mánudagur, janúar 26, 2004

Ofvitar eða einfeldningar?

Í útvarpsfréttum Rásar 2 um helgina heyrði ég að um 40% laganema og tæp 60% viðskiptafræðinema í Háskóla Íslands telji sig tala ensku á við innfædda. Þetta þótti mér skemmtileg frétt þó svo hún kæmi mér lítið á óvart. Enskuhroki Íslendinga er alveg merkilegur. Mér er spurn hvort þetta menntafólk í Háskólanum hafi aldrei þurft að láta reyna á enskuna, nema yfir dægurmenningu í sjónvarpinu. Svo velti ég því fyrir mér hvort þetta væru einfaldlega bjánar sem sátu fyrir svörum. Allavega er nokkuð ljóst að Íslendingar upp til hópa ofmeta gróflega eigin enskukunnáttu og gera frá því strax í byrjun 7.bekkjar þegar allir telja sig betri en kennarann. Mér þætti gaman að sjá þessa laga-og viðskiptafræðinema ræða við einhvern sem hefur ensku að móðurmáli, um eitthvað ögn sérhæfðara en daginn og veginn. Sjá hversu tæmandi enskukunnáttan er þegar tala á reiprennandi um hvaða málefni sem er. Að lokum vil ég minna ykkur, kæru lesendur, á að fæst ykkar eruð jafngóð í ensku og þið haldið.

Engin ummæli: