miðvikudagur, desember 18, 2002

Getur verið að nágrannar mínir í númer sjö lesi bloggið mitt? Þeir hafa fjarlægt hryllingsplastjólasveininn úr garðinum. Óskandi að ég hafi ekki styggt blessanirnar.

Í tilefni undanfarins árs heimsótti ég eymdarlegan námsmann í gær og reif hann upp úr volæðinu. Við gengum um myrk og dulmögnuð holt Garðabæjar þar sem við þverfótuðum vart fyrir loftvarnarbyrgjum og búddalíkneskjum. Ísland er fjölmenningarland. Ég ákvað samt að yfirgefa háskólapiltinn á endanum til að smita hann ekki af mókinu sem hefur lagst yfir mig með nýtilkomnu jólafríi. Ég sekk mér nú í bókalestur, dottandi værðarlega á hálftíma fresti. Fyrstu bók frísins greip ég úr hillu Önna; fyrsta bindi Blikktrommunar eftir Gunter Grass. Hann fékk víst nóblarann og læti fyrir þessar bækur en þær höfða nú ekkert sérstaklega til mín. Ég ætla að klára bókina í kvöld og byrja á morgun á Remains of the Day. Þarf samt að passa mig á mynstrinu; bókalestur hefur slakandi og góð áhrif á mig, en vegna þess hve lítið ég les með skólabókunum er svo margt sem mér finnst ég "verða að lesa" þegar ég loks tek mig til.

Muna: Vera meðvituð um öll þau ár sem ég hef framundan til bóklesturs. Slaka á og njóta augnabliksins.

Engin ummæli: