mánudagur, febrúar 03, 2003

Kiddi í Hallanum var jarðaður í dag. Athöfnin í kirkjunni var mjög fjölmenn og margir MR-ingar mættu, fyrir utan auðvitað MR-kórinn sem söng. Mér finnst gott að hafa farið þó ég hafi kannski ekki þekkt Kidda kallinn á sérlega persónulegum nótum. Ég fór hinsvegar til þeirra fyrsta skóladaginn í MR, þar sem ég asnaðist ekki til að taka með mér nesti. Þau Magga tóku á móti mér eins og englar og ég spjallaði heilmikið við þau. Stofan mín í 3.A var svo hentug að við gátum stokkið út um svalahurðina jafnvel án þess að kennarinn tæki eftir því og hlaupið í Hallann rétt fyrir neðan. Þetta nýttum við Bragi okkur til hins ítrasta þennan vetur, enda ég alltaf nestislaus og langaði í pylsutilboð. Hef hinsvegar aldrei komist alveg inn í peppó-menningun. Ég veitti því fljótt athygli hvað Kiddi og Magga lögðu sig fram um að þekkja nöfn og hagi okkar sem versluðu hjá þeim og tilkynnti Kára bróður, sem fékk að sitja undir öllum MR-sögunum, að Hallinn væri sjoppa alheimsins. Í fjórða bekk var ég orðin allt of feit og peningalaus eftir alla pylsu-pepsi neysluna svo eina nestið mitt var extra tyggjó sem ég keypti þar í fimm-pakka vís og jórtraði og jórtra enn eins og belja. (Þangað til á vormisseri þegar Önni byrjaði að smyrja handa mér) Kiddi og Magga afgreiddu mig ekki um mína tegund nema ég kallaði það sægrænt, og komu þeim vana inn hjá mér. Ég vona a.m.k. að Magga sjái sér fært að halda Hallanum opnum sem oftast svo ég þurfi ekki að sækja langt yfir skammt eftir tyggjóinu mínu, og jafnvel einstaka pylsutilboði. Og læt ég þar með lokið minningargrein þessari.

Engin ummæli: