fimmtudagur, apríl 24, 2003

Sumri fylgja hlýindi, hlýindum fylgja flugur og flugum fylgir ergelsi og andvökunætur. Ég var að tygja mig til svefns þegar gljáandi húsfluga suðaði sig inn í herbergið mitt og byrjaði að hamast á rúðunni og ljósinu. Fyrir nokkrum árum hefði ég fyllst örvæntingu og grátið mig í svefn, en ég hef þroskast og kann nú að skipta við þessi kvikindi. Útrýming pöddunnar var í tveimur skrefum, fyrst reyndi ég vinalegu leiðina;
Ég almyrkvaði herbergið mitt en kveikti fram á gangi í tilraun til að lokka óbermið friðsamlega til ljóssins. Þetta gekk ekki svo ég neyddist til að notast við grimmilegri aðferðir. Skepnan hafði komið sér makindalega fyrir í loftinu ofan við bókahilluna. Ég ákvað því að fella hana á eigin bragði, valdi mér bókina Kapalgátan** og barði búk skrýmslisins af fullum kröftum. Tvö högg þurfti til að leggja dýrið að velli. Ég lagðist til hvílu með blóðbragð í munni og þanin sjáöldur. Tilfinningin var góð, þetta verður mikið veiðisumar.

**Jostein Gaarder

Engin ummæli: