Nýja Ísland
Nú er nýlokið þættinum Hlýja Ísland - Hitaveita í heila öld í ríkissjónvarpinu. Þetta er svona "herðið upp hugann, við eigum okkar auðlindir!" dagskrárliður. Mér finnst það ágætt. Mér finnst líka ágætt þegar fólk flaggar íslenska fánanum þessa dagana. Og ekki í hálfa stöng. Það er hressandi að sjá flaggað. Annars varð ég nánast grátklökk þegar ég las stuðningskveðju frá Færeyingum um daginn. Ber er hver að baki og allt það, jafnvel þótt bróðirinn sé lítill.
Þrátt fyrir allt hefur þessi fjármálakreppa líka jákvæðar afleiðingar. Það er fyrst og fremt tvennt sem ég hef tekið eftir. Í fyrsta lagi að ríkissjónvarpið sá loksins ástæðu til að flytja kvöldfréttirnar líka á táknmáli. Reyndar sýnist mér að það ætli að vara stutt þegar mesta dramað er gengið yfir, en ég sá ekki betur en það hafi gengið vel svo vonandi verður meira um það.
Í öðru lagi finnst mér sérlega jákvætt hversu framvarðasveit Frjálshyggjufélagsins hefur hægt um sig þessa dagana. Þeir málglöðustu innan þeirra raða hafa fyrir löngu skipað sér í sess leiðinlegustu og yfirlætislegustu skríbenta landsins með blogg löðrandi af hroka, svo það er ágætt að fá smá hvíld frá þeim.
Merkilegast finnst mér að sjá hversu hraður viðsnúningur getur orðið á ímynd þjóðar, og hversu grunnt vinabönd þjóða rista. Við Íslendingar höfum, alla mína ævi og eitthvað lengur, notið þess að mæta engu nema velvild og meðbyr í öðrum löndum. Ég hef umgengist útlendinga talsvert mikið síðustu ár og stundum átt erfitt með að láta ekki stíga mér til höfuðs áhugann sem mér mætir fyrir það eitt að segjast vera Íslendingur. Við höfum öll verið hrokafull. Það er vandræðalegt að minnast allra frasanna sem hver landsmaður hafði á takteinum um hvað landið okkar væri ríkt og einstakt og æðislegt.
Sem betur fer var samt innistæða fyrir sumum fagurgalanum og við höfum ennþá nóg til að vera stolt af. Ég skil bara aðeins betur núna hvernig sumum skólafélögum mínum í Bandaríkjunum leið, sem höfðu ýmislegt til að skammast sín fyrir í landinu sínu og þurfa að mæta skömmum og alhæfingum frá öðrum þjóðum þegar þau ferðast. Það er bömmer að öllum finnist maður ekki æðislegur lengur, en við ættum samt að geta þolað það eins og flestar aðrar þjóðir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli