miðvikudagur, júlí 02, 2003

Lífið

Merkilegt hvernig allt gengur í hringi. Um daginn var ég að skoða vídjómyndir af litla frænda hans Önna, þar sem hann vælir, krepptur og spriklandi. Mér var strax hugsað til einnar vistkonu í vinnunni. Hún er á tíræðisaldri, blind og mjög heyrnardauf með einhverja heilabilun. Hún er tæplega 40 kíló og líkami hennar er mjög krepptur og kræklóttur, hún getur varla rétt úr handleggjunum. Hún gerir ekkert allan sólarhringinn annað en að liggja, við snúum henni reglulega svo hún fái ekki legusár og færum hana með lyftara yfir í hjólastól í nokkra klukkutíma á dag. Hún er tannlaus, við mötum hana á súrmjólk, ávaxtagraut og maukuðum mat. Stundum þegar við erum að dútla við hana volar hún dálítið og kallar á mömmu sína. Það er mjög furðulegt að "þykjast" vera mamma konu sem er rúmum 80 árum eldri en ég. Kyssa hana á ennið og halda í höndina á henni. Hún kvelst ekki eða neitt svoleiðis. En hún á ekkert eftir annað en að deyja. Hún er kominn allan hringinn. Orðin eins og barn. Nema í stað þess að vera á byrjunarreit er hún á endastöðinni, en fær ekki að fara.

Engin ummæli: