miðvikudagur, nóvember 20, 2002

Þá sjaldan mér býðst eitthvað frítt gríp ég það fegins hendi, hvað svo sem það er, enda fátæk námsstúlka. Dagurinn í dag var gjöfulur því mér hlotnaðist hvorki oftar né sjaldnar en tvisvar ókeypis hlunnindi í dag. Hið fyrra var bólusetning gegn heilahimnubólgu C, eða meningókokkum C eins og við fagmennirnir kjósum að kalla þá. Kristín íslenskukennari hafði orð á því að bekkurinn kveddi bólusetningarkonurnar eins og sjálfan jólasveininn (hvern þeirra veit ég svo sem ekki), slíkt var þakklæti okkar gagnvart heilbrigðiskerfinu.

Í annan stað áskotnaðist mér að kostnaðarlausu besta sæti Borgarleikhússins á generalprufu Rómeó og Júlíu. Mér skilst að selt hafi verið inn á undanfarnar æfingar og hið sama gilti um þessa, en miðaverð lægra. Ég hef ekki vitað til þess áður að leikarar séu klappaðir þrisvar sinnum upp á generalprufu, en áhorfendur réðu sér greinilega ekki. (Hugsanleg ástæða er einnig líkamlegt atgervi leikarasettsins, mjög svo hugguleg öll sömul) Uppsetningin er nýstárleg, dálítið poppuð (flippuð jafnvel) og ofsaofsa skemmtileg. Á köflum var ég hálfagndofa. Lokaatriðið var sérlega magnað og flott útfært. Reyndar væri erfitt að spilla áhrifamætti endisins, sagan er svo tragískt og falleg. Eini neikvæði punktur kvöldsins var að umkringd of mörgu stjörnuljósum fæ ég ælubragð í munninn.

Engin ummæli: