laugardagur, mars 06, 2004

Helgin hingað til

Fiðluballið
Það er synd að ekki skuli gefast fleiri tækifæri til svona balla. Það er svo skemmtilegt að breyta svona til, gera eitthvað nýtt. Framan af var ég yfirmátastressuð yfir að þetta ball sem ég átti að bera ábyrgð á myndi misheppnast. Þegar síga tók á seinni hlutann helltist þreytan yfir mig. En þegar heim kom (eftir viðkomu á Devito´s þar sem okkur Atla var óskað til hamingju með giftinguna) þá fylltist ég hálfgerðri melankólíu yfir að þetta skildi vera búið, minnti mig á að MR-árin mín eru nú svo gott sem liðin.


Chicago
Sá söngleikinn í gær. Þetta var ágætissjóv, leikararnir voru góðir og þá sérstaklega Jóhanna Vigdís. Ég hef þó nokkuð út á sýninguna að setja:

A) Hún var of löng, tæpir 3 tímar í heild. Sum atriðin hefði vel mátt stytta og þannig hefði sýningin haldið betur dampi, ég var orðin þreytt í lokin og skynjaði það líka frá öðrum áhorfendum, enda erfitt að halda athygli svona lengi.

B) Ég hefði viljað sjá meiri hraða, læti og kraft. Sagan per se er nefnilega ekki upp á marga fiska, þetta er fyrst og fremst sjóv og hefði þurft að keyra það miklu meira upp og áfram með hávaða og látum.

C) Mér fannst óþarfi, og eiginlega verra, að reynt væri að heimfæra sýninguna upp á Ísland nútímans. Þetta var held ég aðallega gert til að skjóta inn nokkrum aukabröndurum, sem voru hvort eð er frekar slappir.

D) Óþarfa enskuslettur fóru í taugarnar á mér. Kannski áttu þær að gera persónurnar meira sannfærandi sem krimmapakk, en það bara segir ekki nokkur maður "djeilið" (svo ég viti) og þess vegna var það frekar tilgerðarlegt.

F) Einkahúmor. Kannski skjátlast mér, en ég hafði það á tilfinningunni að sumir brandararnir væru hreinn einkahúmor sem hefði spunnist á æfingum. Annað hvort það eða þeir höfðuðu bara svona illa til mín.


Vortónleikar Fóstbræðra
Ég hef alltaf verið hrifin af karlakórum. Ég hef reyndar verið skotnari í karlakórnum Heimi öðrum fremur, kannski vegna sveitarómantískra tengsla minna við Skagafjörðinn, ég veit það ekki. Fóstbræður voru alveg ágætir, þó tónleikarnir hafi verið aðeins of langir í annan endann, sérstaklega yfir 4 brotum úr Ödipusi eftir Stravinskí sem voru frekar leiðnleg. Ég er hrifnari af íslensku lögunum sem þeir eru sjálfsagt löngu orðnir leiðir á.


Í stuttu máli...
...er ég búin að gera flest sem hægt er að gera sér til afþreyingar á Íslandi, fara á ball, í leikhús og á tónleika. Til að kóróna þetta hef ég hugsað mér að fara í bíó annað kvöld. Eftirfarandi myndir koma helst til greina; American Splendor, Big Fish, Love is in the Air og Igby goes down.

Þessari afþreyingarfærslu ætla ég að ljúka með vanræktum dagskrárlið;

Beygingarmynd dagsins: Balla.

Engin ummæli: