Snú, snú, trallala
Laugardagskvöldið var alveg magnað og ber ég þess enn merki. Á sunnudagsmorguninn fann ég fyrir töluverðum eymslum hægra megin í hálsinum og hélt ég hefði kannski orðið fyrir höggi. Svo fann ég að sami verkur var vinstra megin. Sömu sögu var að segja um mjaðmirnar, symmetrískur verkur báðum megin. Líkami minn er greinilega ekki vanur svona sveiflu, enda óvenjumikið dill fyrir mína parta. Varla var annað hægt en að sleppa sér aðeins, þar sem neðri hæð Priksins minnti á treiler myndarinnar Coyote Ugly, slík var stemningin. Ég dansaði stanslaust í hópi (ellegar þvögu) góðra manna, frá því ég steig inn um dyrnar, um eittleytið, og þar til ég gekk út aftur rétt fyrir fjögur. Hressastur allra var samt án efa Jóhann Alfreð Kristinsson, enda var þetta kvöldið hans. Og gott var það, kvöldið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli