Kverúlantablogg
Það er helst af mér að frétta að ég nenni ekki að blogga nema til þess eins að kverúlantast. Þegar ég hnýt um einhvern asnaskap hjá meðborgurum mínum grípur mig sterk löngun til að blogga yfirlætislega um hann, en þess á milli ríkir áhugaleysið. (Hugsanleg ástæða er hin hestkvalafulla hálsbólga sem ég þjáist af og hef fulla trú á að verði mitt banamein.) Meðal þeirra umkvörtunarefna sem vermt hafa blogglistann hjá mér eru:
-Hrífandi textasmíð lagsins Eitt með köppunum Í svörtum fötum. Sérstaklega línurnar Dagur kemur, dagur fer / nóttin bíður eftir mér, og við erum eitt / án þín er ég ekki neitt, að ógleymdum í gegnum kulda og byl / þú veitir sól og yl (eða eitthvað álíka.) Sannarlega gæsahúðar-materíal.
-Útvarpsauglýsingar þar sem athygli er vakin á því að "Hinir einu sönnu Skítamórall" haldi bráðum tónleika.
-Þessi árátta að auglýsa enska titla erlendra mynda, sem tengjast ensku annars ekki neitt, í stað íslensks eða hins upprunalega titils. Þetta er meira að segja gert við danskar myndir. Af hverju? Af hverju?
-Ímeilin frá Stúdentakjallaranum. Djöfull hata ég þau. Ég þekki þetta fólk ekkert, af hverju er það þá að þykjast vera vinir mínir? Af hverju reyna þau að poppa upp auglýsingarnar frá sér með óáhugaverðum 1.persónu frásögnum sem virðast eiga að vera fyndnar en eru það sannarlega ekki. Hver er þessi "ég" sem talar í þessum ímeilum? Getur hann ekki auglýst starfsemi sína án þessa rembings?
-Hvaða kjaftæði er það að Árni Þór og Kristján Ra hafi ekki gert sér grein fyrir að þeir eru glæpamenn? Er það einhver afsökun að þeir hafi bara verið 23 ára þegar þetta byrjaði og ekki vitað hvernig lánataka virkaði? (??) Héldu þeir þá að það væri bara alveg eðlilegt að taka blaðalaust og skuldbindingalaust lán upp á 300 milljónir hjá vini sínum í Landsímanum? Þýðir það þá ekki bara að þeir eru glæponar og hálfvitar?
Í ljósi ofangreindra atriða þykir mér ljóst að bloggfærslur næstu daga hefðu allar gengið út frá tesunni "Fólk er fífl og allir eru heimskir fávitar." Ég ákvað því að demba þessu bara saman í eina færslu til að draga úr neikvæðum langtímaáhrifum, og bíða með næstu færslu þar til hugarfarið hefur breyst til hins betra.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli