föstudagur, febrúar 17, 2012

Föstudagspistill - ömmur

Í þessum pistli segir af tveimur mætum konum, þeim Brynhildi Sæmundsdóttur og Auði Einarsdóttur. Þær fæddust báðar árið 1928, Auður að Nýjabæ undir Eyjafjöllum en Brynhildur að Kletti í Kollafirði á Barðaströnd. Lengi vel vissu þessar konur ekki hvor af tilvist annarrar, né að fyrir þeim báðum ætti að liggja að verða ömmur mínar. Auður amma og Binna amma.

Auður amma dó í lok janúar. Þess vegna hafa ömmur verið mér sérstaklega hugleiknar síðustu vikur og að maður eigi ekki að bíða með að þakka fyrir ömmur sínar þar til í minningargrein.

Ég var svo heppin að eiga tvær ömmur fram á fullorðinsaldur og Binna amma er enn í fullu fjöri, enda hálfgert náttúruafl. Báðar stóðu þær sig með eindæmum vel í ömmuhlutverkinu og uppfylltu öll þau fyrirframgefnu skilyrði sem maður í huganum setur ömmum sem barn.

Þær voru góðar og ástúðlegar og þær dekruðu við barnabörnin sín, gáfu okkur fallegar flíkur sem þær höfðu unnið í höndunum, sungu fyrir okkur og kenndu okkur. Og það sem er kannski mikilvægast af öllu í ömmufræðunum: Hvor um sig höfðu þær fullkomnað ákveðna tegund bakkelsis sem barnabörnin fengu að gæða sér á í heimsóknum.

Auður amma á Hellu steikti heimsins bestu kleinur. Það verður aldrei af henni tekið. Flatkökurnar hennar þóttu líka algjört met, en ég borðaði mig aðallega sadda af kleinunum. Binna amma gerir enn bestu randaköku sem ég hef smakkað. Hún saumaði líka jólaföt í stíl handa öllum barnabörnunum, svo hópurinn varð mjög myndrænn á stórhátíðum, en Auður amma prjónaði tátiljur í metravís í öllum stærðum og gerðum handa afkomendum sínum og hverjum þeim sem átti leið hjá.

Þessar minningar hafa satt að segja orðið svolítið áhyggjuefni því mér þykir einsýnt að ég muni ekki standa sjálf undir þessum ömmuskilyrðum þegar fram í sækir, með mína 10 þumalputta. Eftir því sem maður eldist lærist manni samt að kunna að meta ömmur sína sem meira en bara ömmur, ef maður er svo heppinn að fá að eiga þær nógu lengi að. Smám saman áttaði ég mig á því að ömmur mínar væru ekki bara frábærar ömmur heldur líka frábærar konur og fyrirmyndir.

Auður amma mín var skemmtileg og lífleg, alltaf hress en líka prinsipp-manneskja því hún slúðraði ekki um nokkurn mann, jafnvel þótt hún byggi í smáþorpi þar sem eflaust var nóg af kjaftasögum. Hún vann um tíma fyrir barnaverndarnefndina, sem henni fannst erfitt, og var stofnfélagi í hestamannafélaginu, sem henni fannst skemmtilegt. Það er því kannski ekkert skrítið að hún Auður amma hafi verið vinsæl, en samt kom það mér ánægjulega á óvart að sjá að fullt var út úr dyrum í jarðarförinni hennar.

Binna amma mín er eins og áður sagði hálfgert náttúruafl. Það kemur mér sífellt á óvart hvað hún er klár og skemmtileg og hvað við tvær eigum margt sameiginlegt í skoðunum og áhugamálum. Ekki vegna þess að ég sé svona gamaldags, heldur vegna þess að amma er svo opin og víðsýn og lifandi.

Jafnvel þótt ég læri aldrei að prjóna eða sauma og setji ekki kennimark mitt á neitt bakkelsi þá held ég samt að mér gæti lukkast að verða ágætis amma einhvern daginn, ef ég bara tek mér þessar tvær heiðurskonur til fyrirmyndar.

Birtist sem pistill í daglegu lífi Morgunblaðsins föstudaginn 16. febrúar 2012.

Engin ummæli: