mánudagur, mars 10, 2003

Klám
Ég hef flett í gegnum ýmis klámblöð um ævina og jafnvel haft gaman af. Ég meðtek það auðveldlega að karlmenn hafi gaman af að skoða myndir af fallegum konum, enda fagurlega skapaður kvenlíkami eitt af fegurstu formum náttúrunnar.*
Það sem á erfiðara með að skilja er hvernig þessar nektarmyndir eru útfærðar. Þykir kvenfyrirlitning almennt kynferðislega æsandi? Hvers vegna þurfa þær örstuttu línur sem með myndunum fylgja svona oft að innihalda niðurlægjandi uppnefni á borð við "slut", "whore" og annað í þeim dúr? Get ég ekki viljað vera kynþokkafull án þess að vera um leið drusla og hóra?
Það má vel vera að karlar almennt hneigist til að vera dómínerandi í kynlífi frekar en að vera sá undirgefni, en slíku þarf alls ekki að fylgja niðurlæging og virðingarleysi. Þetta er í lauslega mín skilgreining á klámi, um leið og gagnkvæm virðing er horfin úr kynlífi er það ekki lengur erótík heldur klám. Klám sem er ljótt og skaðlegt fyrir strákbjána sem nærast á svona myndum og fá brenglaða mynd af kynlífi.
Ég las í viðtali við lækni fyrir nokkrum árum að í beinu framhaldi af tískubylgju með "fist-fuck" klámmyndum hefði fylgt bylgja af konum á bráðamóttöku með sundurslitin kynfæri. Ég held því ekki fram að nauðganir verði vegn klámmynda og nei ég vil ekki banna klámmyndir. En mér finnst það ekkert fráleit pæling að klám geti haft ómeðvituð áhrif á viðhorf fólks.


Í dag lýkur Norrænni kvikmyndasýningu í Háskólabíó. Mér segir þó svo hugur að hin umdeilda Lilya 4-ever verði sýnd lengur "vegna fjölda áskoranna." Ég hef ekki séð myndina ennþá og mun ekki komast í bíó næstu daga, en sýnist á orðum ýmissa mætra manna að ég verði að sjá hana þó seint verði. Jafnvel þó ég þori því varla...ég geri ekki ráð fyrir öðru en að myndin muni verða mér þungbær. En lífið er víst ekki bara grín(myndir) ha.

Beygingarmynd dagsins:
Bönununum


*Lesendur taki þessari fullyrðingu með fyrirvara enda byggð á perónulegu áliti en ekki vísindalegum rannsóknum.

Engin ummæli: