föstudagur, apríl 30, 2004

Bernskubrek

Eitt sinn bjó ég á Hólum í Hjaltadal og unni hag mínum vel. Bræðurnir Andri og Helgi Gunnarssynir voru mínir bestu vinir þar og drógu mig með sér út á braut glæpa. Í Mosfellsbæ hafði ég ekki drýgt alvarlegri afbrot en að brjótast inn í gamlan vörubíl með bróður mínum og stráknum í næstu götu, og stálum við þaðan einhverju smádrasli sem við földum á næliggjandi húsþaki. Já svo vantaði mig einu sinni 1.kr. upp á snúðinn sem ég keypti í bakaríinu, lofaði að koma aftur seinna og borga hann en ég gerði það aldrei. Á Hólum varð glæpastarfsemin hinsvegar miklu markvissari og tók að beinast gegn einstaklingum. Eftirminnilegustu glæpirnir eru eftirfarandi:

I. Nokkrir skólafélaga mömmu borguðu okkur 500kr. fyrir að laumast inn í sundklefa og henda fötum bekkjarbóður þeirra út í laugina. Til framkvæmdarinnar þurfti ég að dulbúast því ég var með hár langleiðina niður á rass. Ég faldi því hárið allt undir derhúfu og villti á mér heimildir. Við þorðum ekki að kasta fötunum út í, en sprautuðum í staðinn yfir þau úr brunaslöngunni þar til yfirvaraskeggjaður maður kom á typpinu og rak okkur út. Hann fattaði ekki að ég var stelpa. Það þótti okkur gaman.

II. Einn daginn tókum við okkur til, fylltum stóra fötu af vatni og hófum að gera dyraöt. Andri klifraði upp á þak með fötuna og sturtaði vatni yfir þann sem kom til dyra. Það þótti okkur gaman.

III. Umfangsmesta glæpinn frömdum við vetrardag einn þegar vegurinn var nýruddur. Í kantinum lágu snjókögglar sem við ákváðum að hlaða fyrir dyrnar hjá skólafélögum mömmu sem bjuggu í tvíbýli við mig. Við hlóðum þykkan vegg alveg fyrir allar dyrnar, og heltum svo köldu vatni yfir til að frysi. Íbúarnir komu heim á miðnætti og komust þá ekki inn um dyrnar, heldur þurftu að fara bakdyramegin. Það þótti okkur gaman.

IV. Eitt sinn brutumst við inn í sundlaugina þegar lokað var og yfir hana var dreginn dúkur. Við skemmtum okkur lengi við að hlaupa yfir dúkinn, sem seig auðvitað undan þunganum og þurfti að hlaupa hratt til að sökkva ekki. Við urðum hundblaut en skemmtum okkur vel, sögðumst hafa gengið á vatni. Það var reyndar mjög gaman og ég væri alveg til í að gera þetta aftur.

Auk þessa gerðum við símaöt klukkutímum saman og þeir bræðurnir drógu mig frá bókalestri sem hafði lengi átt hug minn allan, en kynntu í staðinn fyrir mér Sega Megadrive tölvuna sína í hverri ég spilaði eitt sinn tölvuleikinn Sonic til klukkan sex um morguninn. Já það var gaman að vera ungur og áhyggjulaus, en ég tel að þennan vetur, 1993-´94 hafi ég að vissu leyti misst sakleysi mitt á meðan mamma lærði til búfræðings.

Engin ummæli: