sunnudagur, desember 07, 2008

Jólaföndrið í ár

Jólaföndrið komst á fullan skrið á Freyjugötunni í gær. Kransarnir eru komnir í gluggana og við Önni mauluðum piparkökur og hlustuðum á jólalög með skærin og límstiftið á lofti. Við vorum samt ekki að búa til neina jólasveina úr bómull og klósettpappírsrúllum, þótt föndrið okkar hafi verið álíka kreppulegt en með bókstaflegri hætti. Við ákváðum nefnilega að gera úrklippubók um þetta ótrúlega tímabil síðustu tveggja mánaða þegar efnahagur Íslands hrundi. Fyrir utan hvað þetta hefur verið sögulegur tími almennt þá hefur hann náttúrulega líka verið fróðleg reynsla fyrir okkur sem unga blaðamenn. Sannarlega hefur ekki verið nein gúrkutíð fyrstu mánuðina mína í fastráðningu.

Jólahreingerningin kallar á að blaðabunkinn verði sendur í endurvinnsluna sem fyrst svo við ákváðum að drífa í þessu áður. Við byrjuðum að líma inn í úrklippubókina í tímaröð frá forleiknum 30. september en föndrið strandaði þegar við fundum hvergi Moggann þann 7. október. Það væri ófyrirgefanlega gloppa í svona bók, því 7.október var stór fréttadagur, dagurinn eftir "Guð blessi Ísland" og neyðarlögin. Það reddaðist þó því í gærkvöldi fórum við í hangikjötsboð til foreldra Önna þar sem hann dembdi sér í blaðabunkann í bílskúrnum og fann 7. október. Jólaföndrið hélt því áfram þegar við komum heim á miðnætti og bókin er óðum að taka á sig heildarmynd. Við kunnum sko að skemmta okkur á laugardagskvöldi.

Engin ummæli: