til vegna valdagræðgi mannsins. Síðan leggur hann til að við breytum hugarfari okkar gagnvart vinnu; lítum fyrst og frest á hana sem framlag til samfélagsins til að sigra þannig heiminn sem heild. Svo nefnir hann fordóma gagnvart klassískri tónlist sem sambærilega við fordóma gegn kommúnisma. Til þess að ganga úr skugga um að þessar krúttlega barnalegu vangaveltur væru ekki frá fullorðnum manni komnar þá fletti ég honum upp í þjóðskrá, og jú, hann er fæddur 1990. Duglegur strákur að skrifa í Moggann. Ég hafði svo gaman af þessari grein að ég hirti hana úr blaðinu og geymi hana hérna á skrifborðinu mínu. Mæli með henni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli