sunnudagur, maí 23, 2004

Grannar

Það er skemmtilegt að fylgjast með hamförum nýju nágrannanna í næsta húsi. Þau hafa nú búið hér í tæpt ár og eru mjög áhugaverð. Í fyrsta lagi er mér ómögulegt að henda reiður á fjölskyldumynstrinu eða hve mörg þau eru. Stundum sé ég hóp af unglingsstrákum keyra frá húsinu, en alla jafna eru þar nokkur lítil börn líka. Einu sinni sá ég gamla konu lulla upp götuna á rafknúnum innkaupavagni. Hana hef ég aldrei séð síðan. Í vetur þegar ég var með fólk í heimsókn hjá mér sprangaði nakinn maður fram og til baka í stofunni hjá þeim. Ung, þybbin kona væflast stundum á bílaplaninu og einhvern tíma var þarna hópur af karlmönnum að byggja sólpall. Síðan þetta fólk flutti í götuna er botnlanginn iðulega fullur af bílum, sem getur komið sér illa fyrir Önna þegar hann kemur á bílnum sínum og planið okkar er fullt. Svo geymdi þetta fólk lengi vel útskorna indíánatrésúlu upp fyrir framan húsið og á jólunum hengdu þau upp stærsta jólakrans sem ég hef á ævi minni séð, hann náði yfir alla bílskúrhurðina.

Ég held að þetta fólk hljóti að hafa búið á efstu hæð í blokk eða djúpt niðri í kjallara allt sitt líf, því þau virðast hafa fyllst víðáttubrjálæði eftir að þau eignuðust þennan stóra garð. Þau byrjuðu á því að byggja heljarinnar sólpall og svo hófust þau smám saman handa við að fylla blettin af öllu því sem hægt er að hafa í garðinum sínum. Þau eru búin að koma upp fótboltamarki, rólu, rennibraut, krikketleikbraut og svo fengu þau sér geðveikislega stórt trampólín. Það nýjasta er svo hvolpurinn sem kom í heimsókn til mín núna áðan. Þau virðast sannarlega njóta sín í sveitasælunni.

Engin ummæli: