þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Einu sinni á ágústkvöldi

Strax eftir verslunarmannahelgi byrjar grátkórinn um að nú sé haustið komið, sumarið búið og veturinn óðum að nálgast. Hvers konar vantrú á íslenska sumrinu er þetta? Mætti ég þá benda ykkur á það litlu vinir að undanfarin 10 ár hefur meðalhitinn í Reykjavík alltaf verið hærri í ágúst en í sumarmánuðinum sjálfum júní, fyrir utan 2002 þegar hann var 0,6 gráðum hærri í júní. (Eflaust ná þessir yfirburðir lengra aftur í tímann en ég nennti ekki frekari heimildavinnu.) Hitabylgjan mikla árið 2004 stóð hæst í miðjum ágústmánuði. Hver hugsaði til haustsins þá?

Hún var ekki amaleg kvöldspáin þann 27.ágúst

Eflaust brenglar samanburðurinn við næsta mánuð á undan skynjunina eitthvað, því sé miðað við maí er júní nokkuð hlýr, en að júlí liðnum virkar ágúst kaldur, en ekki láta blekkja ykkur. Íslenska sumarið er aldrei neitt Kanarí, svo hvers vegna fær ágúst ekki að njóta sannmælis eins og júní og júlí?
Ég held annars að þetta hugarfar skýrist að einhverju leyti af því að fólk setji samasem merki á milli sumarfrís og sumarsins sjálfs, sérstaklega skólafólk. En þótt skólarnir byrji í ágúst er sumrinu ekki þar með lokið. Víðast hvar í Evrópu byrja nemendur ekki í sumarfríi fyrr en í júnílok, það þýðir þó ekki að sumarið sjálft sé ekki þegar byrjað.

Auðvitað minnir dvínandi birta mann óhjákvæmilega á að sumarið er ekki endalaust, en það er óþarfi að leyfa ótímabæru skammdegisþunglyndi að ná tökum á sér. Sumrinu þarf ekki að vera lokið þótt húmi að, annars staðar í heiminum er kolniðamyrkur allar nætur yfir hásumarið en það er ekkert minna sumar fyrir því.
Ég er einfaldlega ekki tilbúin til að afsala mér sumrinu strax eftir verslunarmannahelgi. Í allramesta lagi er ég tilbúin að kalla ágúst síðsumar en ég fer ekki feti lengra en það. Og já, þetta er spurning um hugarfar, þannig að hættið þessu væli og farið út að grilla.


Engin ummæli: