sunnudagur, maí 02, 2004

Klúður

Þannig var að fyrir jólaprófið í sögu lærði ég talsvert mikið og þekkti efnið nokkuð vel. Þess vegna ákvað ég að láta íslandssöguna fyrir jól sitja á hakanum fyrir stúdentsprófið. Vegna mannlegra mistaka fór það svo að ég þurfti að vakna klukkan 5:30 prófmorgunin og "frum"lesa glósurnar frá því fyrir jól til upprifjunar. Ekki vildi betur til en svo að mér var mjög óglatt og las því m.a. um endurreisn Alþingis á klósettgólfinu heima hjá Önna, með hausinn ofan í skálinni öðru hvoru. Svo var auðvitað spurt um það á prófinu og ég mundi ekki nógu mikið. Nema hvað. Um kvöldið þegar ég er alveg að sofna og nánast byrjað að dreyma þá allt í einu rifjast allt upp fyrir mér. Kongungaskiptin, bænaskjölin, C.E.Bardenfleth og L.A. Krieger! Allt stóð þetta mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum svo ég vakti Önna og byrjaði að þylja fyrir hann, en það var auðvitað of seint. Helgi Ingólfsson gefur mér engin stig fyrir að segja rúmfélaga mínum allt sem ég veit á miðnætti.

Ég held að ég sé að lækka í einkunnum frá því um jólin í öllum stúdentsprófum sem ég hef tekið fram að þessu, nema vonandi íslensku.

Engin ummæli: