mánudagur, desember 15, 2008

Faðir andanna

Amma kom til mín um helgina í okkar árlega jólabakstur. Það er orðið að hefð, núna fjórðu jólin í röð síðan við Önni fluttum á Freyjuna, að amma hjálpi mér að fá jólalykt í húsið eins og hún segir sjálf og bökum við rúsínukökur, súkkulaðibitakökur og spesíur. Ég leyfði jólatónlistinni að hljóma undir bakstrinum og þegar Ellen og KK sungu Faðir andanna eftir Matthías Jochumsson staldraði amma við og sagði "ég fæ alltaf svo skrýtna mynd í hugann þegar ég heyri þennan sálm."

Hún sagði mér svo frá því hvernig hún man fyrst eftir þessum sálmi. Þetta hefur verið árið 1938 því hún var þá 10 ára gömul, heima hjá sér á Kletti í Kollafirði, vestur á Barðaströnd. Það er þannig að það féll mjög mikið út úr firðinum á fjöru og þennan dag, um hásumar, var amma eitthvað að bardúsa úti þegar hún heyrði mikinn söng bergmála inn fjörðinn. Það var þá pósturinn Gunnar, sem var einfættur því hann hafði fengið berkla í annan fótinn sem þurfti að taka af við hné. Pósturinn einfætti kom ríðandi á hesti sínum eftir leirunum og söng hástöfum um föður andanna, frelsi landanna og ljósið í lýðanna stríði svo glumdi á milli fjallanna. (Myndin er tekin út um stofugluggann á Kletti og út fjörðinn 2006)

Seinna man hún reyndar líka vel eftir þessum sálmi því hann var víst alltaf spilaður í lok útvarpsmessunnar á meðan heimsstyrjöldinni stóð sem hugvekja, enda á textinn vel við andrúmsloftið sem þá hefur án efa verið ríkjandi. Þessi mynd af einfætta póstinum Gunnari á hestinum sínum fyrir 70 árum síðan kemur samt enn alltaf í hugann á henni ömmu þegar hún heyrir sálminn sunginn. Og ég held að héðan af verði þau hugrenningatengsl hjá mér líka, því þótt atvikið sé fjarri mér sé ég Gunnar ljóslifandi fyrir mér eins og amma lýsti honum.

Faðir andanna
frelsi landanna

ljós í lýðanna stríði
send oss þitt frelsi
synda slít helsi
líkna í stríðanda lýði.

Sælu njótandi
sverðin brjótandi

faðmist fjarlægir lýðir.
Guðs ríki drottni
dauðans vald þrotni
komi kærleikans tíðir.

Lýstu heimana
lífga geimana
þerrðu treganda tárin.
Leys oss frá illu
leið oss úr villu
lækna lifenda sárin.

Faðir ljósanna
lífsins rósanna
lýstu landinu kalda.
Vertu oss fáum
fátækum smáum
líkn í lífsstríði alda.

sunnudagur, desember 07, 2008

Jólaföndrið í ár

Jólaföndrið komst á fullan skrið á Freyjugötunni í gær. Kransarnir eru komnir í gluggana og við Önni mauluðum piparkökur og hlustuðum á jólalög með skærin og límstiftið á lofti. Við vorum samt ekki að búa til neina jólasveina úr bómull og klósettpappírsrúllum, þótt föndrið okkar hafi verið álíka kreppulegt en með bókstaflegri hætti. Við ákváðum nefnilega að gera úrklippubók um þetta ótrúlega tímabil síðustu tveggja mánaða þegar efnahagur Íslands hrundi. Fyrir utan hvað þetta hefur verið sögulegur tími almennt þá hefur hann náttúrulega líka verið fróðleg reynsla fyrir okkur sem unga blaðamenn. Sannarlega hefur ekki verið nein gúrkutíð fyrstu mánuðina mína í fastráðningu.

Jólahreingerningin kallar á að blaðabunkinn verði sendur í endurvinnsluna sem fyrst svo við ákváðum að drífa í þessu áður. Við byrjuðum að líma inn í úrklippubókina í tímaröð frá forleiknum 30. september en föndrið strandaði þegar við fundum hvergi Moggann þann 7. október. Það væri ófyrirgefanlega gloppa í svona bók, því 7.október var stór fréttadagur, dagurinn eftir "Guð blessi Ísland" og neyðarlögin. Það reddaðist þó því í gærkvöldi fórum við í hangikjötsboð til foreldra Önna þar sem hann dembdi sér í blaðabunkann í bílskúrnum og fann 7. október. Jólaföndrið hélt því áfram þegar við komum heim á miðnætti og bókin er óðum að taka á sig heildarmynd. Við kunnum sko að skemmta okkur á laugardagskvöldi.