miðvikudagur, október 20, 2004

Af ræstingum

Tvisvar sinnum í viku, á þriðjudags-og fimmtudagskvöldum, hef ég atvinnu af því að þrífa skrifstofubyggingu á Lynghálsi. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég starfa sem ræstingastúlka, því sumarið 2002 vann ég á City Hotel við herbergisþrif. Ég hef því talsverða reynslu af því að þrífa upp skítinn undan öðrum. Á þessum vettvangi hefur ekki farið fram hjá mér sá munur sem gjarnan er á karla og kvennaklósettum. Almennt er talið að konur fari meira á klósettið en karlar og mætti því ætla að kvennaklósettin væru útjaskaðari í samræmi við það, en sú er ekki raunin. Á aðdáunarverðan hátt tekst körlum, sumum körlum, að sletta pissi á hina ótrúlegustu staði, auk hinna augljósu, svo karlaklósett eru gjarnan sprautuð gulu. Auk þess er sjaldgæft að koma að karlaklósetti sem ekki stendur opið til að vaskur gerandi geti hreykt sér af skítaskáninni í skálinni. Skapahár og önnur líkamshár er undantekningalítið að finna á víð og dreif og í ofanálag er ekki óalgengt að illa sé sturtað niður, svo að í vatninu eimir eftir af því sem skola hefði átt burt. Þetta á t.d. við um bókhlöðuklósettin. Þar fara konur stundum á karlaklósettin ef hitt er upptekið og öfugt, en ég kýs að gera það ekki því mér finnst karlaklósettin oftast vera miklu subbulegri.

Ég veit ekki hvort einhver ein ástæða er fyrir þessum útgangi á karlaklósettum. Kannski þetta sé vegna þess að margir þeirra setjast ekki á klósettið, eða vegna þess að þeir eiga upp til hópa við hægðavandamál að stríða. Kannski hafa fæstir þeirra sjálfir þrifið klósett og skilja því ekki hvað í því felst. Um daginn var ég búin svo seint í skólanum að ræstingakona var byrjuð að skúra stigaganginn. Út úr stofunni gengum við fyrst nokkrar stelpur, og reyndum að tipla á þurru blettunum út. Strax á eftir okkur kom hópur af strákum sem óð beint yfir það sem konan hafði verið að skúra. Má vera að það sé af sömu ástæðu?

Reyndar er vert að nefna að ég hef reynt að fylgjast með því hvort að handþurrkurnar á karlaklósettum endist lengur en hjá konunum. Ég hef ekki séð neina sérstaka fylgni þar og afsannar það kannski þá fullyrðingu að karlar þvoi sér sjaldan um hendurnar eftir klósettferðir.

Að lokum er hér ábending til þeirra, karla og kvenna, sem einhverra hluta vegna kjósa að hafa hægðir á opinberum stað: Við hliðina á klósettinu er í flestum tilfellum lítið, hvítt verkfæri með hárum. Þetta kallast klósettbursti og er notað til að þrífa klósettið sem þú notar. Ef hægðalosun þín skilur eftir sig ókræsilega skán á klósettskálinni er þess vænst að þú notir burstann til að þrífa hana burt. Hann má svo skola með því að sturta hreinu vatni á hann. Með þessu móti auðveldar þú ræstingafólki vinnuna, þ.e. mér og pólskum og asískum stéttabræðrum mínum, því það er auðveldara fyrir þig að þrífa ferska skítaskán, en fyrir okkur að þrífa hana storknaða í lok dagsins.

Engin ummæli: