mánudagur, nóvember 18, 2002

Rafbókunarþráhyggja Önundar er gengin í öfgar. Ég byggi niðurstöðuna á aðfaranótt síðasta sunnudags, þegar hann vakti mig og spurði herskár hvað ég hefði eiginlega verið að blogga rétt áðan. Ég bað hann að endurtaka spurninguna og sagðist síðan ekkert hafa bloggað í 2 daga. "Ertu viss?!" hvæsti maðurinn þá og byrjaði svo að hrjóta án þess að svara því hvað hann hélt sig hafa lesið. Morguninn eftir mundi hann ekki eftir neinu.

Ég held uppteknum hætti og er edrú á kenderíum vinahópsins, vegna nísku. En um leið og ég kemst í borðvínið með matnum hjá "tengdó" byrja ég ómeðvitað að þamba. Líklegast er ég ekki nógu fáguð, tæmi yfirleitt úr glasinu fyrst allra. Hef ekkert lært af reynslu minni í 100 ára stórafmælisveislu afa hans Önna. Þar var skálað í 30 ára gömlu viskí, í fínum silfurstaupum. Að ræðunni lokinni sturtaði ég í mig viskíinu í einum gúlsopa, á meðan aðrir veislugestir tóku sér gott kortér til að kjamsa á veigunum. Ég reyndi að leyna tómu staupinu til að koma ekki upp um fávisku mína, ekki vil ég að tengdafjölskylda mín álíti mig drykkjurút.

Ætli ég sé ekki fórnarlamb drykkjuómenningar Íslendinga.

Engin ummæli: