þriðjudagur, febrúar 04, 2003

Þess vegna er ég á máladeild

Samtal mitt við tvær stærðfræðihnátur í gær leiddi í ljós að þeim finnst námsefni okkar í íslensku núna "ógeðslega leiðinlegt og ömurlegt". Við erum sem sagt að lesa Hávamál og Völuspá auk þess að gera bókmenntaritgerð um íslenska skáldverk að eigin vali. Mér er gjörsamlega ómögulegt að skilja hvernig nokkrum manni getur fundist Hávamál "ógeðslega leiðinleg og ömurleg". Sama sögðu margir um Ljóðamál og Sonatorrek Á móti fékk ég að heyra að þess vegna væri ég á máladeild. Ég veit að áhuga svið fólks eru ólík en...á ég að skilja það sem svo að fólk sem einhverra hluta vegna laðast að stærðfræði finnist ljóð og spakmæli leiðinleg og hafi engan áhuga á sögu eða bókmenntum? Hvort er það ég eða þau sem eru að missa af einhverju?

Önnur slík ummæli féllu um mig í dag þegar ég tilkynnti hróðug hver væri beygingarmynd dagsins ("KRAKKANNA") Beygingarmyndir íslensku eru kynngimögnuð og óútreiknanleg fyrirbæri sem ég get stytt mér stundir yfir daglang. Ó hvílíkur dásemdar friður og sæla sem ég finn þegar ég sest niður yfir fallbeygingunni. Hún er göfug iðja. Að ég tali nú ekki um latneskar beygingar. Hjarta mitt titrar af gleði við tilhugsunina eina saman. Stærðfræðideildarfólk veit ekki hve líf þeirra er fábrotið.

Engin ummæli: