Jólin...
...hafa farið ágætlega með mig fram að þessu. Ætli jólaskapið hafi ekki komið í höfn á Þorláksmessu, þótt kuldinn hafi næstum gengið af mér dauðri. Það er alltaf sama sagan á Þorláksmessu; ég nenni ekki í bæinn á Laugarvegsröltið en hunskast samt af stað. Þegar þangað er komið hef ég alltaf gaman af, en hugsa þó með mér að þetta árið nenni ég alls ekki að dansa í kringum jólatréð á miðnætti. Samt enda ég alltaf á Ingólfstorgi og finnst fátt jólalegra. Ég minnist þess ekki að hafa þótt jólatrésdansar sérlega ánægjulegir þegar ég var krakki, reyndar held ég að mér hafi fundist þetta hálfhallærislegt og liðið kjánalega á jólaböllum. En það hefur heldur betur rjátlast af mér því núna fyllir þessi hringdans mig gleði og ákefð. Mér fannst um stund sem ég væri drukkin á Þorláksmessu, en sú var alls ekki raunin, ég hef bara verið í einhverri gleðivímu. Nema frostið hafi haft þessu áhrif.
Síðan þá hef ég sofið frá mér allt vit og borðað fáar en ógnarstórar máltíðir dag hvern. Kjöt og súkkulaði í öll mál. Ég hef gert allt sem jólin krefjast af mér; lesið fram á nótt, spilað fram á nótt og sofið fram á miðjan dag. Og hvað jólagjafir varðar finnst mér óvenjumargir hafa hitt naglann á höfuðið í ár.
Ég hef því ekki yfir miklu að kvarta, en vona að sem flestir hafi það jafngott og ég.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli