mánudagur, júní 02, 2003

Hjúkrunarheimilið

Þá er fyrsta deginum lokið. Honum var reyndar einungis varið í fræðslu og kennslu svo ég er enn ekki byrjuð í aksjóninu. Ég skal fúslega viðurkenna að ég kvíði fyrir því að þvo fólki að neðan og skipta um bleyju á því. Held mér muni reynast það erfitt fyrst um sinn. Ég kvíði líka fyrir því að færa fólk úr stað með lyfturum ofl. bæði vegna þess að ég kann ekki alveg á tækin og ég er hrædd um að beita kannski röngum aðferðum og valda fólkinu óþægindum. Ég vona að þessu fólki finnist því ekki missa sína virðingu vegna þeirrar stöðu sem það er því miður í. Ég ætla a.m.k að reyna eins og ég get að stuðla gegn því. Auðvitað er viðkvæmt mál hjá fullorðnu fólki að þurfa að nota bleyju (sem eru reyndar kallaðar "stykki" þegar talað er við vistmennina, af tilltisemi við þá) og að ókunnugt, þeim yngra fólk skuli þvo þeim um kynfærasvæðið. Það liggur þess vegna við að ég sé fegin að langflestir þarna þjáist líka af heilabilunum og eru þess vegna kannski ekki alveg með sjálfum sér. En samhliða því að vera stressuð, þá hlakka ég líka til á vissan hátt að takast á við þetta. Starfið er vafalítið meira gefandi en hótelræstingarnar sem ég eyddi fyrrasumri í.

Þegar ég hugsa um það getur samt vel verið að ég sé verr í stakk búin en sumir aðrir að sinna þessu starfi, þar sem ég hef alltaf verið óskaplega viðkvæm fyrir þessu. Þegar ég var krakki var nánast nóg að sjá hruman, gamlan mann í strætó til að ég færi að skæla. Innra með mér a.m.k. En kannski er þetta ekki eins hræðilegt og ég ímynda mér. Mér finnst bara varla til verri örlög en að eldast illa, missa heilsuna, missa sjálfstjórn og jafnvel minnið. Parkinson og alzheimer hræða úr mér líftóruna. Kannski mun þetta sumar herða mig.

Engin ummæli: