sunnudagur, febrúar 02, 2003

Ég hafði bara furðulega gaman af þessu í gær. Er þó enginn óperuunnandi orðinn, en þetta var svakalegt "sjóv" og á köflum mjög áhrifamikið. Í hléinu blönduðu stjórnmálamenn, leikarar, sjónvarpsfólk og annnar aðall geði hvort við annað, en við Önni tókum okkur stöðu hjá kampavíninu og snittunum og líkaði vel. Ég sé fram á að samlagast þessum lífsstíl auðveldlega. Að ég skildi ekki átta mig fyrr á hvar ég á heima í samfélaginu, ég hef misst af allt of mörgum opnunum, frumsýningum og öðrum listviðburðum.

Þegar heim kom var myndin "Dead Presidents" á Rúv. Ég hröklaðist fljótt frá henni, er komin með upp í kok af myndum um brenglun, mannvonsku og ógeð. Ég æsi mig svo sem ekkert yfir heimskulegum splatterum eða ýktum hryllingsmyndum og ég hef lítið á móti raunsærri kvikmyndagerð á raunverulegum atburðum. Það sem pirrar mig eru myndir sem taka fyrir atburði eins og stríð og útfæra það á heimskulegan og ómannlegan hátt til þess eins að sýna sem mest ógeð. (Ég er sumsé ekki að tala um t.d. Saving Private Ryan, sem mér þykir mjög góð, heldur myndir af öðru kalíberi) Ég hef litla trú á því að hermenn hafi gert mikið af því að skera höfuð af andstæðingum og taka með sér í poka, eða skera typpið af hermanni úti í skógi og stinga því upp í hann áður en þeir drápu hann á sem viðbjóðslegastan hátt. Eflaust er eitthvað um svona brenglun, (ég las eitt sinn í mogganum um Kosovo-mann (?) sem var hent út úr þyrlu eftir pyntingar og fannst með eigið auga í munninum) , en almennt held ég að hermenn hafi ekki mikla hvöt til að gera stríð að enn meiri hryllingi en það í eðli sínu er. Þess vegna fara svona bíómyndir, sem hafa enga hugsun eða tilgang annan en viðbjóð, í taugarnar á mér. Jafnframt pirrar það mig að svo margir skuli sækjast eftir því að horfa á þær. Kallið mig þröngsýna.

NB. Þar sem ég horfði ekki á nema ca.5 mín. af ofannefndri bíómynd ætla ég ekkert að gagnrýna hana frekar. Þessar senur sem ég sá voru eflaust þær subbulegustu í allri myndinni, gæti ég trúað.

Engin ummæli: