fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Uppgjör við MR IV

6.A

Bekkurinn

6.A var frábær bekkur. I-stofa virtist hafa góð áhrif á okkur, enda ein notalegasta stofa skólans. Bekkjarandinn var góður og mikið var hlegið. Reyndar var talsvert rifist líka, jafnvel heitt, enda hópur af skoðanaglöðu fólki sem gaf hvergi eftir. Ég gerðist bekkjarráðsmaður vegna þess að enginn annar kærði sig um það og vegna þess að ég hafði ákveðnar hugmyndir um hvernig tolleringin skyldi fara fram. Fljótlega tók ég hinsvegar að hatast við þennan titil, því hann er ekki ávísun á miklar vinsældir meðal bekkjarfélaganna. Auk þess var tolleringinn í þriðju viku, en eftir hana voru 8 mánuðir og 60 ár eftir af bekkjarráðsstörfum, sem ég er reyndar búin að sætta mig við núna.

Félagslífið

Þegar komið var í 6.bekk var skólinn orðinn fullur af fólki sem ég ekki þekkti. Eldribekkingar héldu skelkaðir til í heimastofum á meðan hávaðasöm busagengi terroríseruðu skólagangana. Stórlega dró úr veru minni í Cösukjallara enda hvergi kunnugleg andlit þar lengur að sjá. Á hinn bóginn þekkti ég fleiri betur í mínum eigin árgangi, m.a. vegnar Krítarferðarinnar góðu og gat því heimsótt kunningja í hverri stofu. Þar sem allt var að gerast í síðasta sinn ákvað ég að sýna lit og mæta á árshátíðarböllin tvö, en lét önnur böll og Tebó vera. Einkenni 6.bekkjar eru hinsvegar öll tvítugsafmælin, svo það var engin vöntun á skemmtunum. Tolleringin heppnaðist vel, bæði Yngvi rektor og bekkjarráðið voru í skýjunum og ég hafði mikla ánægju af því að garga á busana. Fiðluballið var líka frábært, en af öllum þessum hefðum fannst mér Dimissio bera af og reyndar held ég að minn eigin busadagur og Dimissio hafi verið tveir skemmtilegustu dagarnir í MR og ramma því vist mína þar nokkurn veginn inn. Eftir þrálátar deilur tók Kolbrún latínukennari í taumana og lokaði bekkinn inni þar til við sættumst loksins á dimissiobúninga, sem heppnuðust svona líka vel og vöktu almenna kátínu. Þetta síðasta ár mitt kom ég hvergi nálægt Herranótt öðruvísi en með því að sjá sýninguna tvisvar. Ætlunin var reyndar að læra þeim mun meira fyrir stúdentsprófin á meðan Herranæturtímabilið stæði sem hæst, en lítið varð úr þeim áætlunum.


Stúdentsprófin....

...voru kvíðvænlegt en, þegar allt kom til alls, notalegt tímabil. Ég fluttist búferlum á Íþöku eins og alltaf og bjó um mig í gluggakistunni. Þó nokkuð var um kjaftatarnir og skrípalæti, en lesturinn gekk samt almennt vel og frammistaðan var eftir því. Í heildina var ég sátt við mínar stúdentseinkunnir þótt sumt hefði betur mátt fara. Einkunnaskalinn var skemmtilega fjölbreyttur og lýsandi fyrir minn námsferil í MR, en hann spannaði bilið allt frá 2,0 (stærðfræði) og upp í 10,0 (íslensk fræði). Níufimmur voru nokkrar og þar fram eftir götunum, flestar einkunnir yfir sjö. Einkunnirnar eru hinsvegar ekki það sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég minnist MR.

Ástarlífið...

...var betra en nokkru sinni.


MR í heildina litið:

Ég elskaði MR af öllu mínu hjarta strax frá fyrsta degi. Þrátt fyrir nokkrar lægðir, sérstaklega fyrsta árið, fannst mér ég hvergi geta betur átt heima. Mér fannst ég hafa himin höndum tekið þegar ég byrjaði í þessum skóla, loksins, loksins umgekkst ég fólk sem var á svipaðri bylgjulengd og ég. Auðvitað smellur maður ekki saman við alla, en ég hef aldrei á einum stað fundið fyrir jafnstóran hóp af fólki sem ég get tengt við. Á meðan veru minni í MR stóð tók ég út heilmikinn þroska eins og eðlilegt er á þessum aldri, viðhorf mín til lífsins og til sjálfrar mín mótuðust og ég held ég hafi breyst heilmikið, en bara til hins betra. Aðalástæðan held ég að sé sú að statusinn breyttist og ég fór að miða mig saman við öðruvísi týpur af fólki. Það er auðvelt að vera sáttur við eigin frammistöðu þegar enginn vinnur að því sama, en þannig var það ekki lengur þegar ég kom í MR. Í grunnskóla vandist ég því að vera í hópnum sem kennararnir elskuðu og hinir krakkarnir kölluðu “breina” eða, á góðum degi, nörda. Í MR var ég hinsvegar umkringd fólki sem spilaði á hljóðfæri, dansaði ballett, hafði skoðanir, fylgdist með fréttum og tók þátt í stærðfræðikeppnum. Óhjákvæmileg þurfti ég því að endurskoða eigið sjálfsmat. (M.a. uppgötvaði ég, mér til ánægju, að til voru fleiri á mínum aldri sem hlustuðu á Pink Floyd.)
Vinir mínir og kunningjar úr MR eru skynsamt og gott fólk, heiðarlegt, skemmtilegt, áreiðanlegt og metnaðarfullt. Þeir hafa gert það að verkum að ég geri meiri kröfur til sjálfrar mín. Ég er ánægð með að hafa lokið þessu tímabili og þakklát fyrir hvað menntaskólaárin mín voru skemmtileg, því auðvitað er það ekki algilt. Eins og er hef ég ekki ákveðið hvernig ég vil haga framtíðinni, en ég er spennt að sjá hvernig fer. Ég á örugglega alltaf eftir að minnast MR-tímabilsins með trega, en vonandi ekki með söknuði samt, því eitthvað jafngott eða jafnvel betra hlýtur að taka við.

Fyrir áhugasama er fyrstu þrjá hluta uppgjörsins að finna í júnímánuði.

Nú líður mér dálítið eins og ég eigi að gefa þetta út á bók og deyja svo.

Engin ummæli: