miðvikudagur, mars 17, 2004

Tímamót

Rétt í þessu gerði ég mér grein fyrir að í síðasta sinn í dag var ég dæmd fyrir frammistöðu mína í dýnuæfingum. Ég hafði lifað í innan við áratug þegar þessi árlega martröð byrjaði og nú hefur hún vofað yfir mér í meira en áratug. Reyndar munaði mikið um hinn lífshættulega kollhnís á kistu, sem varð valkvæður í fyrra. Mikil pressa hefur verið á mér, sem konu, að vera alltaf a? fara í handahlaup, því almennt er talið að stelpum sé það eðlislægt og hafi jafnvel svo gaman af því að þær fari um allt á handahlaupum sér til skemmtunar. Þetta á ekki við um mig og hefur það valdið mér mikilli sjálfsmyndarbrenglun. Jafnvel svo alvarlegri að sem barn hélt ég því fram til skamms tíma að ég væri strákur og héti Kalli. Ofan á handahlaupin bættust svo fleiri skrípalæti eins og jafnvægisæfingar, að standa á haus, kubbastökk og hinn fyrrnefndi kollhnís á kistu. En héðan í frá er þessum aðförum að líkamlegri getu minni lokið. Loksins get ég fullmótað sjálfsmynd mína.

Beygingarmynd dagsins: Kríla

Engin ummæli: