föstudagur, mars 21, 2003

Áróður að nóttu

Við Önundur ræddum um komandi kosningar fram á nótt þar sem ég var óhemju kaffihress. Eftir að svefninn sigraði okkur loks sótti að mér martröð samhliða andardrátti Önna. Þegar hann andaði að sér heyrði ég æpt á mig stefnumál Sjálfstæðisflokksins á mjög aggresívan hátt og útönduninni fylgdu Vinstri-græn öskur sem gáfu hinum ekkert eftir. Þetta var farið að verða mikið áreiti í draumnum og ég var farin að æpa sjálf á öndunina að hætta þessum pólitíska áróðri. Svo rauk ég í fússi á klósettið.

Fátt ergir mig meira en hið aumingjalega viðhorf margra: "Til hvers að mótmæla? Það hefur enginn áhrif." Mér finnst það mesti aumingjaskapur og ládeyða sem hugsast getur að hafa skoðun á einhverju, hvort sem það er pólitískt eða eitthvað annað en hugsa sem svo: "Það skiptir engu máli hvað ég geri eða segi. Ég get ekki breytt neinu. Ég er svo lítil(l) og ómerkileg(ur) að ég ætla bara að sitja á minni skoðun og gera ekki neitt og láta vaða yfir mig. Mín skoðun skiptir hvort eð er engu máli." Það skiptir alltaf máli að láta sína skoðun í ljós! Jafnvel þó það hafi ekki beinar afleiðingar í för með sér, annað er auvirðilegt.

Engin ummæli: