mánudagur, ágúst 02, 2004

MTv Movie Awards

Ég horfði á hluta af þessari verðlaunaafhendingu í vinnunni um daginn. Alla jafna hefði ég ekki séð vakið máls á þessu, en það var eitt sem ég veitti athygli. Þannig var að þetta árið var eitthvað svona hryllingsþema, sýndist mér, og hluti af sviðshönnununni var því púltið, sem leit út eins og stórt búr. Inni í búrinu var fáklæddur dvergur, sem var málaður grænn og frekar ófrýnilegur. Hans hlutverk var að rétta verðlaunin, gullna popppokann, upp um lúgu á púltinu. Athöfnin er örugglega um tveggja tíma löng og dvergurinn stóð þarna inni í búrinu allan tímann en honum var ekki veitt nein sérstök athygli og engin verðlaunahafanna svo mikið sem leit á hann. Mér finnst þetta ábendingarvert, því vegna þessara sniðugheita tókst mér næstum að gleyma að dvergar eru líka venjulegt fólk, að því er ég best veit, þeir eru dvergvaxnar manneskjur en að öðru leyti ekkert frábrugðnir okkur. Mér fannst þetta hlutverk dvergsins í athöfninni vera mjög minnkandi fyrir hans líka og eiginlega óviðeigandi, þótt kannski hafi ekki verið ætlast til að maður tæki þetta alvarlega. Ætli það sé ekkert stéttafélag dverga í Bandaríkjunum sem sér ástæðu til að gagnrýna þetta? Nú sér maður dverga nánast aldrei nema þá helst í bíómyndum í hlutverkum sem ganga út á það eitt að viðkomandi sé dvergur. Þá er senan yfirleitt voða sniðug, dvergur á einhjóli, dvergur á hundsbaki eða dvergur í skringilegum kynlífsathöfnum. Sem eru reyndar bara skringilegar vegna þess hve fyndið það er að einhver skuli vilja stunda kynlíf með dvergi. Stendur öllum á sama um virðingu dverga? Eiga dvergar sér enga talsmenn sem berjast fyrir réttindum þeirra? Er dvergvöxtur virkilega ótæmandi brandarauðlind? Af hverju er ég að skrifa svona langa færslu um dverga? Og fannst engum nema mér fyndið orðalagið "hlutverk dvergsins [var] mjög minnkandi"? Eru dvergar líka menn?

Engin ummæli: