laugardagur, nóvember 16, 2002

Einhverjir bloggarar hafa nú tekið sig til og tjáð sig um trúmál. Málefnið er alltaf viðkvæmt og varhugavert að hefja máls á því, nema vilji sé fyrir að hellast út í eldheitar rökræður þar sem aldrei nokkurn tíma fæst niðurstaða. Ég ákvað samt að kommenta á dr.Hauk (sem ku getað læknað allt að sjöhundruð manns) af því ég nenni ekki í háttinn. Kíkið síðan á síðuna hans, hún er ýkt hip og kúl og böst og sæt.

_____________________________________________________________________

Já Haukur minn kenning þín er nákvæmlega sú sama og kenninga allra hinna sem fá þá skyndilegu hugljómun að ekkert guðlegt sé til. Reyndar er þessi kenning nákvæmlega hin sama og sú sem ég skrifaði sjálf í bréfi til vinkonu minnar í 9.bekk. Ég hef alls ekki horfið frá kenningunni enda augljóslega margt rétt, við lifum í töluvert mýkri bómull í dag og þurfum ekki að reiða okkur á að forsjónin lækni kvefið.

Trúleysi mitt þróaðist hinsvegar aftur yfir í einhvers konar útgáfu af trú sem enn er ekki fullmótuð og verður eflaust aldrei.

Þú sagðir:

"Ég er þó algjörlega viss um að við erum nær sannleikanum um gerð heimsins en við vorum og að jörðin sé alls ekki flöt."

Sem er alveg rétt, en einmitt vegna orðalagsins, að við séum NÆR sannleikanum, þá finnst mér að ég geti ekki verið trúleysingi. Vanþekking forfeðra okkar þykir voða krúttleg, en þeir vissu bara ekki betur. Rétt eins og vísindi nútímans eru það sem við vitum um heiminn í dag, eins og þú sjálfur segir. Vitneskja okkar um eigin tilvist er ekki tæmandi, en vissulega hefur ekkert fundist sem sannar tilvist einhvers guðlegs. Að sama skapi get ég ekki séð neinar haldbærar sannanir fyrir því að ekkert sé til annað en það sem við heyrum, sjáum, lyktum, snertum og mælum með tækjunum okkar á þessu líflega skeiði milli tímapunktanna fæðing-dauði.

Á meðan við erum enn of vanmáttug til að þekkja allan heiminn finnst mér hálfkjánalegt að útiloka það sem ég ekki veit. Það kalla ég ekki að læra af sögunni. Mér finnst einfaldlega leiðinlegt og “dull” að gera lífið svo fábreytilegt. Þá vil ég frekar velkjast í vafanum.

Mín trú er afskaplega lítið tengd Biblíunni eða öðrum forskriftum af trúarbrögðum. Til þess að halda möguleikanum opnum um að kannski sé eitthvað meira til en okkar, að því er virðist, tilgangslausa líf, er ekki nauðsynlegt að iðka trúarbrögð eftir fastmótuðum túlkunum annarra. Trú getur birst í mörgum myndum.

Amma mín segir að hún votti öllu sköpunarverkinu lotningu sína með því að njóta náttúrunnar, í stað þess að fara í kirkju og syngja sálma. Það finnst mér voða fallegt. Hún bakar líka góðar pönnukökur.

Engin ummæli: