fimmtudagur, október 03, 2002

Mamma var ekki sátt v.mig þegar ég fór að heiman í morgun. Mér finnst leitt ef hún skammast sín f.dóttur sína, en hún verður að taka tillit til þess að ég er aðeins fátæk námsstúlka að spara fyrir 5.bekkjarferð. Það var ekki metnaður á tískusviðinu sem fékk mig til að klæðast gauðrifnum gallabuxum. Staðreyndin er bara sú að ég á einungis tvennar buxur sem ég get klæðst með góðu móti dagsdaglega, og hinar eru útataðar í Hengli.

Gangan í gær var þrælskemmtileg. Eftir að hafa sigrast á mesta brattanum og blóðbragðinu í munninum gátum við séð hvað útsýnið hefði verið glæsilegt, ef ekki væri f.þokuna. Við Hilmir stefnum nú á að smala saman góðu fólki og bjór v.tækifæri og rölta aðeins lengra, þ.e. að náttúruparadísinni sem er að finna í botni dalsins. Hana ætla ég þó ekki að nefna hér til að vekja ekki áhuga óviðkomandi aðila.

Í vetur ber 5.bekk að lesa Brennu Njáls sögu. Ég er þegar byrjuð, reyndar ekki kominn langt en finnst hún þó skemmtileg. Ég heyrði í fréttunum að nú verði haldið síðasta Njálu-námskeiðið hjá honum kalli sem ég man ekki hvað heitir. Borgarleikhúsið mun hýsa það og hafa 400 manns skráð sig. Mig langar mikið á þetta námskeið. En ætli það stangist ekki á við fjárhagsáætlun mína? Kannski er þegar upppantað....þarf að kynna mér málið.

Gleðifrétt dagsins í dag...og líklegast vikunnar....eða mánaðarins (nema MR vinni ræðukeppnina á morgun) er sú að ég fékk 9 á íslenskuprófi og er það hæsta einkunn sem ég hef séð það sem af er vetrar. Löng málsgrein. Slæmu fréttirnar eru þær að á morgun er frönskupróf en vinna í kvöld, svo líklegast kemur ekki eins falleg tala út úr því prófi.

Bókhlaðan.

Engin ummæli: